Ferill 302. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 522  —  302. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn
frá Birni Val Gíslasyni um fjölda opinberra starfa.


     1.      Hafa fjárlög fyrir árið 2014 haft áhrif á fjölda starfa sem undir ráðherra heyra í ráðuneytinu eða stofnunum þess? Ef svo er, hverjar eru breytingarnar og um hve mörg störf er að ræða?

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Á aðalskrifstofu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hefur fækkað um átta stöðugildi á árinu 2014 vegna aðhaldsaðgerða. Fjórum starfsmönnum var sagt upp í lok janúar, stöður þriggja skrifstofustjóra lagðar niður en ráðið í eitt stöðugildi sérfræðings í þeirra stað. Í framhaldinu voru gerðar skipulagsbreytingar í ráðuneytinu og stöður þriggja skrifstofustjóra lagðar niður og breytt í stöðu sérfræðinga. Þá hefur ekki verið ráðið í stöður þeirra starfsmanna sem hættu á árinu 2014. Alls er um að ræða fjórar stöður sem karlar sinntu og fjórar stöður sem konur sinntu.

Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna.
    Í lok ársins 2014 voru fjögur stöðugildi færð frá Skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna til annarra stofnana sem heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Matvælastofnun.
    Matvælastofnun tók við verkefnum dýraeftirlitsmanna af sveitarfélögunum 1. janúar 2014 og voru þá ráðnir 6 nýir starfsmenn (í stað 12 stöðugilda áður) til að sinna því verkefni. Um var að ræða þrjá karla og þrjár konur. Þessir starfsmenn starfa á starfsstöðvum Matvælastofnunar á Egilsstöðum, Akureyri, Sauðárkróki, Hvanneyri, Selfossi og í Reykjavík.

Fiskistofa.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda stöðugilda á Fiskistofu.

Hafrannsóknastofnun.
    Ársverk á Hafrannsóknastofnun voru árið 2013 alls 149. Rekstraráætlun 2014 gerir ráð fyrir að ársverkum fækki í 135 og mun það ganga eftir að mestu leyti. Fækkun starfsmanna hefur verið á flestum sviðum en þó einkum á áhöfnum rannsóknaskipanna. Fækkun ársverka er liður í sparnaðaraðgerðum Hafrannsóknastofnunar vegna lægri fjárveitinga síðustu árin og minni sértekna. Lækkun fjárveitinga í fjárlögum fyrir árið 2014 frá fjárlögum fyrir árið 2013 upp á rúmar 20 millj. kr. má meta að hafi áhrif til fækkunar um 2–3 ársverk.
    Fækkun ársverka á sér stað í Reykjavík fyrir utan eitt sem á sér stað á Akureyri. Öllum ársverkunum nema einu var sinnt af körlum. Fækkun ársverka hefur átt sér stað með því að ráða ekki í störf sem hafa losnað og með beinum uppsögnum.

Veiðimálastofnun.
    Á árinu 2014 minnkuðu sértekjur stofnunarinnar auk þess sem vinna við innleiðingu á lögum um stjórn vatnamála var frestað. Það leiddi til þess að fækka varð starfsfólki. Þeim sem sagt var upp störfum í ársbyrjun 2014 var einn karl í fullu starfi á Sauðárkróki, tvær konur í fullu starfi í Reykjavík og ein kona í hlutastarfi í Reykjavík.

Byggðastofnun.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á starfsmannafjölda Byggðastofnunar.

     2.      Hvaða áhrif er áætlað að frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015, verði það samþykkt óbreytt, hafi á fjölda starfa sem undir ráðherra heyra í ráðuneytinu eða stofnunum þess? Hverjar eru áætlaðar breytingar og um hve mörg störf er að ræða?
    Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum, landshlutum og kyni starfsmanna sem breytingarnar snerta.


Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Ekki er gert ráð fyrir frekari fækkun starfsmanna ráðuneytisins verði frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 að lögum.

Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna.
    Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna verður lögð niður 1. janúar 2015 vegna aðhaldsaðgerða. Þá verða lagðar niður þrjár stöður. Konur hafa sinnt tveim þeirra og karl einni.

Matvælastofnun.
    Um það bil eitt og hálft stöðugildi verða til vegna tilfærslu verkefna frá Fiskistofu og Umhverfisstofnun til Matvælastofnunar 1. janúar 2015. Um er að ræða hálft starf í Reykjavík sem sinnt er af karli en ekki hefur verið tekin lokaákvörðun um ráðningu í fullt starf á Selfossi. Stöðugildin verða fjármögnuð með eftirlits- og leyfisgjöldum.
    Ekki hefur verið tekin lokaákvörðun um hvernig brugðist verður við niðurskurðartillögum sem stofnunin verður fyrir, sbr. frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015. Samkvæmt frumvarpinu fæst ekki fjármagn fyrir stöðugildi vegna aukaafurða dýra sem einnig var sótt um 2014.

Fiskistofa.
    Verði frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 óbreytt að lögum mun það ekki hafa áhrif á fjölda starfa á Fiskistofu.

Hafrannsóknastofnun.
    Hafrannsóknastofnun er að vinna rekstraráætlun vegna næsta árs á grundvelli frumvarps til fjárlaga og annarra þátta sem áhrif hafa á rekstur. Með fyrirvara um að vinnu við rekstraráætlun er ekki lokið þá er ekki gert ráð fyrir frekari fækkun ársverka.

Veiðimálastofnun.
    Óvíst er hvaða áhrif fjárlög fyrir árið 2015 munu hafa ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður óbreytt að lögum. Hagræðingarkrafa í frumvarpinu er ekki mikil en niðurskurður síðustu ára mun hafa áhrif. Sértekjuöflun ræður miklu um afkomu Veiðimálastofnunar á árinu 2015.

Byggðastofnun.
    Ekki eru áætlaðar breytingar á starfsmannafjölda Byggðastofnunar vegna fjárlaga fyrir árið 2015 ef frumvarpið verður óbreytt að lögum.