Ferill 466. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1075  —  466. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til undirbúnings fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríu Rún Bjarnadóttur frá innanríkisráðuneyti. Umsagnir bárust frá Rannsóknasetri í fötlunarfræðum, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, Öryrkjabandalagi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Markmið frumvarpsins er að breyta hugtakanotkun í ýmsum lögum í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem unnið er að fullgildingu á hér á landi. Jafnframt eru felld úr gildi lög nr. 25/1962, um aðstoð til fatlaðra, og 3. gr. tilskipunar frá 23. mars 1827 um vald til biskupa til að veita undanþágur frá fermingartilskipunum.
    Nefndin bendir á að með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum sem lúta einvörðungu að breyttri hugtakanotkun þar sem eldra hugtaki er skipt út fyrir nýrra til samræmis við þá nálgun sem samningurinn felur í sér, þ.e. að fatlanir skilgreini ekki einstaklinga. Ekki er því um efnislegar breytingar að ræða um aukin eða skert réttindi eða þjónustu. Nefndin áréttar að frumvarpið er hluti af þeim lagaúrbótum sem ráðast þarf í til þess að Ísland geti fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, líkt og Alþingi hefur nú þegar ákveðið að gert verði. Nefndin telur mikilvægt að fylgjast með hvernig vinnu við fullgildingu samningsins miðar fram.
    Lögð er til ein breyting á frumvarpinu lagatæknilegs eðlis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Á eftir d-lið 9. gr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað orðsins „þeirra“ í 2. mgr. 44. gr. kemur: þess.

Alþingi, 13. mars 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Jóhanna María Sigmundsdóttir,
frsm.
Páll Valur Björnsson.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Guðbjartur Hannesson. Elsa Lára Arnardóttir.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.