Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 628  —  420. mál.



Frumvarp til laga

um heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við Thorsil ehf.
um kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ.

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Ráðherra er veitt heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Thorsil ehf., kt. 500210-1250, sem undirritaður var 30. maí 2014. Samningurinn er birtur sem fylgiskjal með lögum þessum og hefur lagagildi hér á landi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.



Fylgiskjal.


FJÁRFESTINGARSAMNINGUR

MILLI

RÍKISSTJÓRNAR ÍSLANDS

OG

THORSIL EHF.



    Fjárfestingarsamningur þessi er gerður hinn 30. maí 2014 („fjárfestingarsamningurinn“ eða „samningurinn“), af hálfu og á milli:

    Ríkisstjórnar Íslands (hér eftir „ríkisstjórnin“), sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra kemur fram fyrir, með aðsetur að Skúlagötu 4, 150 Reykjavík, og

    Thorsil ehf., sem er einkahlutafélag, rekið samkvæmt íslenskum lögum, kt. 500210-1250, og er með skráð aðsetur að Suðurlandsbraut 30, 108 Reykjavík (hér eftir „félagið“).

    Sameiginlega eru framangreindir einnig nefndir „aðilar“ og hvor í sínu lagi „aðili“.

    Ríkisstjórnin og félagið hafa komist að grundvallarsamkomulagi varðandi framkvæmd verkefnis um kísilver í Helguvík („verkefnið“) eftir því sem reglur um ríkisaðstoð heimila.

    Ríkisstjórnin hefur einsett sér að auka nýfjárfestingar sem stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi á Íslandi og jákvæðum efnahagslegum áhrifum á byggðaþróun og þjóðarbúið í heild sinni.

    Ríkisstjórnin vill styðja við og greiða fyrir því að verkefnið sem einkahlutafélagið Thorsil ehf. hyggst fara af stað með verði að veruleika þar sem niðurstöður sýna eftir tilhlýðilega könnun á hagkvæmni verkefnisins við núverandi og fyrirsjáanlegar efnahagsaðstæður að það geti haft jákvæð samfélags- og efnahagslega áhrif fyrir þjóðarbúið og þá sérstaklega Reykjanesbæ og nærsveitarfélög. Aðilum er því orðið ljóst að til þess að tryggja að verkefnið verði að veruleika sé nauðsynlegt að þeir geri með sér fjárfestingarsamning þennan með það fyrir augum að leggja þann samningsgrunn sem nauðsynlegur er til þess að hrinda verkefninu í framkvæmd.

    Samþykkja því aðilar hér með að inngangsorðin að fjárfestingarsamningi þessum séu óaðskiljanlegur hluti hans og gera enn fremur með sér eftirfarandi samning:

1. gr.
Uppbygging, tilgangur og undanþágur.

1.1.     Félagið sem mun eiga og reka kísilver á Íslandi hefur verið stofnað í samræmi við íslensk lög, sbr. lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
1.2.     Tilgangur félagsins er að byggja og reka kísilver í Helguvík á Reykjanesi en ársframleiðslugetan er áætluð 54.000 tonn af kísilmálmi.
1.3.     Allur tækjabúnaður verður nýr eða nýlegur og félagið stefnir að því að hefja starfsemi sem fyrst og skapa atvinnu á svæðinu.
1.4.     Félagið skal undanþegið ákvæðum 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, þar sem krafist er að 4/5 hlutar hlutafjár í hlutafélagi skuli vera eign íslenskra ríkisborgara, að íslenskir ríkisborgarar skuli fara með meirihluta atkvæða á hluthafafundi og að stjórnendur allir skuli vera íslenskir ríkisborgarar.
1.5.     Félagið skal undanþegið ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, þar sem þess er krafist að meirihluti stjórnarmanna og framkvæmdastjóri hlutafélags skuli vera búsettir á Íslandi, svo og sambærilegum ákvæðum er kunna síðar að verða leidd í lög.
1.6.     Ríkisstjórnin mun tryggja að félagið njóti þeirra réttinda og ávinnings sem leiðir af fjárfestingarsamningi þessum og að engar ráðstafanir verði gerðar sem kynnu að takmarka eða hafa önnur neikvæð áhrif á framkvæmd verkefnisins og starfsemi félagsins eða með öðrum hætti hindra að félagið njóti þeirra réttinda og ávinnings sem leiðir af fjárfestingarsamningi þessum.

2. gr.
Framsal eignarhluta.

2.1.     Samþykki ríkisstjórnarinnar er áskilið fyrir framsali eignarhluta í félaginu þar til og eftir að starfsemi er hafin af hálfu kísilversins. Ekki skal synja um eða draga slíkt leyfi með ósanngjörnum hætti og ekki þarf slíkt leyfi þegar um er að ræða:
     a.      framsal minnihlutaeignar, sem ekki er umfram 49% í heild, til félags eða félaga sem skráð eru í ríkjum innan OECD, eða
     b.      veðsetningu allra eða einhverra slíkra hluta til tryggingar láni sem veitt er félaginu eða dótturfélögum þess og/eða félaginu til að auðvelda þeim að framkvæma verkefnið, eða sölu slíkra hluta við fullnustu samkvæmt slíkri veðsetningu til fyrirtækis/fyrirtækja í ríki innan OECD.
2.2.     Við framsal hlutdeildar í félaginu skal framsalshafinn verða aðili að samningi þessum á grundvelli útgáfunnar eða framsalsins, og skal hann staðfesta það berum orðum með því að undirrita og afhenda ríkisstjórninni skriflega yfirlýsingu á því formi sem ríkisstjórnin getur fallist á þar sem aðilinn, sem fékk eignarhlutann framseldan, samþykkir alla skilmála og ákvæði samnings þessa og skuldbindur sig til að hlíta þeim í einu og öllu.

3. gr.
Starfsemi.

3.1.     Félagið stefnir að því að hefja framleiðslu á árinu 2017 og að fullum afköstum í starfseminni verði náð á því ári.
3.2.     Reynist nauðsynlegt fyrir félagið að fá frá ríkisstjórninni samþykki eða leyfi, sem ekki hafa fengist eða ekki er þörf á þann dag sem samningur þessi er undirritaður, skal ríkisstjórnin gera það sem í hennar valdi stendur til þess að aðstoða félagið við að öðlast slíkt samþykki eða leyfi í samræmi við landslög.

4. gr.
Meginreglur og framkvæmd skattlagningar.

4.1.     Félagið skal greiða skatta og önnur opinber gjöld, sem almennt eru lögð á á Íslandi, í samræmi við reglur sem gilda um slík gjöld hverju sinni, nema kveðið sé á um annað í samningi þessum.
4.2.     Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á, sem í gildi eru hverju sinni og varða skattframtöl og framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og útsvar, svo og um andmæli og deilur í tengslum við þau, skulu gilda um félagið, nema kveðið sé á um annað í samningi þessum.

5. gr.
Skattar og opinber gjöld.

5.1.     Þrátt fyrir ákvæði í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og breytingar sem síðar kunna að verða á þeim lögum skal félagið:
     a.      Greiða 15% tekjuskatt. Lækki hið almenna tekjuskattshlutfall á tímabilinu niður fyrir framangreint hlutfall skal hið lægra tekjuskattshlutfall gilda um félagið.
     b.      Fastafjármunir sem tengjast félaginu teljast vera byggingar, vélar og almennir rekstrarfjármunir með föstu hlutfalli, sem skulu flokkaðir skv. 37. og 38. gr. laga nr. 90/2003. Fyrning skal ákvörðuð með þeim hætti sem kveðið er á um í 4. mgr. 5. gr. í samningi þessum.
5.2.     Almennt tryggingagjald, sem félagið greiðir, skal vera 50% lægra en það sem kveðið er á um í 3. mgr. 2. gr. laga um tryggingagjald eins og þau eru og verða á samningstímanum.
5.3.     Hlutfall fasteignaskatts, sem félagið greiðir, skal vera 50% lægra en lögbundið hámark að viðbættu álagi skv. II. kafla laga nr. 4/1995. Sama regla skal gilda við breytingar sem síðar kunna að verða á þeim lögum.
5.4.     Á því ári sem nýjar eignir eru teknar í notkun getur félagið valið að fyrna þær eignir með hlutfalli árlegrar fyrningar í stað heils árs fyrningar eins og annars er kveðið á um í 34. gr. laga nr. 90/2003. Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. laga nr. 90/2003 er félaginu heimilt að fyrna eignir sínar þannig að ekki standi eftir niðurlagsverð.
5.5.     Ákvæði þessarar greinar skulu halda fullu gildi í 10 ár frá þeim tíma sem til viðkomandi skattskyldu eða gjaldskyldu er stofnað af hálfu félagsins, en þó aldrei lengur en í 13 ár frá gildistöku samningsins, þrátt fyrir síðari breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, eða öðrum lögum sem annars kynnu að takmarka eða draga úr áhrifunum sem stefnt er að með ákvæðum greinarinnar.
5.6.     Ekki skal leggja á ný gjöld eða skatta sem varða rafmagnskaup og/eða raforkunotkun félagsins, nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur félög á Íslandi.
5.7.     Ekki skal leggja á skatta eða gjöld sem varða útblástur eða mengun, eða losun lofttegunda eða urðun úrgangs, nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur félög á Íslandi.
5.8.     Gatnagerðargjald, sem félagið greiðir, skal vera 30% lægra en það sem kveðið er á um í gjaldskrá Reykjaneshafnar.

6. gr.
Aðflutningsgjöld.

6.1.     Innflutningur eða innkaup innanlands af hálfu eða fyrir hönd félagsins á byggingarefnum, hráefnum og öllum öðrum framleiðsluaðföngum, sem nauðsynleg eru til byggingar verksmiðjunnar og reksturs hennar, vélum og búnaði og öðrum framleiðslutækjum og varahlutum í verksmiðjuna og til reksturs hennar, skulu undanþegin aðflutningsgjöldum skv. tollalögum, nr. 88/2005, og lögum nr. 97/1987, um vörugjald, svo og hvers kyns efnislega svipuðum sköttum og gjöldum sem kynnu að verða lögð á til viðbótar við eða í staðinn fyrir slík gjöld.
6.2.     Félaginu verður veittur frestur til greiðslu á virðisaukaskatti á innflutning (tollkrít) skv. lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, fram að gjalddaga fyrir endurgreiðslu vegna viðkomandi uppgjörstímabils.
6.3.     Ákvæði þessarar greinar skulu halda fullu gildi í tíu ár frá þeim tíma sem til viðkomandi skattskyldu eða gjaldskyldu er stofnað af hálfu félagsins, en þó aldrei lengur en í 13 ár frá gildistöku samningsins þrátt fyrir síðari breytingar á tollalögum, nr. 88/2005, eða lögum nr. 97/1987, um vörugjald, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eða öðrum lögum eða afleiddum lögum sem annars kynnu að takmarka eða draga úr áhrifunum sem stefnt er að með ákvæðum 1. og 2. mgr.

7. gr.
Hámark ríkisstyrkja.

7.1.     Hámark styrkhæfrar ríkisaðstoðar samkvæmt ákvæðum 5. og 6. gr. samnings þessa skal vera 769,4 milljónir íslenskra króna að núvirði.

8. gr.
Reikningsskilareglur.

8.1.     Ársreikningar félagsins skulu gerðir og þeim skilað til ársreikningaskrár í samræmi við lög nr. 3/2006, um ársreikninga.
8.2.     Óski félagið eftir að starfrækslugjaldmiðill félagsins sé í erlendri mynt skal sótt um það til ársreikningaskrár.

    9. gr.
    Endurskoðun skattafyrirkomulags.

9.1.     Á samningstímanum er félaginu heimilt að velja þann kost að lúta almennum íslenskum skattalögum, sem í gildi eru hverju sinni. Beiðni um slíka breytingu má leggja fram með skriflegri tilkynningu eigi síðar en 1. júní þess almanaksárs sem fer á undan því almanaksári sem breytingin á að taka gildi. Berist slík tilkynning skulu aðilar þegar ganga til samninga um breytinguna yfir í hið almenna skattkerfi skv. tilvitnuðum lögum. Aðilar skulu koma sér saman um aðferðir við framkvæmd slíkrar breytingar. Eftir það skal félagið lúta þessum skattalögum það sem eftir er af gildistíma samningsins.

10. gr.
Birting samningsins.

10.1.     Samningur þessi skal birtur í heild sinni í B-deild Stjórnartíðinda á Íslandi strax eftir undirritun hans af hálfu aðila. Birting samningsins skal ekki vera skilyrði fyrir gildistöku hans. Framangreint skal eiga við á sama hátt um hvers kyns breytingar á samningi þessum sem aðilar kunna síðar að gera á samningnum í samræmi við ákvæði hans.

11. gr.
Fyrirheit ríkisstjórnarinnar.

11.1.     Ríkisstjórnin mun gera allar ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að tryggja að félagið njóti allra þeirra réttinda og ávinnings sem leiðir af samningi þessum og að engar ráðstafanir verði gerðar sem kynnu að takmarka eða hafa önnur neikvæð áhrif á framkvæmd verkefnisins og starfsemi félagsins í tengslum við verkefnið að öðru leyti.

12. gr.
Lög sem gilda og deilumál.

12.1.     Um samning þennan og túlkun hans gilda íslensk lög.

13. gr.
Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið.

13.1          Tilgangur félagsins er að framleiða vöru sem fellur innan vörusviðs EES-samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993. Í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins að EES-rétti taka ríkisstyrkjareglur EES-samningsins til starfseminnar. Þar af leiðandi verður ákvörðun um fjárfestinguna ekki tekin fyrr en sú ríkisaðstoð sem í samningi þessum felst hefur verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA og stofnunin hefur fallist á að ríkisaðstoðin samrýmist EES-samningnum.

14. gr.
Óviðráðanleg öfl (force majeure).

14.1.     Í samningi þessum eru óviðráðanleg öfl hér með skilgreind á þann veg að þau taki til ófriðar, hersetu, uppreisna, fjöldauppnáms, skemmdarverka, geislavirkni, farsótta, sprenginga, eldsvoða, jarðskjálfta, eldgosa, storma, flóða, mikillar ísingar, þurrka, eldinga, sóttkvía, flutningsbanna, almennrar stöðvunar á flutningum eða siglingum, eða hvers kyns ámóta tilvika sem ekki er unnt að koma í veg fyrir eða hafa stjórn á með eðlilegum ráðum af hálfu þess aðila sem fyrir verður. Óviðráðanleg öfl skulu einnig taka til allsherjarverkfalla, staðbundinna verkfalla, viðskiptabanna, verkbanna eða ámóta vinnutruflana á Íslandi eða annars staðar sem aðili sá á Íslandi, sem ber fyrir sig óviðráðanleg öfl og fyrir slíku verður, hefur ekki getað komið í veg fyrir eða haft stjórn á þótt hann hefði beitt öllum eðlilegum ráðum, sem honum voru tiltæk (þó með þeim fyrirvara að engum aðila er skylt að leysa slíkar vinnudeilur), en eingöngu um þann tíma sem aðilanum var ókleift að binda enda á ástandið með öllum raunhæfum ráðum sem honum voru tiltæk.
14.2.     Eigi skal misbrestur eða aðgerðaleysi af hálfu aðila um að efna nokkra skuldbindingu sína samkvæmt samningi þessum teljast vanefnd á slíkri skuldbindingu ef og að því leyti sem slíkur misbrestur eða aðgerðaleysi er af völdum óviðráðanlegra afla.
14.3.     Sá aðili sem bera vill fyrir sig óviðráðanleg öfl samkvæmt þessari grein skal hafa sönnunarbyrði um tilvist slíkra óviðráðanlegra afla. Misbrestur eða aðgerðaleysi skal aðeins teljast vera af völdum óviðráðanlegra afla að sá aðili, sem hlut á að slíkum misbresti eða aðgerðaleysi, sanni (a) að misbrestur hans eða aðgerðaleysi sé bein afleiðing af óviðráðanlegum öflum eins og þau eru skilgreind í 1. mgr. þessarar greinar og (b) að hann hafi sýnt hæfilega aðgæslu og gripið til allra annarra ráða, sem eðlileg mega teljast, til þess að forðast slíkan misbrest eða aðgerðaleysi.
13.4.     Sérhver aðili samnings þessa skal tafarlaust tilkynna hinum um óviðráðanleg öfl sem valda misbresti eða aðgerðaleysi um að efna eigin skuldbindingar hans samkvæmt samningi þessum. Jafnframt skal sá aðili gera allar raunhæfar ráðstafanir til að draga úr áhrifum af misbresti eða aðgerðaleysi að efna eigin skuldbindingar að fullu. Sá aðili sem ber fyrir sig óviðráðanleg öfl skal tilkynna hinum aðilanum þegar viðkomandi aðstæður af völdum óviðráðanlegra afla eru ekki lengur fyrir hendi og gera allar raunhæfar ráðstafanir, sem í hans valdi standa, til að hefjast handa um að efna að nýju skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum með sem minnstum mögulegum töfum.

15. gr.
Framsal.

15.1.     Réttindi og skyldur samkvæmt samningi þessum verða ekki framseld, þeim afsalað eða falin öðrum án samþykkis gagnaðila nema slíkt sé sérstaklega heimilað í einstökum ákvæðum samningsins. Ekki skal tefja eða synja um slíkt samþykki með ósanngjörnum hætti.
15.2.     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þessarar greinar er félaginu heimilt að framselja réttindi og skyldur samkvæmt samningi þessum, án samþykkis ríkisstjórnarinnar, til fjármálastofnana sem tryggingu fyrir fjármögnun er tengist verkefninu. Þetta er gert með þeim áskilnaði að verði gengið að tryggingunni skuli gerður beinn samningur milli ríkisstjórnarinnar og viðkomandi fjármálastofnana, og skal ríkisstjórnin samþykkja framsal réttinda og skyldna félagsins samkvæmt samningi þessum til fjármálastofnana, sem eru veðhafar, eða frekari sölu af hálfu fjármálastofnananna til aðila sem eignast hlut félagsins í verkefninu og uppfylla þau skilyrði sem almennt eru gerð til eigenda sambærilegra fjárfestingarverkefna.

16. gr.
Breytingar og endurskoðun.

16.1.     Samningi þessum má aðeins breyta með viðaukasamningi sem aðilar gera með sér skriflega.
16.2.     Við gerð samnings þessa viðurkenna aðilar að ekki sé raunhæft að hyggjast setja fram ákvæði um hvernig bregðast skuli við öllu því sem upp getur komið á gildistíma hans. Lýsa aðilar yfir þeim ásetningi sínum að samningnum verði beitt með sanngirni í skiptum þeirra og án þess að hagsmunir hvors þeirra um sig bíði tjón af, þegar tekið er tillit til þess hvernig skipt er því hagræði og þeirri áhættu sem af honum leiðir.

17. gr.
Þjálfunaraðstoð.

17.1.     Með fyrirvara um sérstaka heimild í fjárlögum samkvæmt ákvörðun Alþingis skal félagið eiga rétt á þjálfunaraðstoð vegna kostnaðar við þjálfun í tengslum við verkefnið, allt að 2 milljónum evra, enda veiti félagið ríkisstjórninni fullnægjandi sönnun, að sanngjörnu mati ríkisstjórnarinnar, á raunverulegum kostnaði vegna þjálfunar starfsmanna í tengslum við verkefnið. Veiting þjálfunaraðstoðar til verkefnisins er ennfremur háð því að uppfyllt séu skilyrði í reglum EES-réttar um þjálfunaraðstoð sem fram koma í reglugerð um almenna hópundanþágu (GBER).
17.2.     Þar sem um er að ræða nýjan iðnað á Íslandi og verkþekking ekki til í landinu er þjálfunarstyrkur skv. fyrstu málsgrein félaginu mjög mikilvægur. Ríkisstjórnin mun eftir fremsta megni leitast við að fá heimild í fjárlögum 2016 fyrir þjálfunaraðstoðinni, enda hefjist þjálfun starfsmanna haustið 2016.

18. gr.
Tilkynningar.

18.1.     Hvers kyns tilkynningar, sem áskildar eru eða heimilaðar samkvæmt samningi þessum, skulu sendar bréfleiðis eða með tölvupósti með sannanlegum hætti með eftirfarandi utanáskrift:

Til ríkisstjórnarinnar:
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
Skúlagata 4
150 Reykjavík

Til félagsins:
Thorsil ehf.
Suðurlandsbraut 30
108 Reykjavík
Ísland

eða með annarri utanáskrift, tölvupóstfangi og/eða bréfsímanúmeri, sem viðkomandi aðili kann að tilkynna hinum aðilunum um með þeim hætti sem kveðið er á um hér að framan.
18.2.     Aðili, sem rétt á til tilkynningar, sem krafist er eða heimiluð í samningi þessum, getur afsalað sér þeim rétti skriflega, hvort sem er fyrir eða eftir að hennar er krafist eða hún heimiluð.
18.3.     Tilkynningar samkvæmt samningi þessum skulu teljast hafa verið veittar þegar tíu (10) almanaksdagar eru liðnir frá póstlagningu eða tveir (2) dagar frá sendingu með bréfasíma, enda hafi í tilvikum þegar um símbréf er að ræða í raun borist staðfesting á tilkynningunni með ábyrgðarbréfi. Tilkynning með tölvupósti telst gefin á þeim degi sem móttakandi svarar.

19. gr.
Ýmis ákvæði.

19.1.     Fjárfestingarsamningur þessi skal undirritaður í tveimur (2) eintökum, eitt fyrir hvorn aðila. Hvort eintak telst frumeintak og eru þau jafngild.
19.2.     Til tryggingar á réttri notkun ívilnana skv. samningi þessum ber félaginu að senda atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti árlega skýrslu um framvindu fjárfestingarverkefnisins, hlut ívilnunar í framgangi þess, samtals fjárhæð veittrar ríkisaðstoðar á undanförnu ári og tilgreiningu á annarri starfsemi aðila ef einhver er. Ráðuneytið getur óskað þess að löggiltur endurskoðandi staðfesti þær upplýsingar sem félagið sendir ráðuneytinu í þessu skyni.
19.3.     Fella ber niður ívilnanir skv. samningi þessum og endurkrefja um þegar veitta ívilnun komi í ljós að félagið eða fjárfestar hafi vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða leynt upplýsingum sem höfðu áhrif á veitingu ívilnunarinnar. Endurkrefja ber um ívilnun ef hún hefur verið nýtt til annarra hluta en fjárfestingarverkefnis þess sem var forsenda veitingar hennar.
19.4.     Komi í ljós að ívilnun skv. samningi þessum er komin umfram það hámark sem kveðið er á um, sbr. 7. gr., lögum um fullgildingu samningsins eða í samræmi við það hámark sem heimilað er skv. ríkisstyrkjareglum EES-samningsins skal endurkrefja félagið um þann hlut sem umfram er og stöðva veitingu frekari ívilnunar.
19.5.     Ef ákvörðun um ívilnun er afturkölluð samkvæmt grein þessari eða í kjölfar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA um ólögmæta ríkisaðstoð skulu aðilar í sameiningu leitast við að endursemja þennan fjárfestingarsamning og nota til þess allar leyfilegar aðferðir með það að markmiði að takmarka áhrif þess á félagið.
19.6.     Verði fjárfestingarverkefnið ekki að veruleika eða ef starfsemi félagsins verður verulega frábrugðin því fjárfestingarverkefni sem samningur þessi miðar við innan fimm ára frá gildistöku samnings þessa skal félagið endurgreiða allar þær ívilnanir og ríkisaðstoð sem félaginu hefur verið veitt á grundvelli þessa samnings.

20. gr.
Gildistaka og samningstími.

20.1.     Fjárfestingarsamningur þessi öðlast gildi þegar:
    A.     Alþingi hefur, með lögum, veitt iðnaðar- og viðskiptaráðherra heimild til að fullgilda samning þennan og skal því vera lokið eins fljótt og verða má.
    B.     Þegar Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt samþykki sitt fyrir veitingu þeirrar ríkisaðstoðar sem samningurinn kveður á um.
20.2     Fjárfestingarsamningur þessi gildir í 13 ár frá því að hann öðlast gildi skv. 1. mgr., með þeirri undantekningu að sérstök ákvæði eru um tímamörk ívilnunar vegna skatta og gjalda í 5. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 6. gr. samningsins.




ÞESSU TIL STAÐFESTU hefur samningur þessi verið undirritaður fyrir hönd ríkissjóðs og félagsins þann dag sem í upphafi greinir, í tveimur eintökum.


Fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands,



________________________________________
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra



Thorsil EHF.

Fyrir hönd stjórnar



________________________________________
John Fenger


________________________________________
Eyþór Arnalds




Vottar:


________________________________________



________________________________________


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með frumvarpi þessu er lagt til að ríkisstjórn Íslands og iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir hennar hönd verði veitt heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við félagið Thorsil ehf. um kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ en samningurinn var undirritaður 30. maí 2014. Samningurinn er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka nýfjárfestingu á Íslandi, með áherslu á verkefni sem hafa jákvæð efnahagsleg áhrif í framtíðinni og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi. Í þessu skyni hefur ríkisstjórnin einsett sér að styðja við stofnun nýrra útflutningsgreina á Íslandi sem hafa jákvæð heildaráhrif á samfélag og efnahag.

II. Tilefni og nauðsyn.
II.I. Ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.
    Hinn 3. júlí 2010 gengu í gildi lög nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, en markmið þeirra laga var að efla nýfjárfestingu í atvinnurekstri, samkeppnishæfni Íslands og byggðaþróun með því að tilgreina hvaða ívilnanir heimilt væri að veita vegna nýfjárfestinga hér á landi og hvernig þeim skuli beitt. Á grundvelli laganna var iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um aðkomu ríkisins og, eftir atvikum, sveitarfélaga vegna nýfjárfestinga hér á landi. Með lögunum var horfið frá því fyrirkomulagi að samþykkja sérlög um ívilnanir fyrir einstök fyrirtæki, en fyrir gildistíma laganna höfðu nokkur slík sérlög verið samþykkt. Í því sambandi má m.a. nefna lög nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, lög nr. 12/2003, um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, lög nr. 51/2009, um heimild til samninga um álver í Helguvík, og lög nr. 57/2010, um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ. Eftir að lög nr. 99/2010 tóku gildi voru staðfestir sex fjárfestingarsamningar á grundvelli laganna og einn fjárfestingarsamningur á grundvelli sérlaga, laga nr. 52/2013, um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi. Í lok árs 2013 féllu lög nr. 99/2010 úr gildi og síðan þá hefur íslenska ríkið staðfest einn samning á grundvelli sérlaga, sbr. lög nr. 58/2014, við félagið Algalíf Iceland ehf.
    Í framangreindum lögum er kveðið á um að þar tilgreind félög, sem stofnuð eru um viðkomandi fjárfestingarverkefni, skuli greiða skatta og önnur opinber gjöld, sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er mælt í þeim lögum. Er síðan með tæmandi hætti talið upp hvaða skattalegu frávik gilda fyrir viðkomandi félög, með sams konar hætti og talið er upp í fjárfestingarsamningum sem gerðir voru við fyrrgreind félög.
    Frá því að lög nr. 99/2010 féllu úr gildi hefur ekki verið til að dreifa tækri lagaheimild til að veita ívilnanir til nýfjárfestingarverkefna án sérstakrar lagaheimildar frá Alþingi. Af þeirri ástæðu er fjárfestingarsamningurinn við Thorsil ehf. lagður fram til meðferðar á Alþingi um heimild til handa iðnaðar- og viðskiptaráðherra til að staðfesta umræddan fjárfestingarsamning við Thorsil ehf. vegna kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ. Þær ívilnanir sem tilgreindar eru í samningnum byggjast að mestu leyti á þeim ívilnunum sem áður var heimilt að veita á grundvelli umræddrar löggjafar. Ekki verða veittar frekari ívilnanir til verkefnisins umfram þær ívilnanir sem sérstaklega er fjallað um í fjárfestingarsamningnum. Þannig er til að mynda ráðgert að almennar skattareglur gildi um félagið að undanskildum þeim frávikum sem með tæmandi hætti eru tilgreind í fjárfestingarsamningum.

II.II. Lýsing á Thorsil ehf. og fyrirhugaðri starfsemi á Reykjanesi.
    Félagið Thorsil ehf. var stofnað samkvæmt íslenskum lögum í febrúar 2010 og er í eigu tveggja einkahlutafélaga með heimilisfestu á Íslandi, Northsil ehf. (63%) og Strokks Silicon ehf. (37%). Northsil ehf. var stofnað í þeim tilgangi að fjárfesta í Thorsil ehf. Eigendur að félaginu eru 13 talsins, þar af sex einstaklingar og sjö einkahlutafélög. Stærsti eigandinn er John Fenger með 43,64% hlut. Á eftir honum kemur Traðarsteinn ehf. með 16,87% hlut og síðan Hákon Björnsson með 10,91% hlut og P 126 ehf. með 7,10% hlut. Aðrir eigendur eru með minna en 5% hlut. Strokkur Silicon ehf., sem er hinn eigandinn að Thorsil ehf., er dótturfélag Strokks Energy ehf. sem er fjárfestingarfélag á sviði endurnýjanlegrar orku.
    Upphaflega áformaði Thorsil ehf. að reisa kísilmálmverksmiðju á skipulögðu iðnaðarsvæði vestan Þorlákshafnar í Ölfusi. Í tengslum við það verkefni var í desember 2010 undirritaður fjárfestingarsamningur milli íslenska ríkisins og félagsins í samræmi við lög nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Samningurinn tók hins vegar aldrei gildi þar sem ljóst var í byrjun árs 2011 að ekki væri hægt að útvega orku fyrir orkufrekan iðnað á svæðinu. Félaginu eins og öðrum félögum á þessum tíma var því bent á fyrirhugað iðnaðarsvæði á Bakka við Húsavík og boðið að gera tilboð í raforku í Þingeyjarsýslu. Frá þeim tíma miðaðist öll undirbúningsvinna Thorsil ehf. við að reisa kísilmálmverksmiðju á Bakka. Þegar ljóst var á árinu 2013 að raforka væri laus til ráðstöfunar í Helguvík á Reykjanesi ákvað Thorsil að flytja verkefnið frekar þangað þar sem iðnaðarsvæðið í Helguvík hentar mun betur starfseminni en á Bakka. Félagið hóf í ljósi þess viðræður við Reykjanesbæ og Reykjaneshöfn um samning um lóð í Helguvík og við Landsvirkjun um flutning á raforkusamningi frá Bakka til Helguvíkur.
    Thorsil ehf. áætlar að reisa og reka kísilmálmverksmiðju til framleiðslu á allt að 54 þúsund tonnum af kísilmálmi á ári. Raforkuþörf til framleiðslunnar er um 87 megavött (MW) á klukkustund eða um 730 gígavattstundir (GWh) á ári. Í verksmiðjunni verða tveir bræðsluofnar og hvor þeirra mun þurfa um 40 megavött (MW) á klukkustund. Auk framleiðslu á kísilmálmi er ráðgert að framleiða um 26 þúsund tonn af kísildufti og rúmlega 5 þúsund tonn af gjalli á ári en þessar afurðir falla til við framleiðslu á málminum. Ráðgert er að bygging kísilmálmverksmiðjunnar hefjist í apríl 2015 með fyrirvara um samþykki Alþingis og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Áætlað er að fyrri ofninn verði tekinn í notkun í apríl 2017. Gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting félagsins nemi um 28 milljörðum íslenskra króna eða sem samsvarar 252 milljónum bandaríkjadala og verður eigið fé á móti lánsfé um 31%. Áætlað er að um 350 starfsmenn komi að uppbyggingu verksmiðjunnar og 130 manns starfi við hana þegar rekstur hefst, þar af um 30 manns við stjórnunar- og tæknistörf.

II.III. Aðdragandi og gerð fjárfestingarsamnings með fyrirvara um heimild Alþingis.
    Hinn 13. september 2013 barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu umsókn félagsins um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Umsóknin var send til nefndar um veitingu ívilnana vegna nýfjárfestinga á Íslandi sem skipuð var á grundvelli 17. gr. laga nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, en lögin féllu úr gildi 31. desember 2013. Nefndin var þannig skipuð að iðnaðarráðherra skipaði formann nefndarinnar og þá tilnefndu fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra sinn mann hvor. Í samræmi við framangreind lög óskaði nefndin eftir því við fjárfestingarsvið Íslandsstofu að það framkvæmdi arðsemisútreikninga fyrirhugaðs fjárfestingarverkefnis, sbr. 18. gr. fyrrgreindra laga. Að auki leitaði nefndin umsagnar Reykjanesbæjar um verkefnið, sbr. 3 mgr. 17. gr. fyrrgreindra laga. Ástæða er til að gera hér nokkuð nánari grein fyrir a) arðsemismati fjárfestingarsviðs Íslandsstofu og b) umsögn Reykjanesbæjar:
     a. Arðsemismat: Við mat á arðsemi fjárfestingarverkefnis óskar fjárfestingarsvið Íslandsstofu eftir fjárfestingar- og rekstraráætlun ásamt útskýringum á helstu atriðum þeirra. Enn fremur á það í beinum samskiptum við forsvarsmenn fjárfestingarverkefnis. Í tilviki Thorsil ehf. bárust fjárfestingarsviði Íslandsstofu upptalin gögn 11. nóvember 2013. Með bréfi dags. 21. janúar 2014 skilaði fjárfestingarsviðið nefndinni greinargerð með útreikningum á arðsemi og ávinningi af fjárfestingarverkefni Thorsil ehf. Í niðurstöðum greinargerðarinnar kemur fram „að verkefnið skili umtalsverðum ábata fyrir íslenskt samfélag samkvæmt þeim forsendum sem eigendur hafa sett fram í áætlanagögnum. Megin rökstuðningur þessarar niðurstöðu byggist m.a. á því að:
          Eigendur hafa þekkingu á iðnaðinum.
          Verkefnið er þjóðhagslega hagkvæmt, jafnvel við umtalsverð neikvæð frávik frá framlögðum áætlunum, svo sem vegna kostnaðaraukningar eða óhagkvæmrar gengisþróunar.
          Verkefnið uppfyllir væntingar um atvinnusköpun, byggðaþróun, skatttekjur og auknar útflutningstekjur.
          Veiting ívilnana til fjárfestingarverkefnisins hefur því í för með sér efnahagslegan og samfélagslegan ávinning fyrir Ísland, bæði til lengri og skemmri tíma.
    Helsta áhætta verkefnisins er að mati fjárfestingarsviðsins fólgin í sölu á afurðum en félagið á eftir að tryggja sölusamninga sem samsvara um helmingi af áætlaðri framleiðslu. Við vinnslu þessarar greinargerðar stendur Thorsil ehf. í viðræðum við fleiri mögulega kaupendur. Gengisáhætta er metin af fjárfestingarsviði Íslandsstofu sem takmörkuð þar sem fjárfesting, hráefni, rafmagn og afurðir er allt í erlendum gjaldmiðlum.
     b. Umsögn: Í umsögn bæjarráðs Reykjanesbæjar, sem barst nefndinni 15. janúar 2014, kemur m.a. fram að Reykjanesbær hafi ,,fylgst með hugmyndum um þróun verkefnisins þeirra aðila er nú standa að Thorsil ehf. og fengið vandaða kynningu á því. Verkefnið er að okkar [bæjarráðs Reykjanesbæjar] mati mjög áhugavert og sveitarfélagið reiðubúið að styðja það í hvívetna.“ Í umsögninni kemur einnig fram að Reykjanesbær sé ,,reiðubúinn að veita félaginu þær ívilnanir sem snúa að sveitarfélaginu og heimilaðar eru samkvæmt lögum nr. 99/2010“.
    Nefndin lauk yfirferð umsóknar Thorsil ehf. um ívilnanir vegna fjárfestingarverkefnis í Helguvík í apríl 2014. Niðurstaða nefndarinnar var að með vísan til framlagðra gagna uppfylli viðkomandi fjárfestingarverkefni skilyrði fyrir veitingu ívilnana. Þá hafi félagið sýnt fram á að ívilnanir séu nauðsynlegar til þess að uppbygging á kísilmálmverksmiðjunni geti orðið að veruleika, m.a. vegna ákveðinnar lágmarkskröfu sem félaginu er sett varðandi ávöxtun fjármagns. Nefndin lagði því til við ráðherra að gerður yrði fjárfestingarsamningur vegna verkefnisins.
    Í maí 2014 afhenti iðnaðar- og viðskiptaráðherra forsvarsmönnum Thorsil ehf., bæjarstjóra Reykjanesbæjar og sérfræðingum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu drög að fjárfestingarsamningi til athugasemda. Í yfirlýsingu, dags. 30. maí 2014, staðfesti bæjarstjóri Reykjanesbæjar, f.h. Reykjanesbæjar, að hann hefði yfirfarið drögin að fjárfestingarsamningnum og að þau atriði samningsins er lytu að samþykkt Reykjanesbæjar væru í samræmi við samþykkt bæjarráðs Reykjanesbæjar, en þar er um að ræða ívilnanir í formi lægra hlutfalls fasteignaskatts og gatnagerðargjalds fyrir félagið. Reykjanesbær samþykkti fyrir sitt leyti að veita ráðherra heimild til undirritunar fjárfestingarsamningsins með framangreindum undanþágum.
    Hinn 30. maí 2014 undirritaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og Reykjanesbæjar fjárfestingarsamning við Thorsil ehf. með fyrirvara um heimild Alþingis og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Í kjölfarið hófst undirbúningur að frumvarpi þessu og grundvallast það á þeim ákvæðum sem fjárfestingarsamningurinn tekur til.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning milli ríkisstjórnar Íslands og Thorsil ehf. Fjárfestingarsamningurinn var undirritaður 30. maí 2014 með fyrirvara um að Alþingi veiti iðnaðar- og viðskiptaráðherra heimild til að fullgilda samninginn. Umræddur fjárfestingarsamningur er birtur sem fylgiskjal með frumvarpinu og miðað er við að hann öðlist lagagildi nái frumvarpið að óbreyttu fram að ganga.

IV. Meginefni fjárfestingarsamningsins.
    Í fyrsta lagi er fjallað almennt um verkefnið og að aðilum sé það ljóst að til þess að tryggja að verkefnið verði að veruleika sé nauðsynlegt að þeir geri með sér fjárfestingarsamning þann sem hér um ræðir með það fyrir augum að hrinda verkefninu í framkvæmd. Gerð er grein fyrir verkefninu og þeim tilgangi Thorsil ehf. að byggja og reka kísilver í Helguvík á Reykjanesi með áætlaða ársframleiðslugetu upp á 54.000 tonn af kísilmálmi. Stefnt er að því að félagið hefji framleiðslu á árinu 2017 og að fullum afköstum í starfseminni verði náð síðar á því ári.
    Í öðru lagi er fjallað um skatta og gjöld sem félagið kemur til með að greiða. Að undanskildum sérstökum undanþágum sem taldar eru upp í 5. og 6. gr. fjárfestingarsamningsins skal félagið greiða skatta og önnur opinber gjöld, sem almennt eru lögð á hér á landi, í samræmi við þær reglur sem gilda um slík gjöld hverju sinni. Það á til dæmis við um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á.
    Þær ívilnanir sem felast í frávikum á sköttum og gjöldum eru eftirfarandi:
     1.      Tekjuskattshlutfall félagsins verður 15% í stað 20% eins og nú.
     2.      Almennt tryggingagjald verður 50% lægra en kveðið er á um í lögum um tryggingagjald.
     3.      Hlutfall fasteignaskatts verður 50% lægri en lögbundið hámark að viðbættu álagi, sbr. lög nr. 4/1995.
     4.      Gatnagerðargjald verður 30% lægra en samkvæmt gjaldskrá Reykjaneshafnar.
     5.      Sérreglur gilda varðandi fyrningu eigna.
     6.      Félagið verður undanþegið íslenskum aðflutningsgjöldum af efnum til reksturs verksmiðjunnar.
     7.      Ýmis öryggisákvæði eru varðandi upptöku nýrra skatta.
     8.      Veittar eru ívilnanir vegna aðflutningsgjalda skv. 6. gr. samningsins og jafnframt er félaginu veittur frestur til greiðslu á virðisaukaskatti af innflutningi.
    Í þessu samhengi er vert að benda á að öll framangreind frávik eru afmörkuð við Thorsil ehf. og hið skilgreinda verkefni sem er kísilmálmverksmiðja í Helguvík í Reykjanesbæ.
    Framangreindar ívilnanir sæta takmörkunum skv. 7. gr. fjárfestingarsamningsins en þar segir að hámark styrkhæfrar ríkisaðstoðar skv. 5. og 6. gr. samningsins skuli ekki vera hærri en sem nemur 769,4 milljónum íslenskra króna, að núvirði. Fjárhæð ríkisaðstoðarinnar er sá mismunur sem myndast milli þess sem ríkið og sveitarfélagið hefðu fengið í tekjur ef engin ríkisaðstoð væri veitt og þess sem þau fá í tekjur með veitingu ívilnana. Við útreikning á heildarfjárhæðinni var stuðst við töflur um gengi og afvöxtun sem Eftirlitsstofnun EFTA gefur út. Óháð fjárfestingarsamningum hyggst Reykjaneshöfn veita félaginu afslátt af lóðaleigu samkvæmt samningi þar um.
    Í þriðja lagi er í samningnum ákvæði um þjálfunaraðstoð sem miðar að því að ríkisstjórnin taki þátt í kostnaði Thorsil ehf. við þjálfun starfsmanna í tengslum við verkefnið enda er um að ræða nýjan iðnað á Íslandi og verkþekking á þessu sviði takmörkuð á starfssvæði félagsins. Þjálfunaraðstoðin getur að hámarki numið 2 milljónum evra með fyrirvara um sérstaka heimild í fjárlögum samkvæmt ákvörðun Alþingis. Enn fremur þarf aðstoðin að vera í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart EES-samningnum.
    Í fjórða lagi eru í samningnum nokkuð ítarleg ákvæði tengd réttri notkun ívilnana og eftirliti henni tengdu. Sem dæmi um það ber skv. 19. gr. fjárfestingarsamningsins félaginu að senda atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti árlega skýrslu um framvindu fjárfestingarverkefnisins, hlut ívilnunar í framgangi þess, samtals fjárhæð veittrar ríkisaðstoðar á undanförnu ári og tilgreiningu á annarri starfsemi aðila ef einhver er.
    Í því skyni að sannreyna umræddar upplýsingar getur ráðuneytið óskað þess að löggiltur endurskoðandi staðfesti þær. Í greininni eru jafnframt nokkuð ítarleg ákvæði um endurkröfur á veittri ríkisaðstoð samkvæmt samningnum. Sem dæmi um það skal endurkrefja Thorsil ehf. um veitta ríkisaðstoð samkvæmt fjárfestingarsamningnum hafi hún verið nýtt til annarra hluta en fjárfestingarverkefnis þess sem var forsenda veitingar hennar og komi í ljós að ívilnun samkvæmt samningnum er komin umfram það hámark sem kveðið er á um í 7. gr. samningsins (þ.e. 769,4 milljónir íslenskra króna), eða aðrar þær heimildir sem fram koma í samningi þessum eða frumvarpi þessu, skal endurkrefja félagið um þann hlut sem umfram er og stöðva veitingu frekari ívilnunar. Ef fjárfestingarverkefnið, eins og það er nánar skilgreint í fjárfestingarsamningnum, verður ekki að veruleika eða ef starfsemi Thorsil ehf. verður verulega frábrugðin því fjárfestingarverkefni sem samningurinn miðar við innan fimm ára frá gildistöku samningsins skal félagið endurgreiða allar þær ívilnanir og ríkisaðstoð sem félaginu hefur verið veitt á grundvelli samningsins.
    Að lokum má nefna að skýrt er kveðið á um það í 12. gr. samningsins að um hann og túlkun hans skuli gilda íslensk lög. Ekki er að finna ákvæði um gerðardóm líkt og tíðkast hefur í öðrum fjárfestingarsamningum sem íslenska ríkið hefur áður gert um stærri nýfjárfestingarverkefni hér á landi.
    Fjárfestingarsamningurinn gildir í 13 ár frá því að ráðherra staðfestir fjárfestingarsamninginn að fenginni heimild til þess frá Alþingi, þó með þeirri undantekningu að ákvæði 5. og 6. gr. um ívilnanir gilda að hámarki í tíu ár frá því að til viðkomandi gjaldskyldu eða skattskyldu er stofnað af hálfu félagsins, en þó aldrei lengur en í þau 13 ár sem fjárfestingarsamningurinn er í gildi.

V. Mat á áhrifum.
V.I. Áætluð samfélags- og efnahagsleg áhrif.
    Í þingsályktun um byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017 sem Alþingi samþykkti 12. maí 2014 er áhersla lögð á jöfn tækifæri allra landsmanna til atvinnu, þjónustu og annarra lífskjara og að stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstök áhersla er lögð á stuðning við svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Til þess að ná þessum markmiðum er í þingsályktuninni ályktað um að gripið verði til aðgerða sem m.a. eiga að styðja við nýfjárfestingar og atvinnuuppbyggingu. Hér er ekki síst horft til Suðurnesja þar samdráttur í framleiðslu hefur verið einna mestur í kjölfar bankahrunsins, atvinnuleysið hvergi meira og mannaflinn að jafnaði ekki eins vel menntaður og gengur og gerist í öðrum landshlutum. Slæmt ástand á svæðinu kallar því á raunhæfar aðgerðir til atvinnuuppbyggingar. Það er mat stjórnvalda að þær eigi að byggjast á sérkennum svæðisins á breiðum grunni. Framleiðsla á kísilmálmi sem Thorsil ehf. hyggst framleiða er dæmi um iðnaðarframleiðslu sem hentar sérstaklega vel inn í þá mynd. Þá er ávinningurinn af verkefninu umtalsverður fyrir þjóðarbúið og atvinnustigið í landinu, ekki síst fyrir byggð á Suðurnesjunum, eins og hér er rakið:
     a. Minnkun atvinnuleysis.
    Á framkvæmdartíma Thorsil ehf. er gert ráð fyrir að um 350 starfsmenn komi að uppbyggingu kísilmálmverksmiðjunnar en ólíklegt er að allir þeir starfsmenn komi frá Suðurnesjunum. Á rekstrartímanum er síðan áætlað að um 130 manns starfi við framleiðsluna og þar af 30 starfsmenn með sérhæfða menntun eins og stjórnunar- og tæknimenntun. Ráðgert er að stór hluti þeirra búi á Suðurnesjunum. Miðað við þessa áætlun má gera ráð fyrir að atvinnuleysi á rekstrartímanum dragist saman um eitt prósentustig við óbreytt atvinnuleysi á svæðinu en á fyrstu sex mánuði ársins 2014 var meðalfjöldi atvinnulausra 750 (skráð atvinnuleysi) eða 6,7% af vinnuafli á Suðurnesjunum. Ekki var unnin sérstök greining á því hversu mörg óbein og afleidd störf munu skapast í tengslum við fjárfestingarverkefnið en styðjast má við greiningar sem liggja fyrir um uppbyggingu í stóriðju. Í skýrslu Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri um Álver á Bakka við Húsavík, Mat á samfélagsáhrifum, sem birt var í janúar 2009, var reiknað með að heildaráhrifin þar yrðu fjölgun upp á um það bil 1,5 afleitt og óbeint starf fyrir hvert nýtt starf að frádregnum ruðningsáhrifum. Það er í nokkuð góðu samræmi við aðrar greiningar sem gerðar hafa verið á samfélagsáhrifum af byggingu iðjuvera, sbr. greinargerð Byggðastofnunar, dags. 6. desember 2012, um iðjuver á Bakka á Húsavík. Í þeirri greinargerð er áætlað að það skapist um eitt starf fyrir hvern einn starfsmann sem ráðinn er til félagsins að teknu tilliti til ruðningsáhrifa.
     b. Markaður.
    Samkvæmt spá CRU (alþjóðlegur greiningaraðili í ál- og kísiliðnaði) frá 2013 mun eftirspurn á kísilvörum í heiminum aukast um tæplega 28% á næstu fjórum árum og um 87% til 2025.
     c. Þekkingarmyndun og nýsköpun.
    Reynslan af rekstri sambærilegra iðjuvera á Íslandi hefur sýnt að þau eru uppsprettur mikilvægrar nýsköpunar. Iðjuverin hafa lagt áherslu á að útvista starfsemi sem áður var unnin innan veggja þeirra á þeim tíma þegar almenn þekking var ekki til í samfélaginu til að takast á við þau. Þessi jákvæða þróun hefur fylgt aukinni verk- og tækniþekkingu sem skapað hefur forsendur fyrir vöxt mikilvægra þjónustugreina sem m.a. eiga rætur að rekja til þjónustu við sjávarútveg. Upphaf vaxtar þeirra var að þau tóku að sér reglubundið viðhald og endurnýjun á búnaði iðjuveranna. Einkum eru það fyrirtæki í véla- og málmtækni sem vaxið hafa á þessum grunni, en fyrirtæki í raftækni, stýribúnaði og mörgum öðrum greinum hafa einnig notið verulega góðs af þróuninni. Allt eru þetta tæknifyrirtæki sem byggjast á íslenskri sérstöðu og hafa þróast út í að vera alþjóðlega samkeppnishæf. Þannig hafa ný fyrirtæki orðið til og önnur eflst. Afleiðing þessarar þróunar er að á tiltölulega skömmum tíma verða til öflug fyrirtæki sem byggjast á þjónustu við iðjuverin og hafa með því öðlast getu til að vaxa enn frekar inn á ný svið í takt við alþjóðlega þróun lítilla og meðalstórra iðnfyrirtækja. Þannig hefur komið fram vísir að nýjum útflutningsvörum sem án iðjuveranna hefði aldrei orðið að veruleika. Þessa þróun má sjá hjá öllum iðjuverunum en gleggst er hún sennilega hjá Fjarðaáli. Þar starfa 450 manns við rekstur iðjuversins en um 300 manns til viðbótar starfa við þjónustu sem er svo nátengd álverinu að störfin fara að mestu leyti fram á álverslóðinni sjálfri og aðliggjandi höfn.
     d. Framlag til hagvaxtar.
    Ekki var unnin sérstök hagspá fyrir ráðuneytið vegna fyrirhugaðra framkvæmda en í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá júlí 2014 er gert ráð fyrir stóriðjufjárfestingu í Helguvík sem rúmar fjárfestingu Thorsil ehf. ásamt sambærilegri fjárfestingu í Helguvík og á Bakka. Framlag þessa til hagvaxtar á næstu árum er talsvert en vægi áhrifa fara eftir því hvernig verkefnin falla saman, þ.e. hvort framkvæmdir hefjast allar á sama tíma eða dreifast á lengri tíma. Fari svo að framkvæmdirnar fari allar af stað á sama tíma má búast við þensluáhrifum og ruðningi á aðrar atvinnugreinar.

V.II. Áhrif á stjórnsýslu ríkisins.
    Ekki er talið að samningurinn hafi í för með sér umtalsverð áhrif á stjórnsýslu ríkisins. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun fylgjast með framkvæmd samningsins. Samningurinn hefur þegar verið birtur í heild sinni á heimasíðu ráðuneytisins og verði frumvarp þetta að lögum mun ráðuneytið hlutast til um að samningurinn og efni laganna verði tilkynnt skattyfirvöldum og innheimtumönnum ríkissjóðs.

VI. Samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.
    Íslensk stjórnvöld hafa um nokkurt skeið átt í samskiptum við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna þess fjárfestingarverkefnis sem hér um ræðir. Síðastliðið sumar tók gildi innan Evrópska efnahagssvæðisins ný reglugerð (ESB) um almenna hópundanþágu sem tiltekur skilyrði þess að veita megi fyrirtækjum ríkisaðstoð á tilteknum sviðum án þess að leita þurfi eftir sérstöku samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA. Í reglugerðinni er kveðið á um að ef til staðar eru heimildir í landslögum geta stjórnvöld, að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í reglugerðinni, veitt fyrirtækjum tiltekna ríkisaðstoð og telst hún þá samrýmanleg ríkisaðstoðarreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) og undanþegin tilkynningarskyldu til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Það er þannig á ábyrgð íslenskra stjórnvalda að meta hvort viðkomandi ráðstafanir fela í sér ríkisaðstoð og gæta þess jafnframt að slík aðstoð samrýmist skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem hefur með höndum samræmingar- og leiðbeiningarhlutverk gagnvart öðrum stjórnvöldum vegna ríkisaðstoðarmála, unnið að því að meta hvort skilyrði umræddrar reglugerðar um almennar hópundanþágur séu uppfyllt í því tiltekna fjárfestingarverkefni sem hér um ræðir. Í því skyni að fá úr því skorið hefur verið óskað eftir afstöðu frá Eftirlitsstofnun ESA um þetta mál. Verði afstaða ESA til málsins jákvæð verður verkefnið fellt undir umrædda reglugerð ESB.
    Ef ESA telur hins vegar verkefnið ekki falla undir umrædda reglugerð um hópundanþágur munu íslensk stjórnvöld tilkynna verkefnið á grundvelli sérstakra reglna um byggðaaðstoð og óska eftir því að ríkisaðstoðin verði samþykkt formlega af stofnuninni sem samrýmanleg aðstoð áður en fjárfestingarsamningurinn kemur til framkvæmda. Þá má einnig geta þess að í 13. gr. samningsins er tekið fram að komi fram eftir að starfsemi félagsins er hafin að hann feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð samkvæmt skuldbindingum Íslands að EES-rétti beri félagið ábyrgð á því og eigi ekki skaðabótakröfu á hendur íslenska ríkinu vegna þessa. Þá er enn fremur í 19. gr. samningsins kveðið á um að í kjölfar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA um ólögmæta ríkisaðstoð skuli endurkrefja félagið um þann hlut sem umfram er og stöðva veitingu frekari ívilnunar.

VII. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Thorsil ehf., fjármála- og efnahagsráðuneytið, fjárfestingarsvið Íslandsstofu, Reykjanesbæ og Reykjaneshöfn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í greininni er ráðherra heimilað að staðfesta fjárfestingarsamning við Thorsil ehf. (félagið) um kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ, en samningurinn var undirritaður 30. maí 2014. Samningurinn verður birtur sem fylgiskjal með lögunum og öðlast þannig ákvæði hans lagagildi hér á landi.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti:

Mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga
skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

    Með frumvarpinu, sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggur nú fram, er lagt til að ráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, verði veitt heimild til að semja við félagið Thorsil ehf. og eiganda þess um kísilverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ í samræmi við ákvæði frumvarpsins.
    Gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting Thorsil ehf. nemi um 28 milljörðum íslenskra króna (252 milljónum bandaríkjadala). Á uppbyggingartíma verksmiðjunnar 2015–2017 er áætlað að unnin verði um 350 ársverk og þegar reksturinn er kominn á fullt á árinu 2017 verði að jafnaði unnin um 130 ársverk. Félagið áætlar að framleiða allt að 54 þúsund tonn af kísilmálmi á ári. Raforkuþörf til framleiðslunnar er um 87 megavött (MW) á klukkustund eða um 730 gígavattstundir (GWh) á ári. Í verksmiðjunni verða tveir bræðsluofnar og hvor þeirra mun þurfa um 40 megavött (MW) á klukkustund. Auk framleiðslu á kísilmálmi er ráðgert að framleiða um 26 þúsund tonn af kísildufti og rúmlega 5 þúsund tonn af gjalli á ári en þessar afurðir falla til við framleiðslu á málminum.
    Í maí 2014 afhenti iðnaðar- og viðskiptaráðherra forsvarsmönnum Thorsil ehf. og bæjarstjóra Reykjanesbæjar drög að fjárfestingarsamningi til athugasemda. Í yfirlýsingu, dags. 30. maí 2014, staðfesti bæjarstjóri Reykjanesbæjar, f.h. Reykjanesbæjar, að hann hefði yfirfarið drögin að fjárfestingarsamningnum og að þau atriði samningsins er lytu að samþykkt Reykjanesbæjar væru í samræmi við samþykkt bæjarráðs Reykjanesbæjar, en þar er um að ræða lægra hlutfall fasteignaskatts og gatnagerðargjalds fyrir félagið. Reykjanesbær samþykkti fyrir sitt leyti að veita ráðherra heimild til undirritunar fjárfestingarsamningsins með framangreindum undanþágum.
    Á grundvelli laga nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, með síðari breytingum, hafa á sl. árum verið gerðir fjárfestingarsamningar við sex félög. Lögin féllu hins vegar úr gildi 31. desember 2013 og því er nauðsynlegt að leita sérstakrar heimildar Alþingis fyrir fjárfestingarsamningi við Thorsil ehf.
    Í fjárfestingarsamningi sem fylgir frumvarpinu er gert ráð fyrir því að almennar skattareglur gildi um félagið, með tilteknum frávikum sem með tæmandi hætti eru tilgreind í samningnum. Helstu frávikin eru eftirfarandi:
     1.      Tekjuskattshlutfall félagsins verður 15% í stað 20% eins og nú.
     2.      Almennt tryggingagjald verður 50% lægra en kveðið er á um í lögum um tryggingagjald.
     3.      Hlutfall fasteignaskatts verður 50% lægri en lögbundið hámark að viðbættu álagi, sbr. lög nr. 4/1995.
     4.      Gatnagerðargjald verður 30% lægra en samkvæmt gjaldskrá Reykjaneshafnar.
     5.      Sérreglur gilda varðandi fyrningu eigna.
     6.      Félagið verður undanþegið íslenskum aðflutningsgjöldum af efnum til reksturs verksmiðjunnar.
     7.      Ýmis öryggisákvæði eru varðandi upptöku nýrra skatta.
     8.      Veittar eru ívilnanir vegna aðflutningsgjalda skv. 6. gr. samningsins og jafnframt er félaginu veittur frestur til greiðslu á virðisaukaskatti af innflutningi.
    Öll eru frávikin afmörkuð við Thorsil ehf. og hið skilgreinda verkefni sem er kísilverksmiðja í Helguvík. Í 7. gr. fjárfestingarsamningsins er kveðið á um að hámark styrkhæfrar ríkisaðstoðar ríkis og sveitarfélagsins skv. 5. og 6. gr. samningsins (um skatta, opinber gjöld og aðflutningsgjöld) skuli vera 769,4 milljónir íslenskra króna á núvirði. Fjárhæð ríkisaðstoðarinnar er sá mismunur sem myndast milli þess sem ríkið og sveitarfélagið hefðu fengið í tekjur ef engin ríkisaðstoð væri veitt og þess sem þau fá í tekjur með veitingu ívilnana. Áætlaður tekjumissir fyrir sveitarfélagið, miðað við að engar ívilnanir væru veittar, er um 407,3 milljónir króna á núvirði á 13 ára tímabili þegar heimilt er að veita ívilnanir. Á móti kemur að fjárfestingarverkefni skilar sveitarfélaginu strax á uppbyggingartímanum tekjum og störfum fyrir íbúa.
    Umsögn þessi var unnin í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og gerir sambandið ekki athugasemd við niðurstöðuna.



Fylgiskjal II.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við Thorsil ehf. um kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ.

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra verði veitt heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við hið íslenska félag Thorsil ehf. um kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ en samningurinn var undirritaður 30. maí 2014. Samkvæmt greinargerð frumvarpsins er samningurinn í meginatriðum í samræmi við frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem nú liggur fyrir Alþingi, um ívilnanir til nýfjárfestinga en frumvarpið byggist í grunninn á lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, sem féllu úr gildi 31. desember 2013. Með þeim lögum var horfið frá því fyrirkomulagi sem tíðkast hafði og fól í sér að gerðir voru sértækir fjárfestingarsamningar vegna einstakra verkefna á grundvelli sérstakra heimildarlaga frá Alþingi og samþykkis Eftirlitsstofnunar EFTA ef þess þurfti með. Lögin áttu með þessu að tryggja að ferli við gerð fjárfestingarsamninga mundi styttast og verða einfaldara og í samræmi við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins. Eins og áður segir féllu lögin hins vegar úr gildi í lok árs 2013 og því er nauðsynlegt að leggja fram sérstakt frumvarp vegna þessa samnings. Í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins að EES-rétti taka ríkisstyrkjareglur EES-samningsins til þeirrar starfsemi sem hér um ræðir. Af þeim sökum verður ákvörðun um fjárfestinguna ekki tekin fyrr en sú ríkisaðstoð sem í samningi þessum felst hefur verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA og stofnunin fallist á að ríkisaðstoðin samrýmist EES-samningnum.
    Meginefni frumvarpsins snýr að ívilnunum á sköttum og opinberum gjöldum sem ætlað er að veita Thorsil ehf. Helstu tillögur frumvarpsins eru: Í fyrsta verði tekjuskattshlutfall félagsins 15% í stað 20% eins og lög kveða á um. Í öðru lagi verði tryggingagjald 50% lægra en kveðið er á um í lögum um tryggingagjald. Í þriðja lagi verði fasteignaskattur 50% lægri en áskilið hámarkshlutfall samkvæmt samningi við Reykjanesbæ. Í fjórða lagi verði gatnagerðargjöld 30% lægri en samkvæmt gjaldskrá Reykjaneshafnar. Í fimmta lagi gildi sérreglur varðandi fyrningu eigna. Í sjötta lagi verði félagið undanþegið íslenskum aðflutningsgjöldum af efnum til reksturs verksmiðjunnar. Í sjöunda lagi verði sett ýmis öryggisákvæði varðandi upptöku nýrra skatta. Í áttunda lagi verði veittar ívilnanir vegna aðflutningsgjalda og jafnframt verði félaginu veittur frestur á greiðslu á virðisaukaskatti á innflutningi. Einnig er kveðið á um að félagið verði undanþegið vissum ákvæðum laga um einkahlutafélög og lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna en þau ákvæði varða búsetu og ríkisfang eigenda, stjórnenda félagsins og handhafa atkvæða á hluthafafundum félagsins. Þá er í frumvarpinu, með fyrirvara um sérstaka heimild í fjárlögum, kveðið á um sérstaka þjálfunaraðstoð vegna kostnaðar við þjálfun í tengslum við verkefnið, allt að 2 milljónum evra eða sem svarar til um 308 m.kr. Í frumvarpinu er kveðið sérstaklega á um að ríkisstjórnin muni eftir fremsta megni leitast við að fá heimild í fjárlögum fyrir árið 2016 fyrir þjálfunaraðstoðinni. Í fyrrgreindu frumvarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem nú liggur fyrir Alþingi um rammalöggjöf um ívilnanir til nýfjárfestinga er hins vegar ekki gert ráð fyrir slíkum ívilnunum vegna þjálfunaraðstoðar.
    Thorsil ehf. áætlar að reisa og reka kísilmálmverksmiðju til framleiðslu á allt að 54 þúsund tonnum af kísilmálmi á ári. Raforkuþörf til framleiðslunnar er um 87 megavött (MW) á klukkustund eða um 730 gígavattstundir (GWh) á ári. Í verksmiðjunni verða tveir bræðsluofnar og hvor þeirra mun þurfa um 40 megavött (MW) á klst. Auk framleiðslu á kísilmálmi er ráðgert að framleiða um 26 þúsund tonn af kísildufti og rúmlega 5 þúsund tonn af gjalli á ári en þessar afurðir falla til við framleiðslu á málminum. Ráðgert er að bygging kísilmálmverksmiðjunnar hefjist í apríl 2015 með fyrirvara um samþykki Alþingis og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Um 350 starfsmenn munu koma að uppbyggingu verksmiðjunnar. Áætlað er að fyrri ofninn verði tekinn í notkun í apríl 2017 og sá síðari á fjórða ársfjórðungi sama árs. Samkvæmt áætlunum frá forsvarsmönnum Thorsil ehf. munu um 130 manns starfa við verksmiðjuna. Þar af er gert ráð fyrir um 30 manns við stjórnunar- og tæknistörf. Heildarfjárfestingakostnaður félagsins er metin um 28 mia.kr. eða sem samsvarar 252 milljónum Bandaríkjadala og verður eigið fé á móti lánsfé um 31%.
    Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, miðað við fyrirliggjandi rekstraráætlun Thorsil ehf., er áætlað að greiðslur vegna skatta og gjalda til ríkisins sem veittar yrðu ívilnanir á nemi 551 m.kr. en að þær væru 913 m.kr. án þeirra miðað við 13 ára rekstrartíma. Eftirgjöf skatta og gjalda ríkisins næmu þannig um 362 m.kr. Fyrir sveitarfélagið og Reykjaneshöfn er gert ráð fyrir að þessar greiðslur sem ívilnanir yrðu veittar út á mundu nema 639 m.kr. en þær yrðu 1.047 m.kr. án ívilnananna á tímabilinu. Eftirgjöf sveitarfélagsins og Reykjaneshafnar næmu þannig um 408 m.kr. Ekki yrðu veittar frekari ívilnanir eftir það samkvæmt samningnum. Má því líta svo á að hin opinbera aðstoð til félagsins næmi samtals nærri 770 m.kr. sem félagið fengi frá ríki og Reykjanesbæ. Í fjárfestingarsamningnum er sett þak á ívilnanir sem nemur tæpum 770 m.kr. en það er framangreind fjárhæð á núvirði miðað við 7,5% árlega afvöxtun. Við útreikninginn var stuðst við viðmið og reglur um ríkisstyrki samkvæmt EES-samningnum. Þá er settur tímafrestur um gildi samningsins en réttur til ívilnana héldi fullu gildi í 10 ár frá þeim tíma sem til viðkomandi skattskyldu eða gjaldskyldu væri stofnað af hálfu félagsins en þó aldrei lengur en í 13 ár frá gildistöku samningsins.
    Markmið stjórnvalda með gerð fjárfestingarsamningsins er m.a. að auka nýfjárfestingu á Íslandi og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lét meta verkefnið með tilliti til framangreinds og í því mati kemur fram að verkefnið mundi uppfylla væntingar um atvinnusköpun, byggðaþróun, skatttekjur og auknar útflutningstekjur. Að því gefnu annars vegar að ekki væri ráðist í verkefnið hér á landi nema vegna framangreindra ívilnana og hins vegar að framleiðsluþættir, eins og vinnuafl, hefðu að öðrum kosti verið ónýttir má telja að verkefnið hefði í för með sér beinan ávinning fyrir ríkissjóð sem næmi að hámarki um 1.190 m.kr., eða sem næmi hátt í 100 m.kr. á ári, en stærstur hluti þess væri í formi tekjuskatts. Á núvirði svarar það til um 551 m.kr. Eru þá ekki taldar með tekjur sveitarfélagsins, eða aðrir skattar og gjöld sem félagið greiddi að fullu né þau óbeinu efnahagslegu áhrif sem verkefnið kann að hafa í för með sér, svo sem afleidda þjónustu við fyrirtækið, tækniyfirfærslu o.fl. Þótt varla sé hægt að ganga út frá slíkri forsendu um vannýtingu framleiðsluþátta og gera megi ráð fyrir einhverjum ruðningsáhrifum vegna starfseminnar virðast allar horfur vera á að verkefnið gæti haft allnokkur jákvæð áhrif á tekjuhlið ríkissjóðs á komandi árum og að ekki ættu að falla til teljandi útgjöld í tengslum við samninginn þótt skattaframkvæmd yrði aðeins tímafrekari vegna sérákvæðanna.