Ferill 518. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 944  —  518. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur
um bólusetningar barna.

     1.      Hvaða reglur gilda um bólusetningar barna?
    Samkvæmt 5. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997, skal sóttvarnalæknir skipuleggja og samræma sóttvarnir og ónæmisaðgerðir um allt land og halda smitsjúkdómaskrá sem tekur meðal annars til ónæmisaðgerða. Í reglugerð nr. 221/2001, um bólusetningar, er kveðið á um að börnum með lögheimili hér á landi skuli boðin bólusetning gegn tilteknum smitsjúkdómum þeim að kostnaðarlausu.

     2.      Hefur fjöldi barna sem ekki hefur verið bólusettur breyst síðustu 10–15 ár?
    Samkvæmt reglugerð nr. 221/2001 skal skrá allar bólusetningar á Íslandi í miðlægan bólusetningargrunn. Grunnurinn inniheldur upplýsingar um allar bólusetningar á Íslandi frá árinu 2005, en upplýsingar um bólusetningar fyrir þann tíma eru einungis til á þeim stöðum þar sem bólusetningar fóru fram, svo sem á heilsugæslustöðvum. Grunnurinn byggist á rafrænni skráningu bólusetninga á heilsugæslustöðvum, sjúkrastofnunum og skólum hér á landi.
    Þátttaka í bólusetningum barna er almennt góð hér á landi. Frá árinu 2005, þ.e. eftir tilkomu bólusetningargrunns, hafa tölur um þátttöku barna í bólusetningum verið nokkuð stöðugar og ekki er að sjá merkjanlegan mun á þátttökutölum á tímabilinu. Eftirfarandi myndir sýna þátttöku í bólusetningu barna undanfarinn áratug.
Graphic file wpg7cb9.tmp with height 167 p and width 197 p Left aligned Graphic file wpg7c1c.tmp with height 167 p and width 197 p Left aligned


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Meðaltal þátttöku barna í bólusetningum frá árinu 2005:
          Þátttaka í bólusetningum fyrir barnaveiki, stífkrampa, kíghósta, Hib-heilahimnubólgu og lömunarveiki var 95% hjá þriggja mánaða gömlum börnum, 93% hjá fimm mánaða gömlum börnum og 88% hjá tólf mánaða gömlum börnum.
          Þátttaka í bólusetningum fyrir mislingum, hettusótt og rauðum hundum var 90% hjá 18 mánaða gömlum börnum.
          Þátttaka í bólusetningum fyrir meningókokkum C var 95% hjá sex mánaða gömlum börnum og 88% hjá átta mánaða gömlum börnum.
          Þátttaka í bólusetningum fyrir pneumókokkum var 96% hjá þriggja mánaða gömlum börnum, 93% hjá fimm mánaða gömlum börnum og 88% hjá tólf mánaða gömlum börnum.
          Þátttaka í bólusetningum fyrir HPV-veirusýkingu (gegn leghálskrabbameini) er hjá tólf ára stúlkum 93% við fyrstu bólusetningu, 92% við aðra bólusetningu og 90% við þriðju bólusetningu.
    Að lokum skal þess getið að til að ná til barna sem ekki hafa verið bólusett sendir sóttvarnalæknir nafnalista til heilsugæslunnar um þá einstaklinga sem ekki eru bólusettir samkvæmt bólusetningargrunni. Þannig er hægt að hafa upp á einstaklingum sem eru ekki bólusettir og bjóða þeim bólusetningu og jafnframt er hægt að lagfæra skráningu í grunninum ef um slíkt er að ræða.