Ferill 573. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1002  —  573. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991,
með síðari breytingum (frestun nauðungarsölu).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneytinu.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að unnt verði að beiðni gerðarþola að fresta nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði í þeim tilvikum þar sem gerðarþoli hefur sótt um leiðréttingu fasteignaveðlána en bíður endanlegrar niðurstöðu umsóknarinnar annaðhvort hjá ríkisskattstjóra eða kærunefnd, hafi ákvörðun ríkisskattstjóra verið kærð þangað.
    Með lögum nr. 130/2013 var nýju ákvæði til bráðabirgða bætt við lög um nauðungarsölu þar sem kveðið var á um að fresta mætti nauðungarsölu fram yfir 1. september 2014 að beiðni gerðarþola. Byggðist sú ráðstöfun á því að kynnt hafði verið aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána en áætlað var að tillögur sem þar voru settar fram yrðu komnar til framkvæmda um mitt ár 2014. Þótti því rétt að nauðungarsölum yrði frestað fram yfir 1. september 2014 svo að skuldurum gæfist tími til að leggja mat á þær aðgerðir sem boðaðar voru og þau áhrif sem þær gætu haft á skuldastöðu viðkomandi. Kveðið var á um fyrirkomulag leiðréttingar á verðtryggðum fasteignalánum heimila á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009 með lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána, nr. 35/2014. Í kjölfar lagasetningarinnar var talið nauðsynlegt að fresta nauðungarsölum á meðan unnið yrði úr umsóknum um leiðréttingu. Með lögum nr. 94/2014 var því samþykkt breyting á lögum um nauðungarsölu sem heimilaði að nauðungarsölu yrði frestað fram yfir 1. mars. 2015 að beiðni gerðarþola. Sett var það skilyrði fyrir frestun nauðungarsölu að viðkomandi hefði sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni kom fram að mun lengri tíma hefði tekið að vinna úr umsóknum en upphaflega var gert ráð fyrir, en umsagnir 5.000 einstaklinga eru enn óafgreiddar hjá ríkisskattstjóra. Þá hafa um 200 einstaklingar kært niðurstöðu sína til sérstakrar úrskurðarnefndar og endanleg niðurstaða í þeim málum liggur ekki fyrir.
    Nefndin vekur athygli á þeirri breytingu sem frumvarpið felur í sér að skilyrði fyrir því að frestur verði veittur er að gerðarþoli sýni fram á að hann hafi sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána en bíði niðurstöðu ríkisskattstjóra á umsögn sinni eða ákvörðun ríkisskattstjóra hafi verið kærð til úrskurðarnefndar og sé þar til meðferðar. Þetta felur það í sér að frestunin á ekki við ef gerðarþoli hefur fengið niðurstöðu ríkisskattstjóra en ekki samþykkt hana.
    Nefndin bendir á að með lögum nr. 23/2009, sem breyttu m.a. ákvæðum laga um nauðungarsölu, var ákveðið að fresta skyldi að ósk gerðarþola nauðungarsölum fasteigna fram yfir 31. október 2009. Þessi frestur var framlengdur með lögum nr. 108/2009 til 28. febrúar 2010. Frumvarpið sem hér um ræðir byggist á þeirri lagaframkvæmd. Nefndin áréttar að frumvarpið felur í sér sértækar tímabundnar aðgerðir til að jafna stöðu þeirra sem hafa sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána eða kært niðurstöðu ríkisskattstjóra en ekki fengið úrlausn sinna mála en það er eitt af markmiðum jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að tryggja samræmi við úrlausn mála. Mikilvægt er að mati nefndarinnar að gæta samræmis og jafnræðis í þeim málum sem ekki hefur fengist niðurstaða í.
    Fyrirvari Guðbjarts Hannessonar og Birgittu Jónsdóttur lýtur að því að það skortir á þau úrræði sem ríkisstjórnin var búin að boða, sbr. lyklafrumvarpið o.fl. Einnig er nauðsynlegt að ná til þeirra hópa sem standa fyrir utan og gátu ekki sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 27. febrúar 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Páll Valur Björnsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. Willum Þór Þórsson. Guðbjartur Hannesson,
með fyrirvara.
Birgitta Jónsdóttir,
með fyrirvara.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Vilhjálmur Árnason.