Ferill 581. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1012  —  581. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi
fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, með síðari breytingum
(undantekningar frá tryggingavernd).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    1. tölul. 6. mgr. 9. gr. laganna orðast svo: innstæður í eigu fjármálafyrirtækja, fjármálafyrirtækja í skila-, slita- eða gjaldþrotameðferð og fyrirtækja sem hafa misst starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda á næsta gjalddaga iðgjaldagreiðslna í sjóðinn.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Tilefni framlagningar þess er að kveða skýrt á um að innstæður fyrirtækja sem svipt hafa verið eða skilað hafa inn starfsleyfi sínu sem fjármálafyrirtæki njóti ekki verndar innstæðutryggingakerfisins, þ.e. Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
    Tryggingarsjóðurinn ritaði ráðuneytinu erindi hinn 18. desember sl. og vakti athygli á að sjóðurinn liti svo á að fjármálafyrirtæki í slitameðferð teldust ekki fjármálafyrirtæki í skilningi laga nr. 161/2002 og nytu innstæður þeirra því tryggingaverndar samkvæmt lögum nr. 98/1999. Jafnframt var vakin athygli ráðuneytisins á lagaóvissu um stöðu þessara innstæðna.
    Í 6. mgr. 9. gr. laganna er að finna upptalningu á þeim innstæðum sem ekki falla undir vernd innstæðutryggingakerfisins. Þar segir í 1. tölul. að innstæður fjármálafyrirtækja séu undanskildar tryggingavernd.
    Þegar ákvæði þetta kom inn í lögin voru þau fjármálafyrirtæki sem höfðu farið í slitameðferð og voru undir stjórn skilanefnda eða slitastjórna enn með takmörkuð starfsleyfi til þess að sinna ákveðnum þáttum í starfsemi sinni. Nokkur þessara fyrirtækja hafa síðan lagt inn eða verið svipt að fullu starfsleyfi og falla því ekki undir skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, á þeim fyrirtækjum sem teljast til fjármálafyrirtækja. Er skilgreiningin svohljóðandi: „Viðskiptabanki, sparisjóður, lánafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlun eða rekstrarfélag verðbréfasjóða sem fengið hefur starfsleyfi skv. 6. gr., sbr. 4. gr.“ Skilgreiningin miðast þannig við þau fyrirtæki sem fengið hafa starfsleyfi og verður að telja að í þeim áskilnaði felist að starfsleyfi hafi ekki verið fellt niður.     Í 4. gr. sömu laga er fjallað um tegundir starfsleyfa og er greinin svohljóðandi:
    „Fjármálafyrirtæki getur fengið starfsleyfi sem:
     1.      Viðskiptabanki skv. 1.–6. tölul. 1. mgr. 3. gr. Viðskiptabanki skal þó ætíð hafa starfsleyfi og veita þjónustu skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr.
     2.      Sparisjóður skv. 1.–6. tölul. 1. mgr. 3. gr. Sparisjóður sem starfar á afmörkuðu, staðbundnu starfssvæði skv. 3. mgr. 14. gr. getur fengið starfsleyfi skv. 1., 2. og 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. Sparisjóður skal þó ætíð hafa starfsleyfi og veita þjónustu skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr.
     3.      Lánafyrirtæki skv. b-lið 1. tölul. og 2.–6. tölul. 1. mgr. 3. gr. Lánafyrirtæki skal ætíð hafa starfsleyfi skv. b-lið 1. tölul. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. Lánafyrirtæki hefur heimild til að kalla sig fjárfestingarbanka.
     4.     
     5.      Verðbréfafyrirtæki skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr.
     6.      Verðbréfamiðlun skv. a- og/eða d-lið 6. tölul. 1. mgr. 3. gr.
     7.      Rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. c-lið 6. tölul. og 7. tölul. 1. mgr. 3. gr.
    Fjármálafyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. telst vera lánastofnun í skilningi laga þessara.
    Fjármálafyrirtæki sem ekki er heimilt að eiga viðskipti fyrir eigin reikning er þrátt fyrir það heimilt að fjárfesta í fjármálagerningum utan veltubókar, í því skyni að ávaxta eigið fé sitt. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur samkvæmt þessu ákvæði.“
    Í 9. og 10. gr. sömu laga er síðan fjallað um afturköllun starfsleyfis og hvernig að henni er staðið. Verði frumvarpið óbreytt að lögum ætti ekki að vera neinn vafi um stöðu innstæðna fyrirtækja sem svo háttar um, hvort sem slitum er formlega lokið eður ei.
    Gert er ráð fyrir að frumvarpið öðlist lagagildi þegar í stað eftir samþykkt og birtingu. Þar sem iðgjöld eru innheimt ársfjórðungslega og gjalddagi er mánuði eftir lok hvers ársfjórðungs er mikilvægt að skýrt komi fram í gildistökuákvæðinu hvenær greiðsluskyldu í sjóðinn lýkur. Ekki er gert ráð fyrir að iðgjöld sem innheimt hafa verið af fyrri tímabilum vegna sömu innlána verði endurgreidd.
    Að lokum er rétt að upplýsa að verið er að undirbúa innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/49/ESB frá 16. apríl 2014 sem leysir af hólmi eldri tilskipanir um innstæðutryggingar. Ekki þótti hins vegar rétt að bíða með að eyða þeirri óvissu sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta vakti athygli á.
    Áður hefur verið gerð grein fyrir tildrögum frumvarpsins. Auk Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta voru drög að frumvarpinu lögð fyrir „nefnd um losun hafta“.
    Ekki er þörf á að skýra nánar efni einstakra greina en hér er gert.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, með síðari breytingum (undantekningar frá tryggingavernd).

    Markmið frumvarpsins er að kveða skýrt á um að innstæður fyrirtækja sem svipt hafa verið eða skilað inn starfsleyfi sínu sem fjármálafyrirtæki njóti ekki verndar innstæðutryggingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, TIF.
    Tilefni framlagningarinnar er erindi sem fjármála- og efnahagsráðuneytinu barst frá TIF þar sem athygli var vakin á að fyrrum innlánsstofnanir, sem nú eru í slitameðferð, teljist ekki til fjármálafyrirtækja í skilningi laga nr. 161/2002 og að það gæti skapað lagalega óvissu um vernd innstæðutryggingakerfisins fyrir fjármálafyrirtæki í slitameðferð.
    TIF er sjálfseignarstofnun sem fær ekki framlög úr ríkissjóði og hefur ekki ríkisábyrgð. Verði frumvarpið að lögum er því ekki gert ráð fyrir að það hafi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð.