Ferill 305. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 972  —  305. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003,
með síðari breytingum (kerfisáætlun).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Erlu Sigríði Gestsdóttur og Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Eirík Björn Björgvinsson frá Akureyrarkaupstað, Guðmund Inga Ásmundsson, Guðjón Axel Guðjónsson, Nils Gústavsson og Sverri Jan Norðfjörð frá Landsneti, Helga Bjarnason frá Landsvirkjun, Guðmund Inga Guðbrandsson frá Landvernd, Ágúst Hafberg og Árna Vilhjálmsson fyrir hönd Norðuráls, Gústaf Adolf Skúlason frá Samorku, Finn Ingimarsson og Harald Ingvarsson frá Náttúrustofu Kópavogs, Eydísi Láru Franzdóttur og Helenu Mjöll Jóhannsdóttur frá Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, Snorra Sigurðsson frá Reykjavíkurborg, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Bryndísi Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins, Guðjón Bragason og Val Rafn Halldórsson frá Samtökum íslenskra sveitarfélaga, Karl Ingólfsson, Skúla Hauk Skúlason og Sveinbjörn Halldórsson frá Samtökum útivistarfélaga, Ottó Björgvin Óskarsson og Rut Kristinsdóttur frá Skipulagsstofnun og Aðalbjörgu Birnu Guttormsdóttur frá Umhverfisstofnun. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Akureyrarkaupstað, Alþýðusambandi Íslands, Eydísi Láru Franzdóttur, Eyþingi, Félagi landslagsarkitekta, Fljótsdalshéraði, Guðrúnu Dóru Harðardóttur, Hafnarfjarðarbæ, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Herði Einarssyni, Ísafjarðarbæ, landeigendum á áhrifasvæði fyrirhugaðra háspennulínulagna, Landsneti, Landsvirkjun, Landvernd, Magnúsi Inga Hannessyni, Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, Norðuráli ehf., Orkustofnun, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Samorku, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Skipulagsstofnun, Sverri Ólafssyni, umhverfisnefnd Alþingis, Umhverfisstofnun og Vegagerðinni.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á III. kafla raforkulaga, nr. 65/2003, sem fjallar um flutning raforku. Frumvarpið er lagt fram samhliða tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína (321. máli). Í a-lið 1. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að við uppbyggingu flutningskerfis raforku skuli taka tillit til þeirrar stefnu.
    Með frumvarpinu er lagt til að 22. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB um sameiginlegar reglur fyrir innri markað raforku verði innleidd hér á landi. Í tilskipuninni eru sameiginlegar reglur um framleiðslu, flutning, dreifingu og afhendingu rafmagns og ákvæði um neytendavernd. Markmið tilskipunarinnar er að bæta og samþætta samkeppnishæfa raforkumarkaði innan bandalagsins. Hún hefur ekki enn verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en talið er rétt að innleiða þennan hluta hennar, þ.e. 22. gr., þar sem mælt er fyrir um kerfisáætlun flutningsfyrirtækis.
    Með frumvarpinu er lagt til að við raforkulögin bætist ítarleg ákvæði um kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins og kveðið á um stöðu hennar samkvæmt lögum. Mælt er fyrir um undirbúning kerfisáætlunar, efnislegt innihald, stöðu í stjórnkerfinu, m.a. gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaga, framkvæmd og eftirfylgni með henni. Sérstaklega er vikið að hlutverki Orkustofnunar við að samþykkja og hafa eftirlit með framkvæmd kerfisáætlunar.
    Í a-lið 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að flutningsfyrirtækið leggi árlega fyrir Orkustofnun kerfisáætlun til samþykktar sem byggist á langtímaáætlun til tíu ára og framkvæmdaáætlun til þriggja ára. Á grundvelli hennar geti markaðsaðilar fengið upplýsingar um flutningsvirki sem skal reisa eða endurbæta á komandi tíu árum. Flutningsfyrirtækið skuli leggja fram greiningu á valkostum í kerfisáætlun þar sem tekið sé mið af stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Í d-lið 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ráðherra geti sett reglugerð þar sem nánar sé kveðið á um hvernig valkostagreiningu verði hagað. Meiri hlutinn leggur áherslu á að valkostagreining verði unnin á grundvelli viðurkenndrar aðferðafræði og sýni samanburð á ólíkum útfærslum við fyrirhugaðar framkvæmdir í flutningskerfinu, m.a. samanburð á jarðstreng og loftlínu út frá kostnaði og öðrum þáttum. Brýnt er að skýrt sé kveðið á um framangreint í reglugerð og að í henni sé vísað til meginreglna og viðmiða í stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, sbr. tillögu til þingsályktunar þess efnis (321. mál). Meiri hlutinn áréttar í þessu sambandi þau sjónarmið sem koma fram í nefndaráliti um tillöguna sem ráðherra ber jafnframt að hafa til hliðsjónar við setningu reglugerðar. Á grundvelli valkostagreiningar eru drög að kerfisáætlun lögð fram til kynningar og umsagnar og brýnt er að framsetning hennar sé aðgengileg og með skýrum samanburði á valkostum þannig að unnt sé að koma sjónarmiðum og ábendingum á framfæri.
    Í frumvarpinu felst að kveðið verði á um ítarlegt samráðsferli af hálfu flutningsfyrirtækisins við undirbúning kerfisáætlunar auk þess sem Orkustofnun skal við yfirferð kerfisáætlunar hafa samráð við tilgreinda aðila, sbr. a- og b-lið 2. gr. Kerfisáætlun skal fylgja greinargerð um athugasemdir sem bárust á kynningartíma, svör flutningsfyrirtækisins og rökstuðningur fyrir áætluninni. Með öðrum orðum verður lögfest að viðhaft skuli samráð á upphafsstigum við gerð kerfisáætlunar og að auki getur ráðherra sett nánari reglur um samráðsferlið í reglugerð. Að mati meiri hlutans er hér um mikilvæga framför að ræða frá því sem nú er og eru vonir bundnar við að með því að fá fram sjónarmið hagsmunaaðila strax í upphafi verði unnt að draga úr ágreiningi síðar í ferlinu varðandi einstakar framkvæmdir.
    Meiri hlutinn bendir á að samþykkt eða synjun kerfisáætlunar af hálfu Orkustofnunar er kæranleg stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndar raforkumála á grundvelli 1. mgr. 30. gr. raforkulaga. Úrskurðarnefndin er sjálfstæð í sínum störfum, sbr. 10. mgr. sömu greinar, en unnt er að bera úrskurð hennar undir dómstóla innan sex mánuða frá því að aðila var birtur úrskurðurinn. Bæði er unnt að kæra samþykkta kerfisáætlun í heild eða einstaka hluta hennar, t.d. einstaka fyrirhugaða framkvæmd innan hennar og afmarkaða þætti. Jafnframt er ýmist unnt að kæra ákvörðun Orkustofnunar um að samþykkja eða synja samþykki kerfisáætlunar að efni til eða formi.
    Við umfjöllun um málið var bent á að almennt sé ferill leyfisveitinga hvað varðar skipulagsmál og framkvæmdir mjög tafsamur og flókinn. Meiri hlutinn telur mikilvægt að hugað verði að einföldun hvað þetta varðar en með frumvarpinu er þó stigið skref í þá átt og ákvörðun Orkustofnunar um einstaka framkvæmdir færð framar í ferlið.
    Staða kerfisáætlunar gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaga er mikilvægt mál og um það er fjallað í c-lið 2. gr. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að samráð var haft við Samband íslenskra sveitarfélaga um þann þátt. Nokkur gagnrýni hefur þó komið fram á ákvæðið við meðferð málsins í nefndinni. Meiri hlutinn leggur til að lokamálsliður 1. mgr. þess falli brott þar sem kveðið er á um að sveitarstjórn sé óheimilt að víkja frá tillögu flutningsfyrirtækisins ef það leiði til þess að það geti ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt kerfisáætlun. Meiri hlutinn telur ákvæði 1. mgr. að öðru leyti ná því markmiði sem stefnt er að, þ.e. að kerfisáætlun fái traustari grundvöll. Þá leggur meiri hlutinn til að 2. málsl. 1. mgr. verði lagfærður og þar vísað til skipulagsákvarðana en ekki skipulagsmála.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við c-lið 2. gr. (9. gr. c):
                  a.      Í stað orðsins „skipulagsmál“ í 2. málsl. 1. mgr. komi: skipulagsákvarðanir.
                  b.      Lokamálsliður 1. mgr. falli brott.
     2.      Fyrri málsliður 3. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Hann ritar undir álitið með fyrirvara.
    Björt Ólafsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. febrúar 2015.

Jón Gunnarsson,
form.
Páll Jóhann Pálsson,
frsm.
Haraldur Benediktsson.
Ásmundur Friðriksson. Kristján L. Möller,
með fyrirvara.
Þorsteinn Sæmundsson.
Þórunn Egilsdóttir.