Ferill 612. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 1064  —  612. mál.
Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða,
nr. 129/1997, með síðari breytingum (fjöldi gjalddaga).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



1. gr.

    Á eftir 2. málsl. 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögunum kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Vörsluaðilum er þó heimilt að ráðstafa greiddum iðgjöldum til lánveitenda sjaldnar en á þriggja mánaða fresti enda hafi valin lán umsækjenda færri en fjóra gjalddaga á ári.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XVI í lögum nr. 129/1997, sbr. lög nr. 40/2014, er kveðið á um að vörsluaðilar séreignarsparnaðar skuli ráðstafa greiddum iðgjöldum til þeirra lánveitenda sem umsækjendur hafa valið eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Þá segir í ákvæðinu að vörsluaðilar skuli ráðstafa iðgjöldum umsækjenda til lánveitenda á þeim tíma þegar greiðslur geta farið inn á höfuðstól valinna lána í skilum. Við gerð frumvarpsins sem varð að lögum nr. 40/2014 þótti rétt að áskilja að ráðstöfun iðgjalda inn á lán umsækjenda skyldi fara fram a.m.k. fjórum sinnum á ári þar sem það er að jafnaði hagstæðara fyrir lántaka að fá greiðslum sem oftast ráðstafað inn á höfuðstól.
    Eftir gildistöku laganna hefur komið í ljós að valin lán umtalsverðs fjölda umsækjenda hafa gjalddaga sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Að óbreyttum lögum munu því iðgjöld þeirra umsækjenda, sem óskað hafa eftir því að ráðstafa þeim inn á lán sem eru t.d. með gjalddaga tvisvar á ári, ekki geta uppfyllt kröfu laganna um að greitt sé inn á höfuðstól lána a.m.k. fjórum sinnum á ári. Ef ekkert verður að gert eru taldar líkur á því að hluta iðgjaldanna verði fyrst ráðstafað upp í áfallna vexti og verðbætur lánsins vegna framkvæmdarörðugleika hjá einstökum lánastofnunum nema lántakendur eigi frumkvæði að því að óska eftir skilmálabreytingum í formi fjölgunar gjalddaga á völdum lánum. Slíkar skilmálabreytingar hafa óhjákvæmilega í för með sér umstang og kostnað fyrir umsækjanda, vörsluaðila séreignarsparnaðarins og lánastofnunina.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þar sem eitt af grundvallarskilyrðum laganna er að tryggt sé að iðgjöldum umsækjenda sé ráðstafað inn á höfuðstól lána er lagt til að við ákvæðið bætist að vörsluaðilum verði heimilað að ráðstafa greiddum iðgjöldum til lánveitenda sjaldnar en á þriggja mánaða fresti enda hafi valin lán umsækjenda færri en fjóra gjalddaga á ári. Með breytingunni er komið til móts við umsækjendur sem greiða sjaldnar en fjórum sinnum á ári af lánum sínum og kjósa að halda skilmálum lána óbreyttum, þ.e. fjölda gjalddaga. Rétt er að taka fram að sú heimild að greiða sjaldnar en fjórum sinnum á ári inn á höfuðstól lánanna felur í sér að þá sé a.m.k. greitt inn á lán á hverjum gjalddaga.