Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 739  —  3. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015 .

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Eins og fram kom í nefndaráliti meiri hlutans við 2. umræðu (þskj. 617 í 3. máli) hefur komið fram nokkur gagnrýni á þá tillögu að hlutdeild lífeyrissjóða í tekjum af almennu tryggingagjaldi til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða yrði lækkuð árlega um 20% uns hún félli brott á árinu 2019.
    Að mati meiri hlutans er tilefni til þess að skapa betra svigrúm til endurskoðunar á núverandi fyrirkomulagi jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða. Því leggur meiri hlutinn til að fallið verði frá tillögum frumvarpsins um að 0,325% hlutdeild lífeyrissjóða í tekjum af almennu tryggingagjaldi til jöfnunar og lækkunar örorkubyrði lífeyrissjóða verði lækkuð árlega um 20% næstu fimm ár uns hún fellur brott. Hins vegar leggur meiri hlutinn til að framlagið lækki í 0,260% frá 1. júlí staðgreiðsluárið 2015 og við álagningu ársins 2016. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að nauðsynlegt er að endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi jöfnunar og lækkunar örorkubyrði eigi sér stað hið fyrsta.
    Ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt kveður á um að við útreikning virðisaukaskatts við innflutning og skattskylda sölu nýrrar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar sé heimilt að lækka tollverð vegna innflutnings eða telja til undanþeginnar veltu vegna skattskyldrar sölu innan lands fjárhæð upp að ákveðnu hámarki að uppfylltum þeim skilyrðum sem kveðið er á um í ákvæðinu.
    Nýskráningum rafmagnsbíla hefur fjölgað umtalsvert að undanförnu m.a. vegna þess að útsöluverð þeirra hefur lækkað. Þá hefur mikil framþróun orðið í framleiðslu slíkra bifreiða. Nokkur munur er hins vegar enn á milli útsöluverðs hefðbundinna bensín- og dísilbifreiða og rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiða.
    Að mati meiri hlutans er enn um sinn ákjósanlegt að viðhalda efnahagslegum hvata til kaupa á rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðum. Í því ljósi leggur meiri hlutinn til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt verði framlengdur um eitt ár en bendir jafnframt á að verulega brýnt er orðið að marka framtíðarstefnu í þessum málum.
    Fyrir nefndinni kom fram að breyting sem meiri hlutinn lagði til við 2. umræðu og varðaði lækkun afsláttar af vörugjaldi vegna innflutnings á bílaleigubílum mundi koma nokkurt hart niður á bílaleigum sem þegar hafa gefið út verðskrár fyrir næsta ár. Meiri hlutinn leggur til að í stað þess að lækkun á vörugjaldi af bílaleigubílum geti ekki numið hærri fjárhæð en 500.000 kr. verði markið sett við 750.000 kr. Meiri hlutinn bendir þó jafnframt á að stjórnvöld gera ráð fyrir að lækka afsláttinn enn frekar í framtíðinni. Að mati meiri hlutans er rétt að slík lækkun verði í nánum tengslum við frekari endurskoðun á lagaumhverfi bílaleiga.
    Við afgreiðslu þessa nefndarálits tók minni hlutinn fram að hann telur þær breytingar sem fjallað var um hér að framan til mikilla bóta en vísaði að öðru leyti um afstöðu sína til umfjöllunar í nefndaráliti minni hlutans við 2. umræðu (þskj. 647 í 3. máli).
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 12. desember 2014.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Pétur H. Blöndal,
frsm.
Willum Þór Þórsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Ásmundur Friðriksson.