Ferill 277. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 722  —  277. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Val Gíslasyni
um aukin framlög til NATO.


     1.      Hversu mikið munu útgjöld Íslands aukast vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að auka framlög til NATO umfram það sem fram kemur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015?
    Ekki eru fyrirhugaðar neinar hækkanir á framlögum til NATO á árinu 2015 umfram það sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi fyrir komandi ár. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir um 12 millj. kr. hækkun á tímabundnu framlagi vegna byggingar nýrra höfuðstöðva NATO þannig að það verði alls um 116 millj. kr. á næsta ári. Á móti vegur að liðurinn lækkar um 7,1 millj. kr. vegna endurmats á gengisforsendum frumvarpsins.
    Í töflu hér á eftir kemur fram hvernig framlög til NATO hafa þróast á fjárlagalið 03-401- 1.41, á verðlagi hvers árs, í fjárlögum og fjáraukalögum frá árinu 2004. Þar má sjá hvernig framlögin til NATO jukust til mikilla muna á síðasta kjörtímabili. Þannig nam hækkunin milli áranna 2009 og 2010 um 147% en sú hækkun skýrist fyrst og fremst af auknum framlögum til byggingar nýrra höfuðstöðva NATO. Þá var umtalsverð hækkun á árinu 2011 vegna annarra verkefna sem skýrist aðallega af hækkun á skylduframlögum til bandalagsins og hækkun á framlagi til mannvirkjasjóðs NATO. Undanfarin tvö ár hafa framlögin haldist nokkuð stöðug og reiknað er með að þau lækki um u.þ.b. 90 millj. kr. árið 2016 og um u.þ.b. 20 millj. kr. í viðbót árið 2017 þar sem lokið verður við byggingu nýrra höfuðstöðva.

Framlög til NATO í fjárlögum og fjáraukalögum 2004–2015.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Leiðtogar Atlantshafsbandalagsins hafa sammælst um að aðildarríkin auki framlög sín til verkefna á sviði öryggis- og varnarmála, m.a. í kjölfar atburða í Úkraínu og breyttra öryggishorfa í austanverðri Evrópu. Áformað er að Ísland bregðist við skyldum sínum innan bandalagsins með auknum framlögum frá og með árinu 2016 en á þessu stigi liggur þó ekki nægilega vel fyrir hversu mikil sú aukning verður þar sem þær ráðstafanir eru enn þá til skoðunar. Gert er ráð fyrir að það sem Ísland leggi af mörkum muni einkum snúa að því að færa gistiríkisstuðning við loftrýmisgæslu NATO í fyrra horf, einkum með því að styrkja þyrlubjörgunarþjónustu Landhelgisgæslu Íslands, auk þess að fjölga borgaralegum sérfræðingum undir merkjum NATO, svo sem á sviði almannavarna, sprengjuleitar, vefvarna, jafnréttismála, upplýsingamiðlunar og öryggis á hafi. Einnig yrði um að ræða framlög í sjóð til uppbyggingar í Úkraínu. Lauslega má áætla að kostnaður vegna þessara verkefna gæti legið nærri 200 millj. kr. en nánari áætlanir verða gerðar í tengslum við undirbúning að fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016.

     2.      Er ætlunin að auka tekjur ríkisins á móti auknum útgjöldum vegna NATO? Ef svo er, hversu mikil verður tekjuaukningin?
    Ekki er gert ráð fyrir sérstakri tekjuöflun vegna þessa máls frekar en annarra sambærilegra nýrra útgjaldatilefna sem fjármögnuð hafa verið með almennri tekjuöflun ríkisins.

     3.      Er áformaður niðurskurður ríkisútgjalda vegna hækkunar á framlagi til NATO? Ef svo er, hversu mikill verður niðurskurðurinn og hvar mun hans gæta?

    Ekki er gert ráð fyrir sérstakri aðhaldskröfu á tiltekna málaflokka vegna þessa máls frekar en annarra sambærilegra nýrra útgjaldatilefna, en auk þess verða þessi útgjöld ekki aukin á árinu 2015 eins og áður segir. Tekjuöflun ríkissjóðs hefur styrkst að undanförnu og heildarafkoman er farin að skila afgangi þótt jafnframt sé áformað að verja allnokkrum fjármunum til nýrra og aukinna verkefna. Eftir sem áður má gera ráð fyrir að gerð verði hófleg almenn aðhaldskrafa í fjárlögum komandi ára m.a. til að mynda svigrúm fyrir ýmsar útgjaldabreytingar hjá ráðuneytum.