Ferill 157. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 597  —  157. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á vegalögum, nr. 80/2007,
með síðari breytingum (framkvæmd og stjórnsýsla,
innleiðing EES-gerða o.fl.).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Frey Björnsson og Ástu Sóllilju Sigurbjörnsdóttur frá innanríkisráðuneyti, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gunnar Gunnarsson og Auði Þóru Árnadóttur frá Vegagerðinni, Árna Jóhannsson frá Samtökum iðnaðarins, Lísbetu Einarsdóttur frá Samtökum verslunar og þjónustu og Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Dalabyggð, Fljótsdalshéraði, Hrunamannahreppi, Mosfellsbæ, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum verslunar og þjónustu, Sveitarfélaginu Árborg og Vegagerðinni.
    Efni frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á vegalögum til innleiðingar á EES-gerðum, sbr. b-lið 8. gr. frumvarpsins, varðandi álagningu gjalda á þungaflutningabifreiðar vegna notkunar ákveðinna vegamannvirkja, í öðru lagi eru lagðar til breytingar í samræmi við niðurstöðu nefndar um endurskoðun vegalaga og í þriðja lagi breytingar sem skýra eiga verkaskiptingu Samgöngustofu og Vegagerðarinnar.
    Þau ákvæði frumvarpsins sem snúa að endurskoðun vegalaga eru til komin vegna vinnu nefndar sem skipuð var fulltrúum innanríkisráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Vegagerðarinnar, Skipulagsstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Nefndin skilaði einróma tillögum sem frumvarpið byggist að hluta til á. Ber þar helst að nefna að um 230 km af vegum sem færðust í flokk héraðsvega við gildistöku vegalaga 1. janúar 2008 munu aftur færast í flokk tengivega. Þessir vegir færðust aldrei yfir á ábyrgð sveitarfélaganna vegna ágreinings um ástand veganna og nauðsynlegs fjármagns til viðhalds og þjónustu. Þá er lagt til að færa viðmið um 10 km lengd fyrir tengivegi niður í 2 km. Þá er lögð til breyting á 28. gr. laganna sem miðar að auknu samráði milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaga, þess efnis að Vegagerðin skuli leggja fram mat á umferðaröryggi mismunandi kosta við vegarlagningu nægilega tímanlega til að skipulagsnefnd geti tekið afstöðu til matsins við mótun aðalskipulagstillögu. Í 2. mgr. 28. gr. vegalaga kemur fram að sveitarfélagi sé óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar um vegstæði ef það leiðir til minna umferðaröryggis en samkvæmt tillögu Vegagerðarinnar. Til að tryggja farsælt samstarf Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna er lagt til í 6. gr. frumvarpsins að samráð þeirra á milli hefjist fyrr í skipulagsferlinu en verið hefur.
    Í 5. og 7. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að innleiða með reglugerð ákvæði tilskipunar 2006/38/EB um breytingu á tilskipun 1999/62/EB um álagningu gjalda á þungaflutningabifreiðar fyrir notkun á tilteknum grunnvirkjum. Tilskipunin gerir ráð fyrir að komið sé á fót viðeigandi viðurlagakerfi vegna brota á ákvæðum landsréttar sem tilkomin eru vegna tilskipunarinnar. Þar sem fyrirséð er að aðeins lögaðilar muni sinna gjaldtöku af umferð er lagt til að heimilt verði að leggja á lögaðila stjórnvaldssektir ef gjöld skv. 17. gr. laganna eru ekki innheimt í samræmi við ákvæðið og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þess. Skv. 5. gr. frumvarpsins annast Samgöngustofa eftirlit með gjaldtöku skv. 17. gr. og er því sá aðili sem hefur heimild til að leggja fyrrgreindar stjórnvaldssektir á lögaðila. Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir við það að Samgöngustofu yrði falið það hlutverk að leggja á stjórnvaldssektir. Meiri hlutinn bendir á að eðlilegt er að það stjórnvald sem fer með eftirlit með framkvæmd tiltekinna verkefna leggi sektir á lögaðila sem í ljós hefur komið við eftirlitið að hafi brotið gegn ákvæðum laganna. Meiri hlutinn bendir á að aðeins þeir sem eru gjaldtakendur samkvæmt lögunum geta fallið hér undir og er gert ráð fyrir því að það séu lögaðilar. Meiri hlutinn leggur þó til þá breytingu að heimilt verði að kæra ákvarðanir Samgöngustofu um álagningu stjórnvaldssekta til ráðherra innan mánaðar frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina og að slík kæra til ráðherra fresti aðför en annars eru stjórnvaldssektir Samgöngustofu og úrskurðir ráðherra aðfararhæfir. Er það í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar um að ákvarðanir stjórnvalda séu almennt kæranlegar til æðra setts stjórnvalds nema skýrt sé kveðið á um annað í lögum. Slíkt er ekki lagt til með frumvarpinu og því leggur meiri hlutinn til að skýrt verði kveðið á um kæruheimildina.
    Meiri hlutinn leggur til aðra breytingu á frumvarpinu samkvæmt tillögu Vegagerðarinnar, þess efnis að 3. mgr. 15. gr. laganna falli brott. Í ákvæðinu er fjallað um innra eftirlit hjá Vegagerðinni og í ljósi þess að sett hafa verið sérlög um starfsemi Vegagerðinnar, sbr. lög um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, nr. 120/2012. Þar sem framkvæmd öryggisstjórnunar vegamannvirkja færist samkvæmt frumvarpinu til Samgöngustofu er ákvæðið óþarft en þó er gert ráð fyrir ákveðnu innra eftirliti hjá Vegagerðinni í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.
    Samkvæmt 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, skal, ef fyrirsjáanlegt er að lagafrumvarp muni hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög, fara fram mat á kostnaðaráhrifum á sveitarfélögin og skal kostnaðarmatið fylgja með frumvarpinu. Fyrir fórst að láta kostnaðarmatið fylgja með frumvarpinu og er það því fylgiskjal með áliti þessu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 4. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             3. mgr. 15. gr. laganna fellur brott.
     2.      Við 7. gr. bætist tveir nýir liðir, svohljóðandi:
                  a.      Við 59. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Ákvarðanir Samgöngustofu um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Slíkum ákvörðunum má skjóta til ráðherra innan mánaðar frá því aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot til ráðherra frestar aðför. Úrskurðir ráðherra um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfir.
                  b.      Fyrirsögn 59. gr. laganna orðast svo: Viðurlög.

Alþingi, 26. nóvember 2014.

Höskuldur Þórhallsson,
form., frsm.
Katrín Júlíusdóttir. Willum Þór Þórsson.
Birgir Ármannsson. Elín Hirst. Svandís Svavarsdóttir.
Róbert Marshall. Vilhjálmur Árnason.


Fylgiskjal.


Innanríkisráðuneyti:

Mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga
skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

    Í frumvarpinu er annars vegar er um að ræða innleiðingu á tveimur tilskipunum, nr. 1999/62/EB, um álagningu gjalda á þungaflutningabifreiðar fyrir notkun á tilteknum grunnvirkjum, og tilskipun nr. 2006/38/EB sem fjallar um breytingu á fyrri tilskipuninni. Hins vegar eru lagðar til breytingar á skilgreiningum í lögunum á flokkun þjóðvega, mat á vegum og ábyrgð á viðhaldi og þjónustu vega. Viðkomandi ákvæðum þessa frumvarps er annars vegar ætlað að tryggja að lokið verði við yfirfærslu þeirra stofnbrauta sem áttu að færast yfir með gildistöku laga nr. 80/2007 og hins vegar að koma í öruggan farveg samvinnu og samráði Vegagerðarinnar og sveitarfélaga vegna mögulegra breytinga á flokkun einstakra vega.
    Forsögu þessara breytinga má rekja aftur til gildistöku laganna í byrjun árs 2008 þegar um 70 km af stofnbrautum færðust í flokk sveitarfélagsvega og ábyrgð á viðhaldi og þjónustu þeirra hefði þar með átt að fara yfir á viðkomandi sveitarfélög. Ekki varð af framkvæmd lagaákvæðanna þar sem meira samráð hefði þurft við sveitarfélögin um framkvæmd málsins auk þess ekki var lagt kostnaðarmat á lagabreytingarnar. Því hefur Vegagerðin séð um viðhald veganna og þjónustu við þá frá því að lögin tóku gildi. Í kjölfar gildistöku laganna hófust samningaviðræður á milli aðila um yfirfærsluna en niðurstaða þeirra viðræðna var að vegunum yrði skilað til sveitarfélaganna í viðunandi ástandi og að gert yrði samkomulag milli Vegagerðarinnar og viðkomandi sveitarfélaga um í hvaða ástandi vegum yrði skilað. Vegna lækkandi fjárframlaga til þessara verkefna hjá Vegagerðinni eftir efnahagshrunið haustið 2008 hefur þetta ekki gengið eftir.
    Samkvæmt greinargerð um endurskoðun vegalaga sem byggist á vinnu nefndar sem skipuð var fulltrúum ríkis og sveitarfélaga er lauk störfum í febrúar síðastliðnum má gera ráð fyrir að viðhaldskostnaður á hvern kílómetra sé að meðaltali á bilinu 1–1,5 m.kr. á ári. Kostnaður Vegagerðarinnar vegna þessara 70 km sem hún mun greiða næstu fimm árin nemur því um 70–100 m.kr. vegna viðhalds og um 80 m.kr. vegna þjónustu (vetrarviðhalds) á ári umfram það sem henni ber samkvæmt gildandi lögum. Á það ber hins vegar að líta að Vegagerðin hefur fjármagnað viðhald og þjónustu þessara vega frá því að lögin tóku gildi árið 2008 án þess að henni hafi borið til þess lagaleg skylda. Samkvæmt framansögðu má því gera ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins muni viðhalda útgjöldum ríkissjóðs um a.m.k. 700 m.kr. uppsafnað næstu fimm árin frá því sem annars var gert ráð fyrir í vegalögum, nr. 80/2007. Hér er hins vegar um að ræða útgjöld sem ríkissjóður hefur borið til þessa og að fimm árum liðnum munu sömu útgjöld færast til sveitarstjórnarstigsins og dreifast niður á þau sveitarfélög sem í hlut eiga. Frá þeim tíma, þ.e. 1. janúar árið 2020, verður heildarútgjaldaauki sveitarfélaga því um 150 m.kr. á ári.
    Aðrar breytingar sem leiðir af frumvarpinu og varða sveitarfélögin eru einkum þessar:
    1. Endurskoðað er viðmið um lágmarkslengd tengivega sem ákveðið var í lögum nr. 80/2007. Í stað þess að tengivegir utan þéttbýlis sem liggja af stofnvegi á stofnveg eða af stofnvegi á tengiveg þurfi að lágmarki að ná 10 km að lengd þurfa þeir nú aðeins að vera 2 km. Þetta hefur þau áhrif að nokkur fjöldi vega sem voru tengivegir fram að breytingu á vegalögum 2007 falla aftur í þann flokk vega. Þetta hefur engin áhrif til kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin og varðar eingöngu flokkun þjóðvega, en hefur hins vegar nokkur áhrif á skipulagsheimildir sveitarfélaga.
    2. Gert er ráð fyrir nýrri grein á eftir 59. gr. sem kveður á um að Vegagerðin skuli halda tilteknum vegum við í fimm ár eftir sameiningu sveitarfélaga þótt ákvæði laganna leiði til þess að viðkomandi vegir færist úr flokki stofnvega í flokk sveitarfélagsvega við sameininguna. Tilvik sem þessi verða væntanlega mjög fá og tilfallandi og er eingöngu hægt að benda á eitt dæmi í þessu sambandi, en við sameiningu Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftaness hefði Álftanesvegur átt að færast úr flokki stofnvega í þéttbýli í flokk sveitarfélagsvega. Ekki þykir tilefni til þess að leggja mat á kostnaðaráhrif þessarar breytingar en ljóst er að breytingin hefur fyrst og fremst jákvæð áhrif fyrir sveitarfélög.
    3. Breytingar á 9. og 28. gr. laganna eru orðalagsbreytingar sem er fyrst og fremst ætlað að skýra nánar framkvæmd laganna. Í fyrrnefndu breytingunni felst að sveitarstjórn verður heimilt að fella vegi utan þéttbýlis í flokk sveitarfélagavega en síðarnefndu breytingunni er ætlað að draga úr hættu á ágreiningi milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaga um staðsetningu þjóðvega. Í tengslum við fyrrnefnt nefndarstarf hefur verið unnið að gerð leiðbeininga og gátlista fyrir skipulagsfulltrúa sveitarfélaga sem er ætlað að tryggja gott samstarf milli sveitarfélaga og Vegagerðarinnar við gerð skipulagsáætlana. Ekki þykir tilefni til þess að leggja mat á kostnaðaráhrif þessara breytinga fyrir sveitarfélögin.
    Niðurstaða ráðuneytisins er sú að verði frumvarpið að lögum muni kostnaðarauki sveitarfélaga frá og með árinu 1. janúar 2020 nema um 150 m.kr. ári vegna viðhalds og þjónustu þjóðvega í þéttbýli sem færast í flokk sveitarfélagsvega. Þessi niðurstaða ráðuneytisins hefur verið kynnt Sambandi íslenskra sveitarfélaga og gerir sambandið ekki athugasemd við hana.