Ferill 426. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1076  —  426. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008,
með síðari breytingum (breytt valdmörk ráðuneyta, útvistun grunnskólahalds).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson, Elísabetu Pétursdóttur, Agnesi Guðjónsdóttur og Sigríði Láru Ásbergsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Guðjón Bragason og Þóru Björgu Jónsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ólaf Loftsson frá Félagi grunnskólakennara, Áslaugu Huldu Jónsdóttur frá Samtökum sjálfstæðra skóla og Lárus M.K. Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu. Umsagnir bárust frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Félagi grunnskólakennara og Skólastjórafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sjálfstæðra skóla, Samtökum verslunar og þjónustu og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
    Tilgangur frumvarpsins er fjórþættur. Í fyrsta lagi er leitast við að skýra betur valdmörk ráðuneyta sveitarstjórnarmála annars vegar og menntamála hins vegar með tilliti til kæruleiða vegna ákvarðana sem teknar eru í grunnskólum á vegum sveitarfélaga og lúta að réttindum eða skyldum einstakra nemenda. Í öðru lagi er fjallað um skilyrði þess að sveitarfélag feli rekstur grunnskóla í hendur einkaaðila. Í þriðja lagi er lögð til orðalagsbreyting þannig að fjallað er um skólaþjónustu í stað sérfræðiþjónustu í ýmsum ákvæðum laganna. Í fjórða lagi er lögð til breyting á orðalagi í grunnskólalögum um samvinnu sveitarfélaga um grunnskólahald til samræmis við sveitarstjórnarlög frá árinu 2011.

Grunnskólar sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum.
    Í 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 43. gr. grunnskólalaga sem fjallar um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum. Gildissvið ákvæðisins tekur til samninga sem sveitarfélag gerir við einkaaðila um rekstur grunnskóla á grundvelli 43. gr. og fela í sér að foreldrar og börn hafa ekki val um hvort þau sækja nám í sjálfstætt starfandi skóla. Þetta getur átt við ef rekstraraðili tekur að sér eina grunnskólann í sveitarfélaginu, hluta hans eða rekstur allra skóla í sveitarfélagi. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að með þessari lagabreytingu sé verið að bregðast við þeim álitamálum sem upp hafa komið í tengslum við heimildir sveitarfélaga til að gera samninga við einkaaðila um rekstur á allri grunnskólastarfsemi viðkomandi sveitarfélaga. Meiri hlutinn bendir á að markmið ákvæðisins er að tryggja hag þeirra barna sem hér um ræðir og rétt þeirra til menntunar en einnig að setja skýrari ramma utan um slíka samninga til hagsbóta fyrir viðkomandi sveitarfélög og samningsaðila þeirra.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var því velt upp hvort frumvarpið hefði áhrif á starfskjör starfsmanna einkaskóla. Meiri hlutinn áréttar að lög um grunnskóla fjalla ekki sérstaklega um starfskjör starfsfólks skóla, hvorki í opinberum né sjálfstætt starfandi skólum. Meiri hlutinn bendir á að þegar nýr rekstraraðili tekur við grunnskóla þá er farið eftir lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, og einnig má ætla að um þessi atriði sé fjallað í kjarasamningum.
    Fram kom í umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja að frumvarpið feli í sér grundvallarbreytingu hvað varðar starfsemi grunnskóla, þ.e. að sveitarfélögum verði veitt skýr heimild til að útvista allan rekstur grunnskóla til einkaaðila. Meiri hlutinn tekur ekki undir þau sjónarmið og bendir á að fram kemur í 100. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, að sveitarstjórnum er heimilt að gera samninga við einkaaðila um framkvæmd á þjónustu og öðrum verkefnum fyrir sveitarfélag. Með samningum um framkvæmd á þjónustu er átt við samninga um afmarkaða þjónustustarfsemi sveitarfélaga sem þeim er lögum samkvæmt skylt eða heimilt að sinna, þ.m.t. lögbundnum verkefnum eins og skólarekstri skv. 5. gr. grunnskólalaga. Meiri hlutinn áréttar að í núgildandi grunnskólalögum er ekki að finna slík sambærileg ákvæði og er því um lagatóm að ræða en með frumvarpinu er brugðist við því. Útvistun grunnskólareksturs er heimil samkvæmt gildandi lögum en frumvarpið felur í sér að réttarstaða barna í slíkum skóla verður betur tryggð og skyldur sveitarfélaga skýrðar þegar þessi leið er valin.
    Með frumvarpinu er verið að skapa almennan ramma fyrir sveitarfélög til þess að framkvæmdin verði skýr og skilvirk. Meiri hlutinn áréttar að með frumvarpinu er stigið skref í þá átt að tryggja betri löggjöf um starfsemi sjálfstætt starfandi skóla. Verði frumvarpið að lögum liggur fyrir að endurskoða þarf reglugerð nr. 699/2012, um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum og skólahald samkvæmt erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Valdmörk ráðuneyta sveitarstjórnarmála og menntamála.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á 1. mgr. 47. gr. grunnskólalaga að allar ákvarðanir um rétt og skyldu nemenda eða forráðamanna þeirra sem teknar eru á vegum grunnskóla og sveitarfélaga á grundvelli grunnskólalaga verði kæranlegar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Markmiðið með þessari breytingu er að auka réttaröryggi borgaranna sem og að skýra verkaskiptingu innan stjórnsýslunnar.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var því velt upp hverjar kæruleiðir einkarekinna grunnskóla væru. Meiri hlutinn bendir á að sá munur er á opinberum grunnskólum og einkareknum grunnskólum að ekkert stjórnsýslusamband er á milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins og einkarekins grunnskóla sem hlotið hefur viðurkenningu ráðuneytisins skv. 43. gr. grunnskólalaga. Þetta felur það í sér að einkarekinn grunnskóli telst ekki lægra sett stjórnvald gagnvart ráðuneytinu í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 1. gr. og 26. gr. þeirra laga. Foreldrar nemenda í einkareknum grunnskólum njóta þó sama réttar til að kæra ákvarðanir skóla er varða réttindi og skyldur nemenda skv. 1. mgr. 47. gr. laganna eða á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda skv. 4. gr. laganna. Meiri hlutinn áréttar að munurinn á meðferð erinda sem tengjast opinberum grunnskólum og einkareknum liggur í því að ráðuneytið getur ekki breytt, fellt úr gildi eða tekið nýja ákvörðun fyrir einkarekinn grunnskóla heldur getur ráðuneytið gefið út álit með tilmælum. Það kann svo að vera í verkahring viðkomandi sveitarstjórnar að fylgja þeim tilmælum eftir í samræmi við ákvæði í þjónustusamningi. Meiri hlutinn bendir á að með frumvarpinu er lagt til að við útvistun á rekstri grunnskóla sveitarfélags, þegar foreldrar eiga ekki val um annan skóla, verði réttarstaða nemenda styrkt að því leyti að eftir að skólanefnd sveitarfélags hefur fjallað um og staðfest ákvarðanir rekstraraðila skóla, sem hafa áhrif á réttindi og skyldur einstakra nemenda, teljast þær til stjórnvaldsákvarðana sveitarfélaga og eru þá kæranlegar til ráðuneytisins. Meiri hlutinn áréttar jafnframt að stjórnsýslulög, upplýsingalög og sveitarstjórnarlög gilda jafnt um opinbera og einkarekna grunnskóla.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 12. mars 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Jóhanna María Sigmundsdóttir.
Elsa Lára Arnardóttir. Vilhjálmur Árnason.