Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 734  —  214. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um framhaldsskóla,
nr. 92/2008 (rafræn námsgögn o.fl.).

(Eftir 2. umræðu, 12. desember.)


1. gr.


    2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði þessarar greinar taka einnig til skólameistara, annarra faglegra stjórnenda og náms- og starfsráðgjafa.

2. gr.

    H-liður 1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: að kennsla fari fram í skólahúsnæði sem uppfyllir lög og reglugerðir þar að lútandi.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra gefur út reglugerð um starfstíma framhaldsskóla.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Námseiningar og starfstími.


4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „og efnisgjalds“ í 1. málsl. 1. mgr. og sömu orða í 2. mgr. kemur: efnisgjalds og gjalds fyrir rafrænt námsefni.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Heimilt er í tilraunaskyni með sérstöku leyfi ráðherra að innheimta gjald fyrir rafrænt námsefni sem framhaldsskólar ákveða og er veigamikill hluti af námsefni í námsáfanga á skráðri námsbraut viðkomandi nemenda eða í áfanga sem þeir hafa ákveðið að stunda sem valgrein.

5. gr.

    Í stað orðsins „endurgjalds“ í 3. málsl. 1. mgr. 47. gr. laganna kemur: kvaða eða gjalda.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.