Ferill 676. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1146  —  676. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt (álagningarskrár).

Flm.: Sigríður Á. Andersen, Birgir Ármannsson.


1. gr.     

    98. gr. laganna orðast svo:
    Þegar ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu á skattaðila skal hann eigi síðar en 15 dögum fyrir lok kærufrests skv. 99. gr. semja álagningarskrá fyrir hvert sveitarfélag, en í henni skal tilgreina þá skatta sem á hvern gjaldanda hafa verið lagðir samkvæmt lögum þessum. Senda skal hverjum skattaðila tilkynningu um þá skatta sem á hann hafa verið lagðir. Jafnframt skal ríkisskattstjóri auglýsa rækilega, m.a. í Lögbirtingablaðinu, að álagningu sé lokið. Hafi skattaðili annað reikningsár en almanaksárið skal ríkisskattstjóri í stað auglýsingar skv. 3. málsl. senda honum tilkynningu um álagninguna með ábyrgðarbréfi og birta álagninguna í næstu útgáfu á álagningar- og skattskrá. Þá skal ríkisskattstjóri senda viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs skrá um þá aðila, sem á hafa verið lagðir skattar, svo og samrit til ríkisendurskoðanda.
    Þegar lokið er álagningu skatta og kærumeðferð, sbr. 99. gr., skal ríkisskattstjóri semja og leggja fram skattskrá fyrir hvert sveitarfélag en í henni skal tilgreina álagðan tekjuskatt hvers gjaldanda og aðra skatta eftir ákvörðun ríkisskattstjóra. Almenningi skal veittur aðgangur að upplýsingum úr skránni, sbr. 3. mgr., í tvær vikur á hentugum stað og skal ríkisskattstjóri auglýsa í tæka tíð hvar skráin liggur frammi.
    Hverjum manni, átján ára eða eldri, skal veittur aðgangur að upplýsingum um allt að þrjá aðra gjaldendur úr hverri skattskrá. Skal ríkisskattstjóri halda skrá um þær óskir sem berast um aðgang samkvæmt þessari málsgrein, en honum er óheimilt að veita öðrum en skattrannsóknarstjóra aðgang að þeirri skrá. Skattrannsóknarstjóra er óheimilt að veita öðrum þær upplýsingar er hann fær samkvæmt þessari grein.
    Óheimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta sem veittar eru skv. 3. mgr. án samþykkis hlutaðeigandi skattaðila. Ríkisskattstjóra, innheimtumönnum ríkissjóðs og ríkisendurskoðanda er óheimilt að veita persónugreinanlegar upplýsingar úr álagningarskrá og skattskrá, í heild eða hluta, umfram það sem skýr lagaákvæði heimila.

2. gr.     

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á 98. gr. laga um tekjuskatt en núgildandi ákvæði heimila almennan aðgang að skattskrá um ákveðinn tíma, sbr. 2. mgr. 98. gr. Í reynd hefur almenningur sáralítið nýtt þennan aðgang en einstök fyrirtæki hafa hins vegar gert sér mat úr álagningarskrá sem lögð er fram til sýnis samkvæmt 1. mgr. 98. gr. Þannig hafa fyrirtæki aflað sér upplýsinga um álagningu á þúsundir landsmanna, unnið upp úr þeim upplýsingar um tekjur manna og gefið þær upplýsingar út og selt í heilu lagi eða að hluta, þrátt fyrir að ákvæðið heimili ekki opinbera birtingu á upplýsingum úr álagningarskrá. Álagningarskrá er gefin út áður en kærufrestur skv. 90. gr. laganna rennur út. Að jafnaði breytast upplýsingar í álagningarskrá eftir úrskurð ríkisskattstjóra að kærufresti liðnum. Skattskráin sem síðar er lögð fram, samkvæmt núgildandi 2. mgr. 98. gr., gefur þannig réttari mynd af tekjum skattaðila.
    Upplýsingar um fjárhagsmálefni manna eru í grundvallaratriðum einkamál og sem slík varin af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, og 8. gr. laga nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu. Hagsmunum einstaklinga að þessu leyti verður ekki vikið til hliðar nema í þágu annarra mikilvægari hagsmuna og þá með meðalhóf að leiðarljósi.
    Með frumvarpinu er lagt til að framlagningu álagningarskrár verði hætt en skattskrá verði áfram lögð fram til sýnis. Aðgangur að skattskrá verði hins vegar takmarkaður að því leyti að almenningi verði áfram veittur aðgangur að upplýsingunum, en þannig að hver maður geti einungis leitað upplýsinga um þrjá gjaldendur á hverju ári. Með því móti geta þeir sem telja sig hafa ástæðu til að ætla að pottur sé brotinn hjá tilteknum framteljendum fengið upplýsingar um álagðan skatt þeirra, en ólíklegt verður að telja að menn hafi sterkan grun um slík atriði hjá mörgum framteljendum í senn. Í slíku undantekningartilviki má auk þess ætla að flestum verði hægðarleikur að fá annan mann í lið með sér til að afla upplýsinganna. Sérstaklega er kveðið á um það í frumvarpinu að ekki verði veittar upplýsingar um hver óski upplýsinga um hvern, en eðlilegt er að skattrannsóknarstjóri geti fengið þær upplýsingar og í samræmi við tilganginn með aðgangsheimild 2. mgr.
    Það tíðkaðist um árabil, áður en landið var gert allt að einu skattumdæmi, að skattstjórar í einstökum skattumdæmum ynnu sjálfir upp úr álagningarskrá lista yfir þá gjaldendur sem greiddu hæstu skattana í hvert sinn og sendu fjölmiðlum til birtinga. Ríkisskattstjóri hefur haldið þessu háttalagi áfram þrátt fyrir að engin lagaheimild hafi nokkru sinni verið fyrir slíkri vinnu heldur þvert á móti, sbr. 1. mgr. 117. tekjuskattslaga. Hafa skattyfirvöld enda ekki vísað til lagaheimildar um þessa vinnslu heldur til áralangrar framkvæmdar. Nauðsynlegt er því að skýrt sé kveðið á um það í lögum að vinnsla upp úr álagningarskrám og skattskrám og dreifing þessara skráa takmarkist við skýr lagaákvæði.
    Fyrir utan þau mannréttindi sem einstaklingum eru tryggð í stjórnarskrá, um friðhelgi einkalífs, hafa einstaklingar af því margvíslegan ama að upplýsingar um laun þeirra séu birt opinberlega. Umfjöllun í fjölmiðlum um kjör nafngreindra einstaklinga vegur ekki aðeins að einkalífi viðkomandi heldur einnig allrar fjölskyldu hans og kann t.d. að ganga gegn hagsmunum sem börnum eru sérstaklega tryggðir með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. áskilnað sáttmálans um lagavernd gegn gerræðislegum afskiptum af einkalífi fjölskyldu barns. Þá er sala á upplýsingum úr álagningarskrá til fyrirtækja, sem hefur viðgengist um árabil, til þess fallin að draga mjög úr samningsstöðu launamanna við viðsemjendur sína er þeir skipta um vinnu. Með vísan til þessa og athugasemda að öðru leyti er nauðsynlegt að gera þær breytingar á núgildandi ákvæði 98. gr. laga um tekjuskatt sem frumvarp þetta kveður á um.