Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 399  —  327. mál.




Fyrirspurn



til fjármála- og efnahagsráðherra um opnun sendibréfa.

Frá Birgittu Jónsdóttur.


     1.      Hversu oft á árunum 2005–2013 hafa íslensk stjórnvöld, eða einhver í þeirra umboði, opnað sendibréf til og frá Íslandi án þess að það hafi verið hluti af rannsókn tiltekins sakamáls? Í hversu mörgum af þeim tilfellum var beðið um dómsúrskurð fyrir opnun sendibréfsins? Svar óskast sundurliðað eftir embætti/stofnun sem opnaði sendibréfin, eftir því hvort þau voru á leið til eða frá erlendu ríki, hvert erlenda ríkið var, ástæðu opnunar og ári.
     2.      Hversu oft á árunum 2005–2013 hafa íslensk stjórnvöld, eða einhver í þeirra umboði, opnað sendibréf sem eru póstlögð innan lands og stíluð á innlent heimilisfang án þess að það hafi verið hluti af rannsókn tiltekins sakamáls?
     3.      Hversu oft á árunum 2005–2013 hafa sendibréf verið gerð upptæk án þess að það hafi verið hluti af rannsókn tiltekins máls? Í hversu mörgum tilfellum var beðið um úrskurð dómara? Svar óskast sundurliðað eftir embætti/stofnun er gerði bréfin upptæk, dómstól og ári.
     4.      Þegar sendingar eru opnaðar af hálfu íslenskra stjórnvalda, eða í þeirra umboði, er skráð hver sér opnun sendingar og hvaða niðurstöðu opnun leiðir í ljós?
     5.      Hvaða eftirlit er með beitingu þeirra lagaheimilda sem heimila opnun sendinga? Hefur Persónuvernd veitt umsögn um það verklag sem er viðhaft við opnun sendinganna sem um ræðir?
     6.      Hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til þess að tolleftirlitið, eða aðrir sem sjá um opnun bréfasendinga, megi opna sendibréf? Er þess gætt að skráður sendandi eða viðtakandi sendibréfs eigi möguleika á að vera viðstaddur opnun þess? Ef svo er, hvernig er það gert? Ef svo er ekki, af hverju er það ekki gert?
     7.      Hvaða aðilar hafa leyfi á grundvelli íslenskra réttarheimilda til þess að opna bréfasendingar sem fara um íslenska lögsögu og hverjar eru þær réttarheimildir sem þeir aðilar eru bundnir af?
     8.      Telur ráðherra að það verklag sem viðhaft er við opnun bréfasendinga uppfylli kröfur 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs?


Skriflegt svar óskast.

Greinargerð.

    Sams konar fyrirspurn var lögð fyrir dómsmálaráðherra fyrr á þessu þingi (118. mál). Í framhaldi af svari ráðherra við þeirri fyrirspurn er fyrirspurnin nú einnig lögð fyrir fjármála- og efnahagsráðherra.