Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 505  —  376. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi,
nr. 16/2000, með síðari breytingum (ný kynslóð kerfisins).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      I-liður 1. mgr. orðast svo: tilvísun til ákvörðunarinnar sem varð tilefni skráningar.
     b.      Við 1. mgr. bætast fjórir nýir stafliðir, svohljóðandi:
        j.        ljósmyndir,
        k.     fingraför,
        l.     yfirvald sem biður um skráninguna,
        m.     tenging við aðrar skráningar í upplýsingakerfinu í samræmi við 9. gr. a.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Í upplýsingakerfið má skrá viðbótargögn. Viðbótargögn eru vistuð í upplýsingakerfinu og tengjast skráningum í því. Gögnin skulu vera aðgengileg lögbærum yfirvöldum fyrirvaralaust þegar einstaklingur, sem gögn hafa verið skráð um í upplýsingakerfið, finnst í kjölfar leitar í kerfinu.

2. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, svohljóðandi:
    Schengen-ríki getur tengt saman skráningar sem það færir inn í upplýsingakerfið. Með slíkri tengingu er komið á venslum milli tveggja eða fleiri skráninga.
    Myndun tengingar hefur ekki áhrif á þá tilteknu aðgerð sem mælt er fyrir um að gripið skuli til á grundvelli hverrar og einnar hinna tengdu skráninga eða varðveislutímabil hverrar tengdrar skráningar.
    Myndun tengingar hefur ekki áhrif á réttinn til aðgangs samkvæmt lögum þessum. Yfirvöld, sem ekki hafa rétt til aðgangs að tilteknum flokkum skráninga, skulu ekki geta séð tengingu við skráningu sem þau hafa ekki aðgang að.
    Schengen-ríki skal aðeins tengja saman skráningar þegar þess er augljóslega þörf vegna starfseminnar.

3. gr.

    Við 9. gr. a laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimilt er að tengja viðbótarupplýsingar við skráningar í upplýsingakerfið. Viðbótarupplýsingar eru ekki vistaðar í upplýsingakerfinu en tengjast skráningum í því og skipst verður á slíkum upplýsingum:
     a.      í því skyni að gera Schengen-ríkjum kleift að hafa samráð sín á milli eða upplýsa hvert annað þegar skráning er færð inn,
     b.      þegar skráning hefur borið árangur svo að unnt sé að grípa til viðeigandi aðgerðar,
     c.      þegar ekki er unnt að grípa til þeirrar aðgerðar sem mælt er fyrir um,
     d.      þegar um er að ræða gæði gagna í upplýsingakerfinu,
     e.      þegar um er að ræða samrýmanleika og forgang skráninga,
     f.      þegar um er að ræða rétt til aðgangs.

4. gr.

    Í stað orðanna „lögum um eftirlit með útlendingum“ í b-lið 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: lögum um útlendinga.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Telji Persónuvernd meðferð persónuupplýsinga í andstöðu við ákvæði laga þessara getur stofnunin farið fram á að skráningu upplýsinga verði hætt eða sæti skilyrðum. Ríkislögreglustjóra ber að bregðast við athugasemdum og fyrirmælum Persónuverndar um úrbætur þegar í stað og eigi síðar en innan þriggja mánaða.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ákvarðanir ríkislögreglustjóra sem teknar eru á grundvelli 13.–15. gr. má bera undir úrskurð Persónuverndar.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með frumvarpi þessu, sem er samið í innanríkisráðuneytinu, er lagt til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi til að innleiða þrjár gerðir Evrópusambandsins: reglugerð (EB) nr. 1987/2006 og reglugerð (EB) nr. 1986/2006, báðar frá 20. desember 2006 og birtar í Stjórnartíðindum EB 28. desember 2006, og ákvörðun ráðsins 2007/533/DIM, frá 12. júní 2007, birt í Stjórnartíðindum EB 7. ágúst 2007. Tvær gerðanna, ákvörðun ráðsins 2007/533/DIM og reglugerð (EB) nr. 1987/2006 koma í stað 64. gr. Schengen-samningsins og ákvæða IV. bálks samningsins (92.–119. gr.). Sú þriðja, reglugerð (EB) nr. 1986/2006, kveður á um aðgang stofnana í aðildarríkjum, sem bera ábyrgð á útgáfu skráningaskírteina vélknúinna ökutækja, að annarri kynslóð Schengen-upplýsingakerfisins (SIS II). Ísland er skuldbundið til að innleiða umræddar gerðir vegna þátttöku í Schengen-samstarfinu.
    Breytingarnar á Schengen-samningnum sem framangreindar gerðir hafa í för með sér eru tilkomnar vegna gangsetningar á nýrri kynslóð Schengen-upplýsingakerfisins, nánar tiltekið SIS II. Breytingarnar með nýja kerfinu felast einkum í að fjölgað er tegundum upplýsinga sem hægt er að skrá inn í Schengen-upplýsingakerfið. Helsta nýjungin hvað það varðar er skráning fingrafara og mynda af einstaklingum í kerfið auk skráningar viðbótargagna, þar á meðal evrópskrar handtökuskipunar í þeim tilvikum þegar slík handtökuskipun hefur verið gefin út af þar til bæru yfirvaldi Schengen-ríkis. Þá verði innleidd nýjung sem felur í sér heimild til að tengja skráningar í kerfinu og með því komið á venslum milli tveggja eða fleiri skráninga í kerfið.
    Með samningi Íslands, Noregs og ráðs Evrópusambandsins, sem undirritaður var í Brussel 18. maí 1999, gerðust Íslendingar aðilar að Schengen-samstarfinu sem miðar að því að fella niður landamæraeftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins. Schengen-upplýsingakerfið er hluti af Schengen-samningnum og er nauðsynlegt tæki til að tryggja almannaöryggi og allsherjarreglu þegar eftirlit er ekki lengur á innri landamærum. Upplýsingakerfið greinist annars vegar í staðbundinn hluta kerfisins sem starfræktur er í hverju þátttökuríkjanna og hins vegar miðlægan hluta þess.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á gildandi lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi í því skyni að laga lögin að umræddum gerðum að því leyti sem þær varða staðbundna hluta kerfisins.
    Með frumvarpi þessu eru í 5. gr. lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um Schengen- upplýsingakerfið til að mæta athugasemdum sem Ísland hefur fengið við úttektir föstu eftirlitsnefndarinnar af vettvangi Schengen-samstarfsins. Um er að ræða athugasemdir sem lúta að innleiðingu ákvæða Schengen-samstarfsins í íslenska löggjöf.
    Við samningu frumvarpsins var haft samráð við ríkislögreglustjóra, en lögreglan á Íslandi er notandi Schengen-upplýsingakerfisins og embætti ríkislögreglustjóra ábyrgt fyrir skráningu upplýsinga í kerfið. Þá aflaði ráðuneytið umsagnar Persónuverndar og leitaðist við að taka fullt tillit til athugasemda stofnunarinnar við gerð frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Á 1. mgr. 5. gr. laganna, sem fjallar um upplýsingar sem skrá má um einstaklinga, eru lagðar til þær breytingar að við ákvæðið bætist fjórir nýir stafliðir, þar á meðal stafliðir um skráningu lífkenna, nánar tiltekið ljósmynda og fingrafara. Eru þessar breytingar í samræmi við áskilnað 2. mgr. 20. gr. reglugerðar (EB) nr. 1987/2006 og 2. mgr. 20. gr. ákvörðunar 2007/533.
    Í i-lið er lögð til sú breyting að heimilt verði að skrá tilvísun í ákvörðunina sem er tilefni skráningar í upplýsingakerfið. Í nýjum l-lið er kveðið á um heimild til að skrá í Schengen- upplýsingakerfið hvaða yfirvald biður um skráningu. Í m-lið er ný heimild til að tengja upplýsingar við aðrar skráningar í upplýsingakerfinu til samræmis við heimild í ákvæði 9. gr. a.
    Í c-lið greinarinnar, nýrri 3. mgr., er nýmæli sem kveður á um skráningu viðbótargagna. Með breytingunni er gert ráð fyrir að skrá megi viðbótargögn í Schengen-upplýsingakerfið II. Viðbótargögn eru gögn sem vistuð eru í Schengen-upplýsingakerfinu II og tengjast skráningum í því. Til viðbótargagna telst til dæmis evrópsk handtökuskipun, þegar slík handtökuskipun liggur fyrir. Viðbótargögnin eiga að vera aðgengileg lögbærum yfirvöldum fyrirvaralaust þegar einstaklingur, sem gögn hafa verið skráð um í Schengen-upplýsingakerfið, finnst í kjölfar leitar í kerfinu.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. er nýmæli sem kveður á um heimild til tengingar á milli tveggja eða fleiri skráninga. Í eldra Schengen-upplýsingakerfinu var þetta ómögulegt en mikill akkur þykir í því að slíkar tengingar séu nú mögulegar. Þannig má til dæmis tengja saman skráningu um eftirlýstan einstakling og stolna bifreið, ef fyrir liggur að umræddur einstaklingur stal bifreiðinni.

Um 3. gr.


    Við 9. gr. a bætist ný málsgrein sem kveður á um viðbótarupplýsingar. Ólíkt viðbótargögnum eru viðbótarupplýsingar ekki skráðar í Schengen-upplýsingakerfinu II. Með ákveðnum tegundum skráninga er hægt að skrá viðbótarupplýsingar, en með slíkum upplýsingum er átt við upplýsingar sem ekki eru vistaðar í Schengen-upplýsingakerfinu II sjálfu en tengjast skráningum í því og skipst verður á af lögbærum yfirvöldum í ákveðnum tilvikum sem talin eru upp í a–f-liðum nýju málsgreinarinnar. Dæmi um viðbótarupplýsingar eru upplýsingar um hvaða yfirvald gaf út beiðni um handtöku og hvort handtökuskipun eða fullnustuhæfur dómur liggur fyrir. Skipti á viðbótarupplýsingum skulu fara fram í samræmi við ákvæði SIRENE-handbókarinnar.

Um 4. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 5. gr.


    Við 3. mgr. 18. gr. bætist ákvæði er varðar skyldu ríkislögreglustjóra til að bregðast við athugasemdum og fyrirmælum Persónuverndar þegar í stað og eigi síðar en innan þriggja mánaða. Ákvæðið er tilkomið annars vegar af því að reynslan hefur sýnt að skortur er á heimild fyrir Persónuvernd til að geta knúið fram nauðsynlegar úrbætur vegna þess sem betur má fara við starfrækslu Schengen-upplýsingakerfisins, hins vegar hefur þótt skorta á valdheimildir Persónuverndar til að taka bindandi ákvarðanir. Eru breytingarnar til þess gerðar að bæta eftirlit Persónuverndar með starfrækslu kerfisins og þannig starfræksluna sjálfa. Sambærilegar heimildir má meðal annars finna í norskri löggjöf, nánar tiltekið 1. mgr. 23. gr. norskra laga um Schengen-upplýsingakerfið.
    Við 18. gr. bætist ný málsgrein sem kveður á um að ákvarðanir ríkislögreglustjóra, sem teknar eru í samræmi við 13.–15. gr. laganna, megi bera undir úrskurð Persónuverndar. Með þessari breytingu er Persónuvernd veitt það vald sem nauðsynlegt er til að stofnunin geti tekið bindandi ákvarðanir í þessum málum. Hingað til hafa ákvarðanir ríkislögreglustjóra sætt kæru til innanríkisráðuneytisins, samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Hefur það fyrirkomulag sætt gagnrýni á vettvangi Schengen-samstarfsins enda ekki þótt fullnægjandi innleiðing af Íslands hálfu á reglum samstarfsins.

Um 6. gr.


    Miðað er við að lögin taki þegar gildi.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga breytingu á lögum um Schengen-upplýsingakerfið
á Íslandi, nr. 16/2000, með síðari breytingum (ný kynslóð kerfisins).

    Markmið frumvarpsins er að innleiða þrjár Schengen-gerðir sem nauðsynlegt er talið að innleiða svo að Ísland uppfylli þær alþjóðlegu skuldbindingar sem það undirgekkst með þátttöku í Schengen-samstarfinu. Breytingarnar sem framangreindar gerðir hafa í för með sér eru tilkomnar vegna gangsetningar á nýrri kynslóð Schengen-upplýsingakerfisins, nánar tiltekið SIS II, en með breytingunum verður íslenskum löggæsluyfirvöldum heimil full notkun annarrar kynslóðar Schengen-upplýsingakerfisins. Í því felst m.a. að fjölgað er tegundum upplýsinga sem hægt er að skrá inn í Schengen-upplýsingakerfið. Helsta nýjungin hvað það snertir er skráning fingrafara og mynda af einstaklingum í kerfið auk skráningar evrópskrar handtökuskipunar í þeim tilvikum sem slík handtökuskipun hefur verið gefin út af þar til bæru yfirvaldi Schengen-ríkis. Þá verði innleidd nýjung sem felur í sér heimild til að tengja skráningar í kerfinu og með því komið á venslum milli tveggja eða fleiri skráninga í kerfið. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu var SIS II kerfið tekið í notkun á Íslandi í apríl 2013 en hins vegar hefur ekki til þessa verið hægt að nýta að fullu eiginleika kerfisins þar sem skort hefur lagaheimild og er frumvarpi þessu ætlað að bæta þar úr. Í fjárlögum 2006 var veitt 40 m.kr. tímabundið framlag í tvö ár á fjárlagalið 06-397, Schengen samstarf, vegna breytinga á Schengen-kerfum á Íslandi sem tengdust þróun SIS II kerfisins.
    Með frumvarpinu eru einnig lagðar til tvær breytingar varðandi eftirlitshlutverk Persónuverndar vegna skráningar í Schengen-upplýsingakerfið. Markmið breytinganna er að treysta eftirlitshlutverk Persónuverndar gagnvart ríkislögreglustjóra auk þess sem ákvarðanir ríkislögreglustjóra má nú bera undir úrskurð Persónuverndar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld frá því sem nú þegar hefur verið gert ráð fyrir í fjárlögum.