Ferill 618. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1302  —  618. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Ögmundi Jónassyni
um störf stýrihóps um framtíð Reykjavíkurflugvallar.


     1.      Að hvaða þáttum snúa athuganir stýrihóps um framtíð Reykjavíkurflugvallar, svokallaðrar Rögnunefndar, sérstaklega?
    Stýrihópur um sam­eigin­lega athugun ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group á flugvallarkostum á höfuð­borgar­svæðinu var settur á laggirnar með samkomulagi 25. október 2013. Ábyrgðarmenn verkefnisins eru innanríkisráðherra, borgarstjóri og forstjóri Icelandair Group. Hver aðili um sig tilnefndi einn aðila í stýrihóp verkefnisins undir formennsku Rögnu Árnadóttur sem er sam­eigin­legur fulltrúi samningsaðila.
    Auk eldri gagna um flugvallarkosti liggja nú fyrir frummatsgögn sem unnin hafa verið að beiðni stýrihópsins um veðurfar, landrými, kostnað, um­hverfisáhrif, flugtækni og náttúruvá. Sambærileg gögn um veðurfar út frá mælingum veðurstöðva á Hólms­heiði, í Hvassahrauni og í Vatnsmýri liggja nú fyrir. Formlegar veðurmælingar á Bessa­staðanesi og Lönguskerjum hafa ekki farið fram. Frummat á rými fyrir flug­brautir og athafnasvæði flugvalla á Bessa­staðanesi, Hólms­heiði, Hvassahrauni og Lönguskerjum ásamt mati á stofnkostnaði liggur fyrir. Breyttar útfærslur flugvallar í Vatnsmýri hafa verið metnar á sambærilegan hátt. Unnið hefur verið frummat á tíu um­hverfisþáttum á hverju flugvallarstæðanna fimm og náttúruvá hefur verið skoðuð sérstaklega fyrir Hólms­heiði og Hvassahraun. Frummat á hindranaflötum og möguleikum á nákvæmnisaðflugi að flugvöllum á Bessa­staðanesi, Hólms­heiði, Hvassahrauni og Lönguskerjum liggur fyrir ásamt mati á líkindum flugkviku í aðflugi og umfjöllun um skörun loftrýma.
    Stýrihópurinn vinnur nú að lokaáfanga verkefnisins og er stefnt að því að honum verði lokið 1. júní 2015.

     2.      Hve mikið hefur starf nefndarinnar kostað til þessa og hver er áætlaður endanlegur kostn­aður við starfið?
    Starf stýrihópsins og greiningarvinna sem fram hefur farið til þessa hefur kostað 34,8 millj. kr. án vsk. og er hlutur ríkisins þriðjungur af því, eða 11,6 millj. kr. án vsk. Kostn­aður deilist jafnt á aðila samkomulagsins. Nú er unnið að sérstöku samkomulagi um lok vinnunnar en það liggur ekki fyrir.

     3.      Hvernig verður farið með niðurstöður nefndarinnar?
    Samkomulag um fram­haldið, að starfi stýrihópsins loknu, liggur ekki fyrir. Stýrihópurinn mun koma með tillögur að því hvernig fara á með niðurstöður verkefnisins í lokaskýrslu sinni. Stýrihópurinn mun fara vel yfir málið með aðilum samkomulagsins áður en lokaskýrslu verður skilað. Vonast er til að samhliða kynningu á niðurstöðum vinnunnar muni aðilar samkomulagsins kynna hvernig málinu verður fram haldið.

     4.      Liggur fyrir eitthvert samkomulag um fram­haldið?

    Sjá svar við 2. og 3. tölul. fyrirspurnarinnar.