Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1048, 144. löggjafarþing 376. mál: Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi (uppfærsla kerfisins, EES-reglur).
Lög nr. 21 12. mars 2015.

Lög um breytingu á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 16/2000, með síðari breytingum (ný kynslóð kerfisins).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. I-liður 1. mgr. orðast svo: tilvísun til ákvörðunarinnar sem varð tilefni skráningar.
  2. Við 1. mgr. bætast fjórir nýir stafliðir, svohljóðandi:
    1. ljósmyndir,
    2. fingraför,
    3. yfirvald sem biður um skráninguna,
    4. tengingu við aðrar skráningar í upplýsingakerfinu í samræmi við 9. gr. a.
  3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Í upplýsingakerfið má skrá viðbótargögn. Viðbótargögn eru vistuð í upplýsingakerfinu og tengjast skráningum í því. Gögnin skulu vera aðgengileg lögbærum yfirvöldum fyrirvaralaust þegar einstaklingur, sem gögn hafa verið skráð um í upplýsingakerfið, finnst í kjölfar leitar í kerfinu.


2. gr.

     Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, svohljóðandi:
     Schengen-ríki getur tengt saman skráningar sem það færir inn í upplýsingakerfið. Með slíkri tengingu er komið á venslum milli tveggja eða fleiri skráninga.
     Myndun tengingar hefur ekki áhrif á þá tilteknu aðgerð sem mælt er fyrir um að gripið skuli til á grundvelli hverrar og einnar hinna tengdu skráninga eða varðveislutímabil hverrar tengdrar skráningar.
     Myndun tengingar hefur ekki áhrif á réttinn til aðgangs samkvæmt lögum þessum. Yfirvöld, sem ekki hafa rétt til aðgangs að tilteknum flokkum skráninga, skulu ekki geta séð tengingu við skráningu sem þau hafa ekki aðgang að.
     Schengen-ríki skal aðeins tengja saman skráningar þegar þess er augljóslega þörf vegna starfseminnar.

3. gr.

     Við 9. gr. a laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Heimilt er að tengja viðbótarupplýsingar við skráningar í upplýsingakerfið. Viðbótarupplýsingar eru ekki vistaðar í upplýsingakerfinu en tengjast skráningum í því og skipst verður á slíkum upplýsingum:
  1. í því skyni að gera Schengen-ríkjum kleift að hafa samráð sín á milli eða upplýsa hvert annað þegar skráning er færð inn,
  2. þegar skráning hefur borið árangur svo að unnt sé að grípa til viðeigandi aðgerðar,
  3. þegar ekki er unnt að grípa til þeirrar aðgerðar sem mælt er fyrir um,
  4. þegar um er að ræða gæði gagna í upplýsingakerfinu,
  5. þegar um er að ræða samrýmanleika og forgang skráninga,
  6. þegar um er að ræða rétt til aðgangs.


4. gr.

     Í stað orðanna „lögum um eftirlit með útlendingum“ í b-lið 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: lögum um útlendinga.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
  1. Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Telji Persónuvernd meðferð persónuupplýsinga í andstöðu við ákvæði laga þessara getur stofnunin farið fram á að skráningu upplýsinga verði hætt eða sæti skilyrðum. Ríkislögreglustjóra ber að bregðast við athugasemdum og fyrirmælum Persónuverndar um úrbætur þegar í stað og eigi síðar en innan þriggja mánaða.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Ákvarðanir ríkislögreglustjóra sem teknar eru á grundvelli 13.–15. gr. má bera undir úrskurð Persónuverndar.


6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 5. mars 2015.