Ferill 384. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 513  —  384. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um eflingu atvinnu og samfélags á Suðurnesjum.


Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Páll Valur Björnsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Helgi Hrafn Gunnarsson, Guðbjartur Hannesson, Róbert Marshall,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Steingrímur J. Sigfússon,
Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp fimm sérfræðinga úr forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti til að vinna tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig efla megi atvinnulíf og samfélag á Suðurnesjum. Starfshópurinn hafi samráð við sveitarstjórnarmenn og skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. apríl 2015. Forsætisráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.

Greinargerð.

    Hér er lagt til að unnin verði áætlun sem miðar að því að efla atvinnulíf og samfélag á Suðurnesjum. Það er mat flutningsmanna að nauðsynlegt sé að leggja fram tímasetta aðgerðaáætlun af þessu tagi fyrir svæðið þar sem útlistuð verði skipulega framtíðaráform um uppbyggingu, svo sem fjárfestingar í mannauði og nauðsynlegum innviðum efnahagslífsins, og hvernig best megi styrkja þætti eins og hag barna, menntun, menningu, nýsköpun, atvinnulíf og samfélagslega innviði til að stuðla að betra samfélagi fyrir íbúa svæðisins. Taka þarf einnig tillit til aldursskiptingar íbúa, þarfar fyrir aukna þjónustu við aldraða og heilbrigðisþjónustu á svæðinu.
    Það er löngu tímabært að tekið sé á málefnum Suðurnesjabúa með skipulögðum hætti og gerð sé aðgerðaáætlun til að styrkja samfélagið þar sem íbúar eru um 22.000 og hafa undanfarinn áratug orðið fyrir miklum áföllum sem reynst hefur erfitt að yfirvinna. Brotthvarf varnarliðsins frá Keflavíkurflugvelli árið 2006 eftir 55 ára veru olli straumhvörfum í atvinnulífi á Suðurnesjum þegar um 600 störf voru lögð niður. Suðurnesin urðu illa úti í efnahagshruninu en atvinnuleysi jókst gríðarlega í aðdraganda hrunsins og kjölfar þess og segja má að þar hafi annað áfall dunið yfir svæðið. Einnig fjölgaði íbúum mikið eða um tæp 34% árin 2000–2009 og sú mikla fjölgun hefur haft mikið að segja um afleiðingar hrunsins fyrir svæðið. Fjölgun varð í öllum bæjarfélögunum fimm á Suðurnesjum en mest í Reykjanesbæ. Mikið var um nýbyggingar og í íbúðir á Ásbrú, fyrrum varnarsvæði, fluttu m.a. námsmenn með litlar tekjur. Íbúarnir gefa samfélaginu á Ásbrú sannarlega aukið gildi en kalla jafnframt á þjónustu af hálfu sveitarfélagsins í öfugu hlutfalli við útsvarsgreiðslur.
    Nauðungarsölum fer enn fjölgandi og eignir Íbúðalánasjóðs eru fleiri á Suðurnesjum en í öðrum landshlutum. Umboðsmaður skuldara opnaði útibú í Reykjanesbæ í desember 2010 til þess að mæta auknu álagi á svæðinu. Þrátt fyrir að mikið hafi dregið úr atvinnuleysi er atvinnuleysi enn mest á Suðurnesjum. Menntunarstigið á Suðurnesjum er einnig hlutfallslega lægra en á öðrum svæðum landsins. Fram kemur í áfangaskýrslu Suðurnesjavaktarinnar frá 2013 að dregið hafi úr atvinnuleysi á svæðinu frá því að fyrsta áfangaskýrslan kom út, en í mars 2011 mældist atvinnuleysi 14,5% á meðan það var 8,6% á landinu öllu. Í september 2014 var hlutfall atvinnuleysis á svæðinu komið niður í 5,4% en á landinu öllu var hlutfallið 3,8%. Enn er því atvinnuleysi á svæðinu með því mesta á landinu. Lækkun atvinnuleysisprósentunnar má að einhverju leyti rekja til þess að bótatímabil var fært aftur niður í þrjú ár um áramótin 2012/2013. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna hefur aukist verulega undanfarin ár og margir íbúar glíma við slæmar afleiðingar langtímaatvinnuleysis. Með áformum um enn frekari styttingu bótatímabilsins samhliða niðurskurði til starfsendurhæfingar mun vandi sveitarfélaganna enn aukast hvað þetta varðar.
    Mikilvægt er að gripið sé til allra mögulegra ráðstafana til að takmarka atvinnuleysi og auka virkni fólks í erfiðri stöðu. Í því samhengi má líta á þær alvarlegu afleiðingar sem langtímaatvinnuleysi hefur á samfélög í heild.
    Athuganir sýna að mörg börn á Suðurnesjum búa við fátækt og hlutfallslega fleiri en á landinu í heild. Raunhæft er að gera ráð fyrir að bág fjárhagsstaða sumra sveitarfélaga á svæðinu, þar á meðal stærsta sveitarfélagsins þar sem íbúar eru um 14.500, bitni á þjónustu við börn. Harðast kemur slíkt niður á þeim heimilum þar sem ráðstöfunartekjur eru lágar.
    Suðurnesin hafa einnig skorið sig úr í samanburði við önnur landsvæði hvað varðar fjölda öryrkja. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins fengu 7,5% einstaklinga á aldrinum 16–66 ára örorkulífeyri árið 2012. Á Suðurnesjum hefur hlutfall í þessum hópi hækkað um 1,2% síðastliðin tvö ár en það stendur núna í 10%. Rannsóknir hafa sýnt að mikil hætta er á að langtímaatvinnuleysi skapi örorku og búast má við að slíkt samspil eigi við á Suðurnesjum.
    Hlutfall heimila í vanskilum á landinu er hæst á Suðurnesjum en 17% íbúa á Suðurnesjum yfir 18 ára aldri eiga í alvarlegum vanskilum. Eignum á Suðurnesjum í eigu Íbúðalánasjóðs hefur fjölgað síðustu ár og auk þess verið mun fleiri en í öðrum landshlutum. Um 40% af íbúðum í eigu Íbúðalánasjóðs eru á Suðurnesjum. Allur þorri þeirra eigna stendur auður. Fram kemur í skýrslu sýslumannsins í Keflavík um nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði á Suðurnesjum 2001–2011 að á tímabilinu voru 840 íbúðir á Suðurnesjum seldar nauðungarsölu, þar af voru 595 (71%) í eigu einstaklinga en 245 (29%) í eigu lögaðila. Mikil aukning varð í nauðungarsölu árið 2008 og árið 2012 hafði hún ekki dregist saman í heild. Alls er 101 nauðungarsölumál vegna íbúða einstaklinga í frestun vegna greiðsluaðlögunar hjá umboðsmanni skuldara. Ef frestunin kæmi ekki til væri stórum hluta þessara mála lokið, sennilega mörgum með nauðungarsölu íbúðar, sem dreifst hefði að mestum hluta á árin 2010 og 2011. Á árinu 2012 fór 61 nauðungarsölumál úr stöðu greiðsluaðlögunar og í áframhaldandi söluferli. Hlutfall nauðungarsölumála sem lauk með sölu eignar fór á fyrri hluta tímabilsins hæst í 10,5% á ári en stighækkaði árin 2008–2011 úr 5,8% árið 2007 í tæp 43% 2011. Í nauðungarsölum á tímabilinu öllu komu flestar uppboðsbeiðnir frá Íbúðalánasjóði, rúmlega 36%, en næstflestar eða 18% komu frá viðskiptabönkum og sparisjóðum. Íbúðalánasjóður var jafnframt oftast fyrsti uppboðsbeiðandi í uppboðsmálum og í öðru sæti voru sveitarfélög, yfirleitt vegna vangoldinna fasteignagjalda. Íbúðalánasjóður var oftast hæstbjóðandi í íbúðir á nauðungarsölum tímabilsins alls, þar er um að ræða 60% íbúða á tímabilinu. Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði sýna nýjar tölur að eignir sjóðsins á Suðurnesjum hafa aldrei verið fleiri.
    Loks má nefna að á tímabilinu 2009–2013 hafa 329 fyrirtæki á Suðurnesjum orðið gjaldþrota.
    Hér hefur verið dregið saman ástandið á svæðinu undanfarin ár. Ljóst er að samfélögin á Suðurnesjum hafa ekki að fullu náð sér af þeim áföllum sem gengið hafa yfir svæðið undanfarinn áratug eða svo, þ.e. brotthvarf varnarliðsins árið 2006 og efnahagshrunið árið 2008. Þessir atburðir höfðu gríðarleg áhrif á stöðu svæðisins. Vandinn hefur magnast vegna þess að íbúum svæðisins fjölgaði mjög mikið á árunum fyrir efnahagshrun og einstakar ákvarðanir í fjármálastjórn hafa orðið til þess að svæðið stendur mun veikara en ella. Aðkallandi er að bregðast við ástandinu nú þegar enn bætist við vandamál íbúa svæðisins þar sem stærsta bæjarfélagið á við stórkostlega fjárhagserfiðleika að stríða. Vandi þess sveitarfélags veikir óhjákvæmilega svæðið í heild. Það er því mat flutningsmanna að nauðsynlegt sé að fela ríkisstjórninni að láta vinna aðgerðaáætlun í samráði við sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum sem miði að því að efla atvinnu og samfélag á svæðinu.