Ferill 275. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 793  —  275. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Val Gíslasyni
um kaupaukagreiðslur fjármálafyrirtækja.


     1.      Hefur ráðherra í hyggju að leggja til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki til að rýmka heimild fjármálafyrirtækja til kaupaukagreiðslna? Ef svo er, þá hvers vegna?
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur undanfarin tvö ár unnið að frumvarpi til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Með frumvarpinu sem fyrirhugað er að leggja fram á þessu þingi er stefnt að því að innleiða og aðlaga íslenska löggjöf að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB og alþjóðlega Basel III staðlinum sem kynntur var af Basel- nefndinni um bankaeftirlit í desember 2010. Tilskipun 2013/36/ESB, sem nefnd hefur verið CRD IV tilskipunin, innleiðir Basel III staðalinn í Evrópulöggjöf. Um er að ræða viðamiklar breytingar en nýjar reglur eiga ásamt því að bæta reglur um gæði og magn eiginfjár og eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækja m.a. að styrkja bæði innra og ytra eftirlit með fjármálafyrirtækjum og bæta áhættustýringu þeirra. Meginmarkmið nýrra reglna er að gera fjármálafyrirtæki betur í stakk búin til þess að mæta rekstrartapi og tryggja fjármálastöðugleika.
    Haustið 2012 var skipuð nefnd til þess að vinna að nauðsynlegum lagabreytingum vegna þessa. Í nefndinni sitja nú fulltrúar frá Fjármálaeftirlitinu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands ásamt fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem stýrir vinnunni. Henni er ætlað að aðstoða starfsmenn fjármála- og efnahagsráðuneytisins við þessa vinnu.
    Hluti þeirra breytinga sem finna má í tilskipun 2013/36/ESB, nánar tiltekið ákvæði 92.–95. gr. tilskipunarinnar, felur í sér breytingar og samræmingu á reglum Evrópusambandsins er varða starfskjarastefnu fjármálafyrirtækja. Hluti fyrirhugaðra breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, varðar breytingar á reglum um starfskjarastefnu fjármálafyrirtækja. Stefnt er að því með frumvarpinu að samræma, eins og kostur er, íslensk lög því sem tíðkast á öðrum Norðurlöndum um sama efni en aðrar Norðurlandaþjóðir, þ.e. Danmörk, Noregur og Svíþjóð, hafa frá árinu 2013 gert lagabreytingar til þess að aðlaga landsrétt sinn framangreindri tilskipun.
    Lagafrumvarpið er ennþá í vinnslu innan ráðuneytisins og þar á meðal breytingar á VII. kafla laganna er varða starfskjarastefnu fjármálafyrirtækja. Þó er ljóst að breytingar verða gerðar á gildissviði reglnanna og hvaða starfsmenn fjármálafyrirtækja það verða sem munu þurfa að sæta takmörkunum á breytilegum starfskjörum. Verða lagareglurnar því að nokkrum hluta samræmdar því sem nú gildir annars staðar á Norðurlöndunum. Þessi tiltekna takmörkun mun einungis ná til starfsmanna sem teljast hafa veruleg áhrif á áhættusnið fjármálafyrirtækja, þ.e. framkvæmdastjórnar, lykilstarfsmanna, starfsmanna eftirlitseininga og annarra starfsmanna sem njóta sambærilega heildarstarfskjara og framkvæmdastjórn og lykilstarfsmenn. Samkvæmt núgildandi reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 700/2011, um kaupaukakerfi fjármálafyrirtækja, sem settar voru á grundvelli 57. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, getur hámarkshlutfall kaupauka mest verið 25%. Á þessari stundu hefur ekki verið ákveðið að hækka hlutfallið.
    Tvær meginástæður eru fyrir því að lagt verður til að gildissviðinu verði breytt. Annars vegar er lagt til að gildissviðið verði það sama og gildir um þessi efni í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og því stefnt að því að samræma gildissvið íslenskra laga lagareglum annarra Norðurlandaþjóða. Hins vegar mælir Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (e. European Banking Authority) með því að gildissvið reglna nái einungis til þeirra starfsmanna sem áður hafa verið nefndir, sbr. drög að tæknilegum staðli á grundvelli tilskipunar 2013/36/ESB um skilgreiningu á þeim starfsmönnum sem teljast hafa veruleg áhrif á áhættusnið fjármálafyrirtækja.

     2.      Hvert telur ráðherrann að ætti að vera hámark kaupaukagreiðslna fjármálafyrirtækja til hvers starfsmanns?
    Lög eða reglur setja ekki og hafa aldrei sett tölulegt þak á hámark breytilegra starfskjara. Má því skilja fyrirspurn þingmannsins sem svo að hann vilji fá svör fjármála- og efnahagsráðherra um það hvert hann telji hámarkshlutfall breytilegra starfskjara af heildarlaunum skulu vera. Fyrir hrun fjármálakerfisins var ekkert hámark á hlutfalli breytilegra starfskjara af heildarlaunum. Í kjölfar fjármálahrunsins var ákveðið að takmarka hlutfall breytilegra starfskjara hér á landi við 25% af föstum launum. Þetta hlutfall hefur haldist óbreytt frá þeim tíma. Hlutfallið er mun lægra en á öðrum Norðurlöndum, en hámarkshlutfall breytilegra starfskjara starfsmanna fjármálafyrirtækja miðast við 100% af föstum launum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og heimild til staðar í lögum eða reglum landanna fyrir hluthafafundi fjármálafyrirtækjanna að hækka hlutfallið í 200%. Danmörk, Noregur og Svíþjóð nýta því það svigrúm sem Evrópureglur veita samkvæmt tilskipun 2013/36/ESB. Mikilvægt er að a.m.k. hluti fjármálafyrirtækja geti tengt greiðslur til ákveðinna starfsmanna við árangur. Með því má lágmarka fastan kostnað sem getur reynst smærri fjármálafyrirtækjum sérstaklega þungur baggi. Fyrir stöðugleika fjármálakerfisins skiptir ekki síður máli að umgjörð breytilegra starfskjara tryggi að hagsmunir fyrirtækisins og viðkomandi starfsmanns fari saman, m.a. með því að þau miðist við lengri tímabil en áður og verði ekki greidd að fullu fyrr en að tilteknum tíma liðnum.

     3.      Telur ráðherra rétt að setja frekari reglur um greiðslu slíkra kaupauka, t.d. um að við slíkar greiðslur skuli gæta jafnræðis milli starfsmanna með tilliti til stöðu og kynferðis?
    Ákvæði um breytileg starfskjör, sem stefnt er að því að verði í lögum um fjármálafyrirtæki, fela í sér ýmsar reglur aðrar en hámark hlutdeildar slíkra greiðslna af heildarlaunum. Markmið með þeim ákvæðum er að draga úr neikvæðum hvötum sem óheftar kaupaukagreiðslur geta haft í för með sér. Ekki er rétt að í lögum um fjármálafyrirtæki sé sérstaklega vikið að öðrum þáttum, líkt og vísað er til í fyrirspurninni, sem ekki varða starfsemi fjármálafyrirtækja sérstaklega.

     4.      Hafa fjármálafyrirtæki þrýst á um að heimild þeirra til að greiða starfsfólki sínu kaupauka verði aukin? Ef svo er, er þess óskað að gögn þess efnis sem ráðuneytið kann að hafa í sínum fórum fylgi svarinu.
    Ráðuneytið hefur um nokkurt skeið unnið að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki eins og kemur fram í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Hluti þeirrar löggjafar snýr að breytilegum starfskjörum starfsmanna fjármálafyrirtækja. Í þessari vinnu hefur ráðuneytið notið liðsinnis nefndar sem í eiga sæti fulltrúar Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, auk starfsmanna ráðuneytisins eins og þegar hefur komið fram. Í vinnu þeirrar nefndar hefur verið rætt um hvernig megi með sem bestum hætti innleiða hið evrópska regluverk í íslenskan rétt, m.a. varðandi breytileg starfskjör, en sambærileg ákvæði má nú finna í reglum Fjármálaeftirlitsins. Á fundum nefndarinnar, sem og öðrum þar sem ráðuneytið hefur fjallað um þá löggjafarvinnu sem nú stendur yfir, hefur verið leitað eftir fjölbreyttum sjónarmiðum. Auknar kaupaukagreiðslur hafa þó ekki verið efni þeirra funda, heldur frekar hvernig móta megi umgjörð um breytileg starfskjör starfsmanna fjármálafyrirtækja með sem bestum hætti og í samræmi við hið evrópska regluverk og framkvæmd þess á öðrum Norðurlöndum.

     5.      Hefur ráðherra, eða embættismenn ráðuneytisins, átt fundi með fulltrúum fjármálafyrirtækja um auknar kaupaukagreiðslur? Ef svo er, er óskað eftir því að fundargerðir eða önnur gögn um þá fundi fylgi svarinu.
    Vísað er til svars við 1. og 4. tölul. fyrirspurnarinnar um það með hvaða hætti unnið er að undirbúningi þessa máls.