Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 768  —  1. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


    Í nefndaráliti 2. minni hluta við aðra umræðu um frumvarpið var sett fram margháttuð gagnrýni. Þrátt fyrir að með þrýstingi frá stjórnarandstöðunni og almenningi í landinu hafi tekist að sníða nokkra vankanta af frumvarpinu frá því að 2. umræða fór fram á fyrri gagnrýni enn rétt á sér og vísast til hennar um heildarmat 2. minni hluta á þeirri stefnumörkun sem í frumvarpinu felst.
    Fjárlagafrumvarpið ber öll merki eindreginnar hægri stefnu. Umræður um það af hálfu stjórnarliða og höfnun þeirra á breytingartillögum fulltrúa minni hlutans, sem miðuðu að því að styrkja og efla almannaþjónustu og velferð almennings, eru af sama toga og einnig samstaðan með hagsmunum þeirra efnuðu sem lýsir sér í undanhaldi á skattheimtu af hinum velmegandi. Frumvarpið ber skýrt með sér hvernig stjórnvöld fara með þau völd sem þeim var trúað fyrir af kjósendum. Ástæða er til að vara við stefnu þeirra, lýsa við hana fullri andstöðu og minna á að stuðningsflokkar ríkisstjórnarinnar bera einir ábyrgð á frumvarpinu, veikleikum þess og afleiðingum.
    Hér á eftir verður fjallað um einstaka liði og þætti fjárlagafrumvarpsins með gagnrýnum hætti og bent á ýmsa alvarlega ágalla. Upptalningin er ekki tæmandi.

Fjárhagur Ríkisútvarpsins.
    Mikil umræða hefur farið fram um þá fyrirætlan stjórnvalda að draga verulega úr tekjum Ríkisútvarpsins. Stjórn Ríkisútvarpsins kom á fund fjárlaganefndar og gerði henni ljóst að áformaður niðurskurður mundi þýða gagngerar breytingar á starfsemi þessa eina ljósvakamiðils í landinu, sem er í eigu almennings og starfar í almannaþágu, og samdrátt á öllum verkefnasviðum. Áhrif niðurskurðarins verða ótvírætt til þess að starfsemi Ríkisútvarpsins veikist svo mjög að vegið er að lögbundnu hlutverki stofnunarinnar. Með þessu eru stigin óheillaskref fyrir miðlun og sköpun menningar í landinu, vandaðan og óháðan fréttaflutning og gagnrýna umræðu um stjórnmál og almenn þjóðfélagsmál.

Stafræn íslenska.
    12. maí 2014 var samþykkt þingsályktun um aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni (268. mál á 143. þingi). Samkvæmt henni skyldi skipa nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni til að gera áætlun um aðgerðir til þess að gera íslensku gjaldgenga í stafrænni upplýsingatækni og stuðla að notkun hennar á þeim vettvangi. Skipun nefndarinnar dróst alllengi en í byrjun september var henni þó komið á laggirnar. Hún hefur nýlega skilað mennta- og menningarmálaráðherra skýrslu og áætlun um aðgerðir sem nauðsynlegt er að ráðast í á næstu árum til að gera íslensku nothæfa og gjaldgenga í stafrænu umhverfi. Ráðherra hefur ekki gert neitt uppskátt um efni umræddrar skýrslu en fram hefur komið að fyrstu skref í aðgerðum vegna stafrænnar íslensku snúast um íslenska talgreiningu og er talið að það verkefni kosti um 90 millj. kr. Lagt var til að 20 millj. kr. yrði varið í þessu skyni árið 2015, enda dygði það fé til að koma verkefninu á góðan rekspöl.
    Margoft hefur verið vakin athygli á því að um þessar mundir eykst stafræn notkun tungumála hratt og næsta víst að þau tungumál sem ekki halda í við þá þróun muni eiga erfitt uppdráttar. Mikið starf hefur því verið unnið víða um heim við að finna og þróa aðferðir til að nota tungumál í stafrænu umhverfi. Slík tækni er komin af tilraunastigi og er víða notuð. En sökum þess að hvert og eitt tungumál er gætt sérstökum eiginleikum þarf að laga grunntæknina að sérkennum hvers þeirra. Ætli Íslendingar að nota þjóðtungu sína á þessu sviði í framtíðinni, en ekki eitthvert erlent tungumál, er ekki seinna vænna að leggja grunninn að því. Stjórnvöld hafa hafnað því að leggja fram fé til að hefja þetta verk og virðast því ætla að heykjast á því að tryggja komandi kynslóðum tækifæri til að nota íslensku í stafrænu umhverfi. Með því er grafið undan tilverugrundvelli tungumálsins og um leið er kastað á glæ tækifærum til hagkvæmni og sparnaðar sem felast í stafrænni beitingu tungumála.

Úrræði fyrir þolendur kynferðisofbeldis.
    Sú staðreynd að meiri hlutinn gerir einungis tillögu um 20 millj. kr. framlag til úrræða fyrir þolendur kynferðisofbeldis ber vott um vanmat á umfangi og mikilvægi þessa málaflokks. Þolendur kynferðisofbeldis verðskulda engan veginn þetta sinnuleysi. Þá vekur það furðu að það fé sem veitt er rennur aðeins til tveggja embætta: ríkissaksóknara og lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Hvers eiga þolendur kynferðisofbeldis í öðrum landshlutum að gjalda?
    Það vekur athygli og undrun að rúmlega tvöföld upphæðin sem veitt er til úrræða fyrir þolendur kynferðisofbeldis rennur til öryggisgæslu við aðsetur forseta Íslands á Bessastöðum samkvæmt tillögu sem samþykkt var við 2. umræðu. Spurningar vakna um hvað orðið hafi til að veikja öryggi forseta svo mjög að nauðsynlegt sé að verja fremur fé til gæslu hans en aðstoðar við þolendur kynferðisofbeldis.

Heilbrigðismál.
    Hin mikla umfjöllun sem átt hefur sér stað um heilbrigðismál undanfarnar vikur og mánuði hefur orðið til þess að beina athyglinni hvað eftir annað að þeim mikla vanda sem við er að fást í heilbrigðiskerfi landsmanna. Landspítalinn, sem í senn er þjóðarsjúkrahús allra landsmanna og mikilvæg rannsókna- og kennslustofnun, býr við viðvarandi rekstrarvanda og þótt hvert ár sem líður án þess að brugðist sé við hnignandi hag þessarar mikilvægu starfsemi veiki starfsþrek og dug stofnunarinnar hafa stjórnvöld ekki gripið til trúverðugra ráðstafana til að marka Landspítalanum braut til framtíðar sem öflugrar heilbrigðisstofnunar í almannaþágu.
    Lausatök stjórnvalda á heilbrigðismálum komu skýrt fram í starfi fjárlaganefndar og eru gagnrýniverð þar sem annars staðar. Sleifarlagið sem alltof oft einkenndi störf nefndarinnar kom m.a. í ljós þegar unnið var að lokafrágangi frumvarpsins fyrir 3. umræðu. Þá bætti meiri hlutinn texta við nefndarálitið með hugmyndum um breytingar sem aldrei voru kynntar í nefndinni eða komu þar til umræðu. Ætla má að þær geti haft umtalsverð áhrif á rekstur Landspítalans í framtíðinni og því verður að leggja áherslu á að þær og áhrif þeirra verði könnuð í þaula áður en lengra verður haldið.
    Unnt væri að setja á langt mál um dapurlegt ástand heilbrigðiskerfisins og dugleysi stjórnvalda á þeim vettvangi en látið verður nægja að vekja athygli á málefnum barna- og unglingageðdeildarinnar, BUGL, sem er hluti Landspítalans og sætir niðurskurði eins og önnur starfsemi hans. Fram hefur komið að langur biðlisti er eftir þjónustu BUGL og bráðatilfelli hafa aldrei verið fleiri en um þessar mundir. Í fyrra voru 7.105 komur skráðar á göngudeild BUGL og segir sú tala sína sögu um þörfina fyrir þjónustuna sem þar er veitt og sannar svo ekki verður um villst að ekki er nein ástæða til niðurskurðar þar heldur þvert á móti þörf á auknum framlögum.
    Stjórnvöld hafa gripið til þess óyndisúrræðis að auka greiðsluþátttöku sjúklinga vegna svonefndra S-merktra lyfja. Slík lyf eru einkum ávísuð langveiku fólki með þungbæra sjúkdóma sem ýmist þarf að fá lyfjagjöfina á heilbrigðisstofnun eða njóta aðstoðar við hana í heimahúsi. Síðarnefndi hópurinn verður látinn greiða hærra gjald en áður. Umrædd lyf eru að jafnaði sérhæfð og dýr í samræmi við það. Þeirri lágkúrulegu aðferð að heimta hærra lyfjagjald af fólki sem vegna veikinda er flest hvert hindrað í að afla sér tekna er hér eindregið mótmælt og því misrétti sem leitt er yfir þennan hóp og felst í því að þau sem neyta lyfjanna heima fyrir greiða þau að hluta en ekki þau sem liggja inni á sjúkrastofnun.
    Vakin skal athygli á því að 50 millj. kr. vantar til að unnt verði að reka Sjúkrahúsið á Akureyri hallalaust á næsta fjárlagaári. Í stað þess að skapa grundvöll fyrir hallalausum rekstri þessarar mikilvægu stofnunar eru fjármunir lagðir í flutning Fiskistofu til Akureyrar en þar er um að ræða áform sem hafa lítt eða ekki verið undirbúin og tilgangurinn látinn helga meðalið, enda allar líkur á að starfsemi stofnunarinnar bíði hnekki vegna þessa gönuhlaups.

Háskólar.
    Því skal haldið hér til haga að fulltrúar stjórnarandstöðunnar lögðu til við 2. umræðu að fjárveiting til Listaháskólans yrði aukin til að bregðast við húsnæðisvanda skólans. Einnig hafa verið settar fram óskir um breytingar í þá veru að Háskólinn á Akureyri geti fengið réttmætan skerf af viðbótarfé sem úthlutað var vegna umframnemenda, enda virðist skólanum refsað fyrir ráðdeildarsemi með þeirri aðferð sem beitt var við úthlutun fjárins. Þá hefur fjárveitingavaldið tekið upp á því að skilyrða ákveðna upphæð sem veitt var skólanum og binda hana við starfsemi í tiltekinni grein. Þessi aðgerð er ærið nærgöngul við akademískt frelsi háskólans.

Framhaldsskólar.
    Sú róttæka en óheillavænlega breyting hefur verið gerð á starfsemi framhaldsskólanna að tækifæri þeirra til að taka við eldri nemendum en 25 ára eru þrengd verulega. Er þetta ekki síst óheppilegt vegna þess að tækifæri til náms hefur oft reynst gott úrræði fyrir fólk sem hefur þörf fyrir að styrkja stöðu sína á atvinnumarkaði.
    Framangreindar ráðstafanir koma illa niður á landsbyggðinni og hér skal sérstaklega vikið að málefnum framhaldsskóla á Vestfjörðum. Menntaskólinn á Ísafirði hlýtur ekki viðbótarfjárveitingu og fjárskortur veldur því að staða framhaldsdeildar á Patreksfirði, sem er hluti af Fjölbrautaskóla Snæfellinga, er í uppnámi. Eins og mörgum er kunnugt hefur verið uppgangur í atvinnulífi á syðri hluta Vestfjarða og hefur þessi ánægjulega þróun m.a. leitt til nemendafjölgunar í framhaldsdeildinni á Patreksfirði. Ekki hefur verið brugðist við þessu með fjárveitingum til Fjölbrautaskóla Snæfellinga og þannig er staðið í vegi fyrir þeirri jákvæðu byggðaþróun sem á sér stað á syðri hluta Vestfjarða um þessar mundir.
    Starfsemi svonefndra dreifnámsskóla á undir högg að sækja eins og dæmið um Fjölbrautaskóla Snæfellinga sýnir. Í sumum tilfellum hefur verið seilst í fé sóknaráætlunar til að stoppa í gloppur í fjármögnun þeirra en ljóst er að það er ekki haldbært til framtíðar. Þar sem fremur er stuðlað að vanda í rekstri dreifnámsskólanna með fjárlagafrumvarpinu en miðað að því að koma þeim á traustan grunn er ástæða til að óttast um framtíð þeirra.

Sóknaráætlanir.
    Ráðist hefur verið að skipulagi sóknaráætlana og menningarsamningum og vaxtarsamningum steypt saman. Í þessu felst hætta á að aðgerðir til eflingar byggðum í heild eða sérstakri starfsemi innan þeirra verði ómarkvissar og leiði ekki til þeirra hagsbóta fyrir almenning sem að er stefnt. Þarna koma saman slæleg vinnubrögð og niðurskurður á fjárveitingum og er þá ekki góðs að vænta.

Breytingar á álagningu virðisaukaskatts og fjárhagur sveitarfélaga.
    Stjórnvöld hafa komið til leiðar breytingum á álagningu virðisaukaskatts sem fela í sér að efra þrepið lækkar úr 25,5% í 24% en neðra þrepið hækkar úr 7% í 11% en undir það falla bækur, tónlist og matvörur. Stjórnarandstaðan hefur andmælt þessum ráðstöfunum, einkum á þeim forsendum að þær feli í sér aukna skattheimtu á tekjulágt fólk og þrengi að þeirri menningarstarfsemi sem hækkunin snertir. Rétt er að halda þessu til haga hér þótt vissulega hafi þessi sjónarmið margoft komið fram í umræðu undanfarinna vikna.
    Það skal heldur ekki látið hjá líða að minnast þess að breytingar á álagningu virðisaukaskatts hafa áhrif á fjárhag sveitarfélaga og einnig breytingar á fyrirkomulagi skattaendurgreiðslu sem verkefnið „allir vinna“ hafði í för með sér. Ekkert samstarf var hins vegar haft við fulltrúa sveitarfélaganna um þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið og er það ámælisvert.
    Fleiri ráðstafanir hafa áhrif á fjárhag sveitarfélaganna svo um munar. Stjórnvöld stytta bótatímabil atvinnuleysisbóta sem verður til þess að fjöldi fólks á ekki að öðru að hverfa en framfærslu á vegum sveitarfélaganna. Þetta verður til þess að gera stöðu atvinnulausra örðugari, auka fátækt meðal þeirra og veikja rekstur sveitarfélaganna sem þarna þurfa að mæta auknum útgjöldum.

Flaustur og flan.
    Allt of oft bar það við meðan á vinnu við fjárlagafrumvarpið stóð að flaustur og flan settu mark sitt á störfin. Innanríkisráðherra vék úr embætti og var að þeim atburði langur aðdragandi. Nokkur tími leið uns annar einstaklingur var valinn í staðinn og ætla mátti að nægur tími hefði gefist til að ganga rétt frá öllu sem þetta varðaði. En það var öðru nær.
    Sökum þess að konan sem hlaut innanríkisráðherraembættið situr ekki á Alþingi, en þingið ber ábyrgð á launagreiðslum til hennar vegna ráðherrastarfa, óskaði skrifstofustjóri eftir fjárveitingu vegna þingfararkaups utanþingsráðherrans. Meiri hluti fjárlaganefndar lét hins vegar hjá líða að leggja fram tillögu um þetta og fellur því kostnaður vegna launa ráðherrans óbættur á þingið.
    Annað dæmi um kynduga starfshætti var tillaga að heimild til að selja úr eigu ríkisins fasteignir, flugvelli, jarðeignir og landspildur sem komst á kreik undir lok nefndarstarfa í fjárlaganefnd og birtist öllum að óvörum og umræðulaust. Þessari lítilsigldu tilraun til að skjóta umræðulaust inn í fjárlagafrumvarpið heimild til að selja eigur almennings var hrundið og fer vel á því en eftir stendur dæmið um hrapallega slæm og fyrirhyggjulaus vinnubrögð.
    Enn má nefna hringlandaháttinn með embætti lögreglustjóra á Austurlandi og Suðurlandi sem dæmi um undarleg og illa ígrunduð vinnubrögð. Þar var þotið til og sveitarfélagið Hornafjörður fært undir umdæmi lögreglustjórans á Austurlandi og þar með á milli kjördæma. Vitaskuld eru slíkar breytingar ekki tiltökumál ef þær eru gerðar eftir að farið hefur fram faglegt mat á þörfinni fyrir þær og þeim áhrifum sem þær valda. En því var ekki að heilsa í þessu tilfelli. Ráðstafanirnar leiddu m.a. til þess að 51 millj. kr. var flutt á milli stjórnsýsluumdæma án nokkurs rökstuðnings. Niðurstaða fjárveitingarvaldsins var þannig höfð að engu en dyntir látnir ráða. Slíkt verklag er ámælisvert þegar ráðstöfun opinbers fjár er annars vegar.

Að lokum.
    Hér að framan hefur verið drepið á ýmsa af ágöllum og vanköntum fjárlagafrumvarps ársins 2015. Þeirra er þó ekki allra getið enda er frumvarpið því miður ekki til þess fallið að efla og styrkja innviði samfélagsins eins og vert væri. Mikið skortir á það.
    Um leið og áréttað er að engir samningar áttu sér stað um fjárlagafrumvarpið sem gera aðra en stjórnarliða ábyrga fyrir efni þess skal þess samt getið að þótt oftast mættu tillögur stjórnarandstæðinga ekki öðru en óbilgirni og höfnun voru þó stöku dæmi um annað. Heimild til samninga um flutning á efni úr Vaðlaheiðargöngum á flughlaðssvæði á Akureyri er dæmi um að meiri hlutinn tók skynsamlega ákvörðun á grundvelli tillagna frá minni hlutanum.
    Jákvætt er einnig að fjárveitingar í Fjarskiptasjóð voru auknar sem og fjárveitingar til lítilla innanlandsflugvalla, en þær hafa mikla þýðingu fyrir þau byggðarlög sem njóta þeirra. Þá hafa stjórnvöld brugðist við áskorunum um aukið fé til útlendingamála og hælisleitenda og er það vel.

Alþingi, 16. desember 2014.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.