Ferill 296. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 573  —  296. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birni Val Gíslasyni
um fjölda opinberra starfa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hafa fjárlög fyrir árið 2014 haft áhrif á fjölda starfa í ráðuneytinu eða stofnunum sem undir ráðuneytið heyra? Ef svo er, hverjar eru breytingarnar og um hve mörg störf er að ræða?
     2.      Hvaða áhrif er áætlað að frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015, verði það samþykkt óbreytt, hafi á fjölda starfa í ráðuneytinu eða stofnunum sem undir ráðuneytið heyra? Hverjar eru áætlaðar breytingar og um hve mörg störf er að ræða?
    Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum, landshlutum og kyni starfsmanna sem breytingarnar snerta.


    Störfum hefur fækkað í utanríkisráðuneytinu á undanförnum missirum og hófst sú fækkun þegar á fyrri hluta árs 2013. Frá þeim tíma nemur heildarfækkunin um á fjórða tug starfsmanna, u.þ.b. helmingur karlar og helmingur konur. Í utanríkisráðuneytinu háttar svo til að nokkuð margir starfsmenn eru í launalausu leyfi hverju sinni, oft við störf á alþjóðavettvangi sem tengjast starfseminni. Nokkur óvissa ríkir um hve margir þeirra snúa til baka á næstu mánuðum og hve margir muni óska leyfis af þessum ástæðum. Flutningar milli starfseininga utanríkisþjónustunnar eru ekki meðtaldir en þeir leiða af sér breytilegan fjölda starfa frá einu tímabili til annars í hverri starfseiningu. Miðað við núverandi stöðu frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015 telur ráðuneytið ólíklegt að nýráðningar muni eiga sér stað á árinu 2015.
    Hjá Þróunarsamvinnustofnun, sem er önnur af tveimur undirstofnunum ráðuneytisins, höfðu fjárlög fyrir árið 2014 ekki bein áhrif á fjölda starfa en vegna aðhaldsaðgerða hefur ekki verið ráðið í tvö stöðugildi sem losnuðu. Íslandsstofa, sem einnig er undirstofnun ráðuneytisins, hefur markaða tekjustofna í fjárlögum en fær ekki beint framlag úr ríkissjóði. Fyrirspurnin á því ekki við um Íslandsstofu.