Ferill 240. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 351  —  240. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um leiðréttingu
verðtryggðra fasteignaveðlána, nr. 35/2014 (frádráttarliðir).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Ögmundsdóttur, Guðrúnu Þorleifsdóttur og Tryggva Þór Herbertsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ingvar J. Rögnvaldsson og Jarþrúði Hönnu Jóhannsdóttur frá ríkisskattstjóra, Þóreyju Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Gunnhildi Gunnarsdóttur frá Íbúðalánasjóði, Valdimar Gunnar Hjartarson og Jón Þór Sturluson frá Fjármálaeftirlitinu og Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Hagsmunasamtökum heimilanna, ríkisskattstjóra og Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 8. gr. laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þar sem kveðið er á um þá liði sem draga skal frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laganna. Tilgangur frumvarpsins er að skýra nánar efni 8. gr. og tryggja samræmi í verklagi við frádrátt frá leiðréttingarfjárhæðinni.
    Meginástæða þess að frumvarpið er lagt fram er að mögulega virðist hægt að halda því fram að úrræði sem einstaklingar hafa notið og eru sambærileg þeim úrræðum sem tilgreind eru í b- og c-lið 1. mgr. 8. gr. laganna falli ekki undir ákvæði greinarinnar og þau sé því ekki heimilt að draga frá leiðréttingarfjárhæð 7. gr. Ástæða þessa er að dæmi eru um að fjármálastofnanir hafi beitt úrræðum sem í eðli sínu falla undir ákvæði samkomulags um sértæka skuldaaðlögun, dags. 31. október 2009, og samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, dags. 15. janúar 2011, en geta lagalega talist falla utan þeirra. Að óbreyttu kann að verða umdeilanlegt hvort þeir sem notið hafa slíkra úrræða séu undanþegnir frádrætti skv. 8. gr. laganna og eigi því rétt á óskertri leiðréttingarfjárhæð þrátt fyrir að staða þeirra sé í raun sambærileg stöðu þeirra sem nutu úrræða sem ótvírætt eru skilgreind í 8. gr. laganna.
    Að mati meiri hlutans felur frumvarpið í sér eðlilega og skynsamlega tillögu um lagfæringu á löggjöf. Með því er stefnt að því að komið verði í veg fyrir að þeir sem eiga rétt á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána verði meðhöndlaðir á mismunandi hátt þrátt fyrir að hafa notið úrræða sem í raun eru sambærileg.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðmundur Steingrímsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. október 2014.



Frosti Sigurjónsson,


form., frsm.


Willum Þór Þórsson.


Líneik Anna Sævarsdóttir.



Pétur H. Blöndal.


Oddgeir Ágúst Ottesen.


Brynjar Níelsson.