Ferill 350. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 445  —  350. mál.




Fyrirspurn



til innanríkisráðherra um vopnaöflun og vopnaeign Landhelgisgæslunnar.

Frá Katrínu Jakobsdóttur.


     1.      Hversu mörg skotvopn eru í eigu Landhelgisgæslunnar, hverrar gerðar eru þessi vopn, hverrar stærðar og hver er aldur þeirra?
     2.      Hvar eru skotvopn Landhelgisgæslunnar varðveitt að jafnaði?
     3.      Hversu margir starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa hlotið þjálfun í vopnaburði, hvaða aðili hefur veitt þjálfunina og vottað hana, hversu langan tíma tekur þjálfunin og við hvaða gerðir vopna hefur þjálfunin miðast? Hversu oft fer endurþjálfun fram?
     4.      Hve margir aðilar innan Landhelgisgæslunnar hafa heimild til að taka ákvörðun um vopnaburð starfsmanna stofnunarinnar og fyrirskipa hann?
     5.      Hvaða vopna hefur Landhelgisgæslan aflað sér á undanförnum áratug? Óskað er upplýsinga um gerð, fjölda og upprunaland vopnanna.
     6.      Hversu mörg þeirra vopna sem Landhelgisgæslunni hafa áskotnast á undanförnum áratug hafa annars vegar verið keypt, af hverjum og hvert var verð þeirra, og hins vegar þegin að gjöf, frá hverjum og hvert var verðmæti þeirra?
     7.      Hvaða aðili tekur ákvörðun um kaup á vopnabúnaði fyrir Landhelgisgæsluna eða annars konar vopnaöflun og á hvaða forsendum eru slíkar ákvarðanir teknar?
     8.      Hefur Landhelgisgæslan yfir að ráða öðrum vopnum en skotvopnum? Ef svo er, hvaða vopn eru það og í hvaða tilgangi hefur þeirra verið aflað?
     9.      Með hvaða hætti fargar Landhelgisgæslan úreltum og/eða ónýtum vopnum? Er í gildi verklagsáætlun um þetta eða önnur fyrirmæli og er haldin skrá um förguð skotvopn þannig að afdrif þeirra séu ljós?


Skriflegt svar óskast.