Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1356, 144. löggjafarþing 305. mál: raforkulög (kerfisáætlun, EES-reglur).
Lög nr. 26 4. júní 2015.

Lög um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum (kerfisáætlun).


1. gr.

     Í stað 4. tölul. 1. gr. laganna koma tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. Stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.
  2. Taka tillit til umhverfissjónarmiða.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „og gæða raforku“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Tilkynna ber Orkustofnun um ný flutningsvirki áður en þau eru tekin í notkun og skal Orkustofnun hafa eftirlit með að slík framkvæmd sé í samræmi við framkvæmdaáætlun flutningsfyrirtækisins. Leyfi Orkustofnunar þarf fyrir nýju flutningsvirki ef það er ekki í framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar sem samþykkt hefur verið af Orkustofnun, sbr. 9. gr. a. Um málsmeðferð leyfisveitingar fer í samræmi við 34. gr. Orkustofnun getur bundið leyfið skilyrðum er lúta að þeim atriðum sem greinir í 1. mgr.


3. gr.

     Á eftir 9. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, 9. gr. a – 9. gr. d, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (9. gr. a.)
Kerfisáætlun.
     Flutningsfyrirtækið skal árlega leggja fyrir Orkustofnun til samþykktar kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfisins.
     Í kerfisáætlun skulu felast eftirfarandi áætlanir:
  1. Langtímaáætlun kerfisáætlunar sem sýnir þá þætti í meginflutningskerfinu sem fyrirhugað er að byggja upp eða uppfæra á næstu tíu árum og tímaáætlun þeirra.
  2. Framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar sem sýnir ákvarðanir um fjárfestingar í flutningskerfinu sem hafa þegar verið teknar og fjárfestingar sem þarf að ráðast í á næstu þremur árum og tímaáætlun þeirra. Í framkvæmdaáætlun skal greining valkosta útskýrð og rökstuddur sá kostur sem valinn er.

     Við gerð kerfisáætlunar skal byggja á raunhæfum sviðsmyndum um þróun raforkuframleiðslu, raforkunotkunar, markaðsþróunar og raforkuflutnings til annarra landa eftir því sem við á. Í kerfisáætlun skal gera grein fyrir forsendum, sviðsmyndum og spám sem stuðst er við.
     Í kerfisáætlun skulu markmið um afhendingaröryggi raforku skilgreind fyrir tímabil áætlunarinnar og koma fram hvernig þeim verði náð með fullnægjandi hætti.
     Nánari útfærsla mannvirkja vegna uppbyggingar flutningskerfisins, svo sem hvort um er að ræða raflínu í jörð eða loftlínu, ræðst af stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.
     Flutningsfyrirtækið skal hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og þau sveitarfélög sem kunna að þurfa að gera breytingar á skipulagsáætlunum sínum vegna kerfisáætlunar. Drög að kerfisáætlun skulu kynnt og send þessum aðilum til sérstakrar umfjöllunar og ber þeim að skila athugasemdum innan sex vikna frá kynningu. Flutningsfyrirtækið skal einnig hafa samráð við alla aðra hagsmunaaðila og skal nánar kveðið á um samráðsferlið í reglugerð. Kerfisáætlun skal fylgja greinargerð um athugasemdir sem bárust á kynningartíma, svör flutningsfyrirtækisins og rökstuðningur fyrir endanlegri áætlun.
     
     b. (9. gr. b.)
Eftirlit með kerfisáætlun.
     Orkustofnun hefur eftirlit með framkvæmd kerfisáætlunar og skal meta hvernig henni er fylgt eftir. Orkustofnun er heimilt að krefjast þess að flutningsfyrirtækið geri breytingar á kerfisáætlun eftir því sem stofnunin telur þörf á.
     Orkustofnun fer yfir og samþykkir kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins með hliðsjón af markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Orkustofnun skal við yfirferð kerfisáætlunar hafa samráð við alla núverandi og væntanlega viðskiptavini flutningsfyrirtækisins, sbr. 2. mgr. 8. gr., og gæta þess að tillit sé tekið til þess sem fram kemur í samráðsferlinu. Samráðsferlið skal vera opið og gagnsætt og að því loknu birtir Orkustofnun niðurstöður þess.
     Ákvörðun Orkustofnunar um samþykkt eða synjun kerfisáætlunar er kæranleg til úrskurðarnefndar raforkumála, sbr. 30. gr.
     
     c. (9. gr. c.)
Staða kerfisáætlunar gagnvart skipulagi sveitarfélaga.
     Sveitarstjórnum ber við næstu endurskoðun aðalskipulags, og eigi síðar en innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar, að samræma skipulagsáætlanir vegna verkefna í staðfestri tíu ára kerfisáætlun. Sveitarstjórn er þó heimilt að fresta ákvörðun um landnotkun samkvæmt kerfisáætlun í allt að átta ár enda séu fyrir því gildar ástæður og fyrir liggi jákvæð umsögn flutningsfyrirtækisins. Sveitarstjórnum ber enn fremur að tryggja að skipulagsákvarðanir hindri ekki framgang þeirra verkefna sem eru í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Ákveða skal legu flutningslína í skipulagi að fenginni tillögu flutningsfyrirtækisins í samræmi við kerfisáætlun, að höfðu samráði þess og skipulagsyfirvalda.
     Um málsmeðferð samkvæmt grein þessari fer að öðru leyti samkvæmt skipulagslögum eftir því sem við á, að teknu tilliti til stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og markmiða kerfisáætlunar.
     
     d. (9. gr. d.)
Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins, upplýsingar sem skulu vera hluti af kerfisáætlun eða fylgja með henni, hvernig standa skuli að samráðsferli við undirbúning hennar, framkvæmd hennar og eftirfylgni, m.a. hvaða úrræði Orkustofnun hefur til að sjá til þess að kerfisáætlun sé fylgt eftir, hvernig haga skuli valkostagreiningu og hvaða forsendur og aðferðafræði skuli styðjast við.

4. gr.

     Við 39. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Áætlaða uppbyggingu flutningskerfis raforku og þróun kerfisáætlunar flutningsfyrirtækisins.

5. gr.

     Á eftir 39. gr. laganna kemur ný grein, 39. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
     Ráðherra leggur á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Umsóknir um leyfi fyrir nýjum raflínum sem berast Orkustofnun fyrir gildistöku laga þessara skulu afgreiddar á grundvelli þágildandi ákvæða laganna.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 2. gr. laga þessara skal flutningsfyrirtækið taka tillit til stefnu stjórnvalda um lagningu raflína þar til stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku hefur verið samþykkt á Alþingi.
     Tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku skal fyrst lögð fyrir Alþingi eigi síðar en 15. október 2016.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 2015.