Ferill 605. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1363  —  605. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála, lögum um aðför, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl.
og lögum um dómstóla (einföldun réttarfars).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneytinu, Margréti Júlíu Rafnsdóttur frá Barnaheillum, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Skúla Magnússon frá Dómarafélagi Íslands, Hervöru Þorvaldsdóttur frá dómstólaráði, Björn L. Bergsson frá endurupptökunefnd, Hildi Ýri Viðarsdóttur og Stefán Andrew Svensson frá Lögmannafélagi Íslands, Sigríði Friðjónsdóttur frá embætti ríkissaksóknara og Ólaf Þór Hauksson frá embætti sérstaks saksóknara. Umsagnir bárust frá Barnaheillum, Barnaverndarstofu, Dómarafélagi Íslands, Hagsmunasamtökum heimilanna, Hæstarétti Íslands, ríkissaksóknara, embætti sérstaks saksóknara og umboðsmanni barna.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum réttarfarslaga. Markmið frumvarpsins er að auka skilvirkni við afgreiðslu dómsmála með því að einfalda reglur og auka hraða í málsmeðferð.

Skýrslutaka barna.
    Í 18. gr. frumvarpsins er lagt til að mælt verði fyrir um það í lögum að skýrslutaka af brotaþola, yngri en 15 ára, skuli að jafnaði fara fram í sérútbúnu húsnæði fyrir skýrslutöku af börnum sem sé staðsett annars staðar en í dómhúsi, en þá aðstöðu er nú að finna í svonefndu Barnahúsi. Einungis verði unnt að gera undantekningu frá þessari meginreglu ef hagsmunir brotaþolans krefjist þess. Slík ákvörðun verður að vera byggð á því að hagsmunum barnsins sé með því betur borgið. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var bent á að aldurstakmarkið hvað varðar skýrslutöku af börnum var lækkað úr 18 árum í 15 ár, með lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Að mati nokkurra umsagnaraðila var vísað til þess að slíkt væri afturför á réttindum barna. Nefndin bendir á að sakhæfisaldur er 15 ára hér á landi skv. 14. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og þótti því rétt að miða þessa sérstöku heimild við það aldurstakmark. Nefndin áréttar einnig að ákvæðið felur í sér frávik frá einni af meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu en með henni er átt við það að sami dómari annist meðferð máls frá upphafi til enda, þar á meðal leysi hann eftir atvikum úr því með dómi. Megininntak reglunnar er að sá dómari sem dæmir mál taki skýrslur af ákærða og vitnum og jafnframt séu önnur sönnunargögn færð fyrir hann til að tryggja að rétt niðurstaða fáist í hverju máli.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var bent á að skylda ætti dómara til að kveða ávallt til einstakling með sérþekkingu á málefnum barna til þess að aðstoða við skýrslutöku af barni. Nefndin bendir á að þær breytingar sem hér eru lagðar til eru einungis til að styrkja og skýra þá heimild sem til staðar er í lögum nú svo að skýrt sé kveðið á um að skýrslutaka af börnum undir 15 ára aldri fari ávallt fram í sérútbúnu húsnæði utan dómhúss nema það sé ljóst að hagsmunir barnsins kalli á annað. Nefndin vísar til þess að dómari stýrir þinghaldi og velur þá hvort og hvaða kunnáttumaður aðstoðar við skýrslutöku.
    Þá var bent á að rétt væri að í stað orðalagsins „sérútbúnu húsnæði“ væri notað orðalagið „Barnahúsi eða öðru sérútbúnu húsnæði“ en með því væri starfsemi Barnahúss veittur lagagrundvöllur sem mundi styrkja starfsemi þess. Jafnframt var vakin athygli á mikilvægi þess að sérútbúið húsnæði hjá hlutaðeigandi dómstól eða nálægri lögreglustöð sé til staðar á landsbyggðinni. Nefndin ræddi nokkuð þessi framangreindu atriði og beinir því til innanríkisráðuneytisins að skoða þau og þá hvort breytinga sé þörf.

Hámarkslengd ákæru.
    Í e-lið 20. gr. frumvarpsins er lagt til að dómstólaráð setji nánari reglur um form og frágang dómskjala, þar á meðal hámarkslengd ákæru og greinargerðar ákærða. Fram kom í umsögn ríkissaksóknara að æskilegt væri að setja leiðbeiningar um lengd ákæru. Embætti sérstaks saksóknara bendir á að oft þurfi lengri ákærutexta en gerist og gengur, t.d. í umfangsmiklum fjárdráttarmálum. Lagði embættið til að fallið yrði frá því að setja reglur um hámarkslengd ákæru og í stað þess yrðu sett viðmið um hámarkslengd sem mundi opna á þann möguleika að rökstyðja nauðsyn þess að ákæra væri lengri en reglur dómstólaráðs segðu til um. Nefndin ræddi þetta og telur nauðsynlegt að dómstólaráð setji þessar reglur en bendir á að lengd ákæruskjala gæti að einhverju leyti tekið mið af umfangi mála í hverjum málaflokki. Við gerð þessara reglna gæti dómstólaráð haft samráð við embætti sérstaks saksóknara, ríkissaksóknara og Lögmannafélagið.

Almenn meðferð máls fyrir dómi.
    Kveðið er á um svonefnd útivistarfyrirköll í 161. gr. sakamálalaga. Við setningu laganna var gerð orðalagsbreyting á ákvæðinu en ekki var ætlunin að það hefði áhrif á túlkun þess. Hins vegar hefur það haft þau áhrif að Hæstiréttur túlkar ákvæðið eftir orðanna hljóðan og ómerkir mál sem dæmd eru eftir ákvæðinu. Nefndin leggur til þá orðalagsbreytingu að afgreiða megi mál með útivistardómi, jafnvel þótt ákærði hafi mætt við þingfestingu samkvæmt löglega birtri ákæru, ef þingsókn fellur niður af hans hálfu síðar.

Dómsúrlausnir héraðsdóms.
    Í 27. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting að dregið verði úr kröfu um að fyrir liggi endurrit við uppkvaðningu dóms í svokölluðum játningardómum og að heimilt verði að dómsorð sé lesið upp í sama þinghaldi og afstaða sakbornings liggur fyrir. Umsagnaraðilar voru jákvæðir í garð þessarar breytingar en töldu að endurrit þyrfti að liggja fyrir innan tiltekins tíma frá því að máli væri lokið með þeim hætti sem ákvæðið heimilar. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til þá breytingu að endurrit dómsins skuli liggja fyrir innan viku frá uppkvaðningu hans.

Endurupptaka mála.
    Í 29. gr. frumvarpsins er lagt til að maka, börnum, foreldrum eða systkinum hins látna verði heimilt að óska eftir endurupptöku máls. Þegar leitað er endurupptöku á þessum grundvelli verða einhver af þeim skilyrðum sem talin eru í 1. mgr. 211. gr. sakamálalaga að vera fyrir hendi. Jafnframt er gerð sú krafa að sérstaklega standi á til þess að heimilt verði að endurupptaka mál við þessar aðstæður. Fram kom sú athugasemd við meðferð frumvarpsins í nefndinni að hugsanlega þyrfti að setja hlutlægari skilyrði fyrir endurupptöku, sérstaklega hvað varðar aldur þeirra mála sem beðið er endurupptöku á og að gera þyrfti nánar grein fyrir því hvað felist í því að sérstaklega standi á. Þá væri ekki tekið fram hvað væri átt við með því að umsækjandi um endurupptöku njóti sömu réttarstöðu og dómfelldi við meðferð málsins fyrir nefndinni, svo sem hvort hann njóti réttar til að fá skipaðan lögmann og hvernig fari með kostnað af störfum hans. Nefndin ræddi þetta og bendir á að umsækjandi mun njóta sömu réttarstöðu og dómfelldi við meðferð máls, þ.e. umsækjandi á sama rétt og hinn látni til að fá sér skipaðan lögmann og sömu reglur munu gilda um kostnaðargreiðslur vegna hans. Nefndin áréttar að endurupptökunefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og telur rétt að hún setji sér starfsreglur um það hvaða atriði geti fallið undir það að sérstaklega standi á í máli.

Gildistaka o.fl.
    Nefndin telur rétt að gera breytingar á gildistökuákvæði frumvarpsins þannig að lögin taki gildi 1. ágúst nk. Með þeirri breytingu mun gefast tími til að setja þær reglur sem nauðsynlegar eru svo sem um meðferð kærumála og birtingu dóma. Þá leggur nefndin til sérstakt lagaskilaákvæði vegna breyttra reglna um kærur til Hæstaréttar.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar sem eru lagatæknilegs eðlis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „afrits“ í 2. gr. komi: eftirrits.
     2.      Í stað orðsins „myndupptöku“ í e-lið 2. mgr. 3. gr. komi: myndupptaka.
     3.      Í stað orðsins „myndupptöku“ í c-lið 20. gr. komi: og myndupptaka.
     4.      Við 24. gr. bætist nýr liður sem verði a-liður og orðist svo: Á undan orðunum „og má þá leggja dóm á málið“ í 1. málsl. kemur: eða hann sækir ekki þing á síðari stigum þess.
     5.      Við a-lið 27. gr. bætist: en þá skal endurrit dómsins liggja fyrir innan viku frá uppkvaðningu hans.
     6.      36. gr. orðist svo:
                 Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2015. Ákvæði 32. gr. skal beitt um kröfur um gjaldþrotaskipti sem berast héraðsdómi eftir gildistöku laganna. Ákvæðum 13.–15. gr. skal beitt um kærur sem afhentar eru héraðsdómara eftir gildistöku laganna.

    Guðbjartur Hannesson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Páll Valur Björnsson og Helgi Hrafn Gunnarsson rita undir álitið með fyrirvara um að rétt væri að nota orðalagið „Barnahúsi eða öðru sérútbúnu húsnæði“ og veita þannig Barnahúsi lagagrundvöll til að styrkja starfsemi þess.

Alþingi, 28. maí 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Páll Valur Björnsson,
með fyrirvara.
Líneik Anna Sævarsdóttir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
með fyrirvara.
Elsa Lára Arnardóttir. Guðbjartur Hannesson,
með fyrirvara.
Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Vilhjálmur Árnason.