Ferill 212. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 423  —  212. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur
um krabbameinsáætlun.


     1.      Hvenær hyggst ráðherra kynna krabbameinsáætlun sem nú er unnið að í ráðuneytinu?
    Þetta umfangsmikla verkefni er nú óðum að taka á sig mynd og er stefnt að því að leggja fram krabbameinsáætlun undir lok þessa árs eða í byrjun þess næsta.

     2.      Hver verða helstu efnisatriði áætlunarinnar? Mun skimun fyrir krabbameini í ristli verða hluti af þeirri áætlun í samræmi við þingsályktun Alþingis nr. 26/133?
    Vinnu við gerð krabbameinsáætlunar hefur verið skipt upp í fimm afmarkaða verkþætti sem unnið hefur verið að í jafnmörgum vinnuhópum. Þetta eru vinnuhópar um faraldsfræði og skráningu, forvarnir og heilsugæslu, rannsóknir og gæðaþróun, meðferðarþætti og mannafla og loks hópur um eftirmeðferð og líknandi meðferð. Þvert á þessa hópa starfa tveir rýnihópar sem í eiga sæti fulltrúar fullorðinna sem greinst hafa með krabbamein og fulltrúar barna sem greinst hafa með krabbamein og aðstandenda þeirra. Mikil áhersla hefur verið lögð á að krabbameinsáætlunin verði heildstæð. Fjöldi manns hefur komið að gerð krabbameinsáætlunarinnar, bæði beint og sem ráðgefandi, og eins hefur verið haft víðtækt samráð við einstaklinga eða fulltrúa hópa sem greinst hafa með krabbamein. Áætlunin verður sett fram sem aðgerðaáætlun með skilgreindum markmiðum.
    Það liggur fyrir að í krabbameinsáætluninni verður ályktað sérstaklega um skimanir vegna ristils- og endaþarmskrabbameina og krabbameins í blöðruhálskirtli. Byggt verður á sannreyndum upplýsingum þar sem ávinningur skimana og snemmgreininga verður metinn í báðum þessum ört vaxandi sjúkdómaflokkum. Enn fremur verða lagðar til aðgerðir til að auka þátttöku í þeim skimunum sem þegar eru fyrir hendi þar sem sjónum verður beint sérstaklega að þekktum áhættuhópum í samfélaginu. Með þessu móti má bæta enn frekar árangur skimana og stuðla að lægri dánartíðni og minni sjúkdómabyrði en ella.