Ferill 700. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1174  —  700. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum
(innleiðing tilskipunar, munaðarlaus verk).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Við lögin bætast þrjár nýjar greinar, 12. gr. c – 12. gr. e, svohljóðandi:

    a. (12. gr. c.)
    Með munaðarlausu verki er átt við verk í rituðu máli, hljóðrit, myndrit eða kvikmyndaverk þar sem enginn rétthafi hefur verið fundinn þrátt fyrir ítarlega leit, sbr. 12. gr. e.
    Ef fleiri en einn rétthafi er að verki sem fellur undir 1. mgr. og ekki hefur tekist að finna þá alla má nota verkið í samræmi við ákvæði þessa kafla, að því tilskildu að þeir rétthafar sem hafa fundist hafi heimilað slíka notkun að því er varðar þeirra réttindi.
    Ef rétthafi verks sem áður hefur ekki fundist gefur sig fram við stofnun sem notar verk samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal viðkomandi verk ekki lengur teljast munaðarlaust og afnot þess ekki lengur heimil nema með leyfi rétthafa. Rétthafinn á kröfu á sanngjörnu endurgjaldi frá viðkomandi stofnun fyrir afnot sem þegar hafa átt sér stað. Jafnframt skal stofnunin tilkynna breytta stöðu verksins til þess lögbæra stjórnvalds sem annast móttöku tilkynninga samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB, sbr. 5. mgr. 12. gr. e.
    Verk eða hljóðrit sem telst munaðarlaust samkvæmt löggjöf annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu skal einnig teljast munaðarlaust á Íslandi.

    b. (12. gr. d.)
    Bókasöfnum sem almenningur hefur aðgang að, menntastofnunum, söfnum, skjalasöfnum, varðveislustofnunum kvikmynda og hljóðrita og stofnunum sem veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu er heimil notkun munaðarlausra verka í samræmi við þennan kafla.
    Stofnunum sem falla undir 1. mgr. og eru stofnsettar á Evrópska efnahagssvæðinu eru heimil eftirfarandi afnot af munaðarlausum verkum í söfnum sínum til að ná markmiðum sem varða hlutverk þeirra í almannaþágu:
     1.      að gera eintök af munaðarlausum verkum til að setja þau á stafrænt form og til að skrá, flokka, varðveita, gera við og gera þau aðgengileg almenningi,
     2.      að gera munaðarlaus verk aðgengileg almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði sem viðkomandi sjálfur kýs.
    Afnot skv. 2. mgr. eru heimil ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
     1.      Verkið hefur tengsl við ríki á Evrópska efnahagssvæðinu með því að það:
                  a.      hefur verið fyrst útgefið í einhverju ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins,
                  b.      hefur verið fyrst útvarpað í einhverju ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins,
                  c.      hefur verið gert aðgengilegt almenningi af stofnun sem fellur undir 1. mgr. með samþykki rétthafa, þrátt fyrir að vera hvorki útgefið né útvarpað, og ekki er ástæða til að ætla að rétthafi væri andsnúinn notkuninni.
     2.      Tekjur vegna afnota mega ein­göngu vera til að standa straum af kostnaði við stafvæðingu munaðarlausra verka og til að gera þau aðgengileg almenningi í samræmi við ákvæði þessarar greinar.
     3.      Rétthafar munaðarlausra verka sem eru þekktir skulu nafngreindir þegar verkin eru notuð.
    Stofnanir sem veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu geta einungis notað munaðarlaus hljóðrit, myndrit eða kvikmyndaverk úr eigin safni sem þau hafa sjálf framleitt fyrir 1. janúar 2003.
    Stofnanir sem falla undir 1. mgr. geta notað verk sem eru innfelld eða eru órjúfanlegur hluti af munaðarlausu verki í samræmi við önnur ákvæði þessarar greinar.

    c. (12. gr. e.)
    Áður en verk í rituðu máli, hljóðrit, myndrit eða kvikmyndaverk telst vera munaðarlaust verk í samræmi við ákvæði 12. gr. c skal fara fram ítarleg leit að rétthöfum slíkra verka. Sú stofnun sem hefur heimild skv. 1. mgr. 12. gr. d til að nota munaðarlaus verk og hyggst gera það skal tryggja að slík leit hafi farið fram og verið skráð.
    Leitin skal taka til heimilda sem eru viðeigandi fyrir verkin sem um ræðir. Hún skal ávallt taka til þeirra heimilda sem upp eru taldar í viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB.
    Leitin skal fara fram í því ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem verkið var fyrst útgefið eða útvarpað. Ef verkið hefur hvorki verið útgefið né því útvarpað en hefur verið gert aðgengilegt almenningi af stofnun sem fellur undir 1. mgr. 12. gr. d, með samþykki rétthafa, skal leitin fara fram í því ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem stofnunin er staðsett í. Ef um er að ræða kvikmyndaverk og framleiðandi þess hefur höfuðstöðvar sínar eða fast aðsetur í ríki á Evrópska efnahagssvæðinu skal leitin fara fram í því ríki.
    Ef vísbendingar eru um að viðeigandi upplýsingar um rétthafa gæti verið að finna í öðru ríki en skv. 3. mgr. skal einnig kanna heimildir þaðan.
    Ráðherra getur sett nánari reglur um framkvæmd og skráningu fyrir ítarlega leit og notkun munaðarlausra verka, þ.m.t. nánar um þær heimildir sem rétt er að nota fyrir einstakar verkteg­undir og um miðlun skráðra upplýsinga til þess lögbæra stjórnvalds sem ráðherra felur að annast móttöku tilkynninga samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB.

2. gr.

    64. gr. laganna orðast svo:
    Með lögum þessum eru leidd í lög ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2015.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í samráði við höfundaréttarnefnd sem er mennta- og menningarmálaráðherra til ráðuneytis um höfundaréttarmál skv. 58. gr. höfundalaga, nr. 73/1972. Tilgangur frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sam­eigin­legu EES- nefndarinnar nr. 29/2015, frá 6. febrúar 2015, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og skal fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB frá 25. október 2012 um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum. Utanríkisráðherra hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar á yfirstandandi þingi um staðfestingu ákvörðunar sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn. Innleiðingu tilskipunarinnar á að vera lokið fyrir 6. ágúst 2015. Við gerð frumvarpsins var höfð hliðsjón af innleiðingu tilskipunarinnar í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Á þingmálaskrá ríkisstjórnar fyrir 144. löggjafarþing Alþingis eru fjögur frumvörp um breytingar á höfundalögum. Tvö frumvarpanna varða innleiðingu tilskipana á sviði höfundaréttar sem hafa þegar verið teknar upp í EES-samninginn, þar á meðal þetta frumvarp um innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum. Önnur frumvörp sem lögð eru fram samhliða þessu frumvarpi eru frumvarp um innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/77/ESB frá 27. september 2011 um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda, frumvarp um tilteknar breytingar á 11. gr. höfundalaga um eintakagerð til einkanota að ósk samtaka rétthafa sem fara með innheimtu höfundaréttargjalds skv. 6. mgr. 11. gr. laganna og frumvarp um breytingar á I. kafla höfundalaga og endurskoðun á fyrirkomulagi svonefndra samningskvaðaleyfa sem er liður í heildarendurskoðun höfundalaga.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Menningarstofnanir sem varðveita menningararf Evrópu eru í óðaönn að stafvæða verk í söfnum sínum til að varðveita og gera þau aðgengileg á netinu. Stór hluti verka sem er að finna í menningarstofnunum er háður höfundarétti. Til að gera stafræn eintök af verki sem nýtur verndar höfundalaga þarf annaðhvort heimild rétthafa eða sérstaka undantekningu í höfundalögum. Ekki er að finna almenna heimild í höfundalögum Evrópuríkja sem heimilar menningarstofnunum að gera verk aðgengileg á netinu án samþykkis rétthafa. Þegar um verk er að ræða sem teljast munaðarlaus (e. orphan works, d. forældreløse værk, n. hitteverk, s. herrelösa verk), þ.e. verk sem njóta höfundaréttar en þar sem höfundur eða aðrir rétthafar eru ekki þekktir, eða þótt þeir séu þekktir er ekki vitað hvar þá er að finna, er ekki unnt að leita heimildar hjá viðkomandi til að stafvæða verkin og gera þau aðgengileg. Tilskipuninni er ætlað að leysa þennan vanda sem menningarstofnanir margra Evrópuríkja standa frammi fyrir til að tryggja að ekki sé gloppa í aðgengi að menningararfi Evrópu í stafrænu formi. Til þess að ná því markmiði heimilar tilskipunin ákveðnum menningarstofnunum að nota verk án heimildar rétthafa ef eftir ítarlega leit er komist að þeirri niðurstöðu að viðkomandi verk séu munaðarlaus.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Tilskipunin samanstendur af 12 greinum og viðauka. Þar er að finna ákvæði um til hvaða stofnana og verka hún tekur (1. gr.), skilgreiningu á hvað teljist munaðarlaust verk (2. gr.), hvernig staðið skuli að ítarlegri leit að rétthöfum áður en hægt er að skilgreina verk sem munaðarlaust (3. gr.), um gagnkvæma viðurkenningu aðildarríkja EES á ákvörðun munaðarlausra verka í öðrum aðildarríkjum (4. gr.), um hvernig rétthafar geti bundið enda á að verk sé skilgreint sem munaðarlaust (5. gr.), um hvernig viðkomandi stofnanir megi nota munaðarlaus verk (6. gr.), um tengsl ákvæða tilskipunarinnar við aðrar réttarreglur (7. gr.), um gildissvið tilskipunarinnar með tilliti til tímamarka (8. gr.), um hvenær tilskipunin skuli innleidd í aðildarríki (9. gr.), um endurskoðun tilskipunarinnar (10. gr.) og um gildistöku og þá aðila sem tilskipuninni er beint að (11. og 12. gr.). Tilskipunin hefur verið þýdd, sbr. 632. mál þessa þings (þskj. 1088).

1. Gildandi réttur.
    Tólfta grein höfundalaga heimilar ákveðnum söfnum að gera eintök af verkum sem eru í safnkosti þeirra til notkunar í eigin starfsemi og til útlána slíkra eintaka að hluta án sérstaks samþykkis rétthafa. Í athugasemdum við frumvarp sem lögleiddi núgildandi ákvæði er tekið fram að heimildin til eintakagerðar taki bæði til hliðrænnar og stafrænnar eintakagerðar en að meginstefnu til skuli eintakagerð vera á sama formi og frumrit nema sérstakar aðstæður komi til. Í 12. gr. a er síðan sömu stofnunum heimilt að veita „einstaklingum aðgang í rannsóknarskyni eða vegna náms að birtum verkum sem ekki eru háð kaup- eða leyfissamningum á þar til gerðum búnaði til notkunar á athafnasvæði þeirra“.
    Engin ákvæði eru í höfundalögum um heimild stofnana sem veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu til að gera eintök af verkum sem er að finna í söfnum þeirra og/eða gera þau aðgengileg.
    Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram annað frumvarp til breytinga á höfundalögum. Þar er lagt til að tekið verði upp sérstakt samningskvaðaákvæði fyrir söfn sem falla undir 12. gr. sem yrði 12. gr. b, sbr. 5. gr. þess frumvarps. Það ákvæði mundi heimila viðkomandi söfnum að gera eintök af birtum verkum í safni sínu og gera þau aðgengileg almenningi ef fyrir hendi er samningskvaðasamningur við til þess bær rétthafasamtök. Ef slíkur samningur er til staðar nær heimildin til allra verka sem undir hann falla, einnig verka rétthafa sem ekki eru félagar í viðkomandi rétthafasamtökum, sbr. 14. gr. þess frumvarps. Ef það frumvarp nær fram að ganga mun þetta ákvæði gera slíkum söfnum kleift að gera stafræn eintök og gera þau aðgengileg, t.d. á netinu, í samræmi við ákvæði samningskvaðasamningsins. Ákvæðið tæki til birta verka. Sömuleiðis er í því frumvarpi að finna tillögu að samningskvaðaákvæði, sem yrði að nýrri 23. gr. b höfundalaga, sbr. 12. gr. þess frumvarps, sem heimilar útvarpsstöðvum endurútsendingu verka úr safni þeirra og einnig að gera þau aðgengileg almenningi, þ.m.t. á þann hátt að hver og einn geti nálgast verkin á þeim stað og stund sem hann sjálfur kýs, ef fyrir hendi er samningur við til þess bær rétthafasamtök. Ákvæðið mundi tryggja að ef útvarpsstofnun hefði samningskvaðasamning þar að lútandi gæti stofnunin notað verk sem væri í safni hennar, sem teldist hennar eigin framleiðsla og hefði áður verið sent út af viðkomandi stofnun, hvort sem rétthafar verksins væru félagar í þeim rétthafasamtökum sem væru bær til að standa að slíkum samningi eða ekki, sbr. 14. gr. þess sama frumvarps.
    Að lokum er einnig í fyrrnefndu frumvarpi að finna tillögu að ákvæði sem heimilar svokallaða almenna samningskvöð sem heimilar notendum, t.d. söfnum, og til þess bærum rétthafasamtökum að láta samning um afmarkað og vel skilgreint svið heimila notkun verka á því sviði, hvort sem rétthafar verkanna væru félagar í rétthafasamtökunum eða ekki.
    Skilyrði fyrir allri notkun á grundvelli samningskvaðar er að rétthafar sem ekki eru félagar í þeim rétthafasamtökum sem teljast bær til að semja á grundvelli samningskvaðar fái sama endurgjald fyrir afnotin og félagsbundnir rétthafar. Til þess að rétthafasamtök teljist bær til að semja á grundvelli samningskvaðar þarf að liggja fyrir að þau séu í forsvari fyrir verulegan hluta höfunda þeirra verka sem samningskvaðaákvæðið tekur til.

2. Skilgreining á hvað telst vera munaðarlaust verk.
    Núgildandi höfundalög hafa ekki að geyma skilgreiningu á hvað telst vera munaðarlaust verk. Í frumvarpinu er því lagt til að kveðið verði á um skilgreiningu í samræmi við ákvæði 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2012/28/ESB, sbr. 1. mgr. a-liðar 1. gr. (12. gr. c) frumvarpsins.

3. Þær stofnanir sem frumvarpið tekur til.
    Frumvarpið tekur til sömu stofnana og tilgreindar eru í 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Það eru almenningsbókasöfn, menntastofnanir, söfn, skjalasöfn og varðveislustofnanir kvikmynda og hljóðrita ásamt stofnunum sem veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu sem eru stofnsettar á Evrópska efnahagssvæðinu. Í fyrstu formálsgrein tilskipunarinnar er undirstrikað að þetta séu þær stofnanir sem eru að fást við að stafvæða evrópska menningararfinn til að byggja upp stafræn söfn innan Evrópu, t.d. Europeana (europeana.eu). Þessar stofnanir falla einnig undir c-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunar 2001/29/ESB um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu (hér eftir tilskipunin um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu), utan útvarpsstöðva, sbr. formálsgrein 20 í tilskipun 2012/28/ESB.
    Ákvæði 1. mgr. 12. gr. höfundalaga tekur einnig til framangreindra stofnana utan útvarpsstofnana auk safna sem falla undir safnalög. Í frumvarpinu lagt til að notuð verði upptalning og orðalag tilskipunarinnar til að forðast vafatilfelli. Með varðveislustofnunum kvikmynda og hljóðrita er átt við stofnanir sem er skylt að varðveita slík verk, sbr. formálsgrein 20 í tilskipuninni.

4. Þau verk sem frumvarpið tekur til.
    Frumvarpið tekur til sömu verka og tilskipun 2012/28/ESB. Það eru í fyrsta lagi verk útgefin í formi bóka, tímarita, dagblaða eða annars ritaðs máls, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Gildandi höfundalög vernda bókmenntaverk sem er nánar skilgreint sem samið mál í ræðu og riti, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. Í frumvarpinu er lagt til að notað verði orðasambandið „verk í rituðu máli“ fremur en orðið „bókmenntaverk“. Í öðru lagi tekur tilskipunin til myndrita og kvikmyndaverka, auk hljóðrita sem hafa verið útgefin eða hefur verið útvarpað, sbr. b- og c-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Hugtökin myndrit og kvikmyndaverk í íslenskum höfundarétti taka til allra hreyfimynda með hljóði eða án hljóðs og er því er ekki talin ástæða til að telja þau upp sérstaklega í frumvarpinu eins og gert er í tilskipuninni.
    Tilskipunin gildir um verk, hljóðrit og myndrit sem hafa fyrst verið útgefin eða hefur fyrst verið útvarpað í einhverju aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins. Hún tekur einnig til verka sem hafa verið gerð aðgengileg almenningi af stofnun stofnsettri á Evrópska efnahagssvæðinu með samþykki rétthafa, þrátt fyrir að vera hvorki útgefin né þeim útvarpað, ef ekki er ástæða til að ætla að rétthafi væri andsnúinn notkuninni, sbr. 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Frumvarpið tekur til sömu verka, sbr. 3. mgr. b-liðar 2. gr. (12. gr. d) frumvarpsins.
    Aðildarríkjum er gefinn kostur á að takmarka afnot verka sem ekki hafa verið útgefin eða hefur ekki verið útvarpað en hafa verið gefin viðkomandi stofnunum fyrir 29. október 2014. Ástæða slíkrar takmörkunar er að eftir þann tíma ætti stofnunum að vera ljóst að rétt sé að afla heimildar frá viðkomandi rétthöfum til að stafvæða og gera slík eintök aðgengileg. Í frumvarpinu er ekki lagt til að sú heimild verði nýtt heldur talið nægilegt að beita almennum skilyrðum tilskipunarinnar um afnot slíkra verka sem er að finna í safnkosti viðkomandi stofnana.
    Frumvarpið tekur ein­göngu til verka sem tilheyra safnkosti þeirra stofnana sem hafa heimild til að nota munaðarlaus verk, þ.e. stofnun fær ein­göngu heimild til að nota verk samkvæmt frumvarpinu sem er að finna í safnkosti þess. Þetta er í samræmi við ákvæði 1. gr. og 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar.
    Frumvarpið tekur einnig til verka eða skyldra réttinda sem eru hluti af munaðarlausu verki, annaðhvort innfelld, t.d. teikning í bók, eða sem órjúfanlegur hluti verks, t.d. listflutningur tónlistarmanns á tónverki. Þetta er í samræmi við 4. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar.

5. Ítarleg leit.
    Það er forsenda fyrir afnotum munaðarlausra verka að ítarleg leit að rétthöfum hafi farið fram áður en verkin eru notuð, sbr. lokamálslið 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði um ítarlega leit er að finna í c-lið 1. gr. (12. gr. e) frumvarpsins sem byggist á 3. gr. tilskipunarinnar. Í tilskipuninni er tiltekið að slík ítarleg leit skuli fara fram í góðri trú. Í frumvarpinu er það ekki tiltekið sérstaklega þar sem talið er að ítarleg leit feli sjálfkrafa í sér að hún sé framkvæmd í góðri trú.
    Aðildarríkin ákveða sjálf hvaða heimildum teljist viðeigandi að leita í fyrir viðkomandi verk í samráði við rétthafa og notendur verkanna, þ.e. þær menningarstofnanir sem bærar eru til að nota munaðarlaus verk. Þetta getur leitt til þess að leitað sé í mismunandi heimildum eftir löndum. Þó skal ávallt leita í þeim heimildum sem tilgreindar eru í viðauka við tilskipunina, sbr. 2. mgr. 3. gr. hennar, og á það að tryggja ákveðna samræmingu. Sérstaklega er vísað í viðaukann í frumvarpinu en ef þörf er á nánari reglum þar að lútandi má setja slíkt í reglugerð, sbr. 2. og 5. mgr. c-liðar 1. gr. (12. gr. e) frumvarpsins.
    Til að forðast tvítekningu vegna leitar eru í tilskipuninni settar reglur um í hvaða ríki hin ítarlega leit skuli fara fram, sbr. 3. og 4. mgr. 3. gr. og formálsgrein 15. Í samræmi við þau ákvæði tilgreina 3. og 4. mgr. c-liðar 1. gr. (12. gr. e) frumvarpsins hvar ítarleg leit skuli fara fram. Í tilskipuninni kemur fram að það er sú stofnun sem ætlar að nota munaðarlaust verk sem þarf að tryggja að ítarleg leit hafi farið fram áður en afnot hefjast, sbr. 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Hún getur þó fengið aðra til að framkvæma verkið, sbr. formálsgrein 13 í tilskipuninni. Ef ítarleg leit hefur farið fram hjá einni stofnun og önnur, sem hefur eintak af sama verki í sínum safnkosti, hyggst einnig nota það er ekki nauðsynlegt fyrir seinni stofnunina að framkvæma aftur ítarlega leit. Í frumvarpinu er lagt til að sú stofnun sem hyggst nota munaðarlaust verk beri ábyrgð á að ítarleg leit hafi farið fram, sbr. 1. mgr. c-liðar 1. gr. (12. gr. e) frumvarpsins.
    Tilskipunin skyldar þær stofnanir sem framkvæma ítarlega leit og sem nota munaðarlaus verk til að halda skrá yfir leitina og afnotin ásamt upplýsingum um stöðu munaðarlausra verka og tengiliðaupplýsingum um viðkomandi stofnun. Skráðar upplýsingar um leitina gefa viðkomandi stofnunum möguleika á að sýna fram á að leit hafi verið ítarleg. Skráðar upplýsingar skal senda til lögbærra stjórnvalda í viðkomandi ríki, sbr. 5. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Jafnframt skal þeim komið til miðlægs evrópsks gagnagrunns sem rekinn skal af samræmingarskrifstofu innri markaðarins (e. The Office for Harmonization in the Internal Market, OHIM) samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 386/2012, og sem skal vera aðgengilegur almenningi, sbr. 6. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Tilgangurinn með hinum miðlæga gagnagrunni er að koma í veg fyrir tvíverknað við leit rétthafa og jafnframt að hjálpa rétthöfum og öðrum að finna upplýsingar um verk sem talin eru munaðarlaus, sbr. formálsgrein 16 í tilskipuninni. Hlutverk hins miðlæga gagnagrunns er ein­göngu að vera til upplýsingar og skráning í hann tryggir ekki í sjálfu sér að verk sé í raun munaðarlaust. Það er á ábyrgð þeirrar stofnunar sem upphaflega framkvæmdi hina ítarlegu leit að sú leit hafi í raun verið ítarleg og í samræmi við kröfur tilskipunarinnar.
    Í frumvarpinu er lagt til að nánari reglur um verkferla og hlutverk notenda verði settar í reglugerð, þ.m.t. hvaða landsbundna stofnun skuli vera milliliður við hinn evrópska gagnagrunn, sbr. 5. mgr. c-liðar 1. gr. (12. gr. e) frumvarpsins.

6. Gildissvið ákvörðunar um að tiltekið verk eða hljóðrit sé munaðarlaust.
    Almennt er talið að takmarkanir eða undantekningar frá einkarétti rétthafa samkvæmt höfundalögum einstakra ríkja gildi ein­göngu í viðkomandi ríki. Þau afnot sem heimiluð eru af verkum sem teljast munaðarlaus er takmörkun eða undantekning frá einkarétti rétthafa þess verks. Til þess að þær stofnanir, sem heimild hafa til að nota munaðarlaus verk sem eru í safnkosti þeirra, geti gert þau aðgengileg á netinu án þess að takmarka slíkt aðgengi við það ríki þar sem verkið hefur verið úrskurðað munaðarlaust er talið nauðsynlegt að lögfesta ákvæði um gagnkvæma viðurkenningu á ákvörðun einstakra stofnana innan Evrópska efnahagssvæðisins þar að lútandi. Sömuleiðis tryggir ákvæði um gagnkvæma viðurkenningu ákvörðunar um að tiltekið verk sé munaðarlaust að stofnanir í öðrum aðildarríkjum geta notað verk, sem þau hafa eintök af í sínu safni og sem hafa verið úrskurðuð munaðarlaus í öðru aðildarríki, á þann hátt sem tilskipunin heimilar án þess að efna til sjálfstæðrar ítarlegrar leitar. Í samræmi við ákvæði 4. gr. tilskipunarinnar er því lagt til að slík gagnkvæm viðurkenning sé lögfest, sbr. 4. mgr. a-liðar 1. gr. (12. gr. c) frumvarpsins.

7. Heimil afnot munaðarlausra verka.
    Tilskipunin tiltekur heimil afnot af munaðarlausum verkum og skilyrði fyrir þeirri notkun, sbr. 6. gr. tilskipunarinnar. Þar er til þess bærum stofnunum heimilað að nota munaðarlaus verk sem eru í safnkosti þeirra með því að gera eintök af þeim í þeim tilgangi að setja þau á stafrænt form, gera þau aðgengileg og skrá, flokka, varðveita og gera við þau. Þá er viðkomandi stofnunum heimilt að gera þau aðgengileg almenningi á þann hátt að hver og einn geti fengið aðgang að verkunum á þeim stað og á þeirri stundu sem viðkomandi kýs. Viðkomandi stofnunum er því ekki heimilt að gera verkin aðgengileg á annan hátt, t.d. með því að útvarpa þeim.
    Afnot á grundvelli tilskipunarinnar eru ein­göngu heimil ef þau eru vegna markmiða stofnunarinnar sem varða hlutverk þeirra í almannaþágu, sbr. 2. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar. Þar er notkun vegna aðgangs í menntunar- eða menningarskyni nefnd sem dæmi. Í formálsgrein 20 er síðan tekið fram að sú takmörkun eða undantekning frá einkarétti rétthafa sem felst í leyfilegri notkun skv. 6. gr. tilskipunarinnar verði að vera í samræmi við þriggja þrepa viðmiðið, þ.e. einungis má beita þessari takmörkun á einkarétti í tilteknum undantekningartilvikum sem stríða ekki gegn eðlilegri hagnýtingu verksins eða annars verndaðs efnis og skerða ekki með ósanngjörnum hætti lögmæta hagsmuni rétthafa. Í frumvarpinu er lagt til að fylgt verði orðalagi tilskipunarinnar, sbr. 2. mgr. b-liðar 1. gr. (12. gr. d) frumvarpsins.
    Ekki er sérstaklega tilgreint að afnotin megi ekki vera í fjárhagslegum tilgangi eins og gildir um heimildir til takmarkana og undanþágna í tilskipuninni um höfundarétt í upplýsingasamfélaginu. Hins vegar er tiltekið í tilskipuninni að ein­göngu megi nota tekjur vegna afnota af munaðarlausum verkum til að standa straum af kostnaði við stafvæðingu munaðarlausra verka og því að gera þau aðgengileg almenningi. Lagt er til í frumvarpinu að þessi afmörkun verði lögfest, sbr. 2. tölul. 3. mgr. b-liðar 1. gr. (12. gr. d) frumvarpsins. Þetta getur gert stofnunum kleift að vera í samstarfi við einkaaðila eða aðra aðila sem ekki falla undir tilskipunina, t.d. í þeim tilgangi að fá aðstoð við stafvæðingu verkanna, sbr. 4. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar. Afnot annarra en tilgreindra stofnana af munaðarlausum verkum eru þó aldrei heimil.
    Í 3. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar er aðildarríkjum gert skylt að geta nafna þeirra rétthafa sem þekktir eru (en ekki er vitað hvar hægt er að finna þá) við notkun verkanna. Þessi framkvæmd á að einfalda rétthöfum að endurheimta réttindi sín, sbr. 5. gr. tilskipunarinnar. Lagt er til að hún verði lögfest í 3. tölul. 3. mgr. nýrrar 12. gr. d, sbr. 3. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt tilskipuninni gildir sérregla um notkun útvarpsstofnana á munaðarlausum verkum, sbr. c-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2012/28/ESB. Þau geta ein­göngu notað kvikmyndaverk og hljóðrit sem teljast munaðarlaus sem hafa verið framleidd fyrir 1. janúar 2003. Þessum stofnunum er því hvorki heimilt að nota verk í rituðu máli sem teljast munaðarlaus, burtséð frá því hvenær þau voru samin, né kvikmyndaverk eða hljóðrit sem framleidd eru eftir 1. janúar 2003. Lagt er til að þessi sérregla verði lögfest í nýrri grein, 12. gr. d, sbr. 4. mgr. b-liðar 1. gr. frumvarpsins.
    Rétt er að vekja athygli á að í öðru frumvarpi til breytinga á höfundalögum sem er lagt fram samhliða þessu frumvarpi er gert ráð fyrir upptöku almenns samningskvaðaleyfis sem heimilar samtökum rétthafa og notenda að gera samning um hagnýtingu verka á afmörkuðu og vel skilgreindu sviði þegar samningskvaðaleyfi er forsenda þess að nýting sé möguleg. Þá er í sama frumvarpi gert ráð fyrir heimild safna sem falla undir 1. mgr. 12. gr. í höfundalögum til að gera eintök af birtum verkum í safni sínu og að gera þau aðgengileg að uppfylltum framangreindum skilyrðum. Til samans geta sú heimild sem felst í frumvarpi þessu til nýtingar munaðarlausra verka og heimild sem ráðgert er að fáist í öðru frumvarpi um nýtingu verka sem enn eru háð höfundarétti með samningskvaðaleyfi nýst söfnum til að koma safneign sinni á stafrænt form og gera hana aðgengilega almenningi.

8. Lok þess að verk séu talin munaðarlaus.
    Tilskipunin kveður á um í 5. gr. að aðildarríki skuli tryggja að rétthafar verks geti hvenær sem er komið og afturkallað stöðu munaðarlauss verks að því er varðar rétt þeirra. Tilskipunin tilgreinir ekki hvernig eða hvert rétthafi skuli snúa sér. Hér er lagt til að rétthafi tilkynni viðkomandi stofnun sem notar verkið um að hann sé rétthafi að því verki sem úrskurðað hefur verðið munaðarlaust, sbr. 3. mgr. a-liðar 1. gr. (12. gr. c) frumvarpsins. Rétthafar munu líka geta sent kröfu um rétt sinn til verksins í gegnum hinn miðlæga gagnagrunn OHIM sem áframsendir tilkynningu rétthafans til þeirra stofnana sem eru að nota verkið ásamt þeirri stofnun sem framkvæmdi hina upphaflegu ítarlegu leit. Síðasttalda stofnunin þarf síðan að staðreyna kröfu rétthafans og senda síðan í fram­haldinu tilkynningu til hins miðlæga gagnagrunns um breytta stöðu verksins ef krafan reynist rétt.
    Rétthafi að munaðarlausu verki sem hefur verið notað á rétt á sanngjörnum bótum, sbr. 5. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar. Þessi réttur er tilgreindur í 3. mgr. a-liðar 1. gr. (12. gr. c) frumvarpsins, sjá nánar um það í athugasemdum við þá grein.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið hefur að geyma ákvæði sem fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum. Frumvarpið hefur að öðru leyti ekki gefið tilefni til mats á samræmi þess við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

V. Samráð.
    Við undirbúning frumvarpsins hefur verið haft samráð við helstu hagsmunaaðila eins og Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Samband tónskálda og textahöfunda, höfundaréttarnefnd, Höfundaréttarfélag Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Frumvarpið hefur verið til kynningar á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis. Engar athugasemdir bárust við efni frumvarpsins í opnu samráðsferli þar sem það var kynnt á vef ráðuneytisins.

VI. Mat á áhrifum.
    Innleiðing tilskipunar um munaðarlaus verk mun að öllum líkindum ekki hafa för í sér nein veruleg útgjöld eða umsýslu. Þar til bær aðili sem verður útnefndur sem lögbært stjórnvald, sbr. 3. mgr. a-liðar 1. gr. (12. gr. c) og 5. mgr. c-liðar 1. gr. (12. gr. e) frumvarpsins, þarf að tryggja að til staðar sé ákveðið ferli til að taka á móti upplýsingum frá þeim stofnunum sem hyggjast nota munaðarlaus verk og til að áframsenda þær upplýsingar til hins miðlæga evrópska gagnagrunns. Þær stofnanir sem vilja nota munaðarlaus verk mega vænta nokkurrar umsýslu vegna þeirra, sérstaklega í tengslum við hina ítarlegu leit og miðlun upplýsinga um notkun og stöðu munaðarlausra verka, sbr. 3. mgr. a-liðar 1. gr. og c-lið 1. gr. frumvarpsins. Þeim er hins vegar heimilt að hafa einhverjar tekjur af notkun munaðarlausra verka í þeim tilgangi að koma til móts við kostnað við stafvæðingu þeirra og við að gera þau aðgengileg almenningi, sbr. 2. tölul. 3. mgr. b-liðar 1. gr. (12. gr. d) frumvarpsins.
    Þess er vert að geta að ef fyrirliggjandi frumvarp um samningskvaðir, sbr. umfjöllun hér að framan, til handa söfnum og útvarpsstöðvum, sem og almenna samningskvöð, nær fram að ganga geta þær stofnanir sem þetta frumvarp tekur til einnig nýtt sér samningskvaðasamninga við rétthafasamtök til að stafvæða og gera verk í sínum söfnum aðgengileg almenningi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Um a-lið (12. gr. c).
     Um 1. mgr. Ákvæðið tekur ein­göngu til þeirra verka sem hér eru talin upp, þ.e. verka í rituðu máli, hljóðrita, myndrita og kvikmyndaverka. Þannig falla t.d. sjálfstæðar ljósmyndir utan gildissviðs þessa kafla, nema þær séu órjúfanlegur hluti verks sem fellur undir þessa grein, sbr. 5. mgr. b-liðar 1. gr. þessa frumvarps sem verður 5. mgr. 12. gr. d verði frumvarpið að lögum. Með verkum í rituðu máli er átt við verk sem gefin eru út í formi bóka, fréttablaða, dagblaða, tímarita eða í öðru rituðu formi sem er að finna í safnkosti þeirra stofnana sem þessi kafli tekur til, sbr. 1. mgr. b-liðar 1. gr. þessa frumvarps sem verður 1. mgr. 12. gr. d verði frumvarpið að lögum. Með hljóðritum er átt við allar hljóðupptökur, sbr. 46. gr. höfundalaga, sama til hvaða efnis hljóðupptakan tekur, þ.e. tónlistar eða upplestrar eða náttúruhljóðs, svo dæmi séu nefnd. Ekki skiptir heldur máli á hvaða miðil hljóðupptakan er gerð. Hugtakið myndrit tekur til allra hreyfimynda, með eða án hljóðs, þ.m.t. kvikmyndaverka, tölvuleikja og glærusýninga.
    Með rétthafa er átt við alla rétthafa að verki, hvort sem um höfund verks, listflytjanda eða annarra skyldra réttinda er að ræða, sbr. V. kafla höfundalaga, eða rétthafa á grundvelli aðilaskipta að höfundarétti, sbr. III. kafla höfundalaga.
     Um 2. mgr. Oft eru fleiri en einn rétthafi að verki eða hljóðriti. Ef svo er telst slíkt verk ekki munaðarlaust nema enginn þeirra sé fundinn. Ef einn eða fleiri rétthafar eru þekktir og staðsettir má ekki nota verkið samkvæmt ákvæðum þessa kafla nema þeir rétthafar verks sem hafa fundist gefi samþykki sitt fyrir slíkri notkun að því er varðar þeirra réttindi að viðkomandi verki. Sama gildir um rétthafa sem seinna gefur sig fram sem rétthafi verks sem áður hefur ekki tekist að hafa upp á þrátt fyrir ítarlega leit, sbr. 3. mgr. c-liðar 1. gr. (12. gr. e) þessa frumvarps.
     Um 3. mgr. Hér er mælt fyrir um hvernig verk sem talið hefur verið munaðarlaust og notað sem slíkt hættir að hafa slíka stöðu. Það gerist ef rétthafi sem áður fannst ekki þrátt fyrir ítarlega leit gefur sig fram við stofnun sem notar verk hans á grundvelli ákvæða þessa kafla. Afnot verksins eru þá ekki heimil lengur á grundvelli ákvæða þessa kafla nema viðkomandi rétthafi heimili þau sérstaklega.
    Jafnframt á rétthafinn rétt á sanngjörnum bótum fyrir þau afnot sem átt hafa sér stað, þrátt fyrir að verkin hafi fyrst verið notuð eftir ítarlega leit að rétthafanum. Við ákvörðun bótanna skal m.a. hafa hliðsjón af annars vegar hver notkun umræddra stofnana á verkinu hefur verið, þ.m.t. að notkunin hafi ekki verið í fjárhagslegum tilgangi nema til að standa straum af kostnaði við notkun verkanna, sbr. 2. tölul. 3. mgr. b-liðar 1. gr. þessa frumvarps, sem verður 3. mgr. 12. gr. d ef frumvarpið verður að lögum, og að notkunin hafi verið í tengslum við hlutverk stofnana við að veita opinbera þjónustu, til að mynda  til að efla menntun og miðla menningu, og hins vegar þann hugsanlega skaða sem rétthafi hefur orðið fyrir, sbr. formálsgrein 18 í tilskipun 2012/28/ESB. Ef fleiri en ein stofnun hefur nýtt viðkomandi verk skal hver þeirra greiða sanngjarnar bætur í samræmi við þá notkun sem átt hefur sér stað hjá viðkomandi stofnun. Hverri stofnun er frjálst að ákveða hvernig staðið skuli að slíkum greiðslum, t.d. að stofnunin taki sérstaka fjárhæð frá til að standa straum af hugsanlegum kröfum í framtíðinni, eða hvort stofnunin finni viðkomandi fjármagn þegar og ef slíkar kröfur koma fram.
    Deilum um hvað sanngjarnt endurgjald er verður vísað til almennra dómstóla. Þegar rétthafi gefur sig fram við stofnun vegna afnota hennar af verki sem talið hefur verið munaðarlaust ber þeirri stofnun að skrá slíkar upplýsingar og áframsenda þær til til þess lögbæra stjórnvalds sem annast móttöku tilkynninga samkvæmt tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB, sbr. 5. mgr. nýrrar 12. gr. e. Þetta er í samræmi við ákvæði 5. og 6. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar.
     Um 4. mgr. Ákvæði 4. mgr. kveður á um þá meginreglu að ef verk er talið munaðarlaust í einu aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins telst það munaðarlaust í öðrum aðildarríkjum þess, sbr. 4. gr. tilskipunar 2012/28/ESB. Það hefur í för með sér að stofnanir í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins mega nota verk sem þau hafa eintök af í sínu safni og sem hafa verið úrskurðuð munaðarlaus á Íslandi á þann hátt sem innleiðing tilskipunarinnar heimilar í því landi og öfugt. Stofnanir á Íslandi, sem falla undir ákvæði þessa kafla, mega sömuleiðis nota verk úr sínum safnkosti sem úrskurðuð hafa verið munaðarlaus í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins á þann hátt sem ákvæði þessa kafla kveða á um.
    Um b-lið (12. gr. d).
     Um 1. mgr. Hér er tiltekið hvaða stofnanir mega, í samræmi við önnur ákvæði kafla­ns, nota verk í sínu safni sem úrskurðuð hafa verið munaðarlaus eftir ítarlega leit. Upptalningin er í samræmi við 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 2012/28/ESB. Með varðveislustofnunum kvikmynda- og hljóðefnis er átt við stofnanir sem hefur verið falið að gæta menningararfs á sviði kvikmynda- og hljóðupptöku af opinberum yfirvöldum. Sömuleiðis er með stofnunum sem veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu átt við stofnanir sem falin er almannaþjónusta með lögum eða á annan hátt af stjórnvöldum.
    Stofnanirnar sem falla undir ákvæði þessa kafla eiga það sam­eigin­legt að starfa að málefnum sem varða almannahagsmuni og skulu ekki reknar í fjárhagslegum tilgangi. Því falla t.d. einkareknar útvarpsstöðvar utan gildissviðs kafla­ns.
     Um 2. mgr. Í 2. mgr. er tilgreint að stofnanir sem falla undir 1. mgr. og eru stofnsettar á Evrópska efnahagssvæðinu mega nota verk úr sínum safnkosti sem talin eru munaðarlaus samkvæmt ákvæðum kafla­ns ef þau afnot eru í tengslum við markmið og hlutverk þeirra í almannaþágu.
    Þá er í 2. mgr. talið upp hver afnotin megi vera.
    Í fyrsta lagi er í 1. tölul. 2. mgr. kveðið á um að þar til bærar stofnanir megi gera eintök af munaðarlausum verkum sem eru í söfnum þeirra í því skyni að setja þau á stafrænt form og til að skrá, flokka, varðveita, gera við og gera þau aðgengileg almenningi. Um er að ræða víðtæka heimild til eintakagerðar en þó ekki takmarkalausa. Eintakagerðin er ein­göngu heimil ef hún er í þeim tilgangi sem ákvæðið kveður á um. Þessi afmörkun er byggð á ákvæði tilskipunar 2012/28/ESB í 1. mgr. 6. gr. hennar.
    Í öðru lagi er tiltekið í 2. tölul. 2. mgr. að viðkomandi stofnanir megi gera munaðarlaus verk aðgengileg almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði sem viðkomandi sjálfur kýs, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 2. gr. höfundalaga eins og lagt er til að henni verði breytt með frumvarpi sem er lagt fram samhliða þessu frumvarpi, sbr. umfjöllun hér að framan. Þessar takmarkanir á einkarétti höfunda og annarra rétthafa eru víðtækari en takmarkanir sem er að finna í 5. gr. tilskipunar 2001/29/ESB og eiga að tryggja að viðkomandi stofnanir geti nýtt og gert aðgengileg almenningi verk, sem annars væri ekki hægt að nýta, í menntunar- og menningarskyni fyrir almenning.
    Í formálsgrein 20 í tilskipun 2012/28/ESB kemur fram að þessa heimild til takmörkunar á einkarétti höfunda og annarra rétthafa vegna verka sem teljast munaðarlaus skuli einungis nota í tilteknum undantekningartilvikum sem stríða ekki gegn eðlilegri hagnýtingu verksins eða annars verndaðs efnis og skerða ekki með ósanngjörnum hætti lögmæta hagsmuni rétthafa.
     Um 3. mgr. Í 3. mgr. eru sett fram frekari skilyrði fyrir notkun stofnana á verkum sem teljast munaðarlaus. Í fyrsta lagi, sbr. a- og b-lið 1. tölul. 3. mgr., er heimild til afnota háð því að viðkomandi verk hafi ákveðin tengsl við Evrópska efnahagssvæðið og sé annaðhvort fyrst útgefið, því útvarpað eða það gert aðgengilegt, eins og tilgreint er í c-lið 1. tölul. 3. mgr., í einhverju aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins. Vert er að taka fram að með útvarpi verks eða hljóðrits er bæði átt við útvarp í sjónvarpi og hljóðvarpi, sbr. 5. mgr. 2. gr. höfundalaga eins og lagt er til að henni verði breytt með öðru frumvarpi sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi. Í öðru lagi, sbr. 2. tölul. 3. mgr., mega tekjur af notkun munaðarlausra verka ein­göngu vera notaðar til að standa straum af kostnaði af nýtingu viðkomandi safna á munaðarlausum verkum, þ.e. fjármagna stafvæðingu þeirra og gera þau aðgengileg almenningi, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. tilskipunar 2012/28/ESB. Ákvæði þessa kafla, eða tilskipunarinnar, taka ekki til notkunar munaðarlausra verka í viðskiptalegum tilgangi. Í þriðja lagi er tekið fram í 3. tölul. 3. mgr. að þeir rétthafar munaðarlausra verka sem eru þekktir, þ.e. vitað er hverjir þeir eru þótt ekki hafi reynst unnt að staðsetja þá, skulu nafngreindir við notkun verkanna. Í 1. mgr. 4. gr. höfundalaga er kveðið á um að skylt sé, eftir því sem við getur átt, að tilgreina nafn höfundar á eintökum verks og þegar það er birt. Hér er hins vegar kveðið á um að ef höfundur eða aðrir rétthafar munaðarlauss verks eru þekktir skuli nafngreina þá þegar verkin eru notuð samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Þessi skylda miðar að því að einfalda þeim rétthöfum að verki sem síðar gefa sig fram að endurheimta fjárhagsleg réttindi sín, sbr. 3. mgr. a-liðar 1. gr. frumvarpsins.
     Um 4. mgr. Hér er að finna sérreglu um hvaða verk stofnanir sem veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu geta notað. Þær geta ein­göngu notað kvikmyndaverk og hljóðrit sem teljast munaðarlaus og sem hafa verið framleidd fyrir 1. janúar 2003. Þessa sérreglu er að finna í c-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2012/28/ESB. Ástæða þessarar sérreglu er að útvarpsstofnanir, sem framleiðendur efnis, eiga að hafa tök á að halda skrá yfir rétthafa og vita hver og hvar þeir eru, a.m.k. síðan 1. janúar 2003. Þær geta ekki notað verk í rituðu máli þó að þau séu munaðarlaus.
    Undir efni sem viðkomandi útvarpsstofnanir hafa sjálf framleitt fellur einnig efni sem viðkomandi stofnun hefur látið framleiða fyrir sig og á öll réttindi að en ekki efni sem slík stofnun hefur einungis fengið að nota á grundvelli samnings.
     Um 5. mgr. Hér er átt við t.d. ljósmyndir eða myndskreytingar sem er að finna í bókum eða listflutning verks í hljóðriti. Ef innfelld verk eða önnur innfelld eða órjúfanleg skyld réttindi teljast ekki vera munaðarlaus á ákvæði 2. mgr. nýrrar 12. gr. c við. Ef ljósmynd eða annað myndlistarverk er ekki hluti af öðru verki sem telst munaðarlaust fellur það ekki undir ákvæði þessa kafla, sbr. 1. mgr. a-liðar 1. gr. (12. gr. c) þessa frumvarps.
    Um c-lið (12. gr. e).
     Um 1. mgr. Það er á ábyrgð þeirrar stofnunar sem ætlar að nota munaðarlaus verk að tryggja að ítarleg leit fari fram áður en notkun slíkra verka hefst. Slíka leit getur annaðhvort stofnunin sjálf framkvæmt eða fengið annan aðila til að framkvæma hana fyrir sig gegn greiðslu, sbr. formálsgrein 13 í tilskipun 2012/28/ESB. Leita skal ítarlega að rétthöfum fyrir hvert einstakt verk og hljóðrit sem stefnt er að því að nota. Sama gildir um verk sem er órjúfanlegur hluti af öðru verki, t.d. ljósmynd í ritverki. Niðurstaða ítarlegrar leitar skal skráð og þær upplýsingar áframsendar til lögbærra stjórnvalda, sbr. 5. mgr. greinarinnar. Ef verk hefur þegar verið skráð sem munaðarlaust getur stofnunin notað verkið, svo framarlega sem hún hefur eintak þess í sínum safnkosti, án þess að framkvæma slíka leit sjálf eða fá annan til að gera það fyrir sig.
    Ef verk hefur verið talið munaðarlaust en leitin uppfyllir ekki skilyrði um hvað teljist ítarleg leit þá er notkun verksins brot á höfundarétti rétthafa og hann á kröfu á bótum í samræmi við reglur höfundalaga, sbr. 56. gr. höfundalaga.
     Um 2. mgr. Hér er kveðið á um hvaða heimildir skuli nota við ítarlega leit í samræmi við 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 2012/28/ESB. Í 5. mgr. þessarar greinar er jafnframt að finna heimild fyrir ráðherra að setja nánari reglur þar að lútandi.
     Um 3. mgr. Leit skal fara fram í því ríki Evrópska efnahagssvæðisins sem verkið eða hljóðritið hefur ákveðna tengingu við, annaðhvort vegna þess að það er fyrst útgefið í því ríki eða því hefur fyrst verið útvarpað þar eða það verið fyrst gert aðgengilegt með samþykki rétthafa af þar til bærri stofnun í viðkomandi ríki. Undantekning á þessari reglu er ef um kvikmyndaverk er að ræða en þá skal leitin fara fram í því ríki eða ríkjum þar sem framleiðandi þess hefur höfuðstöðvar eða fast aðsetur.
     Um 4. mgr. Í 4. mgr. er kveðið á um að ef vísbendingar eru um að upplýsingar um munaðarlaust verk sé að finna í öðru ríki en skv. 3. mgr. skuli leita þar. Þetta getur átt við lönd innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Um 5. mgr. Hér er að finna heimild fyrir ráðherra til að setja nánari reglur um framkvæmd ítarlegrar leitar og skráningar á niðurstöðum hennar. Skv. 3. gr. tilskipunar 2012/28/ESB eiga viðkomandi stofnanir að skrá notkun sína á munaðarlausum verkum og allar breytingar sem verða á stöðu þeirra. Þær upplýsingar ásamt tengiliðaupplýsingum um stofnunina skal senda til þess lögbæra stjórnvalds sem ráðherra felur að annast framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB hér á landi sem áframsendir upplýsingarnar í opinn miðlægan gagnagrunn sem samhæfingarskrifstofa innri markaðarins (e. The Office for Harmonization in the Internal Market, skammstafað OHIM), heldur samkvæmt reglugerð (ESB) nr. 386/2012.

Um 2. og 3. gr.

    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa. Lögin taka ekki til verka sem ekki njóta höfundaréttarverndar við gildistöku laganna né til athafna sem átt hafa sér stað fyrir gildistöku laganna.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972,
með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar, munaðarlaus verk).

    Megintilgangur lagafrumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum. Núgildandi höfundalög hafa ekki að geyma skilgreiningu á því hvað telst vera munaðarlaust verk og er í frumvarpinu lagt til að sett verði skilgreining í samræmi við ákvæði framangreindrar tilskipunar. Frumvarpið er eitt af fjórum frumvörpum sem gert er ráð fyrir að leggja fram samhliða um breytingar á höfundalögum, nr. 73/1972, á þessu vorþingi og er fjallað um málavexti og fjárhagsáhrif þeirra í umsögn með hverju frumvarpi fyrir sig.
    Tilskipuninni er ætlað að leysa þann vanda sem menningarstofnanir margra Evrópuríkja standa frammi fyrir til að tryggja að ekki sé gloppa í aðgengi að menningararfi Evrópu í stafrænu formi. Til þess að ná því markmiði heimilar tilskipunin ákveðnum menningarstofnunum að nota verk án heimildar rétthafa ef komist er að þeirri niðurstöðu að viðkomandi verk séu munaðarlaus. Rétthafi að munaðarlausu verki sem hefur verið notað á hins vegar rétt á sanngjörnum bótum, sbr. 5. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar. Frumvarpið tekur til almenningsbókasafna, menntastofnana, safna, skjalasafna, varðveislustofnana kvikmynda og hljóðrita og útvarpsstöðva sem veita opinbera þjónustu, sem eru stofnsett á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er forsenda fyrir notum munaðarlausra verka að ítarleg leit að rétthöfum hafi farið fram áður en not hefjast. Tilskipunin skyldar þær stofnanir sem framkvæma ítarlega leit og nota munaðarlaus verk að halda skrá yfir leitina og notin ásamt upplýsingum um stöðu munaðarlausra verka og tengiliðaupplýsingar um viðkomandi stofnun. Skráðar upplýsingar um leitina gefa viðkomandi stofnunum möguleika á að sýna fram á að leit hafi verið ítarleg.
    Þær stofnanir sem vilja nota munaðarlaus verk mega vænta nokkurrar umsýslu vegna þeirra. Þeim er hins vegar heimilt að hafa einhverjar tekjur af notum munaðarlausra verka í þeim tilgangi að koma til móts við kostnað við stafvæðingu þeirra og við að gera þau aðgengileg almenningi. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.