Ferill 673. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1318  —  673. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998,
með síðari breytingum (skoteldar, EES-reglur, stórfelld brot).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skúla Þór Gunnsteinsson frá innanríkisráðuneytinu, Jón Inga Sigvaldason og Jón Svanberg Hjartarson frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Ingibjörgu Halldórsdóttur og Guðmund Gunnarsson frá Mannvirkjastofnun og Birki Guðlaugsson og Tryggva Axelsson frá Neytendastofu.
    Umsagnir bárust frá Bogveiðifélagi Íslands, Lögreglustjórafélagi Íslands, Mannvirkjastofnun, Neytendastofu, Skotveiðifélagi Íslands, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Slökkviliði höfuð­borgar­svæðisins.
    Með frumvarpinu er lagt til að innleiddar verði tvær Evróputilskipanir, annars vegar tilskipun 2007/23/EB frá 23. maí 2007 um að setja á markað flugeldavörur og hins vegar tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2008/43/EB frá 4. apríl 2008 um að koma á, samkvæmt tilskipun ráðsins 93/15/EBE, kerfi til að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota.
    Markmið frumvarpsins er að auka almannaöryggi og neytendavernd í tengslum við skotelda.
    Í 6. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á VI. kafla laganna. Þar er m.a. lagt til að Neytendastofa fari með markaðseftirlit með skoteldum þar sem stofnunin vinnur nú þegar að flestum þeim markaðseftirlitsverkefnum sem kveðið er á um í tilskipunum sem gilda í Evrópusambandinu. Af þeim sökum þykir eðlilegt að nýta sérhæfingu stofnunarinnar að þessu leyti. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni voru þau sjónarmið reifuð að betur færi á því að markaðseftirliti með þessum hættulegu efnum væri komið fyrir hjá stofnun sem hefði fagþekkingu á málefninu og færi með markaðseftirlit í tengslum við önnur öryggismál. Bent var á að Vinnueftirlit ríkisins færi með markaðseftirlit með öðrum hættulegum varningi sem snýr að öryggi fólks og eftirlit með flutningi og geymslu hættulegra efna. Nefndin ræddi þetta og bendir á að tilgangur tilskipananna er að setja reglur um neytendavernd og tryggja að einungis séu markaðssettar vörur til neytenda sem ekki teljast vera sprengiefni sem geta ógnað lífi og heilsu neytenda. Það er mat nefndinnar með hliðsjón af verksviði Neytendastofu að hún eigi að sinna þessu markaðseftirliti.
    Fram kemur í 10. mgr. a-liðar 6. gr. frumvarpsins að sá sem framleiðir, flytur inn eða verslar með skotelda skuli veita viðkomandi lögreglustjóra aðgang að birgðabókhaldi og nákvæmar upplýsingar um framleiðsluna, seldar vörur og óseldar birgðir. Fram kom í umsögn Neytendastofu að slíkar upplýsingar væru mikilvægur þáttur í tilkynningum auk þess sem afar brýnt væri að tilkynningar væru settar fram eins ­fljótt og auðið er. Vegna lögbundins hlutverks Neytendastofu væri nauðsynlegt að hún gæti aflað fyrrgreindra upplýsinga beint og milliliðalaust frá framleiðendum, innflytjendum og/eða seljendum á skjótan hátt í því skyni að uppfylla lagaskyldur sínar. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og gerir breytingartillögu þess efnis.
    Í 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins er framleiðendum og innflytjendum veitt svigrúm til að laga sig að breyttum kröfum um CE-samræmismerkingar skotelda til 15. janúar 2016. Nefndin telur rétt að framlengja frestinn til ársins 2017 og leggur nefndin fram breytingartillögu þess efnis.
    Fram kemur í 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins að óheimilt sé að selja skotelda sem fluttir hafa verið inn fyrir 1. janúar 2015 og uppfylla ekki skilyrði 2. mgr. 33. gr. um CE-samræmismerkingu til landa innan Evrópska efnahagssvæðisins. Við meðferð frumvarpsins komu fram þau sjónarmið að ákvæðið gengi gegn ákvæði reglugerðar nr. 952/2003 um skotelda sem heimilar að flugeldar séu seldir á Íslandi allt að tveimur árum eftir að þeir eru fluttir inn. Nefndin áréttar að ákvæðið á aðeins við ef aðilar vilja flytja skotelda aftur úr landi og til annarra landa innan Evrópska efnahagssvæðisins en það kemur ekki í veg fyrir að skoteldar verði seldir til landa utan þess svæðis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „einkvæðum“ í 3. gr. komi: sérstökum.
     2.      Á eftir orðinu „lögreglustjóra“ í 10. mgr. a-liðar 6. gr. (32. gr.) komi: og Neytendastofu.
     3.      Í stað ártalsins „2016“ í 1. efnismgr. 9. gr. komi: 2017.

Alþingi, 19. maí 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Páll Valur Björnsson. Páll Jóhann Pálsson.
Elsa Lára Arnardóttir. Guðbjartur Hannesson. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Valgerður Gunnarsdóttir.