Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 617  —  3. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um ýmsar forsendur
frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Friðrik Friðriksson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Almar Guðmundsson frá Samtökum iðnaðarins, Andrés Magnússon og Lárus M.K. Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Grím Sæmundsen, Gunnar Val Sveinsson og Helgu Árnadóttur frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Henný Hinz frá Alþýðusambandi Íslands, Döllu Ólafsdóttur og Kristin Bjarnason frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Jón Helga Óskarsson og Vilhjálm Bjarnason frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Björgu Ástu Þórðardóttur frá Félagi atvinnurekenda, Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Guðmund Gunnarsson og Þóreyju Þórðardóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Árna Guðmundsson frá Gildi-lífeyrissjóði, Hannes G. Sigurðsson og Vigdísi Jónsdóttur frá VIRK starfsendurhæfingarsjóði og Hauk Ingibergsson og Jónu Valgerði Kristjánsdóttur frá Landssambandi eldri borgara. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Félagi bókhaldsstofa, Gildi-lífeyrissjóði, Samtökum atvinnulífsins og Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Garðari Baldvinssyni, Fjármálaeftirlitinu, Alþýðusambandi Íslands, Landssamtökum lífeyrissjóða, Neytendasamtökunum, Starfsgreinasambandi Íslands, tollstjóranum, velferðarráðuneytinu, VIRK starfsendurhæfingarsjóði, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Félagi atvinnurekenda, Hagsmunasamtökum heimilanna, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, Samtökum verslunar og þjónustu, Landssambandi eldri borgara og Samtökum ferðaþjónustunnar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum er snúa að tekju- og gjaldahlið ríkissjóðs. Frumvarpið hefur sterk tengsl við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015. Í frumvarpinu eru þó ekki lagðar til breytingar á krónutölugjöldum eins gengið er út frá í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins.

Þjóðhagsspá, vetur 2014.
    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 og tekjuaðgerðir sem koma fram í frumvarpinu byggjast í grunninn á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá júlí 2014. Hinn 14. nóvember sl. birti Hagstofa Íslands uppfærða þjóðhagsspá fyrir veturinn 2014. Helstu atriði uppfærðrar þjóðhagsspár má finna í eftirfarandi töflu sem birt er í Hagtíðindum Hagstofu Íslands 2014:15.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Séu helstu forsendur bornar saman við nýjustu þjóðhagsspá kemur eftirfarandi m.a. í ljós:
     1.      Verg landsframleiðsla verður minni árið 2014 eða 2,7% í stað 3,1%, 3,3% í stað 3,4% 2015 en 2,9% eins og áður hafði verið gert ráð fyrir árið 2016.
     2.      Hagvaxtarspá fyrir árið 2014 lækkar um 0,4%. Litlar breytingar verða á spá fyrir árið 2015 og árin 2016–2018 standa nokkurn veginn í stað frá því í júlí sl.
     3.      Gert er ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu verði svipaður og gert var ráð fyrir í spá Hagstofunnar frá júlí sl. árið 2014 eða um 3,9%. Þá verður vöxturinn um 4% árið 2015 í stað 3,7%. Spá fyrir árið 2016 gerir ráð fyrir 3,2% vexti samanborið við 2,8% samkvæmt júlíspá.
     4.      Áfram er gert ráð fyrir hóflegum vexti samneyslu. Gert er ráð fyrir 1,8% vexti árið 2014 samanborið við 1,2% í júlí sl., 1,4% í stað 0,5% árið 2015 og um 1,5% vexti árlega eftir það.
     5.      Fjármunamyndun verður minni árið 2014 en gert var ráð fyrir í júlíspá Hagstofunnar eða um 14% samanborið við 16,9%. Hins vegar er gert ráð fyrir að hún taki verulega við sér árin þar á eftir og verði 18,7% í stað 15,7% árið 2015 og 14,6% í stað 12,5% árið 2016.
     6.      Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði nokkru minna en samkvæmt júlíspá Hagstofunnar eða 3,7% í stað 3,8% árið 2014, 3,2% í stað 3,5% árið 2015 og 3,1% í stað 3,5% árið 2016.
     7.      Þegar kemur að verðbólgu er gert ráð fyrir að hún verði nokkru minni en samkvæmt júlíspá eða 2,2% í stað 2,5% árið 2014, 2,7% í stað 3,4% 2015, 3% í stað 3,2% árið 2016 en hún fari aftur niður í 2,6% árið 2018.
    Stærsti óvissuþátturinn í uppfærðri spá Hagstofunnar er þróun launa árið 2015 en flestir kjarasamningar verða lausir á því ári. Spá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að samið verði um nokkuð meiri launahækkanir en í síðustu samningum en að lág verðbólga auki líkur á hóflegum launabreytingum.
    Að mati meiri hlutans kallar uppfærð þjóðhagsspá ekki á breytingar á ákvæðum frumvarpsins.

Batnandi afkoma ríkissjóðs.
    Hinn 26. nóvember sl. birtist frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem fram kom að afkoma ríkissjóðs hefði batnað frá því sem áður hafði verið gert ráð fyrir og því hefði myndast nokkurt svigrúm fyrir sérstök áherslumál ríkisstjórnarinnar. Ástæðan er m.a. sú að tekjuáætlun fyrir árið 2014 hefur verið endurskoðuð í ljósi þróunar tekna síðustu mánuði, tekið hefur verið tillit til áhrifa af uppfærðri þjóðhagsspá og fyrir liggur að álagning opinberra gjalda á lögaðila skilaði mun betri niðurstöðu en ráð var fyrir gert.

Umfjöllun meiri hlutans.
Frestun á framlagi úr ríkissjóði til starfsendurhæfingarsjóða (3. gr.).
    
Fyrir nefndinni var gagnrýnt að í 3. gr. frumvarpsins væri lagt til að þátttöku ríkissjóðs í fjármögnun starfsendurhæfingarsjóða yrði frestað um eitt ár.
    Meiri hlutinn bendir á að sambærileg frestun átti sér stað árin 2013 og 2014. Sú frestun var réttlætt með tilliti til sterkrar fjárhagsstöðu VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og stöðu ríkissjóðs. Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að gert sé ráð fyrir að heildarúttekt á þjónustu starfsendurhæfingarsjóða verði lokið fyrir árslok 2016 og í kjölfar hennar verði tekin ákvörðun um áframhaldandi uppbyggingu og framtíð slíkra sjóða. VIRK starfsendurhæfingarsjóður er eini starfandi starfsendurhæfingarsjóðurinn á Íslandi. Ljóst er að staða hans er sterk en rekstrarafgangur hans var um 800 millj. kr. í árslok 2013 og þá var varasjóður orðinn um 2,3 milljarðar kr. eða um 1 milljarði kr. hærri en rekstrarkostnaður hans sama ár. Ljóst er að staða sjóðsins mun áfram verða sterk a.m.k. þar til framangreindri endurskoðun lýkur. Þá hefur ekki verið komið á starfsgetumati í stað örorkumats sem er rökræn forsenda virkrar starfsendurhæfingar en það er unnið að úrlausn þess af nefnd sem skilar tillögum sínum fljótlega.
    Að mati meiri hlutans er mikilvægt að tryggja að svo fari ekki að VIRK treysti sér ekki til að taka á móti einstaklingum í þjónustu árinu á 2015 sem ekki er greitt af í sjóðinn. Samkvæmt frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 26. nóvember sl. verður starfsendurhæfingarsjóðum tryggt viðbótarframlag á næsta ári.

Niðurskurður á framlagi vegna jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða (4. gr.).
    Fyrir nefndinni kom fram nokkur gagnrýni á tillögu 4. gr. frumvarpsins sem er þess efnis að hlutdeild lífeyrissjóða í tekjum af almennu tryggingagjaldi til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða verði lækkuð árlega um 20% þar til hún fellur brott á árinu 2019.
    Skilningur meiri hlutans er að vegna breyttra forsendna standi til að taka til endurskoðunar það fyrirkomulag sem komið var á með yfirlýsingu ríkisstjórnar í nóvember 2005. Markmið endurskoðunarinnar verður að lífeyrissjóðirnir sjái sjálfir um jöfnun sín á milli án framlaga úr ríkissjóði að fimm árum liðnum. Þá stendur til að taka upp viðræður við lífeyrissjóði vegna endurskoðunarinnar. Þá hefur tryggingagjald ekki hækkað sem nemur þeim framlögum sem átti að ráðstafa til lífeyrissjóða vegna jöfnunar örorkubyrði og því skertist sá hluti fjármagns sem varið er til opinberra almannatrygginga.
    Fyrir nefndinni kom fram að mikill munur væri á örorkubyrði lífeyrissjóða þegar litið væri til byrðarinnar sem hlutfalls heildarskuldbindinga. Kom m.a. fram að framlagið stæði undir stórum hluta af þeim örorkulífeyri sem tilteknir sjóðir greiða. Í nefndinni kom það sjónarmið fram að eðlilegt væri að þær atvinnugreinar sem búa við hærri örorkubyrði greiddu sem því næmi meira til lífeyrissjóðanna. Byggðist framangreint á því að ekki væri forsvaranlegt að ætlast til að þeir sem skyldaðir eru til að greiða í lífeyrissjóð standi undir hærri örorkubyrði sjóðanna í gegnum skerðingu á lífeyrisréttindum. Þetta á við til framtíðar en eftir stendur óleystur fortíðarvandi sem nauðsynlegt er að ráðast sameiginlega að.
     Til þess að koma til móts við lífeyrissjóðina og skapa svigrúm vegna samræmingar örorkumats leggur meiri hlutinn til að gildistöku varðandi breytingar á ráðstöfun tekna af almennu tryggingagjaldi til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða verði seinkað til 1. júlí 2015 í stað þess að taka gildi 1. janúar 2015 og er gert ráð fyrir þeim kostnaðarauka í fréttatilkynningunni frá 26. nóvember sl.

Vaxtabætur (5. gr.).
    Í 5. gr. er brugðist við þeirri stöðu að vaxtabótareglur munu að óbreyttu færast í fyrra horf að gildistíma ákvæðis til bráðabirgða XLI í lögum um tekjuskatt liðnum. Slíkt mundi hafa þær afleiðingar í för með sér að vaxtabætur dreifðust á fleiri fjölskyldur en nú er og þannig lækka vaxtabætur til tekjulágra og eignalítilla fjölskyldna.
     Nefndinni bárust ábendingar þess efnis að viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta hafi ekki hækkað til samræmis við hækkun launa, verðlags og húsnæðisverðs.
    Meiri hlutinn bendir á að 28. júní 2013 samþykkti Alþingi þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Í 4. tölul. ályktunarinnar var félags- og húsnæðismálaráðherra falið að skipa verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Téð verkefnisstjórn var skipuð 9. september 2013. Samhliða henni skipaði ráðherra samvinnuhóp um framtíðarskipulag húsnæðismála verkefnisstjórninni til ráðgjafar. Samvinnuhópurinn er skipaður fulltrúum helstu hagsmunaaðila og stjórnvalda sem starfa í tengslum við húsnæðismál í víðum skilningi auk þess sem fulltrúar stjórnmálaflokka á Alþingi eiga þar sæti. Verkefnisstjórninni er m.a. ætlað að starfa náið með Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Skýrsla verkefnisstjórnarinnar kom út í maí 2014 og er þar að finna margar tillögur, m.a. um fjármögnun almennra húsnæðislána, uppbyggingu virks leigumarkaðar og leiðir til að veita almannaþjónustu á húsnæðismarkaði. Meiri hlutinn væntir þess að ríkisstjórnin muni áfram vinna að því markmiði að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins.
    Unnið er að uppbyggingu á nýju húsnæðisbótakerfi sem ætlað er að leysa af hólmi núverandi vaxta- og húsaleigubótakerfi. Hinu nýja kerfi er ætlað að jafna stöðu leigjenda við stöðu húseigenda þannig að stuðningur hins opinbera taki mið af fjölskyldustærð í stað búsetuforms. Samkvæmt frétt sem birtist á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins 26. nóvember sl. stendur til að koma til móts við tekjulægstu leigjendur á húsnæðismarkaði með 400 millj. kr. viðbótarframlagi. Framlagið er áfangi í því að sameina framangreind kerfi og auka stuðning við leigjendur.

Framlenging ákvæðis til bráðabirgða VII í lögum um málefni aldraðra (13. gr.).
    Það sjónarmið kom fram fyrir nefndinni að ráðstöfun fjár Framkvæmdasjóðs aldraðra til reksturs hjúkrunarheimila muni til framtíðar litið kalla á leiðréttingu í formi viðbótarfjárframlaga úr ríkissjóði eða minni uppbyggingu hjúkrunarheimila.
    Meiri hlutinn hefur skilning á framangreindum áhyggjum. Ákvæði til bráðabirgða VII í lögum um málefni aldraðra var upphaflega bætt við lögin með samþykkt laga nr. 120/2009 vegna fjárhagsvanda ríkissjóðs og sparnaðarkröfu. Að mati meiri hlutans sníður staða ríkisfjármála ríkisstjórninni enn nokkuð þröngan stakk en mikilvægt er að gæta að vaxandi fjölda aldraðra á næstu árum.

Lengd bótatímabils atvinnuleysisbóta (16.–18. gr.).
    Fyrir nefndinni var stytting bótatímabils atvinnuleysisbóta gagnrýnd. Var m.a. talið að styttingin hefði þau áhrif að vandi tiltekinna hópa atvinnulausra flyttist yfir á sveitarfélög.
    Samkvæmt athugasemdum frumvarpsins eru tillögur 16.–18. gr. lagðar fram í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um lækkun útgjalda og aðhald í ríkisfjármálum auk þess sem íslenska atvinnuleysistryggingakerfið er fært nær því sem þekkist á öðrum Norðurlöndum.
    Samkvæmt upplýsingum sem koma fram í Hagvísum Seðlabanka Íslands frá september síðastliðnum hefur atvinnuleysi minnkað hratt að undanförnu og stefnir hraðbyri í að verða svipað og var um áramótin 2004/2005. Þá hefur þeim farið fækkandi sem glímt hafa við langtímaatvinnuleysi. Fyrirtæki virðast almennt ætla að ráða meira starfsfólk en þau hyggjast segja upp og óhætt er að segja að eftirspurn eftir starfsfólks sé að aukast. Áhrif langtímaatvinnuleysis eru þekkt.
    Uppfærð þjóðhagsspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir því að hraðar muni draga úr atvinnuleysi en áður var ætlað.
    Að mati meiri hlutans er skynsamlegt að bregðast við bættri stöðu á atvinnumarkaði. Það getur vart talist í samræmi við markmið atvinnuleysistrygginga að viðhalda bótarétti sem var aukinn þegar staða og horfur á atvinnumarkaði voru mun dekkri en nú er. Þá má benda á að bótatímabil atvinnuleysisbóta er víða mun skemmra en hér á landi. Í athugasemdum frumvarpsins kemur m.a. fram að tímabilið sé að jafnaði styttra annars staðar á Norðurlöndunum.

S-merkt lyf (19. gr.).
    Fyrir nefndinni var 19. gr. frumvarpsins gagnrýnd. Kjarni gagnrýninnar er að með tillögu greinarinnar verði áætlaður sparnaður ríkissjóðs fluttur yfir á sjúklinga og því muni lyfjakostnaður almennings aukast þegar á heildina er litið og dregið verði úr aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
    Færsla S-lyfja undir greiðsluþátttökukerfið er hluti af aðhaldsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Auk þess stuðlar færslan að jafnræði þegar kemur að aðgengi og öflun lyfja. Þegar tekið er tillit til þess að kostnaður vegna lyfjakaupa fer ekki upp fyrir hámark innan tiltekins tímabils mun færslan ekki valda eins miklum útgjöldum og sýnist í fyrstu. Benda má á að samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir auknum framlögum vegna heilbrigðismála og þar af nema útgjöld vegna 3% magnbreytinga á S-merktum lyfjum um 0,2 milljörðum kr. Þá er rétt að benda á að samkvæmt frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 26. nóvember sl. er áætlað að minnka þátttöku einstaklinga í lyfjakostnaði um u.þ.b. 5% með 150 millj. kr. aukinni greiðsluþátttöku ríkisins á næsta ári.

Tollskrárnúmer.
    Þeirri ábendingu var komið á framfæri við nefndina að nokkur röng tollskrárnúmer kæmu fram í tilgreiningu 26. gr. Skilningur meiri hlutans er að það stafi af uppfærslu á tollskrá. Því leggur meiri hlutinn til að þau tollnúmer sem fallin eru úr gildi falli brott og að öðrum sem hafa komið í staðinn eða eru ný verði bætt við í staðinn. Markmið breytinganna er að tryggja að unnt verði að leggja úrvinnslugjald á raf- og rafeindatæki og íhluti þeirra.
    Í a–d-liðum 2. tölul. breytingartillagna meiri hlutans eru lagðar til breytingar á tollskrárnúmerum sem eru í flokki XVI sem ber heitið „Vélbúnaður og vélræn tæki; rafbúnaður; hlutar til þessara vara; hljóðupptöku- og hljóðflutningstæki, mynda- og hljóðupptökutæki og mynda- og hljóðflutningstæki fyrir sjónvarp, og hlutar og fylgihlutir til þess konar vara“. Númerin verða sett í 85. kafla sem heitir „Rafbúnaður og -tæki og hlutar til þeirra; hljóðupptöku- og hljóðflutningstæki, mynda- og hljóðupptökutæki og mynda- og hljóðflutningstæki fyrir sjónvarp, og hlutar og fylgihlutir til þess konar vara.“
    Í a–lið 2. tölul. breytingartillagnanna er lögð til sú breyting að fjórum nýjum tollskrárnúmerum verði bætt við á eftir tollskrárnúmerinu „8519.5000“. Þau eru í undirkafla 8519 sem ber heitið „hljóðupptöku- eða hljóðflutningstæki“. Tollskrárnúmerin munu hafa eftirfarandi heiti: 8519.8110: „hljóðupptöku- eða hljóðflutningstæki sem geta gengið án ytri orkugjafa og eru tengjanleg við gagnavinnsluvélar“, 8519.8190: „önnur hljóðupptöku- eða hljóðflutningstæki“, 8519.8910: „hljóðupptöku- eða hljóðflutningstæki sem eru með innbyggðri geymslueiningu, geta gengið án ytri orkugjafa og eru tengjanleg við gagnavinnsluvélar“ og 8519.8990: „önnur hljóðupptöku- eða hljóðflutningstæki.“
    Í b-lið 2. tölul. breytingartillagnanna er lögð til sú breyting að á eftir tollskrárnúmerinu „8521.9022“ komi númerið 8521.9023. Undirkaflinn 8521 ber heitið „myndupptökutæki eða myndflutningstæki (video), einnig með innbyggðum myndmóttakara (video tuner).“ Samkvæmt tollskrá mun heiti tollnúmersins 8521.9023 verða „tæki sem geta gengið án ytri orkugjafa og eru tengjanleg þráðlaust við netkerfi“.
    Í c-lið 2. tölul. breytingartillagnanna er lögð til sú breyting að á eftir tollskrárnúmerinu „8540.2000“ komi þrjú ný tollskrárnúmer. Undirkaflinn 8543 hefur fyrirsögnina „Rafmagnsvélar og -tækjabúnaður, til sérstakra nota […]“. Heiti nýju númeranna verður eftirfarandi samkvæmt tollskrá: 8543.1000 „rafeindahraðlar (particle accelerators)“, 8543.2000 „merkjarafalar“ og 8543.3000 „vélar og tækjabúnaður til rafhúðunar, rafsundrunar eða rafdráttar“.
    Í d-lið 2. tölul. breytingartillagnanna er lögð til sú breyting að á eftir tollskrárnúmerinu „8543.7001“ komi tvö ný tollskrárnúmer. Undirkaflinn 8543 hefur fyrirsögnina „rafmagnsvélar og -tækjabúnaður, til sérstakra nota […]“. Heiti nýju númeranna verður eftirfarandi samkvæmt tollskrá: 8543.7002 „tónjafnarar og önnur hliðstæð tæki sérstaklega hönnuð til nota fyrir hljóðfæri og söngkerfi“ og 8543.7003 „tæki til lesturs rafbóka sem geta gengið án ytri orkugjafa og eru tengjanleg þráðlaust við netkerfi“.
    Í e-lið 2. tölul. breytingartillagnanna er lögð til sú breyting að á eftir tollskrárnúmerinu „9007.9100“ komi tvö ný tollskrárnúmer. Undirkaflinn 9007 hefur heitið „kvikmyndavélar og kvikmyndasýningavélar, einnig með hljóðupptökutækjum eða hljóðflutningstækjum“. Undirkaflinn 9008 hefur heitið „myndvörpur, þó ekki kvikmyndasýningarvélar; ljósmyndastækkarar og ljósmyndasmækkarar (þó ekki fyrir kvikmyndir)“. Heiti nýju númeranna verður eftirfarandi samkvæmt tollskrá: 9007.9200 „hlutir og fylgihlutir fyrir sýningarvélar“ og 9008.5000 „myndvörpur, myndastækkarar og -smækkarar“.
    Í g-lið 2. tölul. breytingartillagnanna er lögð til sú breyting að sex tollskrárnúmer falli brott. Tvö þeirra eru í kafla 8519 sem ber heitið hljóðupptöku- eða hljóðflutningstæki. Þrjú þeirra eru í kafla 8528 sem ber heitið „skjáir og myndvörpur, án sjónvarpsmóttökubúnaðar; móttökutæki fyrir sjónvarp, einnig með útvarpsviðtæki eða hljóð- eða myndbandsupptökubúnaði eða flutningsbúnaði“. Heiti númers 8528.7101 er „móttökutæki fyrir sjónvarp, myndskjáir og myndvörpur fyrir sjónvarpsstarfsemi (eftir nánari skýrgreiningu og ákvörðun fjármálaráðuneytisins)“. Heiti númers 8528.7201 er „móttökutæki fyrir sjónvarp, myndskjáir og myndvörpur fyrir sjónvarpsstarfsemi (eftir nánari skýrgreiningu og ákvörðun fjármálaráðuneytisins)“. Heiti númers 8528.7301 er“móttökutæki fyrir sjónvarp, myndskjáir og myndvörpur fyrir sjónvarpsstarfsemi (eftir nánari skýrgreiningu og ákvörðun fjármálaráðuneytisins)“. Téð númer falla brott þar sem þau eru ekki lengur til í tollskrá. Vara sem féll áður undir ofangreind þrjú númer fer í tollskrárnúmer sem greint var frá hér að framan. Tvö númeranna eru í kafla 9007 sem ber heitið „kvikmyndavélar og kvikmyndasýningavélar, einnig með hljóðupptökutækjum eða hljóðflutningstækjum“. Heiti númers 9007.1100 er „filmur f. kvikmyndavélar og kvikmyndasýningarvélar (minna 16 mm breidd eða fyrir tvöfaldar 8 mm filmur)“. Heiti númers 9007.1900 er „aðrar kvikmyndavélar og kvikmyndasýningarvélar“. Þessi númer falla brott þar sem þau eru ekki lengur til í tollskrá. Að lokum er eitt númer í kafla 9800 sem ber heitið „myndvörpur, þó ekki kvikmyndasýningarvélar; ljósmyndastækkarar og ljósmyndasmækkarar (þó ekki fyrir kvikmyndir)“. Heiti númers 9008.3000 er „aðrir myndvarpar“. Númerið fellur brott þar sem það eru ekki lengur til í tollskrá.
    
Eftirlitsgjald vegna greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi (8. gr.).
    Nefndinni barst erindi þar sem lögð var til breyting á 8. gr. í því skyni að greinin endurspeglaði þær tekjur af eftirlitsgjaldi sem getið er um í fjárhagsáætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2015.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu til samræmis við tillögur Fjármálaeftirlitsins. Þær gera ráð fyrir að gildandi álagningarhlutföll viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, greiðslustofnana, rafeyrisfyrirtækja, vátryggingafélaga, vátryggingamiðlara, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlara, rekstrarfélaga verðbréfasjóða, fagfjárfestasjóða, lífeyrissjóða, Íbúðalánasjóðs og Lánasjóðs sveitarfélaga lækki. Tillagan tekur mið af rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2015 (sjá fylgiskjal) sem gerir ráð fyrir að kostnaður við rekstur embættisins nemi 1.987 millj. kr. á komandi ári. Í samræmi við 3. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er jafnframt tekið mið af áætluðum rekstrarafgangi stofnunarinnar í árslok 2014 að frádregnum varasjóði upp á 92,8 millj. kr. Innheimtunni er samkvæmt því ætlað að skila tekjum sem svara til um 1.637 millj. kr.
    
Gjalddagar aðflutningsgjalda.
    Meiri hlutinn leggur til að hefðbundnum gjalddögum aðflutningsgjalda, þ.m.t. virðisaukaskatts, vegna uppgjörstímabila á árinu 2015 verði dreift á tvo gjalddaga. Samhljóða breytingar hafa verið lögfestar allt frá árinu 2009, síðast með lögum nr. 21/2013. Þessu tímabundna úrræði var ætlað að bregðast við greiðsluerfiðleikum fyrirtækja eftir efnahagshrunið haustið 2008 sem hafa reynst langvinnari en vonir stóðu til í upphafi. Að óbreyttu hefði úrræðið fallið niður í lok þessa árs, enda hagur íslenskra fyrirtækja verið að vænkast síðustu árin. Vegna ábendinga úr atvinnulífinu sem telur sig hafa góða reynslu af þessu fyrirkomulagi er talið rétt að framlengja úrræðið til ársloka 2015 á meðan unnið verði að endurskoðun á gjaldfrestum í tengslum við heildarendurskoðun virðisaukaskattskerfisins.
    
Lækkun þaks vegna undanþágu vörugjalds af bílaleigubílum.
    Heimilt er að lækka vörugjald af ökutækjum samkvæmt undanþáguflokki í 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna. Undir þann flokk falla bifreiðar sem ætlaðar eru til útleigu hjá bílaleigum. Í 2. málsl. 3. mgr. 3. gr. laganna segir að lækkun á vörugjaldi samkvæmt framangreindum undanþáguflokki geti ekki numið hærri fjárhæð en 1.000.000 kr. Vegna betri stöðu bílaleiga leggur meiri hlutinn til að lækkun á vörugjaldi samkvæmt framangreindum undanþáguflokki geti ekki numið hærri fjárhæð en 500.000 kr.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 28. nóvember 2014.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Pétur H. Blöndal,
frsm.
Willum Þór Þórsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Unnur Brá Konráðsdóttir. Vilhjálmur Bjarnason.

Fylgiskjal I.


Fjármálaeftirlitið:

Rekstraráætlun 2015.
Skýrsla til fjármála- og efnahagsráðherra um áætlaðan
rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2015.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(16. apríl 2014.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.



Umsögn

um frumvarp til laga um ýmsar forsendur
frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Með tölvupósti dagsettum 8. október 2014 óskaði efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis eftir umsögn velferðarnefndar um þá þætti frumvarps til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015 sem heyra undir málefnasvið velferðarnefndar. Með tilliti til afmörkunar á málefnasviði velferðarnefndar í 7. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, tók nefndin einkum til skoðunar I. og VIII. – XII. kafla frumvarpsins
    Nefndin fjallaði um málið á þremur fundum og fékk til fundar við sig Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Kristinn Bjarnason og Döllu Ólafsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Björgu Ástu Þórðardóttur og Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Eyjólf Eysteinsson og Hauk Ingibergsson frá Landssambandi eldri borgara, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Ágúst Þór Sigurðsson, Einar Magnússon, Einar Njálsson, Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, Jón Fannar Kolbeinsson og Sturlaug Tómasson frá velferðarráðuneyti og Gissur Pétursson og Vigni Örn Hafþórsson frá Vinnumálastofnun.
    Skiptar skoðanir komu fram meðal gesta nefndarinnar á einstökum þáttum frumvarpsins. Meðal þess var gagnrýnt var frestun á framlagi ríkissjóðs til starfsendurhæfingarsjóða, sbr. 3. gr. frumvarpsins, og stytting bótatímabils atvinnuleysisbóta, sbr. X. kafla frumvarpsins. Í því tilliti kom meðal annars fram að stytting bótatímabils atvinnuleysisbóta gæti aukið útgjöld sveitarfélaga sökum aukinnar ásóknar í fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Fram kom að heimild fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra til að nýta fjármuni sjóðsins í rekstur hjúkrunarheimila, sbr. 13. gr. frumvarpsins, gæti rýrt getu hans til að standa að byggingu hjúkrunarheimila. Þá komu fram áhyggjur af færslu S-merktra og leyfisskyldra lyfja, sem oft eru kostnaðarsöm lyf, undir hið almenna greiðsluþátttökukerfi lyfja, sbr. 19. gr. frumvarpsins.
    Meiri hluti nefndarinnar telur tilefni til að efnahags- og viðskiptanefnd taki til athugunar fyrrgreind sjónarmið. Í þeim efnum telur meiri hluti nefndarinnar sérstakt tilefni til að efnahags- og viðskiptanefnd kanni færslu S-merktra og leyfisskyldra lyfja undir hið almenna greiðsluþátttökukerfi lyfja. Að öðru leyti gerir meiri hluti velferðarnefndar ekki efnislegar athugasemdir við frumvarpið.


Alþingi, 19. nóvember 2014
Þórunn Egilsdóttir, varaform.
Birgir Ármannson.
Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Unnur Brá Konráðsdóttir.
Brynjar Níelsson.

Fylgiskjal III.



Umsögn

um frumvarp til laga um ýmsar forsendur
frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015.

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Minni hluti velferðarnefndar gerir verulegar athugasemdir við þær áherslur sem birtast í frumvarpinu. Frumvarpið boðar veikingu velferðarsamfélagsins. Í því felst að ríkið dragi úr framlögum sínum til velferðarmála. Þess í stað skal velta kostnaði á einstaklinga og skerða réttindi þeirra. Minni hlutinn telur þá þætti frumvarpsins sem lúta að málaflokkum nefndarinnar illa ígrundaða, ólíklega til að ná fram tilætluðum sparnaði í ríkisrekstri og til þess fallna að veikja stoðir velferðarkerfisins og bitna á þeim sem síst skyldi: atvinnulausum, öldruðum og sjúklingum.

Starfsendurhæfingarsjóðir.
    Í frumvarpinu er lagt til að framlengja ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Í því felst niðurfelling á því framlagi ríkissjóðs til starfsendurhæfingarsjóða 2015 sem gert er ráð fyrir í 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. a laga um tryggingagjald.
    Líkt og lýst er í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, byggist framlag ríkissjóðs til starfsendurhæfingarsjóða á yfirlýsingum ríkisstjórna í tengslum við kjarasamninga 2008 og 2011. Framlag ríkissjóðs 2014 var fellt niður samkvæmt óformlegu samkomulagi við aðila vinnumarkaðar. Ekki liggur fyrir slíkt samkomulag nú og telur minni hlutinn alvarlegt að slíkar breytingar séu gerðar án samráðs.
    Samkvæmt umsögn VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs, eina starfandi starfsendurhæfingarsjóðs samkvæmt lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, til efnahags- og viðskiptanefndar mun niðurfelling á framlagi ríkissjóðs 2015 fela í sér að sjóðurinn geti ekki á því ári tekið við einstaklingum sem ekki er greitt fyrir í sjóðinn. Fyrir vikið verði því ekki fyrir hendi eitt heildarkerfi atvinnutengdrar starfsendurhæfingar með jöfnum aðgangi fyrir alla einstaklinga sem þurfi á þjónustunni að halda. Minni hluti nefndarinnar er því á móti því að ríkissjóður felli niður framlög til starfsendurhæfingarsjóða 2015 enda mun það leiða til mismununar og veikja enn frekar stöðu fólks sem er utan vinnumarkaðar.

Framlög vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga.
    Í 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að ákvæði til bráðabirgða XVI í lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, verði framlengt. Ákvæðið byggist á 4. gr. viðauka við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða.
    Fram hefur komið af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga að sveitarfélög telji þá hækkun álagningarhlutfalls útsvars sem fyrrnefnt bráðabirgðaákvæði mælir fyrir um ekki nægjanlega. Nú standi yfir viðræður um endurmat á faglegum og fjárhagslegum forsendum yfirfærslunnar. Minni hluti velferðarnefndar leggur áherslu á að þeirri vinnu sé flýtt eftir því sem kostur er á, enda um mikið hagsmunamál fyrir fatlað fólk að ræða.

Framkvæmdasjóður aldraðra.
    Í frumvarpinu er lagt til að framlengja ákvæði til bráðabirgða VII í lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, um að heimilt sé að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraða til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða, sbr. 13. gr. frumvarpsins.
    Minni hluti nefndarinnar leggst gegn framlengingunni. Brýn þörf er á uppbyggingu dvalar- og hjúkrunarheimila fyrir aldraða. Nauðsynlegt er að nýta fé Framkvæmdasjóðs aldraðra í því skyni til samræmis við lögbundið hlutverk sjóðsins, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um málefni aldraðra. Það er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að fjármála- og efnahagsráðherra hefur lýst andstöðu við að áfram verði farin svokölluð leiguleið til að fjármagna uppbyggingu dvalar- og hjúkrunarheimila.

Atvinnuleysistryggingar.
    Í frumvarpinu er lagt til að stytta það tímabil sem atvinnulausir eiga rétt á atvinnuleysisbótum um sex mánuði, úr þremur árum í tvö og hálft, sbr. X. kafla frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að skerðingin leiði til þess að útgjöld ríkisins vegna greiðslu atvinnuleysisbóta lækki um 1.130 millj. kr. á árinu 2015.
    Skerðingin mun bitna á þeim hópi atvinnuleitenda sem skilgreinast sem langtímaatvinnulausir. Atvinnuleysi jókst mjög í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Sú aukning hefur ekki gengið að fullu til baka, þótt dregið hafi úr atvinnuleysi á síðustu árum. Hlutfall þeirra sem hafa verið í atvinnuleit lengur en 12 mánuði hefur hækkað í kjölfar hrunsins. Samkvæmt félagsvísum Hagstofu Íslands eru atvinnulausir ásamt öryrkjum og einstæðum foreldrum sá hópur samfélagsins sem er í mestri hættu á að líða skort á efnislegum lífsgæðum. 1 Árið 2013 bjuggu þannig 21,5% atvinnulausra við skort á efnislegum lífsgæðum. Stór hluti þess hóps sem missir rétt til atvinnuleysisbóta, verði af skerðingunni, mun þurfa að reiða sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Sú aðstoð nemur almennt lægri fjárhæðum en atvinnuleysisbætur og lýtur stífari skilyrðum. Verði af skerðingunni er því fyrirsjáanlegt að staða þessa fólks og fjölskyldna þeirra versni enn frekar. Þá stendur til að breytingarnar komi til framkvæmda með mjög stuttum fyrirvara. Atvinnuleitendum er því veittur skammur fyrirvari til að búa sig undir þær.
    Samband íslenskra sveitarfélaga áætlar að hreinn kostnaðarauki sveitarfélaga vegna aukinnar ásóknar í félagsaðstoð sveitarfélaga sökum skerðingarinnar geti verið um 500 millj. kr.
    Framangreint sýnir að áætlaður sparnaður ríkisins endurspeglar ekki þjóðfélagslegan ábata. Sparnaður ríkisins, verði af skerðingunni, verður á kostnað atvinnuleitenda og sveitarfélaga. Minni hlutinn leggst því alfarið gegn þessari skerðingu.
    Minni hluti nefndarinnar átelur einnig vinnubrögð við undirbúning tillögunnar. Af hálfu sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar hefur komið fram að skort hafi samráð við þau um skerðinguna. Samband íslenskra sveitarfélaga og verkalýðshreyfingin hafa lýst óánægju með fyrirhugaða skerðingu. Þá upplýstu gestir sem komu fyrir nefndina að ekki lægi fyrir greining á áhrifum hennar. Hér væri einungis um sparnaðaraðgerð að ræða.
    
Breytingar á lögum um sjúkratryggingar.
Hækkun viðmiðunarfjárhæða í greiðsluþátttökukerfi almennra lyfja.
    Fyrir nefndinni kom fram að ekki stæði til að hækka viðmiðunarfjárhæðir í greiðsluþátttökukerfi almennra lyfja að því marki sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015. Minni hlutinn fagnar því. Hins vegar var upplýst að þeim 200 millj. kr. sparnaði sem átti að ná með hækkun viðmiðunarfjárhæðanna ætti þess í stað að ná fram með auknu lyfjaeftirliti og hækkun á þaki í greiðsluþátttökukerfinu í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga. Minni hlutinn bendir á að til að sá sparnaður náist og lyfjaeftirlit embættis landlæknis sé fullnægjandi þurfi að tryggja embættinu aukna fjárveitingu til eftirlits og nauðsynlegar lagaheimildir.

Greiðsluþátttaka í S-merktum lyfjum.
    Í frumvarpinu er lagt til að svokölluð S-merkt lyf, eða sjúkrahúslyf, verði færð undir almenna greiðsluþátttökukerfið, sbr. 19. gr. frumvarpsins. Hingað til hefur kostnaður vegna þeirra alfarið verið greiddur úr ríkissjóði. Breytingin á ekki að ná til þeirra lyfja sem gefin eru inni á deildum sjúkrahúsa. Greiðsluþátttakan mun hins vegar eiga við þau S-merktu lyf sem ávísað er til notkunar utan sjúkrahúsa.
    Ljóst er að breytingin mun auka greiðslubyrði sjúklinga með ákveðna sjúkdóma umtalsvert. Við frumvarpsgerðina hefur þó ekki verið greint nákvæmlega hvernig greiðslubyrði muni breytast miðað við mismunandi sjúkdóma og mismunandi hópa sjúklinga. Komið hefur fram fyrir nefndinni að sparnaðurinn sem áætlaður er við þessar breytingar sé óviss því að ekki liggi fyrir slík greining. Minni hluti nefndarinnar átelur þessi vinnubrögð og mælir ekki með að S-merkt lyf séu færð undir greiðsluþátttökukerfið á svo veikum grunni og þar sem ávinningur þess er jafn óljós og raun ber vitni.
    Þá kom fram hjá gestum nefndarinnar að nýtt afgreiðslufyrirkomulag S-merktra lyfja sé í lausu lofti. Gert er ráð fyrir að lyfsalar muni nú sjá um dreifingu þeirra S-merktu lyfja sem ekki eru gefin á sjúkrahúsum. Samráð við lyfsala hafi verið lítið og ekki liggi fyrir hvernig lyfsalar eigi að geta fengið þann afslátt í innkaupum lyfjanna sem ríkið getur fengið samkvæmt lögum. Þá er óljóst hvort kostnaður vegna rýrnunar á þessum dýru lyfjum (vegna flutninga eða annars) eigi að lenda á smásölunni. Ljóst má þykja að lyfsalar óska ekki eftir að taka einir á sig þá áhættu í rekstri sem fylgir því að dreifa og selja svo dýr lyf sem S-merkt lyf eru. Hætt er við að aukin hlutdeild í kostnaðinum lendi því á sjúklingum.

Alþingi, 20. nóvember 2014.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, form.
Björt Ólafsdóttir, varaform.
Guðbjartur Hannesson.
Steinunn Þóra Árnadóttir.

Neðanmálsgrein: 1
1     Hagstofa Íslands: Félagsvísar: Skortur á efnislegum lífsgæðum 2004–2013. Reykjavík 2014, bls. 9.