Ferill 608. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1240  —  608. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sam­eigin­legu
EES-nefndarinnar nr. 269/2014 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar
reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Katrínu Vilhjálmsdóttur og Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneyti og Rúnar Guðjónsson frá innanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sam­eigin­legu EES- nefndarinnar nr. 269/2014, frá 12. desember 2014, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 12. júní 2015. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES- mála.
    Með tilskipuninni er stefnt að því að takmarka aðgengi almennings að efnum eða efnablöndum sem má nota til að framleiða ólögleg sprengiefni og tryggja tilkynningu á grunsamlegum viðskiptum með tiltekin efni. Gerðin mælir því fyrir um samræmdar reglur um aðgengi, markaðssetningu, umráð og notkun tiltekinna efna. Ólögleg framleiðsla er gerð erfiðari með því að mæla fyrir um leyfileg styrkleikamörk fyrir tiltekin forefni sprengiefna (viðauki I). Aðgengi almennings að efnum yfir þeim styrkleikamörkum skal takmarkað, en ef ríki velur að gera þau aðgengileg almenningi verða þau að vera leyfisskyld og skráð í sérstakan gagnagrunn. Í viðauka II er listi yfir átta efni sem eru nauðsynleg í ýmiss konar hefðbundna framleiðslu. Aðgengi að þeim er ekki takmarkað að öðru leyti en því að skylt er að tilkynna um grunsamleg viðskipti, svo sem ef viðskiptavinur er óskýr að því er varðar fyrirhugaða notkun, hyggst kaupa efni í óvenjulegu magni, óvenjulegum styrkleika eða óvenjulegri samsetningu.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að innleiðing gerðarinnar kallar á breytingar á vopnalögum, nr. 16/1998, og er gert ráð fyrir að frumvarp þess efnis verði lagt fram á haustþingi. Þá kom einnig fram að í gerðinni er að finna ákvæði um vernd persónuupplýsinga vegna tilkynninga um viðskipti, sem mikilvægt er að taka tillit til við innleiðingu gerðarinnar. Ekki er gert ráð fyrir að gerðin hafi mikil áhrif hér á landi enda lítil þörf á umræddum efnum fyrir almenning.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Silja Dögg Gunnarsdóttir og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. apríl 2015.

Birgir Ármannsson,
form., frsm.
Vilhjálmur Bjarnason. Ásmundur Einar Daðason.
Elín Hirst. Frosti Sigurjónsson. Katrín Jakobsdóttir.
Óttarr Proppé.