Ferill 525. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1003  —  525. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Haraldi Einarssyni um einbreiðar brýr.


     1.      Hvað eru margar einbreiðar brýr á vegum landsins þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. og hvar eru þær, skipt eftir kjördæmum annars vegar og hins vegar sveitarfélögum?
    Fjöldi brúa í umsjón Vegagerðarinnar er um 1190. Á þjóðvegakerfinu eru 694 einbreiðar brýr, en af þeim eru 197 einbreiðar brýr þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Meðalaldur einbreiðra brúa eru 50 ár.
    Fjölda einbreiðra brúa, þar sem hámarkshraði er 90 km/klst, skipt eftir kjördæmum annars vegar og eftir sveitarfélögum hins vegar, má sjá í eftirfarandi töflum:

Kjördæmi Fjöldi
Norðausturkjördæmi 57
Norðvesturkjördæmi 61
Suðurkjördæmi 73
Suðvesturkjördæmi 6
197
Sveitarfélag Fjöldi
Akrahreppur 1
Ásahreppur 2
Bláskógabyggð 7
Blönduósbær 1
Borgarbyggð 6
Borgarfjarðarhreppur 3
Breiðdalshreppur 1
Dalabyggð 8
Djúpavogshreppur 7
Eyjafjarðarsveit 5
Fjarðabyggð 7
Fljótsdalshérað 5
Fljótsdalshreppur 6
Flóahreppur 1
Grímsnes- og Grafningshreppur 5
Hrunamannahreppur 1
Húnaþing vestra 5
Hvalfjarðarsveit 4
Hörgársveit 1
Ísafjarðarbær 6
Kjósarhreppur 6
Langanesbyggð 2
Mýrdalshreppur 1
Norðurþing 3
Rangárþing eystra 8
Rangárþing ytra 3
Reykhólahreppur 4
Skaftárhreppur 13
Skeiða- og Gnúpverjahreppur 6
Skútustaðahreppur 1
Snæfellsbær 1
Strandabyggð 8
Súðavíkurhreppur 4
Svalbarðshreppur 2
Sveitarfélagið Hornafjörður 22
Sveitarfélagið Skagafjörður 8
Sveitarfélagið Ölfus 4
Tálknafjarðarhreppur 1
Tjörneshreppur 1
Vesturbyggð 4
Vopnafjarðarhreppur 4
Þingeyjarsveit 9
197

     2.      Er til áætlun í ráðuneytinu um að ljúka tvöföldun þessara brúa?
    Á undanförnum áratugum hefur náðst mikill árangur í fækkun einbreiðra brúa. Má segja að verstu staðirnir á umferðarmestu vegunum hafi verið lagfærðir að mestu. Eins og fram kemur hér að framan er þó enn mikið verk óunnið. Í mörgum nýbyggingum og endurbyggingum vega eru gerðar nýjar brýr sem koma í stað annarra gamalla og oftast einbreiðra brúa. Í vegáætlunarhluta samgönguáætlunar 2011–2022 er gert sérstaklaga ráð fyrir fjárveitingu til breikkunar einbreiðra brúa að upphæð 1.500 millj. kr. á tímabilinu.
    Þær 197 brýr sem greint er frá hér að framan eru samtals 9.436 m að lengd. Stærðargráða kostnaðar við að endurgera brýr af slíkri lengd og tvöfaldar að breidd gæti verið 30 milljarðar. Til viðbótar kæmi síðan kostnaður við vegagerð sem er mismikill eftir aðstæðum á hverjum stað. Verkefnið er því gríðarlega stórt.
    Ekki er lengur eins mikið um áberandi slysastaði við einbreiðar brýr í vegakerfinu enda hefur verið gert átak í að merkja einbreiðu brýrnar sérstaklega og á áberandi hátt.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fækka einbreiðum brúm og ef svo er, munu merki þess sjást í næstu samgönguáætlun?
    Eins og áður segir er gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu til breikkunar brúa í samgönguáætlun. Eins mun einbreiðum brúm væntanlega fækka jafnt og þétt eftir því sem nýbyggingu og endurbyggingu vega miðar fram. Væntanlega mun þannig takast að ná umtalsverðum árangri í fækkun brúa með samþykkt nýrrar samgönguáætlunar 2015–2026. Í stefnumótun þeirrar áætlunar er umferðaröryggi fremst á blaði og áhersla lögð á úrbætur við slysastaði, þar á meðal einbreiðar brýr.