Ferill 509. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 978  —  509. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um viðbrögð við aldurstengdri mismunun á vinnumarkaði.

    
    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra þörf á að bregðast á einhvern hátt við aldurstengdri mismunun á vinnumarkaði? Ef svo er, hvernig hyggst ráðherra bregðast við?

    Almenna leiðbeiningarreglu um bann við mismunun er að finna í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sem ávallt ber að hafa að leiðarljósi. Þessi jafnræðisregla er orðuð mjög rúmt en ekki má líta á atriðin sem þar eru nefnd sem óheimill grundvöllur mismununar sem tæmandi talningu enda er lagt bann við að mismuna mönnum eftir stöðu þeirra að öðru leyti. Er reglunni ætlað að gilda á öllum sviðum löggjafar og veita öllum jafna lagavernd. Í athugasemdum við 3. gr. frumvarps til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum (297. mál á 118. löggjafarþingi), er þó tekið fram að hafa verði í huga að reglan sé öðrum þræði stefnuyfirlýsing sem varasamt sé að taka of bókstaflega án tillits til aðstæðna sem geti réttlætt eðlileg frávik frá þessu jafnræði fyrir lögunum. Markmið jafnræðisreglunnar sé framar öllu að koma í veg fyrir manngreinarálit.
    Verður því að ætla að almennt sé óheimilt að mismuna á vinnumarkaði sem og á öðrum sviðum samfélagsins á grundvelli aldurs. Engu síður kunna að vera fyrir hendi frávik frá banni við mismunandi meðferð á grundvelli aldurs séu færð fyrir því málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er til að ná tilsettu markmiði.
    Mikilvægt er hins vegar að skerpa á þeim úrræðum sem launafólk á innlendum vinnumarkaði hefur til að leita réttar síns telji það á sér brotið í starfi vegna aldurs þeirra. Ráðherra stefnir því að því að leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði en frumvarpið mun m.a. fjalla um bann við mismunun á vinnumarkaði, svo sem vegna aldurs.