Ferill 678. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1148  —  678. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003 (upptaka símtals).


Flm.: Sigríður Á. Andersen, Birgir Ármannsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Aðili þarf þó ekki að tilkynna um upptöku símtals þegar ljóst er að viðmælanda sé fullkunnugt um hljóðritunina. Óheimilt er þó að birta slíka upptöku opinberlega eða vitna orðrétt til hennar með sambærilegum hætti án leyfis allra þeirra sem þátt taka í samtalinu.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er aðila símtals heimil hljóðritun þess ef hann hefur sérstakan rökstuddan grun um að viðmælandi sinn muni í símtalinu viðhafa háttsemi sem varða mundi við 199. gr., 1. mgr. 232. gr., 233. gr. eða 233. gr. b almennra hegningarlaga. Slíka upptöku er honum heimilt að afhenda lögreglu vegna kæru sinnar á hendur viðmælandanum vegna þeirrar háttsemi, án ástæðulauss dráttar, en að öðrum kosti skal hann farga upptökunni. Ákæranda er heimilt að leggja upptökuna fram í sakamáli sem er höfðað vegna brota á þessum lagagreinum. Önnur not upptökunnar eru óheimil.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. gildandi fjarskiptalaga skal aðili að símtali, sem hljóðrita vill símtal, tilkynna viðmælanda sínum þá fyrirætlun sína í upphafi símtalsins. Í 2. mgr. greinarinnar er á hinn bóginn kveðið á um að ekki þurfi að tilkynna um upptökuna þegar ótvírætt megi ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er gert ráð fyrir að ríkari kröfur verði gerðar um að ljóst sé að viðmælandanum sé kunnugt um hljóðritunina. Þá verður með breytingunni sérstaklega kveðið á um að óheimilt sé að birta slíka hljóðritun opinberlega að hluta eða í heild. Á því hefur nokkuð borið að talið sé að núverandi undantekningarákvæði 2. mgr. 48. gr. laganna veiti fjölmiðlamönnum heimild til hljóðritunar símtala án sérstakrar tilkynningar í hvert sinn. Hefur því þannig verið haldið fram að almenn opinber tilkynning samtaka fjölmiðlamanna um að þeir stundi slíkar hljóðritanir veiti þeim rétt til hljóðritunar samkvæmt undantekningarreglu 2. mgr. 48. gr. Sá skilningur á efni núgildandi laga er ekki réttur, svo sem réttilega kemur fram í áliti Persónuverndar frá 1. júní 2006. Með frumvarpinu er eins og áður segir gert ráð fyrir að undantekningarreglan verði þrengd frá því sem nú er, þannig að enn ríkari krafa sé gerð um að ljóst sé að viðmælanda sé fullkunnugt um upptökuna. Dæmi um slíkt getur verið að skrifað hafi verið undir samkomulag um slíkt, svo sem við upphaf tiltekinna viðskipta sömu aðila.
    Þá þykir rétt að kveða skýrt á um bann við opinberri birtingu símtals sem hljóðritað hefur verið samkvæmt heimild undantekningarreglunnar. Ekki er eðlilegt að heimilt sé að hljóðrita samtöl við fólk, án þess að gengið sé skýrlega úr skugga um að því sé kunnugt um hljóðritunina, en birta í framhaldinu einstakar setningar viðmælandans opinberlega, eða jafnvel samtalið í heild sinni. Er slíkt að jafnaði mönnum þungbærara en hljóðritun sem ekki er ætluð til opinberrar birtingar. Er sjálfsögð krafa að sá, sem er í raun í viðtali, fái að vita um það áður en viðtalið hefst.
    Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir sjálfstæðri heimild til hljóðritunar ef maður hefur sérstakan grun um að viðmælandi sinn muni í símtalinu brjóta gegn nánar greindum ákvæðum almennra hegningarlaga. Taka þær greinar til kynferðislegrar áreitni, sem getur meðal annars verið höfð í frammi í orðum; brota á nálgunarbanni, en í slíku banni er manni meinað að setja sig í samband við annan einstakling; hótana; og móðgana eða smánunar maka, fyrrverandi maka eða annars nákomins. Rétt þykir að þeir sem hafa sérstaka ástæðu til að óttast slíkt brot geti án tilkynningar hljóðritað símtal við þann sem líklegur telst til að fremja slíkt brot. Þessi heimild nær hins vegar ekki til annarra nota en afhendingar til lögreglu vegna kæru vegna háttseminnar og framlagningar upptökunnar í sakamáli eftir atvikum. Jafnframt er kveðið á um að kæra og afhending upptöku til lögreglu verði að fara fram án ástæðulauss dráttar, en ekki þykir ástæða til að setja nákvæmari frest en það, m.a. vegna bannsins við öðrum notum upptökunnar. Þeim sem hljóðritar símtal samkvæmt þessari heimild er að sjálfsögðu ekki skylt að leggja fram kæru til lögreglu eða afhenda henni upptökuna en getur þess í stað eytt upptökunni sjálfur, án ástæðulauss dráttar, hvort sem hann telur brot hafa verið framið í samtalinu eða ekki.
    Að öðru leyti skýrir frumvarpið sig sjálft.