Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 592  —  181. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Helga Hjörvar um sykurskatt.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hve mikið greiddi mjólkuriðnaðurinn í svokallaðan sykurskatt frá gildistöku laga nr. 156/2012, 1. mars 2013, til 1. júlí sl.?

    Svokallaður sykurskattur er lagður á matvæli sem falla undir A- og B-lið í viðauka I við lög nr. 97/1987, um vörugjald. Frá 1. mars 2013 hefur innflytjendum þessara matvæla verið heimilt að tilgreina á tollskýrslu þyngd viðbætts sykurs eða sætuefnis í vöru mælda í kílógrömmum eða grömmum og greiða vörugjald í samræmi við þá þyngd, sbr. lög nr. 156/2012.
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti tollstjóra, sem annast álagningu almennra vörugjalda, greiddu aðilar í mjólkuriðnaði 121,6 millj. kr. í vörugjöld í flokkum XA, XB, X1 og X2 á tímabilinu frá 1. mars 2013 til 1. júlí 2014. Um er að ræða magngjöld á kílógramm eða lítra, mishá eftir tollskrárnúmerum.
    Upplýsingar tollstjóra ná til samtals 11 aðila sem störfuðu í mjólkuriðnaði á Íslandi á þessu tímabili, þ.m.t. þeirra sem eru stærstir á markaðnum. Skipting sykurskatts á þau fyrirtæki eftir gjaldtegundum má sjá í töflu 1 hér að aftan.

Tafla 1: Almenn vörugjöld aðila í mjólkuriðnaði (samtals 11 aðilar)
eftir gjaldtegundum, 1. mars 2013 – 1. júlí 2014.

Gjaldtegund Skýring Gjaldfærð upphæð, kr.
X1 Vörugjald – viðbættur sykur 210 kr./kg 10.814.841
X2 Vörugjald – viðbætt sætuefni 42 kr./g 2.223.811
XA Vörugjald kr./kg – taxti gjalds er tengdur tollskrárnúmeri 105.342.465
XB Vörugjald kr./lítra – taxti gjalds er tengdur tollskrárnúmeri 3.250.646
Samtals 121.631.763

    Í töflu 2 má sjá skiptinguna eftir mánuðum á umræddu tímabili.

Tafla 2: Almenn vörugjöld aðila í mjólkuriðnaði
í krónum eftir mánuðum.

2013 2014
jan. 8.050.910
febr. 3.373.934
mars 4.591.795 9.552.809
apríl 10.816.130 11.438.008
maí 8.895.543 4.132.452
júní 8.661.706 6.720.417
júlí 5.419.368
ágúst 10.078.598
sept. 9.953.675
okt. 13.666.314
nóv. 4.188.807
des. 2.091.297
Samtals 78.363.233 43.268.530

    Hafa þarf í huga að þessar upplýsingar ná einungis til þess sykurs eða sætuefna sem aðilar í mjólkuriðnaði flytja inn í eigin nafni, væntanlega sem hráefni í framleiðsluvörur sínar. Reikna má með að einhver hluti sykurs og sætuefna sem notaður er við framleiðslu mjólkurvara sé keyptur af innlendum birgjum, en ekki reyndist unnt að afla nánari upplýsinga um þann þátt. Samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu (Hvað borða Íslendingar?) eru 9% af viðbættum sykri í neyslu Íslendinga kominn úr sykruðum mjólkurvörum og er þá ís meðtalinn. Til viðbótar eru mjólkurvörur sem innihalda sætuefni og er þar um að ræða 3% af neyslu. Miðað við innflutt magn af sykri og sætuefnum á árinu 2013 er ekki ósennilegt að mjólkuriðnaðurinn greiði í kringum 200 millj. kr. í svokallaðan sykurskatt á hverju ári.