Ferill 516. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1058  —  516. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2014 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Katrínu Vilhjálmsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Mörtu Jónsdóttur og Rúnar Guðjónsson frá innanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 88/2014, frá 16. maí 2014, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1071/2009 frá 21. október 2009 um sameiginlegar reglur varðandi skilyrði sem uppfylla þarf til þess að mega starfa sem flutningsaðili á vegum og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 96/26/EB, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1072/2009 frá 21. október 2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir farmflutninga á vegum milli landa og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1073/2009 frá 21. október 2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir flutninga með hópbifreiðum milli landa og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 561/2006. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 16. nóvember 2014. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.
    Gerðirnar kveða á um sameiginlegar reglur um skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að mega starfa sem flutningsaðili á vegum og um aðgang að mörkuðum fyrir alþjóðlega fólks- og farmflutninga á vegum. Með gerðunum er stefnt að því að stuðla að skilvirkum vöru- og fólksflutningum á vegum og búa til sanngjörn samkeppnisskilyrði án mismununar. Reglugerð (EB) nr. 1071/2009 tekur til aðgangs að þeirri atvinnugrein sem flutningar á vegum eru, en reglugerðir (EB) nr. 1072/2009 og 1073/2009 fjalla annars vegar um aðgang að markaðnum fyrir alþjóðlega vöruflutninga á vegum og hins vegar um alþjóðlega flutninga á farþegum á vegum.
    Gildissvið síðastnefndu tveggja gerðanna einskorðast í raun við alþjóðlega vöru- eða farþegaflutninga, þ.e. slíka flutninga yfir landamæri, og munu þær því hafa takmörkuð áhrif hér á landi. Í reglugerð (EB) nr. 1073/2009, um alþjóðlega farþegaflutninga á vegum, er gert ráð fyrir að hin svokallaða 12 daga regla um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, sem almennt var færð niður í 6 daga með reglugerð (EB) nr. 561/2006, verði tekin upp aftur, en eingöngu í alþjóðaakstri hóp- og áætlunarbifreiða. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að viðræður hafi átt sér stað milli íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórnar ESB vegna hugmynda um að 12 daga reglan mundi gilda almennt á Íslandi, þar sem afmörkun byggð á vegaflutningum yfir landamæri ætti ekki við hér vegna legu landsins. Samráð var haft við utanríkismálanefnd og hagsmunasamtök ferðaþjónustunnar í ferlinu, en að lokum var niðurstaðan sú að viðræður um aðlögun voru taldar fullreyndar. Þá var það mat hagsmunaaðila að mögulegt væri að aðlaga ferðir hér á landi að þessum skilyrðum.
    Innleiðing gerðanna kallar á lagabreytingar hérlendis og þegar hefur verið mælt fyrir frumvarpi til laga um farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni (504. mál) og frumvarpi til laga um farmflutninga á landi (503. mál), sem munu leysa af hólmi lög nr. 73/2001, um fólksflutninga og farmflutninga á landi. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að helstu breytingar munu felast í auknum skilyrðum fyrir útgáfu farmflutningsleyfa, m.a. kröfu um að viðkomandi aðili hafi heimilisfesti innan EES-svæðisins, njóti trausts og hafi góða fjárhagsstöðu. Þeir sem þegar hafa haft starfsleyfi í 10 ár geta verið undanþegnir þessum nýju skilyrðum. Þrátt fyrir auknar kröfur til útgáfu leyfa munu reglurnar á hinn bóginn hafa í för með sér að krafa um farmflutningsleyfi mun ekki ná til sendibifreiða líkt og nú heldur einungis til vörubifreiða yfir 3,5 tonnum. Við umfjöllun nefndarinnar kom jafnframt fram að flutningur á eigin vöru eða búnaði sem tengist annarri atvinnustarfsemi mun ekki teljast leyfisskyld, heldur er einungis um slíkt að ræða þegar viðkomandi starfsemi snýst í grunninn um flutning og gjald er tekið fyrir þjónustuna.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Ásmundur Einar Daðason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. mars 2015.



Birgir Ármannsson,


form., frsm.


Vilhjálmur Bjarnason.


Elín Hirst.



Frosti Sigurjónsson.


Katrín Jakobsdóttir.


Óttarr Proppé.



Silja Dögg Gunnarsdóttir.


Össur Skarphéðinsson.