Ferill 35. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1372  —  35. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar,
nr. 100/2007, með síðari breytingum.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Friðrik Sigurðsson frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Halldór Sævar Guðbergsson og Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi eldri borgara, Landssamtökunum Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Öldrunarráði Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að einstaklingar sem hafa fyrir 67 ára aldur fengið greidda aldurstengda örorkuuppbót skv. 21. gr. laga um almannatryggingar fái uppbótina greidda áfram eftir að þeir hefja töku ellilífeyris skv. 17. gr. laganna. Í greinargerð með frumvarpinu segir að rök standi til þess að greiðslurnar haldi sér eftir 67 ára aldur enda engin hlutlæg ástæða fyrir því að tekjur öryrkja lækki við það eitt að verða 67 ára enda komi ekki til við þann aldur neinar auknar greiðslur á grundvelli annarra laga eða reglna.
    Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar voru jákvæðir um efni frumvarpsins. Þó var bent á að nú stæði yfir vinna við heildarendurskoðun laga um almannatryggingar. Eðlilegt gæti verið að efni frumvarpsins væri tekið fyrir á þeim vettvangi.
    Nefndin styður markmið frumvarpsins um að vinna gegn tekjufalli lífeyrisþega við 67 ára aldur vegna brottfalls aldurstengdrar örorkuuppbótar. Nefndin telur þó rétt að tillaga um slíkt verði tekin fyrir við þá heildarendurskoðun laga um almannatryggingar sem nú stendur yfir í nefnd um endurskoðun laga um almannatryggingar sem félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði í nóvember 2013. Nefndin leggur því til að frumvarpinu verði vísað til félags- og húsnæðismálaráðherra sem feli nefnd um endurskoðun laga um almannatryggingar að móta tillögur um hvernig vinna megi að markmiði frumvarpsins.

Alþingi, 1. júní 2015.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form.
Guðbjartur Hannesson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Brynjar Níelsson. Elsa Lára Arnardóttir. Páll Jóhann Pálsson.
Páll Valur Björnsson. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.