Ferill 775. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 1362  —  775. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 .

(Lögð fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




    Alþingi ályktar með vísan til 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum, að á fiskveiðiárunum 2015/2016 til 2020/2021 skuli því aflamagni sem dregið er frá heildarafla í hverri teg­und skv. 3. mgr. 8. gr. laganna varið til að mæta áföllum skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr., til stuðnings byggðarlögum skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr., til línuívilnunar skv. 8. mgr. 11. gr., til strandveiða skv. 6. gr. a, til veiða sem eru taldar í 6. gr. og til annarra tímabundinna ráðstafana samkvæmt lögunum með þeim hætti sem hér segir:
     1.      31,85% til strandveiða.
     2.      5,18% til rækju- og skelbóta.
     3.      24,65% til stuðnings byggðarlögum.
     4.      17,30% til aflamarks Byggðastofnunar.
     5.      19,91% til línuívilnunar.
     6.      1,11% til frístundaveiða.
     7.      Heimildir til áframeldis á þorski falli brott.
     8.      Aflaheimildir í makríl verði seldar á ákveðnu kílóverði til báta undir 30 brúttótonnum að stærð til veiða á grunnslóð. Heimildir þessar verði ekki færanlegar á milli báta.
                  a.      80% af því magni verði ráðstafað á grundvelli umsókna. Útgerð eigi þess kost að fá úthlutað fyrir hvert skip, gegn greiðslu gjalds, allt að 20 lestum af makríl í senn. Þær heimildir sem ekki hafa gengið út til framangreindra báta 1. september 2015 verði boðnar öllum skipum til kaups í sambærilegu ferli. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
                  b.      20% hafi ráðherra til ráðstöfunar á sama verði gegn umsóknum ­sveitarstjórna til staðbundinna veiða á stöðum þar sem vart er við miklar ­göngur makríls á grunnslóð og heimildir skortir til veiða. Þær heimildir sem ekki hafa gengið út til framangreindra báta 1. september 2015 verði boðnar öllum skipum til kaups í sambærilegu ferli.
     9.      Ráðherra hafi til sérstakrar úthlutunar 2.000 lestir af íslenskri sumargotssíld, þar af allt að 800 lestir til smábáta, og 2.000 lestir af norsk-íslenskri síld. Aflaheimildir í síld verði seldar á 16 kr./kg til báta undir 30 brúttótonnum til síldveiða á grunnslóð.
     10.      Ráðherra geti með reglugerð gefið heimild til þess að handhafar aflahlutdeilda geti varið aflamark sem af þeim er tekið með skiptum fyrir aflaheimildir í þeim teg­undum sem tilgreindar verða í reglugerð. Eigendum skipa verði heimilt að láta þorsk, ýsu, ufsa eða steinbít í skiptum fyrir einstakar aðrar teg­undir sem viðkomandi skip hefur aflahlutdeild í, enda séu skiptin jöfn í þorskígildum talið. Útgerð skal senda Fiskistofu tilkynningu þar að lútandi eigi síðar en 24. ágúst 2015 vegna teg­unda sem úthlutað er um fiskveiðiáramót og eigi síðar en viku eftir að birt hefur verið ákvörðun ráðherra um úthlutun teg­unda sem fram fer á öðrum tíma.
                  a.      Ráðherra geti með reglugerð ráðstafað aflaheimildum sem eftir eru á skiptimarkaði með aflaheimildir í skiptum fyrir aðrar teg­undir á tilboðsmarkaði sem Fiskistofa stýrir.
                  b.      Ráðherra sé heimilt að staðbinda úthlutun til skipa gegn löndunarskyldu í sérstaklega tilgreindum höfnum til þess að bregðast við mikilli fiskgengd á grunnslóð.
     11.      Tekjur sem fást af ráðstöfun aflaheimilda á grundvelli þessarar þingsályktunar renni til byggðatengdra verkefna samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.


Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

Inngangur.
    5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum, hljóðar svo:
    „Því aflamagni sem dregið er frá heildarafla í hverri teg­und skv. 3. mgr. skal varið til að mæta áföllum skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr., til stuðnings byggðarlögum skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr., til línuívilnunar skv. 8. mgr. 11. gr., til strandveiða skv. 6. gr. a, til veiða sem eru taldar í 6. gr. og til annarra tímabundinna ráðstafana samkvæmt lögum þessum. Ráðherra skal eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun þessa aflamagns til næstu sex ára.“
    Samkvæmt lögunum skal ráðstafa 5,3% af leyfilegum heildarafla til sérstakra atvinnu-, félags- og byggðaráðstafana. Ráðherra ber að ákvarða hvernig þessum aflaheimildum verði ráðstafað með það að markmiði að hámarka atvinnu-, félags- og byggðaáhrif af ráðstöfun heimildanna.

Samráð.
    Leitað var til allra flokka á þingi um að tilnefna fulltrúa til umræðu um þær ráðstafanir sem þegar eru í gildi og viðhorf til þeirra. Þá var einnig rætt um mögulegt framtíðarskipulag við ráðstöfun þeirra heimilda sem hér er fjallað um. Frá Sjálfstæðisflokki sat fundina Jón Gunnarsson, Framsóknarflokki Páll Jóhann Pálsson, Bjartri framtíð Björt Ólafsdóttir, Samfylkingunni Kristján L. Möller og frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði Lilja Rafney Magnúsdóttir. Jón Þór Ólafsson var tilnefndur frá Pírötum en hann sótti ekki fundi. Auk þess sátu fundina fulltrúi Byggðastofnunar, aðstoðarmenn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og sérfræðingar af sjávarútvegs- og byggðaskrifstofum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
    Við vinnslu tillögunnar var leitað eftir sjónarmiðum Landssambands smábátaeigenda, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Landssambands línuveiðibáta, Sjómannasambandsins, Farmanna- og fiskimannasambandsins, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, Samtaka smærri útgerða og stjórnar Samtaka sjávarútvegs­sveitarfélaga.
    Hér er lögð áhersla á að ekki var um formlegan samráðsvettvang að ræða né heldur formlegan starfshóp. Ráðherra taldi mikilvægt að fá sjónarmið sem flestra aðila sem hags eiga að gæta af núverandi ráðstöfunum sem og að vinna málið með því að upplýsa sem best alla flokka á þingi um meginsjónarmið og gang vinnunnar. Það reyndist mjög gagnlegt að fá fram ólík viðhorf milli ólíkra haghópa sem og þingflokka við mótun tillögunnar. Eins mátti við það samtal sem hefur átt sér stað greina sam­eigin­legar áherslur á nokkrum stöðum þótt tillögurnar að útfærslum kunni að vera ólíkar.

Áherslur.
    Vonir stóðu til þess að fyrir gerð þingsályktunartillögunnar yrði lokið greiningu á þeim ráðstöfunum sem nú eru við nýtingu þeirra 5,3% leyfilegs heildarafla sem ætlaður er til atvinnu-, félags- og byggðaráðstafana. Það tókst ekki. Það var mat flestra sem að vinnunni komu að mikilvægt væri að hafa slíka úttekt til að vinna út frá þegar rætt væri um skipulag og ráðstöfun þessara heimilda til næstu sex ára. Í ljósi þessa var ákveðið að gera tillögu að ráðstöfun heimildanna til næsta fiskveiðiárs ein­göngu. Áfram yrði unnið með málið á grundvelli þeirrar úttektar sem nú er í gangi þegar niðurstöður liggja fyrir. Að þessari niðurstöðu fenginni var ákveðið að gera ekki viðamiklar breytingar á milli ára að sinni, þó að tillagan taki að nokkru leyti tillit til þess helsta sem fram kom í umræðum við mótun hennar.
    Í ljósi niðurstaðna skýrslu Vífils Karlssonar, Mat á framkvæmd aflamarks Byggðastofnunar (janúar 2015), er í tillögunni lagt til að færðar verði aflaheimildir úr almenna byggðakvótanum yfir í sértækan byggðakvóta Byggðastofnunar. Það er niðurstaða rannsóknar Vífils að vænta megi meiri byggðafestuáhrifa með því móti, á þeim stöðum þar sem báðum úrræðum er beitt. Á rannsókninni er sá annmarki að hún náði ein­göngu yfir þá staði sem eru með samning um sértækan byggðakvóta Byggðastofnunar en ekki til áhrifa almenna byggðakvótans né annarra atvinnu-, félags- og byggðaráðstafana á öðrum stöðum. Það var nánast samdóma álit í umræðum um ráðstafanirnar að vonir eru bundnar við aflamark Byggðastofnunar, meiri jákvæðni er til þess verkefnis og þeirrar langtímahugsunar sem í því felst. Nokkur gagnrýni var aftur á móti á almenna byggðakvótann. Það er ljóst að fleiri sjávarbyggðir eiga undir högg að sækja og mikilvægt að auka við þetta úrræði sem mótvægisaðgerð. Að öðru leyti vísast til umfjöllunar um einstök atriði og þær breytingar sem gerðar eru frá yfirstandandi fiskveiðiári eru litlar.

Athugasemdir við einstaka liði tillögunnar.

1. Strandveiðar.
    Ráðgert er að strandveiðiheimildir verði sambærilegar við yfirstandandi fiskveiðiár þrátt fyrir að bráðabirgðaákvæði um aukningu til strandveiða ætti samkvæmt lögum að renna út við næstu fiskveiðiáramót. Heimildin er því aukin frá gildandi lögum. Jafnvægi þykir vera komið á strandveiðarnar, fjöldi báta helst nú stöðugur á milli ára og nokkur festa komin í útgerðarmynstrið. Afleidd áhrif strandveiða þykja nokkur á þær byggðir sem helst er gert út frá, þá helst í höfnum og í þjónustu við strandveiðimenn. Arðsemi af veiðunum sjálfum er neikvæð samkvæmt úttekt Hagstofunnar sem birt er í ritinu Hagur veiða og vinnslu og því er sérstaklega mikilvægt að horfa til úttektar á atvinnu- og byggðaáhrifum strandveiða í þeirri úttekt sem verið er að vinna. Aflamagn til strandveiða hefur verið ákveðið síðustu þrjú fiskveiðiár sem hér segir og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 samkvæmt núgildandi aflaheimildum og þorskígildisstuðlum:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


2. Skel- og rækjubætur.
    Skel- og rækjubætur lækka um þriðjung og er stefnt að því að þær falli niður á næstu þremur árum. Lækkunin gengur til almenna byggðakvótans til aukningar þar. Bæturnar voru upphaflega settar á til að minnka það áfall sem skel- og rækjuútgerðir urðu fyrir með falli stofnanna og gefa svigrúm til endurskipulagningar. Ákvæðin komu til á ólíkum tíma og við setningu þeirra var skýrt að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða. Ákvæðin ættu með vísan til upphaflegrar tímalengdar öll að vera fallin úr gildi en hafa verið framlengd árlega. Aflamagn til skel- og rækjubóta hefur verið ákveðið síðustu þrjú fiskveiðiár sem hér segir og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 samkvæmt núgildandi aflaheimildum og þorskígildisstuðlum:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3. Byggðakvóti (almennur).
    Heimildir til byggðakvóta verða lækkaðar en í staðinn verður aukið við sérstakan byggðakvóta Byggðastofnunar. Í úttekt Vífils Karlssonar, Mat á framkvæmd aflamarks Byggðastofnunar, á þeim sjávarþorpum sem eiga undir högg að sækja og eru jafnframt með samninga um sérstakan byggðakvóta Byggðastofnunar er niðurstaðan sú að almennur byggðakvóti á þessum stöðum hafi ekki haft áhrif til aukinnar byggðafestu. Í ljósi þessa og eins vegna þess að fyrirsjáanleg er þörf á frekari stuðningi í fleiri sjávarþorpum á næstu missirum eru heimildir fluttar á milli þessara tveggja byggðakvótaráðstafana. Mikilvægt er að ljúka úttekt sem nær yfir alla notendur almenns byggðakvóta og ætluð áhrif breytinga á þá staði sem úrræðisins njóta áður en gengið er lengra í tillögum um að fella niður almennan byggðakvóta og ráðstafa á annan hátt. Við úttektir þær sem nú er unnið að er mikilvægt að taka það til ítarlegrar skoðunar hvort heimildirnar kunni að nýtast betur á annan hátt. Aflamagn til byggðakvóta hefur verið ákveðið síðustu þrjú fiskveiðiár sem hér segir og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 samkvæmt núgildandi aflaheimildum og þorskígildisstuðlum:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


4. Sérstakur byggðakvóti Byggðastofnunar.
    Aukið verður við aflaheimildir þær sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar til að styðja við sjávarþorp í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Fyrstu vísbendingar eru um að úrræðið sem nú er á öðru ári kunni að vera árangursríkara en mörg þeirra úrræða fiskveiðistjórnarkerfisins sem nú eru tiltæk til atvinnu-, félags- og byggðastyrkingar. Það er ljóst að fleiri byggðir en Byggðastofnun hefur þegar gert samninga við falla undir skilgreiningar verkefnisins. Mikilvægt er að farið verði ítarlega yfir þau viðmið og skilgreiningar sem um verkefnið gilda, t.d. fólksfjöldatakmarkanir, við skilgreiningar sjávarþorps í vanda. Skoða þarf ítarlega tillögur til úrbóta sem koma fram í skýrslu Vífils Karlssonar, Mat á framkvæmd aflamarks Byggðastofnunar, í því skyni að gera verkefnið árangursríkara og markvissara. Aflamagn til sérstaks byggðakvóta Byggðastofnunar hefur verið ákveðið síðustu tvö fiskveiðiár sem hér segir og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 samkvæmt núgildandi aflaheimildum og þorskígildisstuðlum:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


5. Línuívilnun.
    Aflaheimildir til línuívilnunar verða óbreyttar frá yfirstandandi fiskveiðiári. Ætlunin er að gera úttekt eftir sjávarbyggðum á því hvar línuívilnun hefur afgerandi áhrif sem atvinnu-, félags- og byggðaaðgerð. Greindar verða leiðir til þess að línuívilnun færist í einhverjum mæli yfir á báta með beitningarvélar án þess að hafa verulega neikvæð áhrif á þær byggðir þar sem úrræðið skiptir hvað mestu máli, t.d. með aukinni byggðatengingu ívilnunarinnar. Leitað verður leiða til að setja vinnsluskyldu á línuívilnunarafla. Þannig má nútímavæða veiðiskapinn án þess að veikja byggðaáhrif aðgerðarinnar. Aflamagn til línuívilnunar hefur verið ákveðið síðustu þrjú fiskveiðiár sem hér segir og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 samkvæmt núgildandi aflaheimildum og þorskígildisstuðlum:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


6. Frístundaveiðar.
    300 tonnum af þorski verður ráðstafað til frístundaveiða. Reglur um þær verða óbreyttar. Aflamagn til frístundaveiða hefur verið ákveðið síðustu þrjú fiskveiðiár sem hér segir og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 samkvæmt núgildandi aflaheimildum og þorskígildisstuðlum:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


7. Áframeldi á þorski.
    Að jafnaði hefur 500 tonnum af þorski verið ráðstafað til áframeldis í kvíum. Ákvæðið var sett inn til bráðabirgða með lögum nr. 85/2002. Markmiðið var að skapa tækifæri til aukinnar þekkingar á þorskeldi og fýsileika þess, á meðan kynbætur færu fram, þannig að aleldi gæti farið fram á þorski. Ákvæðið hefur verið framlengt nokkrum sinnum. Ljóst er að þróun í fiskeldi er ekki til áframeldis á þorski og kynbætur hafa ekki orðið að veruleika þannig að aleldi sé framundan. Í ljósi þessa er lagt til að hætt verði að ráðstafa heimildum til áframeldis á þorski. Aflamagn til áframeldis á þorski hefur verið ákveðið síðustu þrjú fiskveiðiár sem hér segir og áætlun fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 samkvæmt núgildandi aflaheimildum og þorskígildisstuðlum:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


8. Makrílheimildir.
    Ráðgert er að þær makrílheimildir sem til ráðstöfunar eru verði seldar til veiða báta undir 30 brúttótonnum á grunnslóð. Mikilvægt er að geta brugðist við auknum makríl­göngum á grunnslóð með auknum heimildum smærri báta til veiðanna. Með þessu skapast svigrúm hjá stjórnvöldum til að hvetja til aukinna grunnslóðaveiða og auka við makrílveiðar smábáta eftir því sem aðstæður krefjast.

9. Aflaheimildir í síld.
    800 tonnum af síld verður ráðstafað til smábáta undir 30 brúttótonnum í samræmi við þær úthlutunarreglur sem hafa gilt á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða VIII í lögum nr. 116/ 2006. Misvel hefur verið sótt í veiðarnar ár frá ári en þekking á þeim hefur byggst upp sem og mikilvægur iðnaður í kringum þær á viðkvæmu atvinnusvæði sem æskilegt er að halda við. Þær heimildir sem ekki hefur verið ráðstafað til þeirra báta sem falla undir skilgreiningu ákvæðisins 1. október 2015 skulu boðnar öllum skipum til kaups.

10. Skiptimarkaður með aflaheimildir.
    Allt fram til fiskveiðiársins 2010/2011 var einungis dregið frá handhöfum aflahlutdeildar í þorski, ýsu, ufsa og steinbít það magn sem tekið var frá til atvinnu-, félags- og byggðaaðgerða. Þessu var breytt með lögum nr. 70/2011 en þá kom inn heimild til þess að draga frá allt að 5,3% hverrar fiskteg­undar, þó bar að halda því innan þess magns sem ráðstafað var til þessara þátta. Fiskveiðiárið 2011/2012 var þetta hlutfall 1,33% og gátu handhafar aflahlutdeildanna varið það sem tekið var af þeim í öðrum teg­undum gegn afhendingu þorsks, ýsu, ufsa eða steinbíts í jöfnum skiptum á grundvelli þorskígilda, annað fór á skiptimarkað hjá Fiskistofu. Fiskveiðiárið 2012/2013 var hlutfallið sem dregið var af úthlutun 2,8% og giltu sömu reglur um það sem dregið var af hlutdeildarhöfum. Fiskveiðiárið 2013/2014 var hlutfallið 4,8% og sömu reglur. Fiskveiðiárið 2014/2015 var hlutfallið komið í hámark 5,3% og á yfirstandandi fiskveiðiári voru engin skipti heimil á grundvelli handhafnar aflahlutdeildar innan 15 daga frá úthlutun heldur var öllum aflaheimildum úr atvinnu-, félags- og byggðahlutanum ráðstafað í gegnum skiptimarkað Fiskistofu. Þetta hefur reynst misvel, ljóst er að í tilteknum teg­undum hefur það komið sér vel fyrir útgerðir að geta sótt sérstaklega teg­undir á skiptimarkaðinn, aðrar teg­undir geta orðið vannýttar, en ekki er ljóst enn á hvern hátt fiskveiðiárið þróast. Í fyrstu útboðum var sett lágmark í þorskígildisviðmiðun milli teg­unda og var það sett 60%. Þetta lágmark gilti í útboðum í október 2014 til febrúar 2015. Í marsútboði var lágmarkið lækkað niður í 40%, en í útboði á skiptimarkaði í apríl 2015 var ekkert lágmark og sama er að segja í maíútboði. Því er hér lagt til að ráðherra verði heimilt að tilgreina sérstaklega teg­undir, að hluta eða öllu leyti, þannig að handhöfum aflahlutdeilda í þeim teg­undum verði heimilt að sækja þær í jöfnum skiptum áður en til skiptimarkaðar kemur. Fyrir áfram­haldandi vinnu við tillögu til þingsályktunar til lengri tíma þarf að greina fýsileika þess að halda í auknum mæli eftir aflaheimildum í tilteknum teg­undum til sölu til staðbundinna veiða til atvinnuuppbyggingar á svæðum þar sem það kann að eiga við. Gera verður hagfræðilega greiningu á því hvort æskilegt sé að halda eftir í auknum mæli heimildum til þess að eiga til sölu eða skiptanna til að bregðast við meðaflavandræðum, sérstaklega í smærri teg­undum. Jafnframt verður að skoða með hvaða hætti slíkar heimildir verða verðlagðar.

11. Tekjur sem fást við sölu aflaheimilda.
    Gert er ráð fyrir að tekjur sem fást af ráðstöfun aflaheimilda á grundvelli þessarar tillögu til þingsályktunar renni til byggðatengdra verkefna samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.


Fylgiskjal.


Yfirlit yfir ráðstöfun aflamarks sem dregið er frá heildarafla.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.