Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1352  —  420. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning
við Thorsil ehf. um kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ.

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hlutinn telur ótímabært að þingið fjalli um fjárfestingarsamning þennan, enda fyrirfinnst ekki raforka nema fyrir hluta verkefnisins, og samkvæmt upplýsingum minni hlutans er ekki til staðar undirritaður samningur um orkuöflun.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið þar sem fullyrt var að útblástursmengun frá kísilmálmverksmiðju Thorsil ehf. væri vanmetin. Það vanmat skýrist m.a. af því að ekki hafi verið beitt aðferð við mat á loftmengun sem tekur tillit til sammögnunaráhrifa þeirra verksmiðja sem fyrirhugaðar eru í Helguvík. Einnig er bent á að mengunarefni muni berast lengra en gert hafi verið ráð fyrir í frummatsskýrslu Thorsil ehf. og muni ná til íbúahverfa í Reykjanesbæ. Minni hlutinn tekur undir þau sjónarmið að ótækt sé að Alþingi greiði götur slíkrar starfsemi með þeim ívilnunum sem felast í fjárfestingarsamningnum, sem mun hafa lagagildi hér verði frumvarpið að lögum.
    Íbúahópur í Reykjanesbæ skipulagði nýverið mótmæli gegn fyrirhuguðum stóriðjuáformum í Helguvík og hefur hópurinn krafist þess að íbúar fái aðkomu að ákvörðun um jafnafdrifaríkar framkvæmdir og stefnt er að. Íbúar óttast minnkandi loftgæði þegar samanlögð mengun frá mörgum verksmiðjum sem fyrirhugaðar eru verða að veruleika.
    Að lokum bendir minni hlutinn á að Alþingi hefur til umfjöllunar frumvarp til laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi (11. mál). Í því frumvarpi er mælt fyrir um heildstæða rammalöggjöf um ívilnanir og m.a. kveðið með gegnsæjum hætti á um hvaða heimildir stjórnvöld hafa til að veita tilteknar ívilnanir til fjárfestingarverkefna. Minni hlutinn telur eðlilegt að fjárfestingarsamningurinn sem frumvarp þetta fjallar um sé gerður á grundvelli þeirra laga enda gert ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum á þessu þingi.

Alþingi, 26. maí 2015.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.