Ferill 356. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1094  —  356. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, lögum
um fjársýsluskatt, tollalögum, lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.
og lögum um búnaðargjald, með síðari breytingum (samræming og einföldun).

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Minni hlutinn tekur ekki undir þau sjónarmið sem rakin eru í áliti meiri hlutans og fela í sér að skjölunarskyldan gildi ekki í viðskiptum milli tengdra lögaðila innan lands. Það er mat minni hlutans að farsælla hefði verið að fara þá leið að láta stærstu innlendu samstæðurnar vera undir þessum reglum og taka ekki undir þær röksemdir að það sé óeðlilega kostnaðarsamt og flókið fyrir þessa aðila að uppfylla kröfur um skjölunarskyldu. Fram kom að stofnkostnaður fyrirtækja við að uppfylla skjölunarskylduna heypur á 2–5 millj. kr. og árlegur fastur kostnaður er um 1–2 millj. kr. Slíkur kostnaður er ekki verulegur fyrir stærstu viðskiptablokkir landsins og telur minni hlutinn þau rök sem fram hafa verið færð fyrir því að undanþiggja stærstu aðilana ekki fullnægjandi. Minni hlutinn getur fallist á að hækka fjárhæðarmörkin sem við er miðað í 5–10 milljarða kr.
    Einnig gerir minni hlutinn athugasemdir við þá tilhögun að felld verði brott vísun til þess að taka skuli tillit til milliverðlagningarreglna Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Minni hlutinn telur ekki haldbær rök sem fram koma í nefndaráliti meiri hluta að það valdi ekki sérstökum vafa að milliverðlagningarreglur OECD munu eftir sem áður verða notaðar við skýringu ákvæða um mat á leiðréttingu á verðlagningu milli tengdra lögaðila og varðveisluskyldu skjölunarskylds aðila, sbr. 3.–6. mgr. 57. gr. laga um tekjuskatt, og að með breytingunni sé ekki verið að opna fyrir setningu sérstakra íslenskra reglna um milliverðlagningu. Minni hlutinn telur eðlilegast að halda tilvísun í umræddar reglur inni til að taka af öll tvímæli um hvaða gildi hann hefur.

Alþingi, 23. mars 2015.


Steingrímur J. Sigfússon,
frsm.
Árni Páll Árnason.