Ferill 418. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 1310  —  418. mál.
Nýr liður.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum (hafnríkisaðgerðir).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnór Snæbjörnsson, Jóhann Guðmundsson og Sigríði Norðmann frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Gísla Gíslason frá Hafnasambandi Íslands og Björgólf Ingason frá Landhelgisgæslu Íslands. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Hafnasambandi Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Landssambandi smábátaeigenda og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands í samræmi við samning hafnríkja um aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar. Í þeim samningi er mælt fyrir um skyldu ríkja til að beita stjórntækjum í því skyni að ýta undir ábyrgar fiskveiðar og er tillaga til þingsályktunar um fullgildingu samningsins til umfjöllunar á þessu þingi (451. mál). Markmið frumvarpsins er að styrkja eftirlit með fiskveiðum erlendra skipa og felast í því breytingar á fyrirmælum um skyldu fánaríkis erlends fiskiskips til að tilkynna um veiðar skips áður en það kemur til íslenskrar hafnar og eftirlitsaðgerðir íslenskra stjórnvalda af því tilefni.
    Við umfjöllun um málið kom fram athugasemd um að óljóst væri hver tæki ákvörðun um að vísa skipi úr höfn og framfylgja slíkri ákvörðun. Nefndin bendir á að Landhelgisgæslan hefur hafnríkiseftirlit með höndum en í samvinnu við Fiskistofu. Nefndinni er kunnugt um að fulltrúar ráðuneytisins hafi fundað með fulltrúum hafna þar sem framangreint hafi verið rætt og mál hafi skýrst og verið ákveðið að leggja drög að samvinnu um að eyða mögulegri óvissu sem kunni að vera uppi um framkvæmd laganna.
    Nefndin leggur til að heiti umrædds samnings verði lagfært í 4. gr. frumvarpsins. Einnig leggur nefndin til að við bætist ákvæði um breytingu á 4. gr. laganna þannig að kveðið verði á um að gefa skuli upp staðsetningu, stefnu og hraða á a.m.k. tólf klukkustunda fresti og að fáni skuli ávallt vera uppi þegar erlend skip sigla um íslenska fiskveiðilandhelgi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir a-lið 1. gr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað tilvísunarinnar „2.–3. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 2.–4. mgr.
     2.      2. gr. orðist svo:
              Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
                  a.      Á undan orðinu „tólf“ í 2. málsl. kemur: a.m.k.
                  b.      Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Erlend veiðiskip og vinnsluskip sem sigla um íslenska fiskveiðilandhelgi skulu hafa uppi fána síns ríkis til auðkenningar.
                  c.      Lokamálsliður fellur brott.
     3.      Fyrri efnismálsliður 4. gr. orðist svo: Lög þessi fela í sér innleiðingu á samningi hafnríkja um aðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar.

    Kristján L. Möller og Þórunn Egilsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. maí 2015.

Jón Gunnarsson,
form.
Björt Ólafsdóttir,
frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Haraldur Benediktsson. Ásmundur Friðriksson. Páll Jóhann Pálsson.
Haraldur Einarsson.