Ferill 120. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 595  —  120. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga,
með síðari breytingum (hreyfanleiki viðskiptavina).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu Sóley Ragnarsdóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Dalla Ólafsdóttir og Kristinn Bjarnason frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bergþóra Halldórsdóttir frá Samtökum atvinnulífsins og Vigdís Halldórsdóttir og Sigurður Óli Kolbeinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusambandi Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Neytendastofu, Neytendasamtökunum, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Frumvarpið byggist á vinnu starfshóps sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í byrjun árs 2014 til að endurskoða ákvæði laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, í því skyni að kanna hvort breytingar á lögunum, sem mundu auðvelda uppsagnir á vátryggingarsamningum, gætu aukið hreyfanleika viðskiptavina milli félaga. Þessi vinna hófst í kjölfar viljayfirlýsingar íslenska ríkisins vegna rannsóknar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á aðkomu ríkisins að endurreisn vátryggingafélagsins Sjóvár. Yfirlýsing ríkisins fól í sér vilja til að stuðla að aukinni samkeppni á vátryggingarmarkaði til mótvægis við áhrif endurreisnar Sjóvár á samkeppni.
    Í frumvarpinu er lögð til sú breyting á lögum um vátryggingarsamninga að vátryggingartaki geti á vátryggingartíma sagt upp vátryggingarsamningi til að flytja vátrygginguna til annars félags. Vátryggingartaki skal tilkynna um uppsögn með 30 daga fyrirvara og miðast uppsögn við næstu mánaðamót þar á eftir. Upplýsa skal til hvaða vátryggingafélags er flutt og frá hvaða tíma. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessi breyting öðlist gildi 1. janúar 2015.
    Tilgangurinn með breytingu á lögunum er að auka hreyfanleika viðskiptavina milli vátryggingafélaga og þar með að efla samkeppni á vátryggingamarkaði og auka neytendavernd. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í frumvarpinu og telur líkur til þess að breytingin leiði til aukinnar samkeppni á vátryggingamarkaði auk þess sem samkeppni af þessu tagi er neytendum í hag.
    Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir um efni frumvarpsins og mæltu með því að það yrði samþykkt.
    Vakin var athygli nefndarinnar á því að í núgildandi lögum felur 1. mgr. 14. gr. í sér að vátryggingartaki getur komið í veg fyrir að samningur framlengist með því að segja upp samningi. Samkvæmt því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar mun 1. mgr. 14. gr. laganna falla brott. Með 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er við það miðað að vátryggingartaki geti einungis sagt vátryggingarsamningi upp að fyrir hendi sé a.m.k. eitt nánar tilgreindra skilyrða, þ.e. í fyrsta lagi að hann hafi ekki lengur þörf fyrir vátryggingu, í öðru lagi að sérstakar aðstæður réttlæti uppsögn eða í þriðja lagi í því skyni að flytja vátrygginguna til annars félags. Það er skilningur nefndarinnar að með öðrum orðum verði vátryggingartaka ekki gert kleift að segja upp vátryggingu ef ekkert framangreindra skilyrða telst vera fyrir hendi. Nefndin telur að það sé ekki til bóta fyrir neytendur og telur 1. mgr. 14. gr. í gildandi lögum vera þýðingarmikla til að vátryggingartaki eigi kost á því að geta sagt upp vátryggingu við endurnýjun án þess að tilgreina þurfi sérstaklega ástæðu uppsagnarinnar. Nefndin leggur því til breytingu á þann veg að 1. mgr. 14. gr. verði ekki felld úr lögunum.
    Bent var á í umsögn að áskilnaður 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins um að vátryggingartaki skuli tilkynna félagi um uppsögn með 30 daga fyrirvara sem miðast við næstu mánaðamót sé ekki hentugt viðmið. Mánuðir eru mislangir og getur það valdið óþarfa töfum og flækjum í framkvæmd að miða við 30 daga. Í norsku lögunum um vátryggingarsamninga er stuðst við mánuð. Í ljósi þessa leggur nefndin til breytingu á þann veg að miðað sé við mánaðar fyrirvara þegar kemur að uppsögn vátryggingarsamninga.
    Á fundi nefndarinnar kom jafnframt fram ábending um að skv. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins skuli tilkynna félagi um uppsögn með 30 daga fyrirvara þegar vátryggingartaki hefur ekki lengur þörf fyrir vátryggingu, fyrir hendi eru aðrar sérstakar ástæður sem réttlæta uppsögn eða vátryggingin er flutt til annars félags. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að reglan um 30 daga fyrirvara geti ekki átt við þegar ekki er lengur þörf fyrir vátrygginguna, þ.e. vátryggðir hagsmunir eru ekki lengur til staðar og sama á við þegar uppsögn er vegna annarra sérstakra aðstæðna. Nefndin leggur til breytingu til að taka af öll tvímæli hvað þetta varðar.
    Fram komu þau sjónarmið í tengslum við gildistökuákvæði frumvarpsins að mikilvægt sé að vátryggingafélög hafi ráðrúm til að breyta verklagi og kerfum vegna þeirra breytinga sem frumvarpið boðar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gildistakan sé 1. janúar 2015. Nefndin tekur undir þau sjónarmið að áramót og upphaf nýs árs sé erfiður tími og almennt mikið álag á starfsfólki vátryggingafélaga þá. Eins er ljóst að ýmislegt þarf að gera til að undirbúa breytinguna, m.a. þarf að breyta verklagi og kerfum eins og áður sagði. Nefndin telur því rétt að bregðast við með því að fresta gildistökunni þannig að hæfilegur tími sé gefinn til undirbúnings.
    Nefndin bendir á að í 75. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, er fjallað um heimild vátryggingartaka til að segja upp vátryggingarsamningi þegar kemur að persónutryggingum. Nefndin telur mikilvægt að sams konar reglur gildi um uppsögn á vátryggingarsamningi þegar kemur að persónutryggingum eins og í skaðatryggingum. Nefndin gerir því breytingartillögu þess efnis.
    Í umsögn Alþýðusambandsins kom fram breytingartillaga við 1. mgr. 124. gr. laganna á þann veg að koma til móts við bókun við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði þar sem óskað var eftir breytingum á lögunum þannig að engum vafa yrði undirorpið að tilkynning vinnuveitanda um vátryggingaratburð jafngildi skyldum vátryggðs í skilningi laganna. Nefndin tekur undir framkomin sjónarmið og telur rétt að hrinda í framkvæmd þessari bókun aðila vinnumarkaðarins og leggur fram breytingartillögu þess efnis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 24. nóvember 2014.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Vilhjálmur Bjarnason,
frsm.
Pétur H. Blöndal.
Willum Þór Þórsson. Árni Páll Árnason. Guðmundur Steingrímsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Unnur Brá Konráðsdóttir. Steingrímur J. Sigfússon.