Ferill 637. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1415  —  637. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um framkvæmd samnings um klasasprengjur.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Andra Stefánsson og Pétur G. Thorsteinsson frá utanríkisráðuneyti. Þá hafa borist umsagnir um málið frá Rauða krossi Íslands og Samtökum hernaðarandstæðinga.
    Með frumvarpinu er Íslandi gert kleift að fullgilda samning um klasasprengjur frá 2008 með því að gera viðeigandi breytingu á gildandi refsilögsögu í samræmi við ákvæði hans. Gerð samningsins hófst með ráðstefnu Norðmanna í febrúar 2007 og fór fram utan vébanda Sameinuðu þjóðanna. Ísland tók virkan þátt í samningafundum og var einn af undirritunaraðilum samningsins í Ósló 3. desember 2008. Samningurinn tók gildi 1. ágúst 2010.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að samningurinn er nú rekinn innan vébanda Sameinuðu þjóðanna og stefnt að endurskoðun hans í tilefni þess að fimm ár eru brátt liðin frá gildistöku. Er því rík áhersla á fullgildingu hans af Íslands hálfu sem allra fyrst. Þá kom einnig fram við umfjöllun nefndarinnar að helsta breytingin á refsilögsögu felist í heimild til að refsa íslenskum aðilum sem fremja brot í ríkjum sem hafa ekki fullgilt samninginn af sinni hálfu. Er þetta frávik frá þeirri meginreglu að almennt verði ekki refsað fyrir verknað framinn erlendis nema hann teljist jafnframt refsinæmur samkvæmt rétti viðkomandi ríkis, sbr. 2. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að samráð hafi verið haft við refsiréttarnefnd við útfærslu innleiðingar samningsins hér á landi.
    Með samþykkt frumvarpsins verða klasasprengjur bannaðar á Íslandi og tekur bannið einnig til háttsemi sem fellur undir samninginn og íslenskir aðilar fremja erlendis eins og áður segir. Þá mun bannið ná til íslenskra lögaðila sem eru með útibú eða starfsemi erlendis. Í fram­haldi af umfjöllun nefndarinnar er vakin athygli á því að skv. 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins tekur það ekki til jarðsprengna, enda gilda um þær lög nr. 26/2001, um framkvæmd samnings um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutningi jarðsprengna gegn liðsafla og um eyðingu þeirra.
    Nefndin tók sérstaklega til skoðunar tillögu um hlutlæga ábyrgð lögaðila skv. 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins þar sem um frávik er að ræða frá meginreglunni um að sekt fyrirsvarsmanns, starfsmanns eða annars á vegum lögaðilans teljist grundvöllur ábyrgðar lögaðila, sbr. 19. gr. c almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið til stuðnings því að ganga lengra að þessu leyti til að auðvelda skilvirk viðbrögð við brotum á banni við klasasprengjum og leggja aukna áherslu á alvarleika þeirra. Nefndin tekur undir þau sjónarmið í þessu tilfelli en ítrekar í því sambandi að umrædd ábyrgð lögaðila grundvallast á því að brotið sé framið í þágu viðkomandi aðila.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 9. júní 2015.

Birgir Ármannsson,
form.
Elín Hirst,
frsm.
Vilhjálmur Bjarnason.
Anna María Elíasdóttir. Frosti Sigurjónsson. Óttarr Proppé.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir. Össur Skarphéðinsson.