Ferill 176. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 455  —  176. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Gunnarsdóttur
um sérhæfðan íþróttabúnað fyrir fatlaða íþróttamenn.


     1.      Hversu margir einstaklingar hafa fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af sérhæfðum íþróttabúnaði fyrir fatlaða íþróttamenn sl. 10 ár? Svarið óskast sundurliðað eftir árum.
    Heimild til að endurgreiða virðisaukaskatt af sérhæfðum íþróttabúnaði fyrir fatlaða er ekki að finna í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, heldur í 6. gr. fjárlaga fyrir einstök ár. Heimildin var í gildi á fjárlögum árin 2009, 2010, 2011, 2012 og 2014, nánar tiltekið í 6. gr. fjárlaga, lið 7.13 árið 2009, lið 7.7 árið 2010, lið 7.5 árin 2011 og 2012 og lið 7.8 árið 2014. Í fjárlagafrumvarpi 2015 er að finna sambærilegt ákvæði í 6. gr., lið 7.5.
    Samkvæmt upplýsingum úr málaskrá ráðuneytisins hafa einungis þrjár endurgreiðslur á virðisaukaskatti átt sér stað á grundvelli framangreindra ákvæða á fjárlögum áranna 2009, 2010, 2011, 2012 og 2014. Ein endurgreiðsla árið 2011 og tvær á árinu 2012.

     2.      Hverjir eru tollflokkarnir sem um ræðir á hverju ári?
    Ekki eru til í tollskrá sérstök tollskrárnúmer yfir vörur fyrir fatlaða. Þær vörur sem um ræðir í svari við 1. tölul. voru tollflokkaðar sem hér segir:
     1.      Sérhannaðir skíðastafir, 9506-1900.
     2.      Sérhannaður seglbátur fyrir fatlaða, 8903-9100.
     3.      Sérhannað handstigið hjól fyrir fatlaða, 8712-0000.