Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 988  —  340. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 173/2013 um breytingu á XX. viðauka (Um­hverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneyti, Kjartan Ingvarsson frá um­hverfis- og auðlindaráðuneyti og Dagmar Sigurðardóttur frá Ríkiskaupum. Þá barst umsögn um málið frá Ríkiskaupum.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sam­eigin­legu EES- nefndarinnar nr. 173/2013, frá 8. október 2013, um breytingu á XX. viðauka (Um­hverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/33/EB frá 23. apríl 2009 um að stuðla að notkun á hreinum og orkunýtnum ökutækjum til flutninga á vegum. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 8. apríl 2014. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Með tilskipuninni er stefnt að því að efla markaðinn fyrir hrein og orkunýtin ökutæki. Talið er að aukin eftirspurn eftir slíkum ökutækjum muni hvetja bílaiðnaðinn til að fjárfesta í og þróa frekar slík ökutæki. Í tilskipuninni er kveðið á um að aðilar sem heyra undir tilteknar tilskipanir ESB á sviði opinberra innkaupa skuli taka tillit til orkunýtingar og um­hverfisáhrifa við innkaup á ökutækjum til vegasamgangna. Meðal þess sem horft skal til er orkunotkun sem og losun koldíoxíðs og annarra tiltekinna mengandi efna. Kröfur tilskipunarinnar má uppfylla með tvennum hætti, annars vegar með því að skilgreina orku- og um­hverfisþætti sem tækniforskrift við innkaup og hins vegar með því að fella kröfur varðandi orkunotkun og um­hverfisáhrif inn í ákvörðunarferlið við innkaup. Tilskipunin á almennt ein­göngu við um innkaup sem eru yfir viðmiðunarfjárhæðum tilskipana ESB á sviði opinberra innkaupa. Þó er ríki heimilt að kveða á um lægri mörk fyrir innkaup sem tengjast almennum farþegaflutningum á járn­brautum og á vegum.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingu á lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, og hefur um­hverfis- og auðlindaráðherra þegar lagt fram slíkt breytingarfrumvarp, sbr. 424. mál. Gert er ráð fyrir að gerðin verði í kjölfarið innleidd í formi reglugerðar. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að núgildandi lög um opinber innkaup, nr. 84/2007, gera kröfu um að almennt sé litið til um­hverfisþátta við opinber innkaup. Innleiðing gerðarinnar mun þó skerpa enn frekar á þeirri skyldu. Tilskipunin kveður ekki á um með hvaða hætti aðildarríkin skuli hafa eftirlit með því að ákvæðum tilskipunarinnar verði framfylgt. Kostn­aður við innleiðingu veltur því á umfangi eftirlits og hvernig það verður útfært. Nefndin leggur áherslu á hagkvæma nálgun í þeim efnum.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Össur Skarphéðinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. febrúar 2015.

Birgir Ármannsson,
form., frsm.
Ásmundur Einar Daðason. Vilhjálmur Bjarnason.
Elín Hirst. Frosti Sigurjónsson. Katrín Jakobsdóttir.
Óttarr Proppé. Silja Dögg Gunnarsdóttir.