Ferill 643. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1106  —  643. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990,
með síðari breytingum (erfðaefni holdanautgripa).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Á eftir orðunum „auk svína“ í orðskýringunni Einangrunarstöð í 1. gr. laganna kemur: og nautgripa.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „svína og erfðaefnis þeirra“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og erfðaefnis holdanautgripa.
     b.      3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     c.      Í stað orðsins „svína“ í 1. málsl. 2. mgr. og orðsins „Svín“ í 2. málsl. sömu málsgreinar kemur: svína og holdanautgripa; og: Svín og holdanautgripi.
     d.      3. mgr. orðast svo:
                  Matvælastofnun (yfirdýralækni) er heimilt að veita leyfi til innflutnings á djúpfrystu svínasæði og erfðaefni holdanautgripa að uppfylltum skilyrðum sem greinir í 8. gr. Einnig má setja skilyrði sem lúta að rannsókn erfðaefnis og dýra sem vaxið hafa af innflutta erfðaefninu á einangrunartíma og heilbrigðisástandi og aðbúnaði á því búi þar sem óskað er eftir að nýta erfðaefnið. Komi í ljós að skilyrðum þessum er ekki fullnægt eða Matvælastofnun (yfirdýralæknir) telur smitsjúkdómahættu af erfðaefninu eða dýrum sem vaxið hafa af því af öðrum ástæðum skal afturkalla leyfið, eyða erfðaefninu og lóga dýrunum.

3. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, 18. gr. a, svohljóðandi:
    Fyrir eftirlit, umsýslu og skjalaskoðun Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum skal greiða gjald sem ekki er hærra en raunkostnaður til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum:
     a.      launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits, umsýslu og skjalaskoðunar,
     b.      öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. kostnaði af aðstöðu, áhöldum, búnaði, þjálfun og ferðalögum, svo og tengdum kostnaði,
     c.      kostnaði við sýnatöku og greiningu á rannsóknastofu.

    Matvælastofnun framkvæmir viðbótareftirlit. Raunkostnað af viðbótareftirliti ber innflytjandi. Framkvæma má viðbótareftirlit þrátt fyrir að vottorð frá viðurkenndum kynbótabúum eða sæðingarstöðvum liggi fyrir.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd og inntak eftirlits, umsýslu og skjalaskoðunar Matvælastofnunar og skal hann gefa út gjaldskrá að fengnum tillögum stofnunarinnar. Ráðherra skal afla umsagnar hlutaðeigandi hagsmunasamtaka og kynna þeim efni og forsendur reglugerðar og/eða gjaldskrár með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Hafi umsagnir þeirra ekki borist ráðherra að mánuði liðnum er honum þó heimilt að setja reglugerð og gjaldskrá án umsagna þeirra.
    Gjald skv. 1. mgr. skal greiða samkvæmt framlögðum reikningi. Innheimta má gjaldið með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Matvælastofnun er heimilt að krefjast dráttarvaxta af ógreiddri fjárkröfu vegna eftirlits frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Árið 2011 skipaði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp um nautakjötsframleiðslu og stöðu holdanautastofnsins á Íslandi. Starfshópurinn var skipaður fulltrúum Matvælastofnunar og Bændasamtaka Íslands, en formaður hópsins var Gunnfríður E. Hreiðarsdóttir, skipuð án tilnefningar. Starfshópurinn skilaði skýrslu ( Skýrsla starfshóps um eflingu nautakjötsframleiðslu á Íslandi) í ársbyrjun 2013 sem birt var á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 1. febrúar 2013. Niðurstaða hópsins var sú að talsverðir möguleikar væru til eflingar nautakjötsframleiðslu hér á landi og innflutningur nýs erfðaefnis úr holdanautgripum væri þar lykilatriði. Þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra skipaði starfshóp í framhaldinu til að rýna skýrsluna og koma með tillögur að aðgerðum til að efla nautakjötsframleiðslu og stöðu holdanautastofnsins á Íslandi og skilaði hópurinn skýrslu ( Skýrsla starfshóps um eflingu nautakjötsframleiðslu á Íslandi) í júlí 2013. Í starfshópnum sátu fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Landssambands kúabænda og Samtaka sláturleyfishafa, en formaður hópsins var Magnús B. Jónsson, skipaður án tilnefningar. Niðurstöður voru samhljóða þeirri meginniðurstöðu fyrri starfshópsins um stöðu holdanautastofnsins að ekki væri unnt að bæta holdanautakynin sem notuð eru til hjarðbúskapar og einblendingsræktunar án innflutnings á nýju erfðaefni. Starfshópurinn lagði m.a. til að hafist yrði handa við að skapa aðstöðu til þess að flytja inn nýtt erfðaefni til innblöndunar í íslenska holdanautastofninn. Þá var lagt til að gerð yrði ítarleg áhættugreining varðandi fyrirkomulag innflutnings á erfðaefni. Að beiðni ráðuneytisins annaðist Matvælastofnun áhættugreiningu varðandi innflutning á erfðaefni holdanauta og var þá miðað við innflutning á djúpfrystu sæði og djúpfrystum fósturvísum frá Noregi. Áhættugreiningin tók til áhættumats, áhættukynningar og áhættustjórnunar. Niðurstaða greiningarinnar var sú að litlar líkur væru á því að smitefni bærist hingað til lands við innflutning á erfðaefni frá Noregi. Öllum innflutningi getur þó fylgt áhætta og smitefni geta borist með erfðaefni. Í áhættugreiningunni er bent á að ef smitefni bærust til landsins gæti það haft miklar afleiðingar. Sjúkdómsstaða íslenskra búfjárstofna er mjög góð og margir sjúkdómar sem landlægir eru í nágrannalöndum þekkjast ekki hér á landi. Mikilvægt er að lágmarka hættu á því að smitsjúkdómar berist hingað til lands við innflutning á erfðaefni.
    Í tengslum við áhættugreininguna vann Matvælastofnun einnig skýrslu um mögulegar aðgerðir til að minnka þá hættu. Skýrslan Mat á áhættu vegna innflutnings á nautasæði frá Geno Global Ltd í Noregi frá mars 2014 var birt á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 21. mars 2014. Í skýrslunni er gert ráð fyrir því að við innflutning á erfðaefni holdanauta muni yfirdýralæknir setja skilyrði fyrir innflutningi og einangrun erfðaefnis og dýra til að hindra smithættu. Ráðuneytið óskaði eftir afstöðu Landssambands kúabænda, Bændasamtaka Íslands, tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum og Landbúnaðarháskóla Íslands til mats á áhættu við innflutning á erfðaefni holdanautgripa. Dýralæknaráð fjallaði einnig um málið, að beiðni ráðuneytisins.
    Með frumvarpi þessu eru lagt til að ferill við innflutning á erfðaefni nautgripa verði einfaldaður og Matvælastofnun verði heimilt að veita leyfi til innflutnings á erfðaefni holdanautgripa að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá er lagt til að heimilt verði að flytja holdanautgripi sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefni úr einangrunarstöð að fengnu leyfi og að uppfylltum skilyrðum yfirdýralæknis. Þannig er stefnt að því að stuðla að erfðaframförum í holdanautgriparækt hér á landi.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Nautakjötsframleiðsla á Íslandi er að stórum hluta stunduð sem hliðarbúgrein við mjólkurframleiðslu. Framleiðslan byggist því að miklu leyti á íslenska mjólkurkúakyninu en í landinu eru þó gripir af þremur holdanautakynjum, þ.e. Galloway, Aberdeen Angus og Limousine. Hlutdeild þessara stofna í heildarframleiðslunni er lítil og talið er að litlir möguleikar séu á aukningu að öllu óbreyttu. Áhugi er fyrir því meðal bænda að flytja inn erfðaefni til að bæta stofn holdanautgripa. Samkvæmt núgildandi lögum er óheimilt að flytja til landsins erfðaefni dýra. Ráðherra getur vikið frá banninu, að fengnum meðmælum yfirdýralæknis, enda sé stranglega fylgt þeim fyrirmælum sem felast í lögum nr. 54/1990 og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim. Dýr sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefni má hins vegar aldrei flytja af sóttvarnastöð. Sóttvarnastöð er staður þar sem dýr og erfðaefni eru geymd meðan rannsakað er hvort þau séu haldin smitsjúkdómi. Í lögunum kemur fram að einangrunarstöð sé sóttvarnaraðstaða fyrir loðdýr, gæludýr, fugla og fiska, auk svína og erfðaefnis þeirra. Heimilt er að flytja framangreind dýr úr einangrunarstöð að fengnu leyfi yfirdýralæknis þegar tryggt þykir að þau séu ekki haldin neinum sjúkdómum. Innflutt erfðaefni svína má þó aldrei flytja úr einangrunarstöð. Í nóvember 2014 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp til að gera tillögu að reglum sem gilda skulu um innflutning erfðaefnis holdanauta og kröfur um útbúnað einangrunarstöðva. Hópurinn er skipaður fulltrúum Matvælastofnunar, Landssambands kúabænda og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum. Gert er ráð fyrir að tillögur hópsins liggi fyrir eigi síðar en 1. apríl 2015.
    
Undanfarin ár hefur framleiðsla á innlendu nautakjöti ekki annað eftirspurn á markaði. Árið 2005 var heildarframleiðslan 3.540 tonn og neysla um 3.550 tonn. Á árunum 2006–2012 jókst framleiðslan nokkuð og neysla að sama skapi einnig. Árið 2013 var framleiðslan 4.082 tonn og neysla um 4.338 tonn. Fyrstu sex mánuði ársins 2014 var framleiðsla nautakjöts um 1.700 tonn. Innflutningur nautakjöts á sama tímabili var um 540 tonn. Horfur eru því á að viðvarandi skortur verði á íslensku nautakjöti á innanlandsmarkaði. Með frumvarpinu er stefnt að því að skapa aðstöðu til þess að unnt verði að flytja inn nýtt erfðaefni til að efla holdanautastofninn og auka nautakjötsframleiðslu.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að Matvælastofnun (yfirdýralækni) verði heimilt að veita leyfi til innflutnings á erfðaefni holdanautgripa að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ákvæði frumvarpsins fela ekki í sér heimild fyrir innflutningi á lifandi holdanautgripum. Með holdanautgripum er átt við nautgripi af sérstöku kyni sem aldir eru til kjötframleiðslu. Í 8. gr. laganna er nánar kveðið á um val erfðaefnis til innflutnings og verður einungis heimilt að flytja inn erfðaefni frá viðurkenndum kynbótastöðvum. Gert er ráð fyrir því að nánar verði fjallað í reglugerð um hvaða upplýsingar og vottorð þurfi að liggja fyrir áður en innflutningur er leyfður. Yfirdýralækni verður heimilt að setja skilyrði er lúta að rannsókn erfðaefnis á einangrunartíma og heilbrigðisástandi og aðbúnaði á því búi þar sem óskað er eftir að nýta erfðaefnið. Komi í ljós að skilyrðum þessum er ekki fullnægt eða Matvælastofnun telur sjúkdómahættu af erfðaefninu af öðrum ástæðum skal afturkalla leyfið og eyða erfðaefninu.
    Gert er ráð fyrir að erfðaefni holdanautgripa verði flutt á einangrunarstöð undir eftirliti umsjónardýralæknis. Dýr sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefni má ekki flytja úr einangrunarstöð fyrr en þau hafa verið svo lengi í einangrun að tryggt þyki að mati yfirdýralæknis að þau séu ekki haldin neinum smitsjúkdómi. Lagt er til að heimilt verði að flytja holdanautgripi sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefni í einangrunarstöð til framleiðenda að fengnu leyfi og að uppfylltum skilyrðum yfirdýralæknis.
    Með framangreindum breytingum er stefnt að því að einfalda feril við innflutning erfðaefnis holdanautgripa og stuðla að erfðaframförum í holdanautgriparækt. Sambærilegar reglur gilda um innflutning svínasæðis og svín sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefni. Gert er ráð fyrir því að tekið verði tillit til þess þegar sett verða skilyrði fyrir innflutningi og einangrun erfðaefnisins og dýranna.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarp þetta hefur ekki gefið sérstakt tilefni til mats á samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

V. Samráð.
    Frumvarpið var sent til umsagnar til Matvælastofnunar, Bændasamtaka Íslands, Landssambands kúabænda, Dýralæknafélags Íslands og tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum. Umsagnir bárust frá Matvælastofnun og Landssambandi kúabænda. Í umsögn Matvælastofnunar var lögð til breyting á 2. gr. frumvarpsins, en breytingin fól í sér að stofnuninni yrðu veittar skýrar valdheimildir til rannsókna á dýrum sem vaxið hefðu af hinu innflutta erfðaefni og væru á einangrunarstöð. Í umsögn Landssambands kúabænda er bent á að frumvarpið sé afrakstur samstarfs ráðuneytisins og samtaka bænda undanfarin missiri og ár og ítrekuð jákvæð afstaða sambandsins til þess að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi.

VI. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarp þetta að lögum verður hægt að flytja til landsins erfðaefni holdanautgripa og heimilt verður, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að flytja holdanautgripi sem vaxa af innfluttu erfðaefni úr einangrunarstöð. Matvælastofnun og yfirdýralæknir eru vel í stakk búin til að takast á við þau verkefni sem þeim eru falin samkvæmt frumvarpi þessu. Sambærilegar reglur gilda um innflutning á djúpfrystu svínasæði og hefur því skapast reynsla við meðferð sambærilegra mála hjá stofnuninni. Mikilvægt er að gæta að smitsjúkdómahættu við innflutning erfðaefnis. Með því að setja skilyrði fyrir innflutningi, vali á erfðaefni og einangrun, auk þess sem yfirdýralækni er falið eftirlitshlutverk, er stefnt að því að lágmarka hættu á því að sjúkdómar berist hingað til lands við innflutning erfðaefnis.
    Innlend framleiðsla nautakjöts hefur ekki annað eftirspurn á innanlandsmarkaði. Holdanautgripir eru af sérstökum kynjum og aldir til kjötframleiðslu. Með styrkingu stofnsins verður stuðlað að aukinni nautakjötsframleiðslu hér á landi, til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að við skilgreiningu orðsins einangrunarstöð verði breytt þannig að hún nái einnig yfir nautgripi og erfðaefni þeirra. Verði frumvarpið að lögum mun einangrunarstöð vera sóttvarnaraðstaða fyrir loðdýr, gæludýr, fugla og fiska, auk svína og nautgripa og erfðaefnis þeirra. Breytingar á greininni eru í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 141/2007, um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum, þegar bætt var við lögin ákvæði um einangrunarferli vegna innflutnings á svínum og erfðaefni þeirra.

Um 2. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um innflutning dýra, nr. 54/1990 er óheimilt að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra en heimilt er að víkja frá 2. gr. laganna að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Skilyrðum sem uppfylla þarf eru m.a. gerð skil í 9. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að innflutt dýr og erfðaefni þeirra skuli einangruð á sóttvarnastöð svo lengi sem Matvælastofnun telur þörf á, undir stöðugu eftirliti sóttvarnadýralæknis stöðvarinnar. Þrátt fyrir 9. gr. laganna er heimilt að leyfa innflutning á svínum og erfðaefni þeirra frá viðurkenndum kynbóta- eða sæðingarstöðvum á einangrunarstöð undir eftirliti umsjónardýralæknis, sbr. 13. gr. laganna. Í 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að 13. gr. laganna taki einnig til innflutnings á holdanautgripum og erfðaefni þeirra. Skilin milli yfirdýralæknis og Matvælastofnunar eru skilgreind í lögum nr. 80/2005, um Matvælastofnun.
    Í a-lið 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að 1. mgr. 13. gr. laganna skuli einnig ná til erfðaefnis holdanautgripa. Heimildin nær þannig eingöngu til holdanautgripa, en það eru nautgripir sem aldir eru til kjötframleiðslu.
    Í b-lið 2. gr. er gert ráð fyrir að 3. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna falli brott en þar segir: „Aðeins skal leyft að flytja dýr úr einangrunarstöð á bú sem fullnægja þeim ákvæðum sem yfirdýralæknir setur til að hindra smithættu frá þeim og fá viðurkenningu fagráðs í greininni.“ Felur breytingin í sér að þegar tryggt er að dýr í einangrunarstöð sé ekki haldið neinum smitsjúkdómi samkvæmt mati yfirdýralæknis og að fengnu leyfi hans, sbr. 1. og 2. mgr. 13. gr. laganna, sé unnt að flytja viðkomandi dýr á hvaða bú sem er. Þannig er ekki lengur gert ráð fyrir að bú sem tekur við dýri þurfi að uppfylla tiltekin skilyrði til að taka við dýri, enda sé tryggt áður en dýr fer úr einangrunarstöð að það sé ekki haldið smitsjúkdómi að mati yfirdýralæknis.
    Í c-lið 2. gr. frumvarpsins er gerð breyting á 2. mgr. 13. gr. laganna þess efnis að innflutt erfðaefni holdanautgripa, eins og erfðaefni svína, verði ekki heimilt að flytja úr einangrunarstöð, sbr. þó 3. mgr. 13. gr. laganna, en heimilt verði að flytja þaðan þá holdanautgripi sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefni í einangrunarstöð, að fengnu leyfi yfirdýralæknis og uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 13. gr. laganna.
    Í d-lið frumvarpsins er gert ráð fyrir breytingu á 3. mgr. 13. gr. laganna sem fjallar um innflutning á djúpfrystu svínasæði, en verði frumvarpið að lögum mun Matvælastofnun (yfirdýralækni) verða heimilt að veita leyfi til innflutnings á erfðaefni holdanautgripa með sambærilegum hætti og á djúpfrystu svínasæði.

Um 3. gr.

    Með greininni er lagt til að heimildir til gjaldtöku vegna eftirlits, umsýslu og skjalaskoðunar við innflutning samkvæmt ákvæðum laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, verði styrktar. Með greininni verði þar með brugðist við ábendingum þess eðlis að núverandi ákvæði tryggi ekki heimildir Matvælastofnunar til gjaldtöku vegna eftirlits, umsýslu og skjalaskoðunar við innflutning samkvæmt ákvæðum laganna. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að Matvælastofnun verði einnig heimilt að innheimta gjald vegna skjalaskoðunar og umsýslu, en eftirlitsgjaldið hefur einungis tekið til eftirlits dýralækna á móttökustað og einangrunarstöð en hefur ekki verið innheimt vegna skjalaskoðunar og umsýslu.
    Ákvæðið er í samræmi við meginreglur um gjaldtökuheimildir hér á landi en sambærileg ákvæði má m.a. finna í lögum nr. 93/1995, um matvæli, og lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Byggt er á því að gjöldin miðist við raunkostnað við eftirlitið en ákvæðið gildir um eftirlit, umsýslu og skjalaskoðun sem framkvæmd er af Matvælastofnun.
    Í a–c-lið 1. mgr. er fjallað um þá kostnaðarþætti sem gjaldið á að standa straum af, svo sem launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits, umsýslu og skjalaskoðunar, t.d. vottorða, kostnaði vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar og ferðalaga, svo og öðrum tengdum kostnaði og kostnaði við sýnatökur og greiningu á rannsóknastofu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um viðbótareftirlit sem Matvælastofnun er heimilt að framkvæma. Matvælastofnun er þar heimilt að framkvæma viðbótareftirlit, svo sem frekari sýnatöku og rannsóknir. Viðbótareftirlit er heimilt að framkvæma þrátt fyrir að vottorð frá viðurkenndum kynbótabúum eða sæðingarstöðvum liggi fyrir.
    Í 3. mgr. er ráðherra heimilað að setja reglugerð og gefa út gjaldskrá til að útfæra nánar framkvæmd eftirlits og innheimtu fyrir það. Slík gjaldskrá mun gilda fyrir eftirlit Matvælastofnunar. Mælt er fyrir um eðlilegt samráð sem ráðherra ber að viðhafa við hlutaðeigandi hagsmunasamtök, sé þeim til að dreifa, við gerð reglugerðar og gjaldskrár með heimild í greininni.
    Í 4. mgr. er kveðið á um hvenær skal greiða gjald vegna eftirlits, umsýslu og skjalaskoðunar. Innflytjandi skal greiða gjald vegna eftirlits þegar Matvælastofnun leggur fram reikning vegna þess. Þá er lagt til að heimilað verði að innheimta gjaldið með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Einnig er heimilað að innheimta dráttarvexti komi til vanefnda. Um núverandi fyrirkomulag greiðslna er vísað til 9. gr. reglugerðar nr. 567/2012 um gjaldskrá fyrir eftirlit og aðra gjaldskylda starfsemi Matvælastofnunar.
    Um frekari skýringar við greinina vísast til athugasemda við 25. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, og 8. gr. laga nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, í frumvarpi til laga nr. 143/2009, um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum (erfðaefni holdanautgripa).

    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að Matvælastofnun verði heimilt að veita leyfi til innflutnings á erfðaefni holdanautgripa að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá er gert ráð fyrir að heimildir til gjaldtöku vegna eftirlits, umsýslu og skjalaskoðunar við innflutning samkvæmt ákvæðum laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, verði styrktar. Matvælastofnun innheimtir í dag eftirlitsgjöld vegna innflutnings á gæludýrum og að einhverju leyti erfðaefni, sbr. 11. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Í fjárlögum 2015 er gert ráð fyrir 4,6 m.kr. fjárheimild hjá Matvælastofnun vegna tekna af þessari gjaldtöku. Eftirlitsgjaldið tekur hins vegar einungis til eftirlits dýralækna á móttökustað og einangrunarstöð en ekkert hefur verið innheimt vegna skjalaskoðunar og umsýslu. Frumvarpið gerir því ráð fyrir skýrari og afmarkaðri gjaldtökuheimild varðandi innflutningseftirlit Matvælastofnunar með lifandi dýrum og erfðaefni auk þess sem hægt verði að innheimta fyrir skjalaskoðun og aðra umsýslu varðandi innflutninginn. Er heimildinni ætlað að koma í stað núgildandi gjaldtökuákvæðis. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið áætlar að tekjur af gjaldtökunni geti aukist um 2–3,5 m.kr. frá því sem nú er og geti orðið í kringum 7–8 m.kr. á ári. Gert er ráð fyrir að tekjur af þessum gjöldum muni flokkast sem aðrar rekstrartekjur ríkissjóðs og verði markaðar til Matvælastofnunar til að standa undir framkvæmd eftirlits og þjónustu samkvæmt lögunum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.