Ferill 423. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 738  —  423. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, með síðari breytingum (hættumat eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur og Hafstein Pálsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Sigrúnu Karlsdóttur frá Veðurstofu Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, þess efnis að gildissvið laganna verði rýmkað þannig að það nái einnig til annarrar náttúruvár en ofanflóða, að ráðherra verði heimilt að skilgreina þéttbýli í reglugerð sem hættumat vegna ofanflóða á að ná til, og að heimilt verði að veita fé úr ofanflóðasjóði til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða næstu þrjú ár, eða til 31. desember 2017. Frumvarpið er að mestu samhljóða lögum nr. 22/2012 sem falla úr gildi um áramótin.
    Náttúruhamfarir liðinna ára hafa gert það ljóst að nauðsynlegt er að vinna hættumat vegna annarrar náttúruvár en ofanflóða. Eldgosin í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi og yfirstandandi jarðhræringar við Holuhraun og Bárðarbungu eru áþreifanleg dæmi þessa. Markmið hættumats er að halda samfélagslegu tjóni vegna náttúruhamfara í lágmarki, m.a. með áhættuminnkandi aðgerðum, gerð viðbragðsáætlana og skilgreiningu áhættuviðmiða. Með því má samræma viðbrögð við náttúruhamförum með skipulögðum hætti og halda þannig tjóni í lágmarki eins og frekast verður unnt hverju sinni. Vinna við hættumat vegna eldgosa hefur staðið yfir síðustu þrjú ár en í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að það sé mat Veðurstofu Íslands að einnig verði unnið að hættumati vegna vatnsflóða og sjávarflóða og hefur einnig verið kallað eftir því af hálfu sveitarfélaga.
    Á fundi nefndarinnar var fjallað um verkefni og fjárhagsstöðu ofanflóðasjóðs. Ofanflóðasjóður er fjármagnaður með mörkuðum tekjum skv. 12. gr. laganna og þeim er ráðstafað skv. 13. gr. Fyrir nefndinni kom fram að útgjöld sjóðsins á ársgrundvelli eru um 40% af tekjum hans en árlegar tekjur sjóðsins eru um 2 milljarðar kr. Þau auknu útgjöld sem lögð eru til í frumvarpi þessu rúmast því innan tekna sjóðsins. Í þessu sambandi fjallaði nefndin einnig um hlutverk og verksvið ofanflóðasjóðs en sjóðurinn var stofnaður í þeim tilgangi að vinna að framkvæmdum við varnarvirki gegn tjóni og slysum af völdum snjóflóða og skriðufalla. Nefndin bendir á að á næstu árum þarf að huga að framtíðarskipulagi heildstæðs hættumats vegna náttúruvár sem steðjar að byggð í landinu. Þau verkefni sem ráðist verður í á grundvelli frumvarpsins eru tímabundin og nauðsynlegt er að þeim loknum að meta árangur þeirra og þá jafnframt að meta hvernig framtíðarfyrirkomulagi vinnu við gerð hættumats verði best háttað. Fyrir nefndinni kom fram að rétt sé að fara ekki of geyst í ný verkefni eða uppstokkun núverandi fyrirkomulags og tekur nefndin undir það mat.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur ítrekað fram að gerð hafi verið mistök við setningu laga nr. 22/2012 þannig að öllum lagabreytingum þess frumvarps hafi verið markaður þriggja ára gildistími en ekki eingöngu þeirri heimild ofanflóðasjóðs að veita fé í gerð hættumats vegna eldgosa eins og ætlunin var. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 22/2012 er vísað til þess að um þriggja ára verkefni sé að ræða en þó var heimild ofanflóðasjóðs til að veita fé til gerðar hættumats vegna eldgosa ekki afmarkaður þriggja ára gildistími heldur var um varanlega heimild að ræða og var því nauðsynlegt að gera breytingar á frumvarpinu í meðförum Alþingis. Úr þessu hefur verið bætt í frumvarpi þessu og heimildinni afmarkaður þriggja ára gildistími í 4. gr. frumvarpsins sem verður ákvæði til bráðabirgða II, auk þess sem heimildin hefur verið útvíkkuð þannig að hún nái einnig til hættumats vegna vatnsflóða og sjávarflóða. Að þessum athugasemdum virtum leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Katrín Júlíusdóttir og Jón Þór Ólafsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. desember 2014.

Höskuldur Þórhallsson,
form., frsm.
Haraldur Einarsson. Birgir Ármannsson.
Elín Hirst. Róbert Marshall. Svandís Svavarsdóttir.
Sigríður Á. Andersen.