Ferill 644. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1354  —  644. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim,
nr. 25/1993, með síðari breytingum (leyfi­sveiting færð til Matvælastofnunar,
innleiðing reglugerða).


Frá atvinnuveganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Friðriksson og Rebekku Hilmarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Elías Blöndal Guðjónsson, Guðnýju Helgu Björnsdóttur, Jón Baldur Lorange og Sigurgeir Sindra Sigurgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Baldur Helga Benjamínsson og Sigurð Loftsson frá Landssambandi kúabænda, Bjarna R. Brynjólfsson frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Lárus Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Félagi atvinnurekenda og Samtökum verslunar og þjónustu.
    Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim er ráðherra heimilt að veita undanþágur til innflutnings á þeim vörum sem taldar eru upp í a–e-lið 1. mgr. 10. gr., að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og að fengnum meðmælum Matvælastofnunar. Innflytjendur vöruteg­undanna þurfa samkvæmt þessu að senda beiðni til ráðuneytisins sem aflar umsagnar Matvælastofnunar og svo hefur ráðuneytið gefið leyfið út. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að Matvælastofnun verði heimilt að veita leyfi til innflutnings á framangreindum vörum án aðkomu ráðuneytisins. Verði frumvarpið að lögum verður umsóknarferlið því einfaldara.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að 29. gr. a laganna verði orðuð þannig að ráðherra geti með reglugerð innleitt í íslenskan rétt reglugerðir Evrópusambandsins um aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem eru ekki ætlaðar til manneldis. Gildandi ákvæði er bundið við tilteknar gerðir en fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að nokkrar gerðir á þessu sviði bíði þess að verða teknar upp í EES-samninginn. Verði frumvarpið að lögum getur ráðherra innleitt þær án þess að lagabreytingu þurfi til.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 28. maí 2015.

Jón Gunnarsson,
form.
Kristján L. Möller,
frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Haraldur Benediktsson. Ásmundur Friðriksson. Róbert Marshall.
Páll Jóhann Pálsson. Þorsteinn Sæmundsson. Þórunn Egilsdóttir.