Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 492  —  173. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn
frá Svandísi Svavarsdóttur um landvörslu.


     1.      Hvaða greining liggur að baki fjölda landvarða á friðlýstum svæðum og í þjóðgörðum?
    Á friðlýstum svæðum og í þjóðgörðum starfa landverðir bæði í hlutastörfum og eins sem fastráðnir starfsmenn. Landverðir starfa hjá Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarði sem eru þær stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytis sem fara með umsjón þjóðgarða og friðlýstra svæða.
    Ráðuneytið bendir á að landvarsla í þjóðgarðinum á Þingvöllum heyrir ekki undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
    Við ákvörðun um landvörslu hjá Umhverfisstofnun er forgangsröðunin þessi: 1. Þjóðgarðar. 2. Rauðlistasvæði, ef við á. 3. Svæði tengd ástandi þess og gestafjölda. Hjá Vatnajökulsþjóðgarði er landvarsla metin út frá ástandi og gestafjölda. Þetta er hins vegar háð þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni.
    Fjöldi landvarða sem vinna í hlutastörfum, yfirleitt yfir sumarmánuðina, er mældur í fjölda vikna sem þeir inna af hendi, svokallaðra landvarðavikna. Þessu til viðbótar starfa fastráðnir starfsmenn í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum við landvörslu, a.m.k. að hluta. Hjá Umhverfisstofnun eru þeir nú sjö talsins en hjá Vatnajökulsþjóðgarði tíu. Til viðbótar þessu koma aðrir starfsmenn og sjálfboðaliðar að landvörslu.
    Þess ber einnig að geta að Umhverfisstofnun hefur átt samstarf við aðila sem ráðið hafa starfsmenn til landvörslu, þ.e. Mýrdalshrepp vegna Dyrhólaeyjar, Náttúrustofu Norðurlands vestra fyrir Miklavatn, stjórn Reykjanesfólkvangs með landvörð fyrir fólkvanginn og sveitarfélagið Djúpavogshrepp fyrir fólkvanginn Teigarhorn.

     2.      Hversu margar voru landvarðavikur á árunum 2009–2014?
    Eins og kemur fram í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar eru landvarðavikur einungis mælieining fyrir hluta þeirrar landvörslu sem Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður sinna og ná aðeins yfir fjölda landvarða sem vinna í hlutastörfum. Umfang landvörslu þarf að skoðast út frá fastráðnum starfsmönnum sem sinna landvörslu að hluta, landvarðavikum og út frá öðrum starfsmönnum sem hafa verið ráðnir sérstaklega til landvörslu. Í töflu hér á eftir má sjá fjölda landvarðavikna hjá Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarði yfir sumarmánuðina á tímabilinu 2009–2014.

Fjöldi landvarðavikna yfir sumarmánuðina 2009–2014.

2009 2010 2011 2012 2013 2014
Vatnajökulsþjóðgarður 355 403 432 469 535 505
Friðlýst svæði í umsjón Umhverfisstofnunar 140 146 172 219 232 203
Samtals 495 549 604 688 767 708
    
     3.      Hefur landvarsla haldist í hendur við aukinn fjölda ferðamanna undanfarin ár?
    Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu hefur fjöldi erlendra ferðamanna sem hingað koma um Leifsstöð aukist frá árinu 2009 úr tæpum 500.000 á ári í tæp 800.000 árið 2013. Þetta er rúmlega 60% aukning. Tölur fyrir 2014 liggja enn ekki fyrir. Á þessu sama tímabili vörðu Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður 76,7 millj. kr. til landvörslu árið 2009 og um 132,7 millj. kr. árið 2013. Þetta er einnig um 60% aukning. Aukning á umfangi landvörslu hjá stofnunum, mælt í fjármagni sem þær verja til hennar, sbr. 4. tölul. fyrirspurnarinnar, hefur því verið áþekk aukningu erlendra ferðamanna. Rétt er einnig að taka fram að þessar tölur Ferðamálastofu taka ekki til komu ferðamanna með skemmtiferðaskipum.

     4.      Hversu mikið fjármagn hefur verið lagt í landvörslu hvert ár 2009–2014, skipt eftir friðlýstum svæðum og þjóðgörðum?

    Í samræmi við upplýsingar frá Umhverfisstofnun og Vatnjökulsþjóðgarði eru rauntölur vegna kostnaðar við landvörslu eftirfarandi í millj. kr.:

Útgjöld til landvörslu, 2009–2014, í millj. kr.

2009 2010 2011 2012 2013 2014
Vatnajökulsþjóðgarður 55,3 64,5 71,2 78,1 91,3 93,4
Umhverfisstofnun:
Friðlýst svæði 13,8 14,1 12,1 17,5 31,9 32,3
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull 7,6 7,7 13,7 18,3 9,5 10,1
Samtals hjá Umhverfisstofnun 21,4 21,8 25,8 35,8 41,4 42,4
Samtals 76,7 86,3 97 113,9 132,7 135,8
    Rétt er að taka fram að þegar þetta svar er tekið saman eru enn um tveir mánuðir eftir af árinu 2014 og því mögulegt að útgjöld til landvörslu eigi eftir að hækka.