Ferill 703. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1385  —  703. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, með síðari breytingum
(nýting landsréttinda, óbyggðanefnd o.fl.).


Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Örn Guðleifsson frá forsætisráðuneytinu, Ásu Ólafsdóttur og Þorstein Magnússon frá óbyggðanefnd og Þóru Björgu Jónsdóttur frá Sambandi íslenskra ­sveitarfélaga. Umsagnir um málið bárust frá Landsvirkjun, óbyggðanefnd, Sambandi íslenskra ­sveitarfélaga, Herði Einarssyni, Sif Konráðsdóttur, bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, bæjarráði Sveitarfélagsins Horna­fjörður og Landvernd.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta sem fela í sér að leyfi ráðherra þurfi til nýtingar náttúrumyndana og vindorku. Lagt er til að ­sveitarfélög hafi meira svigrúm til að ákveða hvernig tekjum af þjóðlendum er varið. Þá er lagt til að starfstími óbyggðanefndar sé framlengdur til loka þessa árs. Einnig er lagt til að valdheimildir til að þinglýsa eignarheimildum sem varða þjóðlendur verði færðar á hendur ráðherra.

Leyfi til nýtingar náttúrumyndana.
    Nefndin fjallaði um ákvæði frumvarpsins sem skilyrða nýtingu náttúrumyndana innan þjóðlendu við leyfi ráðherra. Í vinnu nefndarinnar kom fram að fjölgun ferðamanna veldur mikilli ásókn í náttúruperlur hér á landi og að miklir verndarhagsmunir séu tengdir nýtingu þeirra. Af hálfu umsagnaraðila var hins vegar bent á að hugtakið náttúrumyndun væri ekki endilega nægjanlega skýrt til afmörkunar á hlutverki ráðherra annars vegar og ­sveitarfélaga hins vegar. Í ljósi fram kominna athugasemda sem víkja að mikilvægi þessarar skilgreiningar er að mati meiri hlutans rétt að þetta atriði bíði fyrirhugaðrar heildarendurskoðunar á lögunum.

Leyfi til nýtingar vindorku.
    Á fundum nefndarinnar var einnig rætt um þá skipan mála að leyfi til nýtingar á vindorku innan þjóðlendu verði háð leyfi ráðherra. Í athugasemdum við frumvarpið er rakið að orkunýting sé samkvæmt núgildandi lögum háð leyfi ráðherra. Í athugasemdum sem bárust nefndinni kemur fram sú afstaða að eðlilegt sé að leyfi ráðherra þurfi til nýtingar vindorku innan þjóðlendna á sama hátt og slíkt leyfi þarf til nýtingar ­vatns- og jarðhitaréttinda innan þjóðlendna. Meiri hlutinn telur að breyttar áherslur í orkunýtingu kalli á að vindorku sé sérstaklega getið sem nýtingar sem falli undir leyfi­sveitingarhlutverk ráðherra ásamt annarri orkunýtingu sem talin er upp í lögunum.

Heimildir ­sveitarfélaga til nýtingar á tekjum af þjóðlendu.
    Nefndin fjallaði um heimildir ­sveitarfélaga til að nýta tekjur sem til falla vegna leyfa til nýtingar landsréttinda innan þjóðlendu með þeim hætti að ekki verði gert að skilyrði að þær verði bundnar við uppbyggingu í þeirri þjóðlendu sem tekjumyndunin stafar frá. Ákvæðið gefur svigrúm til þess að ­sveitarfélag taki mið af þörfum til uppbyggingar í fleiri en einni þjóðlendu, sé fleiri en ein þjóðlenda innan marka þess. Í athugasemdum sem bárust nefndinni kemur fram að slík tilhögun sé í samræmi við óskir ­sveitarfélaga.

Framlenging starfstíma óbyggðanefndar.
    Þá fjallaði nefndin um framlengingu starfstíma óbyggðanefndar. Fyrir nefndinni kom fram að þrátt fyrir 2. gr. frumvarpsins, sem gerir ráð fyrir að störfum óbyggðanefndar ljúki á þessu ári, er áætlað að störfum óbyggðanefndar ljúki ekki fyrr en árið 2018. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að áætlað er að endurskoðun á starfstíma nefndarinnar verði hluti af frekari endurskoðun laganna sem gert er ráð fyrir að fram fari síðar á þessu ári.

Þinglýsingar eignarheimilda.
    Nokkurrar óvissu hefur gætt um hvernig standa skuli að þinglýsingu eignarheimilda þegar þjóðlendur eiga í hlut. Fram kom á fundum nefndarinnar um málið að telja verði eðlilegt að þinglýsing eignarheimilda í kjölfar stofnunar þjóðlendna í fasteignaskrá sé á hendi þess aðila sem fer með valdheimildir ríkissjóðs samkvæmt lögunum. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið.

Hæfisskilyrði nefndarmanna.
    Í framsöguræðu ráðherra kom fram að hluti af fyrrnefndri endurskoðun laganna væri ákvæði um hæfi nefndarmanna óbyggðanefndar með það að markmiði að þeir geti starfað áfram eftir 70 ára aldur. Til stuðnings þessari fyrirætlan var bent á af hálfu framsögumanns að sá málaflokkur sem óbyggðanefnd fjallar um sé einkar sérhæfður og því mikilvægt að reynsla og þekking einstakra nefndarmanna nýtist sem lengst.
    Á grundvelli þeirra sjónarmiða sem rakin eru hér að framan telur meiri hlutinn brýnt að missa ekki sérþekkingu úr óbyggðanefnd og leggur því til að lögunum verði nú þegar breytt með þeim hætti að 70 ára aldurshámark skuli ekki vera hæfisskilyrði fyrir nefndarmenn óbyggðanefndar.

Sjónarmið um þörf fyrir frekari breytingar á lögum um þjóðlendur.
    Af hálfu umsagnaraðila var bent á nauðsyn gagnsæis þegar kemur að endurgjaldi fyrir nýtingu á auðlindum innan þjóðlendna og hvernig fjármunum er innheimtast fyrir þá nýtingu er úthlutað. Meiri hlutinn telur að við fyrirhugaða endurskoðun á lögunum sé rétt að framangreind sjónarmið verði höfð að leiðarljósi og þær reglur nái einnig til nýtingar innan þjóðlendna sem ­sveitarfélög veita leyfi til.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Orðin „og náttúrumyndanir“ í a-lið 1. gr. falli brott.
     2.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Við 2. mgr. 6. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er þó að víkja frá 70 ára aldurshámarki.

Alþingi, 2. júní 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Páll Valur Björnsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Elsa Lára Arnardóttir. Jóhanna María Sigmundsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Valgerður Gunnarsdóttir.